Fjallaferðir

Hestar

Dásamleg andleg hvíld á fjöllum

Baltasar og Kristjana Samper:

Þetta er áhugamennska frá bernsku hjá okkur báðum. Það er í genunum hjá okkur að vera vitlaus í hesta. Við fundum strax, að sýningar og keppni voru ekki fyrir okkur. Öll vetrarþjálfun okkar stefnir að stóru hestaferðinni í júlí. Hún er hinn árlegi hápunktur áhugamálsins. Í henni fáum við þessa dásamlegu, andlegu hvíld við að komast út í náttúruna í óbyggðum, þar sem litlar eða engar mannaferðir eru. Við höfum það fram yfir göngufólkið, sem er í sömu erindagerðum að hafa hestana okkur til ánægju, ef það er svo dimmt yfir, að við njótum ekki umhverfisins.

Fyrir mig (Baltasar) sem útlending hafa þessar ferðir gefið mér stórkostlega mikið og gott samband við land, sem ég þekkti ekki áður og hafði aldrei dreymt um að ég mundi síðar þekkja betur en margir heimamenn. Ég held ég hafi riðið yfir flestar ár á Íslandi og riðið meira eða minna um allar sýslur landsins.

Heillaður af landi og samvistum við hestana

Hannes Einarsson:

Ég er heillaður af Íslandi yfirhöfuð og hef bara skoðað brot af því. Ég nenni alls ekki að fara til útlanda og hef ekkert þangað að sækja. Ég bjó erlendis í sex ár og það var alveg nóg. Ég færi í mesta lagi til Færeyja eða Grænlands. Núna langar mig til dæmis til að skoða landið, sem á að fara undir uppistöðulón, áður en það verður of seint. Ef heilsan lofar, vonast ég til að geta varið sumarleyfum mínum í hestaferðum um ókomin ár.

Samvistin við fólk og hesta í náttúru landsins er mér mjög hugleikin. Hrossin verða fljótt eins skemmtileg og þau geta bezt orðið. Þetta eru meiri háttar ævintýri. Á ferðalögum hestamanna um landið eru allir eins og ein stór fjölskylda. Allir eru natnir við að aðstoða alla við hvað sem er, leggja sig fram um að bjarga öllum málum, gera þetta og gera hitt. Alltaf eru sjálfboðaliðar til taks.

Afskekkt Arnarfell vafið ævintýraljóma

Andreas Bergmann:

Ég hef alla tíð í hestamennsku haft langmest gaman af hestaferðunum. Ég hafði lítinn áhuga á að ríða út í Reykjavík á veturna, þótt ég væri með hesta í bænum, og hef alltaf riðið miklu meira út á sumrin, raunar flestar helgar, fyrir utan langferðirnar sjálfar. Á þeim tíma voru sumir duglegir við að ríða út í vetrarhörkunum í Reykjavík, riðu síðan sleppitúr austur fyrir fjall, drógu þar undan hrossunum og litu ekki á þau fyrr en um næstu jól.

Af því, sem ég hef ekki farið, langar mig mest til ferðast um hálendi Austurlands, Brúaröræfi og Vesturöræfi. Af því, sem ég hef farið, fannst mér einna skemmtilegust þrettán daga ferð árið 1985 um Nyrðri-Fjallabaksleið og síðan meðfram Fögrufjöllum alveg inn í Grasver fyrir innan Langasjó, þar svo yfir Skaftá og niður Skaftáreldahraun alveg niður í Hrossatungur og austur að Klaustri, þaðan svo um Holtsdal vestur í Skaftárdal og Syðri-Fjallabaksleið heim.

Oft hef ég komið í Arnarfell og finnst það alltaf skemmtilegt, þó aldrei eins og fyrst fyrir fjórum áratugum. Þá hafði ég sem strákur í sveit heyrt gömlu karlana í sveitinni tala um þennan óvenjulega afskekkta stað og vefja hann ævintýraljóma. Það magnar gildi hans í augum hestamanna. Það er líka sérstakt að sjá allan þennan gróður og alla þessa liti í brekkunum inni í miðju Íslandi. Ekki er þá síðri hvönnin í Arnarfellsmúlunum og sefið í tjörnunum neðan við þá.

