Halldór Runólfsson yfirdýralæknir:
Áður fyrr var lyfið Metamisol notað gegn hrossasótt, sprautað í vöðva. Það hafði litlar hliðarverkanir, svo að ekki kom að sök, þótt röng sjúkdómsgreining lægi að baki notkunar þess, sem gat til dæmis komið fyrir hjá hestamönnum á ferðalagi í óbyggðum
Komið er til sögunnar nýtt lyf, sem er áhrifameira, en vandmeðfarnara að því leyti, að því þarf að sprauta í æð. Það er einnig þess eðlis, að fagmaður þarf að ákveða, hvort um hrossasótt sé að ræða, áður en það er notað. Þetta lyf mega aðeins dýralæknar nota.
Af þessum ástæðum var hætt að afgreiða sprautur í fyrrasumar í sjúkrakassa, sem hestamenn fengu til langferða í óbyggðum. Í stað þess var sett inntökulyf, svokallað Glaubersalt. Ég veit, að þetta er lakari kostur fyrir hestamenn, af því að ekki er auðvelt að koma inntökulyfjum ofan í hesta.
Vandinn hefur hins vegar verið sá, að gamla Metamisol lyfið er ekki lengur framleitt hér á landi og raunar víðast hvar. Það var talið komið úr framleiðslu. Ég hef nú hins vegar komizt að raun um, að lyf þetta er enn framleitt erlendis og að hægt að fá það til landsins í litlu magni.
Þess vegna hef ég ákveðið að opna að nýju fyrir gömlu hrossasóttarsprauturnar fyrir hestamenn í langferðum í óbyggðum. Þeir geta í sumar fengið það í sjúkrakassa ferðarinnar hjá viðkomandi dýralækni, en þurfa aðeins að gæta þess að sækja um það með nægum fyrirvara, svo að lyfið verði örugglega til í tæka tíð.
Vona ég þar með að málið hafi fengið farsæla lausn, sem bæði menn og hestar á fjöllum geti sætt sig við.
Mjög góður kostur
Sigríður Björnsdóttir, yfirlæknir hrossasjúkdóma:
Metamízól er mjög góður kostur sem hrossasóttarlyf í neyðarkössum hestaferða, þar sem hægt er að gefa lyfið undir húð eða í vöðva og það veldur ekki aukaverkunum. Lyfið var tekið af skrá hér á landi sem víðar þar sem framleiðendur hafa ekki rannsakað hversu langan tíma hreinsun úr líkamanum tekur og þar af leiðandi hversu langur sláturfrestur sé á lyfinu. Nú hefur verið ákveðið (í Evrópusambandinu) að gefa megi hrossum slík (órannsökuð) lyf og skuli sláturfrestur vera 6 mánuðir. Það er því hægt er að flytja Metamízól inn á undanþágu en verið er að afla upplýsinga um kostnað.
Reglugerðin:
“11. gr.:Þrátt fyrir takmarkandi ákvæði þessarar reglugerðar, er dýralækni heimilt, að fengnu skriflegu leyfi yfirdýralæknis, að ávísa eiganda eða umráðmanni dýra eftirtöldum lyfjum í neyðarkassa til lengri ferðalaga, þegar gera má ráð fyrir að erfitt eða ómögulegt verði að ná í dýralækni:
1. Sýklalyf.
2. Lyf við hrossasótt.
3. Verkjastillandi lyf, þó ekki eftirritunarskyld lyf.
4. Staðdeyfilyf til útvortis notkunar.
5. Lyf til inntöku í ATC vet-flokki Q N 05 A A.”
Við viljum sprautur
Tilefni viðtalsins við Halldór Runólfsson yfirdýralækni hér til hliðar á síðunni eru ummæli nokkurra þekktra hestaferðamanna, sem Eiðfaxi hafði talað við. Þau fara hér á eftir.
Bjarni E. Sigurðsson:
Því miður er búið að taka af okkur hrossaveikissprautuna, sem áður bjargaði mörgum hestinum frá bráðum dauða. Ég man á Minni-Borg eftir hryssu, sem var svo illa haldin, að hún var lögzt. Eftir sprautuna var hún risin upp eftir tuttugu mínútur. Þessi sprauta var nauðsynlegust af öllu og óneitanlega er annarlegt að banna hana.
Einar Bollason:
Út í hött er sú breyting, sem gerð var í fyrra, að hætt var að afgreiða sprautur við hrossasótt í sjúkrakassa ferðamanna. Bændur fá þessar sprautur eins og skot og það ætti að vera enn meiri þörf fyrir þær á fjöllum, þar sem ekki er hægt að ná til dýralæknis. Það er ekki nóg með, að það eigi að láta okkur hafa þessar sprautur, heldur ætti beinlínis að halda námskeið í notkun þeirra. Glaubersaltið, sem við fáum, er seinvirkara og virkar raunar alls ekki í verstu tilvikum.
Hjalti Gunnarsson:
Ég væli út hrossasóttarsprautu, sem er bráðnauðsynleg, en ekki auðfengin. Mér finnst ekki í lagi að meina mönnum að hafa slíkar sprautur á ferðum um óbyggðir. Inntökulyfin eru miklu erfiðari í notkun og virka miklu hægar.
Viðar Halldórsson:
Það er mjög slæmt og raunar ótrúlegt, ef dýralæknar eru farnir að neita að láta menn hafa hrossasóttarsprautur fyrir langferðir, því að þessar sprautur voru það nauðsynlegasta í sjúkrakassanum. Sprautan er svo fljótvirk og auðveld í notkun, miklu meðfærilegri en glaubersaltið.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003