Tímarnir eru góðir áhugamönnum og atvinnumönnum um íslenzka hestinn. Alltaf fjölgar hestum, sem fara vel og eru til sóma ræktendum, tamningamönnum og eigendum. Þetta gildir hvort sem er á Íslandi eða hjá þeim, sem hafa í öðrum löndum tekið ástfóstri við hinn sérstæða og skapljúfa ganghest.
Um leið og heimur íslenzka hestsins hefur stækkað, hefur hann líka þrengzt. Verkefnin og vandamálin eru svipuð, hvar sem er í þessum heimi. Hér á Eiðfaxa finnum við, að meira eða minna sama efnið höfðar til áhugamanna og atvinnumanna, hvar sem þeir starfa í heiminum. Heimur íslenzka hestsins er að verða einn.
Árið 2003 hefur verið dæmigert fyrir þessa þróun. Á heimsleikunum í Herning í sumar kom í ljós ótrúlega mikið samræmi í dómum vel þjálfaðra fagmanna á því sviði. Ennfremur runnu dómkerfi kynbótahrossa að mestu leyti saman í eitt kerfi á þessu ári. Með samanburði á dómvenjum mismunandi landa verður fljótlega komið samræmi milli dóma á kynbótahrossum, hvar sem er í heiminum.
Á þessu sviði var íslenzka dómkerfið tekið var upp í öðrum löndum. Samt er Ísland engan veginn að valta yfir önnur lönd á öllum sviðum. Áhrifin verka í báðar áttir. Vaxandi fylgi er á Íslandi við að taka upp alþjóðlegu FIZO-reglurnar í dómum á íþróttamótum. Og frumtamning hrossa á Íslandi fer í auknum mæli eftir nýjum aðferðum, sem einkum koma frá Bandaríkjunum.
Með breytingu Eiðfaxa í fagrit áhugamanna og atvinnumanna snemma árs hefur tímaritið orðið vettvangur frásagna af þessari þróun og skoðana á henni. Um leið höfum við fundið, að lesendur hvar sem er í heiminum vilja fylgjast með, hvernig gengur að fást við ýmis vandamál, sem hafa heft útbreiðslu íslenzka hestsins.
Sem betur fer hafa úrbætur verið örar á þessu ári. Rannsóknir á spatti eru svo langt komnar, að menn vænta þess, að senn komi til sögunnar prófun, sem sé nógu nákvæm til að byrja megi að rækta spatt úr stofninum eftir ár. Ennfremur eru mælingar á ófrjósemi orðnar svo víðtækar, að þegar er unnt að byrja að rækta hana úr stofninum. Lesendur Eiðfaxa hafa getað fylgst vel með þróun þessara mála árið 2003.
Ekki síður hafa þeir getað fylgzt með aðgerðum til að ná tökum á exemi, sem er ein helzta hindrunin í vegi útflutnings. Bent hefur verið á ný og áhrifamikil krem og breytta útivistar- og hýsingartíma hrossa. Reynt er að þróa próf, svo að unnt sé að rækta næmi fyrir exemi úr stofninum og reynt er að þróa bóluefni, sem geti varið hross við vandanum.
Hvar sem er í heimi íslenzka hestsins hafa menn áhuga á sæðingum og frystingu sæðis. Einnig hafa menn áhuga á mikilvægum mótum, þótt þau séu haldin í fjarlægum löndum. Upp úr standa auðvitað landsmót og heimsleikar. Við á Eiðfaxa höfum orðið vör við, að einnig er þörf á umfjöllum um Norðurlandamót og þýzka meistaramótið. Tímaritið þarf framvegis að sinna mikilvægustu mótum ársins, hvar sem er í heiminum.
Það er ekki bara umræðan um kynbætur og hestaíþróttir, sem er að verða alþjóðleg. Sama er að segja um ræktunarmarkmið á borð við stöðu skeiðs og fótaburðar í mati manna á hrossum. Alþjóðlegar eru vangaveltur um vandamál í tamningu, svo sem rokur og gan, lull og kergju. Ekki sízt er feiknarlegur áhugi um allan heim íslenzka hestsins á gæðum og gengi frægra einstaklinga í röðum stóðhesta.
Satt að segja kemur okkur stundum á óvart, hvað þessi heimur er orðinn heill. Til dæmis höfum við fengið kvartanir um, að grein um notkun GPS-tækja í fjallaferðum hestamanna skuli ekki vera birt í alþjóðaútgáfu Eiðfaxa. Við höfðum talið þetta vera staðbundið áhugamál. Svipað kemur á daginn, þegar erlend hestatímarit fá birt efni úr Eiðfaxa. Þá er jafnvel sótzt eftir séríslenzkum frásögnum af baráttu við alþjóðlegan tamningavanda.
Hvort sem flett er íslenzkri eða erlendum útgáfum Eiðfaxa árið 2003, er fljótlegt að sjá hvort tveggja í senn, öra faglega framþróun í heimi íslenzka hestsins og ört heildstæðari mynd hans. Hin áleitna spurning er, hvort áhugamenn og atvinnumenn íslenzka hestsins um allan heim séu að renna saman í eina þjóð.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 10.tbl. 2003