Einnig fannst mér gaman að ríða frá Hvítárnesi vestur yfir Fúlukvísl, síðan meðfram Hrefnubúðum og á bakka Hvítárvatns þvert fyrir mynni Fróðárdals og ganga þaðan inn í Karlsdrátt, þar sem er mikill gróður. Þetta hef ég farið tvisvar.

Fyrstu ferðina fór ég í Arnarfell og Nýjadal sem fylgdarsveinn með Páli Agnari Pálssyni yfirdýralækni árið 1963, Viðari Péturssyni og fleirum. Ég hafði þá verið í sveit hjá Lofti Eiríkssyni í Steinsholti, sem var leiðsögumaður ferðamanna á sumrin. Í þessari fyrstu ferð minni var enginn bíll til fylgdar og farið með trúss á ellefu hestum fyrir tólf manns til tíu daga.

Ég lærði mest í þessari fyrstu ferð. Þetta voru ákaflega vel undirbúnir menn. Þeir voru búnir að lesa Thoroddsen og ferðafélagsbækurnar upp til agna. Þeir þekktu hvert einast örnefni, þótt þeir væru sumir að fara um svæðið í fyrsta skipti. Þeir kunnu líka sögurnar, sem voru tengdar stöðum á leiðinni.

Árið 1973 fór ég í hálfs mánaðar ferð austur að Núpsstað með Hreini Árnasyni og fleirum. Tveimur árum síðar fór ég að ferðast með Birni Guðmundssyni flugmanni, Árna Þórðarsyni, Haraldi Sveinssyni og fleirum. Af öllum þessum mönnum lærði ég sitt lítið af hverjum og allir voru þeir frábærir ferðafélagar.

Snerting við lífið og
tilveruna á hálendinu

Árni Ísleifsson:

Mér líður sérstaklega vel, þegar ég er einn á ferð með hestinum mínum, án þess að ég sé neitt að forsmá fámennan félagsskap góðra vina. Mér er til dæmis ógleymanleg tólf daga smölun okkar Hjalta í Fossnesi í Heklugosinu 1981, þegar við höfðum það hlutverk að ýta fénu innar á afréttinn, þar sem ekki var vikurfall. Við gerðum út frá skálanum í Gljúfurleit og riðum á hverjum degi fram á Sandafell til að snúa fénu til baka.

Mig langaði alltaf til að ferðast um hálendið. Ég var í hestum frá blautu barnsbeini og lærði mikið af gömlum gangnamönnum. Faðir minn hafði farið mikið um afréttir og sagði mér frá þeim ferðum. Ég drakk í mig allar sögur hans og annarra um þau mál. Yfir þessu öllu var ævintýraljómi, sem fangaði hug minn. Það er svo miklu meiri snerting við lífið og tilveruna að ferðast um hálendið á hestum frekar en á jeppum.

Árin 1964 og 1965 var ég starfsmaður hjá Guðna í Skarði, sem hafði ferðaþjónustu á hestum, og fór í ferðir þaðan, Fjallabak, Sprengisand og Kjöl. Þá var lítið um skála og hólf. Við vorum með tjöld, heftum hestana og vöktum til skiptis yfir þeim. Eftir að ég flutti hingað, fór ég nokkrar ferðir inn á afrétt með Sigurgeir Runólfssyni í Skollabúðum og lærði mikið af honum. Það var gott að spyrja hann og hann var ólatur við fræðsluna. Hann var feiknarlega gætinn maður og hestlaginn. Árum saman fór hann með sama hópinn ýmsar leiðir um hálendið.

Ég fylgi fólki mikið yfir Nautavað á Þjórsá, enda er vaðið nánast hér í túnfætinum. Mest hef komist í þrjár ferðir á dag og þurfti auðvitað að skipta um hest milli ferða, því að áin er svo köld. Það tekur svona um það bil klukkustund að fara vaðið, ef ég vísa fólki á reiðgötunar, þegar komið er yfir ána. Ég sé mest á steinum, sem standa upp úr, hvort áin er fær eða ekki. Gísli Jónsson, sem bjó hér áður í Þjórsárholti, kenndi mér á vaðið árið 1969. Ég svo kennt sonum mínum á það. Þetta er þekking, sem hefur fylgt ábúðinni hér á jörðinni öldum saman.

