Gissur Sigurðsson er lífsreyndur blaðamaður, sem hefur næmt auga fyrir nauðsyn þess að hreinsa froðu úr texta. Í umræðu um stíl milli mín og starfsfólks visir.is benti hann mér á klisjuna: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” Þetta þýðir á íslenzku: “Engan sakaði”. Froða af þessu tagi er megineinkenni íslenzks fjölmiðlstíls, einkum hinna yngri í faginu. Margir þættir blaðamennsku eru í góðu standi hér á landi, en stíl er almennt ábótavant. Sá er raunar stærsti munurinn á íslenzkri og vestrænni blaðamennsku. Þar hugsa blaðamenn um stíl og spúla burt froðunni.