Skriffinnskan kostar tólf þúsund á hest

Hestar

Gunnar Arnarson:

Skriffinnska er mikil og vaxandi. Hestapassinn er nýr af nálinni og yfirleitt þá fyrst fylltur út, þegar hrossið er selt til útlanda. Kostnaður við útgáfu passans nemur 12.000-13.000 krónum við útflutning, sem er of mikið, auk þess sem mikið umstang er hjá okkur í kringum þetta.

Í framtíðinni má hins vegar gera ráð fyrir, að öll nýfædd hross fái slíkan passa. Ennfremur að rétt eins og í Evrópu séu það trúnaðarmenn bændasamtakanna, sem semji hann, en ekki dýralæknar, alveg eins og trúnaðarmenn samtakanna sjá um frost- og örmerkingar.

Þetta tengist því, að frá og með þessu ári þarf að skrá og merkja öll folöld. Þegar svo er komið, hlýtur sami maðurinn að sjá um örmerkingarnar og hestapassann, því að það eru meira eða minna sömu upplýsingarnar. Þá snarlækkar verðið á passanum og þar að auki má reikna með, að sérstakur útflutningskostnaður í tengslum við passann verði hóflegur.

Hitt er svo vandamál, að ættarupplýsingar í Feng eru stundum rangar. Það getur því staðið annað í passanum en í Feng, sem veldur ruglingi. Það eru ófáar ferðir okkar vestur á Hagatorg til að fá svona villur lagaðar
Hestapassinn er í sjálfu sér af hinu góða og ætti líka að vera notaður í sölu hrossa innanlands og verður það vafalaust innan fárra ára . Hann staðfestir, að þú sért að kaupa alvöru vöru. Hann skráir örmerki og frostmerki, staðfestir ýmsar upplýsingar um hrossið, er heilsufarsbók þess og ættartal. Engin ástæða er til að vernda ekki innlenda kaupendur hrossa til jafns við erlenda kaupendur hrossa.

Evrópsk matvælalög hljóta fyrr eða síðar að leiða til þess, að menn verða að velja um, hvort þeir eru að rækta reiðhest eða kjöt. Nú eru settar svo strangar reglur um aukaefni í kjöti, að ýmis lyf og efni, jafnvel lúsaduft, sem notað er á reiðhesta, valda því, að ekki má fara með hrossið í sláturhús í hálft ár á eftir.

Væntum breytinga
frá ráðuneytinu

Ágúst Sigurðsson:

Útgáfa á hestavegabréfum fyrir hross sem eru á leið úr landi er allnokkuð framfaraskref. Hestavegabréfin eru fyrst og fremst til þess að þjóna okkar viðskiptafólki betur, en slík vegabréf eru útgáfuskyld í löndum Evrópusambandsins. Áður voru hér gefin út svonefnd upprunavottorð með lágmarksupplýsingum um hrossin sem síðan mynduðu grunn að hestavegabréfi sem var þá gefið út í viðkomandi innflutningslandi með tilheyrandi aukakostnaði fyrir kaupandann.

Hestavegabréfin eru aðeins mismunandi að gerð eftir löndum en okkar fyrirmynd að hestavegabréfi var fyrst og fremst það danska sem inniheldur hvað mest af upplýsingum. Vegabréfin hjá Evrópusambandinu eru upphaflega hugsuð sem ferðaskjöl þ.e. þegar verið er að flytja hross á milli landa vegna keppni eða sölu. Þannig eru t.d. þessar svonefndu útlitsteikningar ekki fylltar út í nándar nærri öllum tilfellum í sumum löndum nema þegar hross fara á milli landa. Þess má geta að Hollendingar sleppa teikningunni alfarið og segja að nútíma merkingaraðferðir, þ.e. örmerkingar, dugi til þess að bera kennsl á hrossið.

Hvað um það þá teljum við að það borgi sig að fylgja reglunum eins vel og okkur er unnt til þess að forðast vandræði við flutning á milli landa og var því strax gert ráð fyrir að teikning væri útbúin fyrir útflutningshrossin.

