Íslenzkir unglingar vilja ekki vinna í álverum. Sú er niðurstaða könnunar á vegum Samtaka atvinnulífsins. Þeir vilja ekki heldur vinna í sjávarútvegi eða landbúnaði. Fimmtán ára unglingar vilja ekki vinna í frumvinnslu, hvaða nafni sem hún nefnist. Flestir vilja verða sérfræðingar og hafa hátt kaup. Þetta er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt. Hver vill rýja rollur, skaka í álpottum eða beita öngla? Fólk vill auðvitað komast áfram í lífinu. Það gerir slíkt ekki í álverum. Merkilegast er, að Samtök atvinnulífsins hafa áhyggjur af þessu. Miklu fremur ber að fagna framsýni unglinganna.