Ég hef farið um allt hálendi Suðurlands og norður Kjöl og Sprengisand og allt austur í Axarfjörð, en ekki verið á Vesturlandi og Austurlandi. Ótal ferðir hef ég farið í Arnarfell og fylgt fólki þaðan yfir Þjórsárskvíslar í Háumýrar, en síðan haldið sjálfur til baka. Einnig hef ég tekið á móti fólki í Háumýrum og fylgt því suður afrétt. Mig langar til að ríða um Borgarfjörð, Mýrar og Löngufjörur vestur á Snæfellsnes, þangað þyrfti ég endilega að komast. Af því, sem ég hef farið, fannst mér minnisstæðast að fara hringinn Fjallabaksleiðir. Það er þægileg leið með feiknagóðum töltvegum, óskaferðin mín.

Ég hressist allur
í hestaferðunum

Haraldur Sveinsson:

Ég byrjaði að hnýta upp í hesta og fara á bak þeim, þegar ég var fjögurra ára og hef æ síðan haft unun af að stússa kringum hross. Mér fannst strax sem ungum manni, að ég yrði að komast í ferðalög með hestum. Snemma fór ég leitir með Mýramönnum og Mývetningum og kynntist ferðamennskunni. Í löngum hestaferðum á sumrin hef ég verið frá árinu 1948. Ég hressist allur í hestaferðum, sé landið allt öðru vísi en úr bil og kynnist mörgu góðu fólki.

Um þetta leyti voru slíkar ferðir að byrja fyrir alvöru hjá hestamönnum í Reykjavík. Ég þekkti flesta þessa menn og slóst í för með þeim. Fyrst voru þetta aðallega ferðir á landsmót og fjórðungsmót, en síðan fóru þetta að breytast í sumarleyfisferðir og þá oft um nýjar og spennandi slóðir. Á veturna var setið og spjallað um, hvert ætti að fara næsta sumar.

Mæti náttúruöflunum,
tekst á við óvissuna

Ólafur B. Schram:

Ég fer í langar hestaferðir af ýmsum ástæðum, meðal annars til að sigrast á náttúruöflunum, til að takast á við óvissuna. Ég kann vel við slarkið og skítinn. Landið og veðrið eru aldrei eins og hestarnir og mennirnir eru líka misjafnir. Ég hef líka gaman af að fara nýjar slóðir og sjá land, sem ég hef ekki séð áður. Þetta er að hluta söfnunarárátta. Ég er líka að kynnast hestunum mínum betur með því að reyna á þá við ýmsar aðstæður. Og síðast en ekki sízt er það samneytið við annað fólk.

Ég lærði mest í ferðamennsku á hestum af bændum í Öræfasveit, þegar ég var þar unglingur í sveit. Af öðrum mönnum lærði ég mest af Hjalta Pálssyni, sem ég fór með í eina ferð snemma á ferðaferli mínum. Síðan hefur þetta komið mest af reynslu á löngum tíma.

Tengi hesta við
náttúrukönnunina

Þormar Ingimarsson:

Ég hef áhuga á hálendinu og náttúru þess. Þar sem ég hef lengi verið í hestum, finnst mér gott að geta tengt hestana við náttúrukönnun. Það er líka eitthvað í því að vera á fjöllum, sem ekki er hægt að skýra. Svo skiptir félagsskapurinn líka máli.

Ein fimmtán ár er ég búinn að vera í hestaferðum á hverju sumri. Áður var ég búinn að þvælast dálítið um einn með hesta. Lengi var ég svo í fámennum hópi með Valdimar K. Jónssyni, sem er afbragðs ferðamaður og þægilegur maður, sem ég hef lært mikið af. Einnig hef ég lært mikið af bændum, sérstaklega þeim, sem hafa verið leiðsögumenn eða gangnafrömuðir. Ég hef raunar lært af mörgum og lít aldrei á mig sem fullnuma. Ég get alveg eins lært af nýliðum eins og gamalreyndum. Ég horfi alltaf til náungans til að sjá, hvernig hann fer að. Svo hef ég lesið ferðabækur og ferðalýsingar, til dæmis í bókaflokknum Hestar og menn.

