Gott samræmi í dómum

Hestar

Samræmi í dómum vakti athygli á heimsleikunum í Herning. Í mörgum tilvikum gáfu allir dómararnir fimm sömu einkunn. Þorgeir Guðlaugsson í Nornabæli í Hollandi lét Eiðfaxa í té töflu um vaxandi samræmi í dómum í fimm síðustu heimsleikum, svo sem fram kemur í töflu hér neðar á síðunni. Taflan sýnir einnig, að samræmi er mest í fjórgangi, en minnst í slaktaumatölti. Eiðfaxi leitaði álits Einars Ragnarssonar, íþróttadómara og yfirdómara heimsleikanna, á þessum tölum. Einnig talaði blaðið við gæðingadómara og kynbótadómara og birtast þau viðtöl á hægri síðunni.

Einar Ragnarsson yfirdómari:

Gott og vaxandi samræmi í dómum á heimsleikum stafar mest af vinnu dómara sjálfra. Íþróttadómarar ferðast meira milli landa og dæma oftar saman. Á flestum meiri háttar mótum eru notaðir dómarar frá ýmsum löndum. Sérstaklega er áberandi, hversu duglegar Norðurlandaþjóðirnar eru við að fá til sín erlenda dómara. Þetta þýðir, að menn fá meiri æfingu í að dæma. Með þjálfuninni verða menn hæfari.

Mikilvægast er, að alþjóðadómarar í hestaíþróttum hittast flestir á tveggja daga fagráðstefnum einu sinni eða tvisvar á ári. Það mæta svona 50-60 af 60-70 manna hópi alþjóðadómara. Þeir borga sjálfir fyrir sig, en fá sumir ferðastyrki frá heimalöndum sínum. Íslenzkir þátttakendur verða þó oftast að sjá alveg um sig sjálfir.

Í tengslum við ráðstefnurnar eru svo haldin próf fyrir landsdómara, sem vilja fá alþjóðaréttindi. Um 70% fall er í þessum prófum. Þeim var komið á fót fyrir einum áratug og hafa verið gerð að skyldu fyrir dómara á heimsleikum síðan 1999.

Fyrir alþjóðadómara í hestaíþróttum hefur verið samin rækileg forskrift, sem minnir á forskriftir kynbótadómara. Þetta er svokölluð FIPO-biblía, sem felur í sér 20 síðu forskrift, þar sem tekið er fram, hvað standi á bak við einkunnina tíu og síðan hvert hálft stig þar fyrir neðan.

FIPO-reglurnar urðu til eftir fyrstu heimsleikana árið 1970 og hafa síðan verið í stöðugri endurnýjun. Nú eru í gildi reglur frá árinu 2000. Á Íslandi er enn notaðar næstu reglur þar á undan, en nýju reglurnar hafa verið þýddar og verða vonandi teknar í notkun sem fyrst.

Mér fannst athyglisvert í Herning, að dómarar þorðu að teygja sig í skalanum. Við sáum oft einkunnina níu, enda áttu hestarnir skilið þær einkunnir.

Við höfum ekki mælt samræmi í dómum á Íslandi á heildstæðan hátt, eins og gert hefur verið á heimsleikunum. Árin 1995-1997 voru þó teknir út tíu efstu hestarnir og mælt samræmi í einkunnum þeirra. Þær tölur eru ekki fyllilega sambærilegar við tölur heimsleikanna, en segja í stórum dráttum, að samræmið sé svipað í íslenzkum landsdómum og á heimsleikunum. Sama er að segja um samræmi í dómum á Norðurlöndum og í Þýzkalandi, þar sem dómarar hafa mesta þjálfun.

Mér skilst, að MótaFengur geri kleift að keyra út töflur um samræmi milli dómara, enda var það í þarfagreiningunni, sem forritið var grundvallað á. Slíkar tölur hafa ekki verið birtar hér á landi enn og voru ekki birtar eftir Íslandsmótið í sumar. Mín skoðun er, að það sé í allra þágu og ekki sízt dómara, að slíkar tölur séu birtar sem hluti af niðurstöðum hvers einasta móts. Það ætti að stuðla að málefnalegri gagnrýni og sjálfsgagnrýni á dóma.

