Smávægilegur hagnaður er í niðurstöðutölum hálfs árs uppgjörs Eiðfaxa. Eru þetta mikil og snögg umskipti til hins betra, því að undanfarin ár hefur verið mikið tap á rekstri félagsins á hverju ári, yfir 20 milljónir króna í fyrra. Horfur eru góðar í rekstri félagsins síðari hluta ársins og er því búizt við jákvæðri útkomu ársreiknings.
Áherzla hefur verið lögð á, að Eiðfaxi og Eiðfaxi International komi jafnan út á tilsettum degi og hefur það tekizt. Ennfremur hefur verið hægt að auka texta tímaritanna um 20% með breyttri hönnun og breyttu letri. Lesendur fá því meira lesefni fyrir peningana en áður, enda fer áskrifendum innlendu útgáfunnar hægt og sígandi fjölgandi og erlendu útgáfunnar nokkru hraðar.
Áherzlubreytingar hafa orðið á efni Eiðfaxa. Fræðsla og fagleg mál skipa hærri sess en áður, að nokkru leyti á kostnað afþreyingarefnis. Þannig eru í þessu blaði margar greinar, sem samanlagt fela í sér uppgjör á samræmi í dómum sumarsins, íþróttadómum, kynbótadómum og gæðingadómum. Jafnframt er þetta uppgjör á skoðunum manna á aukinni samræmingu íslenzkra og alþjóðlegra dómskerfa.
Í þessum greinum eru fjölbreytt sjónarmið dregin saman í einn pakka. Svipað hefur verið gert í undanförnum tölublöðum í mikilvægum málum, svo sem úttekt á ýmsum þáttum hestaferða í sjötta og sjöunda tölublaði, á spatti og exemi í fimmta og sjötta tölublaði, úttekt á trausti í hrossaviðskiptum í fjórða tölublaði, svo að þekkt dæmi séu tekin.
Í öllum tilvikum hefur víða verið leitað upplýsinga og skoðana, en efnið ekki sett fram í hefðbundnum langhundi, heldur með fjörlegum nútímahætti til að ná til sem flestra. Þetta hefur undantekningarlítið mælzt vel fyrir, enda er líklegt, að efnið ná til fleiri lesenda, þegar það er þannig sett fram. Margir hafa beinlínis haft samband af fyrra bragði til að þakka þessa framsetningu.
Í upphafi breytinganna var einnig sett það markmið, að hvert tölublað nái til fjölbreyttra þátta hestamennskunnar. Fræðsluefni hefur því verið aukið á ýmsum sviðum, sem áður var minna sinnt, ekki sízt þeim, sem snerta hinn almenna hestamann. Má þar nefna hestaferðir, rekstur hesthúsa og samanburð á reiðtygjum.
Þegar miklir atburðir gerast, höfum við gert þeim rækileg skil. Glæsilegir Heimsleikar íslenzka hestsins í Herning skiluðu sér í 30 síðum í blaði, sem póstlagt var tíu dögum eftir mótið. Við gerum ráð fyrir, að leggja nótt við dag og taka svipaðar rispur við önnur sérstök tækifæri, sem snerta hestamenn meira en önnur, svo sem landsmót.
Í þessu tölublaði sláum við botninn í mótavertíð sumarsins með frásögnum af síðsumarsýningunum á Hellu og Vindheimamelum, Fákaflugi í Skagafirði og Metamóti í Andvara. Með hraðari vinnslu blaðsins en áður væntum við, að menn geti lesið um slík mót í Eiðfaxa áður en þau eru fallin í gleymsku.
Jón Finnur Hansson, sem hestamönnum er að góðu kunnur, hefur gengið til liðs við Eiðfaxa. Hann mun leggja áherzlu á skrif um ræktun, sýningar og tamningar. Þessa sér þegar stað í blaðinu. Hann skrifar meðal annars grein um sveiflur í kynbótadómum í tengslum við heimsleikana í Herning. Aðra grein skrifar hann um breyttar aðferðir við frumtamningu hrossa. Einnig skrifar hann um stóðhestana Kolfinn frá Kjarnholtum og Tígul frá Gýgjarhóli.
Að lokum má ekki gleyma palladómum valinkunnra manna um kraftaverkamanninn Þorgeir Þórðarson, þar sem þeir leitast við að svara spurningunni um, hvers vegna hann nær feiknarlegum árangri á kynbótasýningum. Vonandi verða lesendur margs vísari af þessari nýstárlegu framsetningu forvitnilegs efnis.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 9.tbl. 2003