Kristján Kristjánsson hestaflutningamaður:
Fimm hesta kerra kostar meira en milljón krónur. Vextir af þeirri upphæð gætu verið 120.000 krónur á ári, auk rekstrar kerrunnar og eldsneytis á dráttarbíl. Það er alveg sama, hvernig menn reikna, hestaflutningar á bílum eru alltaf miklu ódýrari en flutningar í eigin kerrum, nema kannski hjá atvinnumönnum með mikilli flutningaþörf. Því er þó ekki að leyna, að þeim fjölgar, sem leyfa sér þann lúxus, sem kerrurnar eru. Þess vegna og einnig vegna lágs verðlags á flutningum hefur fækkað þeim, sem reka hestaflutninga, enda gera menn góð með að skipta við bílana.
Hörður Hermanns hestaflutningamaður:
Aðalsamkeppni okkar kemur frá kerrunum. Þegar tíð er góð, nota menn þær mikið, en halla sér meira að okkur, þegar veður og færð spillast. Mönnum finnast vera þægindi í að eiga kerrur til að snatta með, en það er ekki reikningsdæmi, sem gengur upp. Kerra, sem kostar 1,3 milljónir, brennir 104 þúsund krónum í vexti á ári, 195 þúsund krónum í afskriftir og 50 þúsund krónum í viðhald. Þetta gera 349 þúsund krónur á ári og jafngildir 35 ferðum til Hellu. Einnig má líta á, að okkar farmur er tryggður, en ekki það, sem er í kerrunum.
Kerrurnar veita frelsi
Þröstur Karlsson hestakerrusali:
Salan var mest í fimm hesta kerrum, en núna eru tveggja og þriggja hesta kerrur aftur farnar að seljast betur. Fólk velur kerrur alveg eins og það vill fara um í eigin bíl í stað þess að taka strætó. Það kýs frelsið og sveigjanleikann, sem fylgir kerrunum. Þeim, sem finnst kerrur of dýrar, taka sig oft saman tveir eða fleiri um kerru, t.d. þeir, sem eru saman um hesthús og hagabeit.
Hinrik Gylfason hestakerrusali:
Fólk vill hafa frelsi, fara þegar það vill fara og geta stjórnað sínum tíma. Vafalaust er ódýrara fyrir marga að flytja hestana á flutningabíl, en þetta er eins og munurinn á strætó og einkabíl. Hingað komu sextug hjón, sem hafa verið tvo áratugi í sumarferðum. Þau keyptu kerru og hafa síðan verið á flakki um landið eftir veðri og aðstæðum og riðið út frá nýjum og nýjum stöðum. Einn viðskiptavinur sagðist hafa keyrt kerruna sína 20.000 km. á einu ári.
Sigurgeir Þórðarson hestakerrusali:
Mest sala er í tveggja og þriggja hesta kerrum. Kerrueign er orðin afar almenn meðal hestamanna. Þú mætir tuttugu kerrum á leiðinni austur yfir fjall. Fólk hefur meiri frítíma en áður og hefur betri aðstöðu fyrir hrossin, bæði í bæ og sveit. Menn vilja vera sjálfs sín herrar, flytja hesta þegar það hentar þeim sjálfum og þá fyrirvaralaust.
Hestaflutningamenn
Í hestaflutningum eru umsvifamestir tengdafeðgarnir Guðbrandur Óli Þorbjörnsson og Kristján Kristjánsson og síðan kemur Hörður Hermanns. Guðbrandur Óli er sennilega með meira en helminginn af markaðinum og Hörður með meiripartinn af afganginum. Aðrir flutningamenn hafa komið og farið, eru ekki með fastar ferðir og eru meira í tilfallandi flutningum.
Fastar áætlunarferðir
Báðir aðilar reka fastar áætlanir vikulega norður í land og tvisvar í viku austur fyrir fjall. Guðbrandur Óli er þar að auki með þriðju vikulegu ferðina austur fyrir fjall og Hörður með mánaðarlega ferð austur á land. Báðir aðilar fara norður mánudaga og koma aftur þriðjudaga og eru í tengslum við það með ferðir austur fyrir fjall sunnudaga og miðvikudaga.
Flutningskostnaður
Ýmsir afslættir tíðkast í hestaflutningum, yfirleitt miðaðir við viðskiptamagn og greiðslutíma. Staðgreiðslumenn í föstum viðskiptum fá lægra verð en aðrir. Um slíkt verður að spyrja hverju sinni. Samkvæmt algengri gjaldskrá hestaflutninga kostar kostar 3.500 krónur að flytja hest úr bænum austur að Hellu og 9.300 krónur í Skagafjörð, hvort tveggja með vaski. Ef fluttir eru fimm hestar, fæst afsláttur, sem gæti numið 15% og farið upp í 25%, ef fluttur er heill bílfarmur af hrossum, en í slíku tilviki er oft notað kílómetragjald.
Tengivagnar
Tengivagnar eða trailers hafa komið og farið. Um þessar mundir er Benedikt Jóhannsson í Faxaflutningum sennilega einn á markaðinum eða einn af sárafáum. Slíkir vagnar taka oftast um 12 hesta. Gjaldskrá er svipuð og hjá stóru bílunum eða ívið lægri.
Álagstímar
Mest er að gera í hestaflutningum í desember-janúar, þegar fólk tekur á hús og síðan í júní, þegar hross eru flutt í haga. Tamningamenn nota flutninga mikið í marz-apríl fyrir flutninga með stök hross. Á sumrin eru flutningar vegna gangmála og ferðalaga, en lítið vegna sýninga, því að sýningamenn eru mest með eigin kerrur.
Hestakerrusalar
Þröstur Karlsson er umsvifamesti hestakerrusali landsins með Humbaur kerrur. Næstur honum kemur Hinrik Gylfason með Böckman kerrur. Þriðji í röðinni er sennilega Sigurgeir Þórðarson í Víkurvögnum, sem smíðar kerrur að fullu og selur einnig undirvagna til annarra kerrusmiða, sem eru nokkrir, en fæstir umsvifamiklir. Allar þessar kerrur eru hannaðar fyrir íslenzkan markað, en eru misgóðar utan malbiks.
Hestakerruverð
Algengt verð á sex hesta kerru er 1,5-1,6 m.kr., á fimm hesta kerru 1,4-1,5 m.kr., á fjögurra hesta kerru 1,1-1,2 m.kr., á þriggja hesta kerru 0,7-0.8 m.kr. og á tveggja hesta kerru um 0,7 m.kr. Öll eru þess verð með vaski og miðuð við, að kerran sé komin á götuna.
Hestakerruleiga
Hrímfaxi á Heimsenda leigir tveggja og þriggja hesta kerrur á klukkutímagjaldi og sólarhringagjaldi. Fimm klukkustundir kosta 4.000 kr á tveggja hesta kerru og 5.000 kr á þriggja hesta kerru. Sólarhringur kostar 8.000 kr á tveggja hesta kerru og 10.000 kr á þriggja hesta kerru. Allar þessar tölur eru með virðisaukaskatti. Kerrurnar eru kaskótryggðar með sjálfsábyrgð.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003