Minna samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt stafar eingöngu af því, að þar eru þrír hestar inni í einu, svo að nákvæmni í dómum er minni en þegar einn hestur er inni í einu. Ef einn hestur væri inni í einu, væri svipað samræmi í dómum fyrir slaktaumatölt og fyrir aðrar keppnisgreinar. Ég tel, að slík breyting sé æskileg.

Meira samræmi í dómum fyrir fjórgang stafar eingöngu af því, að margir dómarar eru ekki eins vanir að dæma skeið og aðrar gangtegundir. Sérstaklega á þetta við um dómara utan Íslands. Gæði skeiðs vefjast meira fyrir sumum dómurum en gæði annarra gangtegunda. Í fjórgangi er þessi skekkjuvaldur ekki í myndinni og því er þar meira samræmi en í fimmgangi. Með meiri þjálfun í dómum á skeiði ætti þessi munur að fara minnkandi.

Notum tölvugögn næst

Helgi Helgason, formaður Gæðingadómarafélags LH:

Seint hefur gengið að koma dómaskráningu í tölvutækt form hér á landi, meðal annars á tveimur síðustu landsmótum. Nú á þetta að vera að komast í lag, svo að ég vænti þess, að framvegis verði á stærstu mótum innanlands hægt að fá útskrift á samræmi gæðingadóma eins og fengist hefur í íþróttadómum á nokkrum síðustu heimsleikum íslenzka hestsins. Ég tel, að mikil framför verði að slíkum útreikningum.

Almennt tel ég, að samræmi sé svipað í gæðingadómum og íþróttadómum og hafi farið batnandi. Einkum tel ég, að svonefndum dómaramistökum hafi fækkað svo, að þau megi heita úr sögunni. Þar hefur komið til sögunnar stóraukin fræðsla og annað samstarf dómara.

Við höldum upprifjunar- og samræmingarnámskeið á hverju vori. Þar gangast allir dómarar undir hæfnispróf, ef þeir vilja halda virkum réttindum það árið. Mikil þátttaka var á námskeiðinu s.l. vor. Um 60 manns af 70 skráðum í félagið mættu. Menn eru hiklaust felldir, ef þeir standa sig ekki nógu vel. Byggt er á myndböndum og verklegum æfingum í samræmi við leiðbeiningar Sigurðar Haraldssonar frá fyrri árum. Fræðslunefnd félagsins hefur endurbætt þessar leiðbeiningar.

Dómararáðstefna er á hverju hausti í tengslum við aðalfund félagsins. Þar er m.a. tekið fyrir samræmi í dómum og annað, sem efst er á baugi hverju sinni. Á fyrstu dómararáðstefnunni s.l. haust var farið grannt í dóma á börnum og unglingum. Það hafði staðið lengi upp á dómara að sinna þessum aldurshópum betur.

Það er auðvitað tilvalið að hafa tölvukeyrð gögn um samræmi dóma til umfjöllunar á slíkum ráðstefnum. Þau ættu að verða tiltæk í síðasta lagi á landsmóti ársins 2004 og vonandi fyrr hjá hestamannafélögum, sem tölvukeyra skráningar og dóma.

Við höfum
annað kerfi

Jón Vilmundarson kynbótadómari:

Kerfið hjá okkur er öðru vísi, því að dómarar vinna saman og gefa út sameiginlega niðurstöðu dómnefndar. Fyrir 5-6 árum var gerð tilraun með að láta dómara gefa aðskildar einkunnir, en okkur fannst hún ekki gefast nógu vel. Samráðin skerpa einbeitingu dómara í löngum dómlotum og halda uppi gagnlegri umræðu milli þeirra, sem eykur hæfni þeirra.

Við gerum hins vegar ýmislegt annað til að auka samræmi milli sýninga. Við höldum ráðstefnur á hverju ári, þar sem farið er yfir tölfræði dóma og mismun milli sýninga og dómnefnda. Niðurstaðan er sú, að samræmi sé gott og fari batnandi.

Byrjendur eru betur undirbúnir en áður og gangast undir mjög ströng próf. Gegnum nálaraugað komast ekki nema 2-3 nýir kynbótadómarar á hverju ári. Alls eru núna virkir hér á landi 10-15 dómarar og þar af 3-4 formenn, sem skipta með sér að dæma í öllum mótum innanlands.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2003