Sérstaklega hafa verið lærdómsríkar stóru Fáksferðirnar, þar sem eru stundum upp undir 40 manns í hnakk. Í þeim ferðum hefur á síðari árum verið reynt að taka skipulegar og ákveðnar á hlutunum en almennt gerist í hestaferðum. Mikill fjöldi fólks og hesta kallar á meiri aga og meiri formfestu, til dæmis um meðferð áfengis og svefntíma, um verkaskiptingu í áningarstöðum og skipulag forreiðar og eftirreiðar. Sumar Fáksferðirnar eru í mínum huga sem fullkomnar ferðir, til dæmis ferðirnar tvær í Vestur-Skaftafellssýslu árin 1998 og 2000, alveg snurðulausar ferðir þrátt fyrir mikla stærð flotans. Þar fór saman samheldið og duglegt fólk undir góðri leiðsögn og veður eins og best verður á kosið.

Mest hef ég ferðast um miðhálendið og landið suðvestanvert, frá Núpsstaðaskógi til Skarðsstrandar. Mest gaman hefur mér þótt að ferðast um Vestur-Skaftafellssýslu, á svæðunum umhverfis Kirkjubæjarklaustur, bæði að fara upp í fjöllin og niður á sandana, svona til skiptis eins og við gerðum árið 2000. Mér eru líka Löngufjörur og Fjallabaksleiðir hugleiknar. Ef ég ætti bara eina ferð eftir, vildi ég fara Fjallabakshringinn með trússhesta.

Annað tilverustig,
algleymi í ferðum

Einar Bollason:

Mér finnst ég komast á annað tilverustig í hestaferðum, í eins konar algeymi. Hestaferðamaðurinn líkist göngumanninum í því, að hann sækist eftir friði og fríi frá amstri og áreiti hversdagsins. Ég gef ekki upp símanúmerið í NMT símanum öðrum en þeim, sem ég hef samskipti við vegna ferðarinnar. Með góðum undirbúningi og langri reynslu, með góðum leiðsögumanni og vönum samferðamönnum verður ekkert stress í hestaferðum, þótt menn verði að vera vakandi fyrir ýmsum hættum.

Skemmtilegasti staður í hestaferð er að vera aftastur. Ég reyni alltaf að koma því svo fyrir, að ég geti verið aftastur um tíma á hverjum ferðadegi. Þá er ég bara með sjálfum mér og mínum hesti. Það eru yndislegar stundir sérstaklega þegar við erum að feta einstigi um hraun. Þótt ég hafi alltaf verið mikil félagsvera, þá finnst mér einveran vera mikilvæg í bland. Það er sama tilfinning og ég fæ, þegar ég ríð út á veturna utan almenns frítíma, þegar engir aðrir eru á ferð og ég er bara einn með mínum hesti.

Þetta er ákveðin veiki. Í gamla daga var ég oft sjö eða átta vikur á baki á hverju sumri. Seinni árin er ég tvær-þrjár vikur á ferð á hverju sumri, fyrir utan göngur og réttir. Þegar ég reið sem mest á sumrin, var ég ekki tilbúinn að fara að ríða út á veturna fyrr en í febrúar eða mars. Núna er ég farinn að ríða út fram í októberbyrjun og byrja aftur að ríða út, að vísu á öðrum hestum, upp úr áramótum.

Við hjónin lærðum hestaferðir hjá prófessorum í faginu á borð við Svein heitinn á Varmalæk og Ragnar Stefánsson á Akureyri. Hjá þeim innbyrtum við hundruð smáatriða, sem skipta máli í hestaferðum. Þetta var okkur ómetanlegt. Við höfum síðan reynt að miðla þessu og einnig fengið fullt af punktum annars staðar. Rekstur hrossa er list og ætti að sjálfsögðu að skipa veglegan sess í námskrám beggja bændaskólanna.Þá ættu öll hestamannafélög að beita sér fyrir námskeiðum í ferðalögum á hestum.

Tign og dulúð landsins,
lykt af hestum og jörð

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég ferðast enn, þótt ég sé hættur að hafa atvinnu af því. Mestu máli skiptir núna mín eigin slökun. Hana gefur útiveran og tilbreytingin í landslaginu. Það er lyktin af hestunum og úr jörðinni, þú ríður yfir mosaþembur með annarri lykt en valllendi. Þú fylgist með öllu, fuglum og náttúrunni kringum þig, teygir þig eftir eyrarrós. Ég held líka, að það sé í eðli mínu að hafa gaman af að skipta um stað, færa sig um set, koma í nýja laut.

