Reyndir hestaferðamenn hafa flestir lent í lærdómsríkum aðstæðum, sem geta verið fróðlegar fyrir aðra hestaferðamenn, svo að þeir geti komizt hjá því að lenda í svipuðum vanda. Hér birtast tvær fyrstu smásögurnar af þessu tagi:
Á lausgirtu í Kýlingum
Valdimar K. Jónsson:
Einu sinn vorum við að fara austur Fjallabaksleið og beittum hrossunum í Kýlingum. Ég var á ungum og hörðum hesti, tafðist við að hjálpa manni á bak og átti síðan eftir að fara sjálfur á bak, þegar allir voru farnir af stað og ég stóð einn eftir. Gjörðin reyndist þá vera of laus og hesturinn fór að hrekkja með flugstungum, þegar ég hoppaði í hnakkinn. Eftir lítið hlé byrjaði hesturinn aftur og jók síðan hrekkina með vindingum í stungunum, svo að ég flaug af og lenti harkalega á bakinu. Hesturinn sleit hins vegar ítökin og setti hnakkinn af sér. Hesturinn náðist þó fljótlega, en ég mátti rölta nokkurn spöl til hópsins. Síðan hef ég reynt að muna að herða gjörðina áður en farið er af stað. Sumir hestar belgja sig mikið út, þegar girt er.
Áttaviti og GPS
Þormar Ingimarsson:
Einu sinni lenti ég í villu í góðu skyggni á leið úr Skaftárdal í Holtsdal. Einn maður í hópnum hafði farið þetta áður. Ég var í eftirreið þennan daginn, en var með áttavita og skildi ekki, af hverju var alltaf farið í norður, en ekki í austur. Í áningu kom svo í ljós, að maðurinn hafði hvorki áttavita né kort og fór bara eftir gloppóttu minni. Eftir skoðun á korti var ákveðið að fara til austurs og þannig komumst við að lokum í efstu drögin á réttum dal. Áður en svona dagleið er farin, þarf að fá nákvæma leiðsögn um, hvar er farið inn á sérleið, því að annars getur maður farið framhjá og lent í tómri vitleysu. Þetta minnir líka á mikilvægi áttvita og GPS-tækja.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003