Ráðunautur í stuði

Hestar

Ráðunauturinn okkar var í stuði á ráðstefnunni, sem sagt er frá á 20-22. bls. í þessu tölublaði Eiðfaxa. Um morguninn hafði Ágúst Sigurðsson fengið símtal frá nýjum formanni ræktunardeildar þýzka Íslandshestasambandsins, þar sem hún sagði, að Þjóðverjar mundu í sumar leggja niður þýzka dómkerfið að mestu og taka upp það íslenzka.

Þetta felur í sér lokasigur þeirrar stefnu, að eitt dómkerfi sé notað í öllum löndum, þar sem eigendur íslenzkra ræktunarhrossa búa, og að það dómkerfi sé upprunnið á Íslandi og að mestu þróað þar. Enda var áður búið að frumkvæði ráðunautarins að taka ýmislegt af því bezta úr erlendum dómkerfum upp í það íslenzka, svo sem fetið.

Raunar byggjast þessar breytingar á því, að Ísland hefur um nokkurra ára skeið haft landsráðunaut í hrossarækt, sem er diplómat og heimsmaður. Eftir vandræðalegt hlé hefur aftur komið til sögunnar landsráðunautur, er getur fetað í spor Gunnars Bjarnasonar, sem um allan heim var hinn mesti aufúsugestur.

Ágúst hafði fleiri ástæður til að vera kátur á ráðstefnunni. Þar kom fram, að töluverður árangur hefur náðst af ýmsum helztu verkefnunum, sem ráðizt hefur verið í á vegum Hestamiðstöðvar Íslands og Átaksverkefnis í hrossarækt og hestamennsku. Frá því er sagt hér á bls. 20-22.

Þessi tímamót í sögu hrossaræktar gáfu ráðunautnum tækifæri á ráðstefnunni til að mála framtíðina á vegginn. Hann sagði, að nú þyrfti að fara að kortleggja erfðaþætti íslenzka hestsins. Hann vildi einnig stofna sjóð til að efla rannsóknir á honum. Hann hvatti til, að safnað verði í gagnabanka upplýsingum um reiðvegi og GPS punkta á reiðleiðum. Hann mælti með fleiri hugmyndum, svo sem veðbanka og aukinni áherzlu á skeið.

Bandaríkjamenn vilja taka upp nýja knapamerkjakerfið eins og það leggur sig, væntanlega öðrum þjóðum til eftirbreytni. Allt eru þetta merki um, að nú séu kaflaskil og kominn tími til að blása til sóknar íslenzka hestsins á ýmsum nýjum sviðum.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 2.tbl. 2004