Síðustu árin hef ég yfirleitt verið með vönu fólki, svo að ég þarf ekki að vera með augun á öllu og get fengið að vera í friði með mínum hestum, notið þeirra áhyggjulaust. Ég fæ núna að vera ég sjálfur í ferðalögum með góðu fólki, sem ég þekki og þarf ekkert að skipuleggja. Mér er margfalt meiri nautn í þessu en í að fara á falleg hótel og fræg söfn á útlendum ferðamannastað.

Ég er búinn að fara víða. Mesta tign og dulúð hef ég séð í Skaftafellssýslum, Ingólfshöfða og Hunkubökkum, Lakagígum og Hungurfit. Þar eru sandar og jöklar, ógn og auðn, en notalegur gróður á milli. Sprengisandur er tilbreytingarlítill, en spennandi. Hveravellir eru alltaf fallegir og þar er sagan líka þrungin. Rólegast og öruggast er fara Löngufjörur á Snæfellsnesi. Þangað fer ég, þegar ég þarf að hvíla mig.

Ég hef ekki riðið í hálendi Vestfjarða og Austfjarða. Ef ég mætti aðeins fara einn túr um ókunnar slóðir, mundi ég velja að ríða frá Egilsstöðum um fjallaleiðir suður í Lón.

Ég lærði mína ferðamennsku hjá Páli á Kröggólfsstöðum, þrælvönum hestamanni og ferðamanni, alltaf fljótandi rólegum og gamansömum. Hann bauð mér fyrst í skemmtilega ferð úr Skagafirði þvert yfir Norðurland að Dettifossi með 42 skozka unglinga. Síðan fór ég oft með honum í söluleiðangra með hross, enda voru hestakaup hans mesti unaður. Hann var oft sjálfur á bílnum á eftir, en ég á undan á hestbaki. Það var um 1962-1963, að ég byrjaði að ferðast með honum.

Hestaferðirnar
blunduðu í mér

Hjalti Gunnarsson:

Sem barn í Fossnesi hafði ég strax áhuga á hestaferðum, enda fóru Páll Agnar yfirdýralæknir og fleiri í ferðir héðan og sömuleiðis voru sumar Fáksferðir farnar héðan í þá daga. Þessar ferðir blunduðu alltaf í mér og ég byrjaði sjálfur fyrir tvítugt að ferðast um landið á hestum. Það var um 1970 og hef farið á hverju sumri síðan, auk ferðanna fyrir Íshesta. Síðustu 20 árin hef ég farið með sama hópnum í ferðalag síðast í júní, áður en Íshestavertíðin byrjar í júlí.

Mest hef ég lært af Sigurgeir heitnum í Skáldabúðum sem ég fór með í margar fjallferðir. Hann var mikill ferðagarpur og óþreytandi við að segja manni til. Hann kemur mér oft í hug. Hann var nærfærinn við menn og skepnur og virtist skilja þarfir allra. Ég fór líka í ferðir með Gunnari Tryggvasyni og lærði af honum, einnig fékk ég góð ráð hjá Gunnlaugi Skúlasyni dýralækni í Laugarási. Sigurgeir og Gunnlaugur kenndu mér til dæmis að gefa hestum ekki hey strax og við komum í náttstað, heldur klukkutíma síðar, þegar þeir hafa kælt sig niður.

Ég hef mest ferðast um svæðið sunnan Hofsjökuls og mikið um Kjöl og Sprengisand, einnig austur um Fjallabaksleiðir báðar. Ég hef einnig farið Arnarvatnsheiði og vestur í Dali, Borgarfjörð og Löngufjörur. Ég hef einnig riðið út í tvo daga í Vestmannaeyjum, það var öðru vísi. Af því, sem ég hef ekki farið, langar mig mest á norðausturhornið, einkum Melrakkasléttu, og næstmest á Strandir norðanverðar.

Hesturinn batnar
frá degi til dags

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Hestaferðir höfða til svo margs. Hesturinn batnar frá degi til dags, ef á annað borð er eitthvað varið í hann. Það kallar líka á einhverjar frumhvatir að standa andspænis náttúruöflunum og klára sig af því, þótt flestir dagar séu raunar fallegir og þægilegir. Það vill svo oft verða, að brasið verður minnisstæðast, þegar tímar líða fram. Erfiðleikarnir gera ferðirnar eftirminnilegar og verða skemmtilegir í minningunni.