Við gerðum ráð fyrir frá upphafi að þessar teikningar yrðu gerðar af trúnaðarmönnum BÍ líkt og er með örmerkingarnar og það höfum við lagt til við landbúnaðarráðuneytið enda teljum við að þannig megi ná fram mestri hagræðingu hvað þetta atriði varðar.

Við endurskoðun útflutningsreglugerðar í tengslum við þessar nýjungar vildi ráðuneytið hins vegar halda fast í það að einungis dýralæknar mættu rissa upp þessar teikningar. Þetta gerðum við strax athugasemd við með formlegum hætti þar sem við bentum á að þessar teikningar væru eðlilegur hluti af skýrsluhaldi í hrossarækt sem BÍ sjái alfarið um og óeðlilegt að taka þetta atriði út eitthvað sérstaklega sem dýralæknaverk. Þetta erindi okkar er nú til afgreiðslu í ráðuneytinu og ég á ekki von á öðru en þessu verði breytt í það horf sem við leggjum til.

Hestavegabréfið frá BÍ kostar kr. 3.900 fyrir hross með A-vottun á ætterni, en kr. 4.600 fyrir hross sem hefur ekki þess konar vottun. Þetta er nálægt því að vera hreint kostnaðarverð fyrir útgáfuna og þá vinnu sem henni fylgir. Auk þessa þarf að greiða stofnverndarsjóðsgjald sem er kr. 500 á hest. Við þetta bætast síðan dýralæknakostnaður kr. 3.600 við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn auk þess gjalds sem dýralæknar taka fyrir útlitsteikninguna.
Hvað framtíðina varðar þá tel ég ekki tímabært að hefja útgáfu á hestavegabréfum fyrir öll fædd folöld, það held ég að sé bara of dýrt miðað við núverandi kröfur um hestavegabréf. Hins vegar má vel hugsa sér að tengja þetta gæðastjórnuninni og bjóða ræktendum upp á útgáfu slíkra vegabréfa ef þeir óska. Ég á reyndar fastlega von á því að þessi pappírs-vegabréf muni breytast í e.k. smartkort innan tíðar sem ættu að gera útgáfuna mun ódýrari og notadrýgri.

Örmerkingar nægja

Kristinn Guðnason

Hestapassarnir fóru úrskeiðis að því leyti, að ráðuneytið ákvað, að eingöngu dýralæknar mættu teikna yfirlitsmynd af hrossinu í passann. Við erum að reyna að ná þessu til baka aftur. Okkar skoðun er sú, að menn eigi með námskeiðum að geta aflað sér réttinda til að teikna hross í passa.

Ýmislegt mælir gegn því að gefa út hestapassa fyrir öll folöld. Aðeins þriðjungur þeirra er fluttur út. Öll hross eru örmerkt frá og með þessu ári og það ætti að nægja sem passi í innanlandsviðskiptum. Frekari skriffinnska ætti að vera óþörf, því að örmerkingakerfið er einfalt og öruggt.

Verðlagið

4.600 vegabréfið sjálft

500 stofnsjóðsgjald

3.600 dýralæknaskoðun í útflutningi

4.500 hestateikning í vegabréfi

13.200 heildarverð hestapassans

Ef læknar Dýraspítalans í Víðidal teikna marga hesta í einni vitjun, lækkar verðið um 2.000 krónur á hest.

Eignarhaldsskírteini

Gunnar Arnarson:

Nýtt eignarhaldsskírteini hrossa getur valdið óþægilegum misskilningi. Ef hross er ræktað með A-vottun, en ekki samkvæmt gæðakerfi bændasamtakanna, fara í skírteinið upplýsingar um, að gæðakerfið sé ekki notað. Ef hins vegar hross er hvorki ræktað með A-vottun né samkvæmt gæðakerfi bændasamtakanna, stendur ekkert um það í passanum. Hann er athugasemdalaus. Af því mætti ráða, að betra sé að hafa hvoruga vottunina. Það getur ekki verið tilgangur skírteinsins að gera A-vottun tortryggilega. Hér hlýtur að vera um að ræða handvömm hjá bændasamtökunum.

Ágúst Sigurðsson:

Það er alveg rétt athugað að þetta gat verið misvísandi ef smáa letrið var ekki skoðað – enda var þessu breytt.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2003