Það er stórkostlegt að vera úti í náttúrunni til fjalla að sumarlagi. Það er eitthvað í þessu, sem kallar alltaf aftur og aftur á mann. Eftir fyrstu ferðina er maður með ólæknandi þrá. Við veljum hestaferðir umfram allt annað.

Mikil lífsfylling
að ferðast á hestum

Viðar Halldórsson:

Það er mikil lífsfylling að ferðast á hestum. Að vera á góðum hestum í góðu veðri er það allra skemmtilegasta, sem ég veit. Svo kynnist maður landinu mjög vel. Útivera á hálendinu er sérstök. Ég hef líka gaman af að ríða í byggð, þar sem reiðleiðir eru víða mjög góðar. Ég hef verið í langferðum í þrjá áratugi og síðustu tvo áratugi á hverju sumri.

Ég hef ekki enn farið Sprengisand, ekki norður fyrir Vatnajökul og hvorki riðið á Vestjörðum né á Austurlandi. Þetta vantar í safnið hjá mér. Flest annað hef ég farið. Af því, sem ég hef farið áður, finnst mér Fjallabakshringurinn skemmtilegastur og afréttir Vestur-Skaftafellssýslu. Löngufjörur eru líka skemmtilegar í sólskini og skemmtilegu veðri.

Ég lærði ferðamennsku fyrst af tengdaföður mínum, Boga heitnum Eggertssyni, þótt ég ferðaðist ekki mikið með honum. Hann kenndi mér, hversu mikið mætti leggja á hesta og sagði mér, að fimm vetra mættu hestar hlaupa með í ferðum, sex vetra mætti byrja að nota þá og sjö vetra væru þeir orðnir fullsterkir. Hann sagði mér jafnframt að fara að gæta mín, þegar hesturinn væri farinn að svitna upp á lendina að aftan.

Mest í ferðamennsku lærði ég af Gunnari Bogasyni, sem ég var í fyrstu mikið með í ferðum. Hann var mikill kennari í sér og var alltaf að segja mér til. Þar var ég heppinn, því að margir, sem stjórna ferðum, segja mönnum ekki nógu mikið til, svo að þeir geta verið lengi í ferðum án þess að læra neitt að ráði, eru bara eins konar farþegar.

Síðar hef ég ferðazt mikið með Reyni Aðalsteinssyni. Hann les hesta og getu hesta mjög vel og er snillingur í að deila deila álaginu misjafnlega á hestana eftir getu þeirra. Reynir er frábær hestaferðamaður.

Hestarnir fólkið og
afskekktar óbyggðir

Valdimar K. Jónsson:

Ferðirnar eru það skemmtilegasta í hestamennskunni. Ég nýt hestanna og félagsskaparins og virði fyrir mér landslag, sem í mörgum tilvikum er ekki aðgengilegt eða auðséð á annan hátt. Ég hef mjög gaman af að skoða mig um á nýjum slóðum, einkum í óbyggðum. Ég veit af mönnum, sem ferðast einir, en það ætti ekki við mig. Ég vil hafa félagsskapinn.

Ég veit um mann í Keflavík, sem ferðast einn með sjö hesta og lætur þá elta sig. Hann talaði við mig í sumar til að spyrjast fyrir um aðstæður í Mýrdal. Annað maður, Guðmundur Magnússon, bróðir Vigfúsar læknis, ferðast líka svona og rekur hestana á undan sér. Hann var að fara upp Árbæjarveg og missti hestana um opið hlið inn á tún hjá mér. Hann lét sér ekki bregða, elti hrossin hljóðalaust inn og beindi þeim í hring, þannig að þau fóru út aftur í halarófu. Hann var greinilega vanur svona slaufum.

Ég hef mest lært ferðamennsku af föður mínum, en einnig sagði Einar heitinn Guðlaugsson í Vík mér margt gagnlegt frá hestaferðum, þótt ég færi lítið með honum sjálfur í ferðir. Að öðru leyti hef ég mest lært af félögum mínum og samferðamönnum, ekki síður af þeim yngri en þeim eldri. Enn er ég að læra um hestaferðir. Ég byrjaði að fara í nokkurra daga hestaferðir á þrítugsaldri, á sjöunda áratugnum. Lengri sportferðir inn á afréttir byrjuðu hjá okkur hjónum upp úr 1970.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 6.tbl. 2003