Reiðvegir

Hestar

Allar höfuðleiðir opnar á höfuðborgarsvæðinu

Halldór Halldórsson, formaður Reiðveganefndar í Kjalarnesþingi hinu forna:

Nú er að linna margvíslegum hindrunum, sem hafa verið í vetur á umferð hestamanna milli hesthúsahverfa á höfuðborgarsvæðinu. Erfiðast hefur verið Vatnsendahverfið, þar sem orðið hefur átta mánaða töf á gatnagerð. Sú leið milli Víðidals annars vegar og hins vegar Heimsenda og Kjóavalla var lokuð fram á þorra, en hefur nú verið opnuð.

Fákur-Heimsendi

Til bráðabirgða er riðin sama leið og áður frá Víðidal um trébrýrnar á Elliðaánum, sem hafa verið lokaðar fyrir bílaumferð. Á Elliðavatnsvegi er hjáleið við Breiðahvarf vegna framkvæmda.

Síðan er beygt af Elliðavatnsvegi inn á Elliðahvammsveg, eins og hestamenn gera, þegar þeir fara umhverfis Elliðavatn, en beygt suður af þeirri leið upp Traðir, nýja leið, sem liggur milli sumarbústaðalóða. Hún kemur inn á leiðina við Heimsenda rétt ofan við hverfið. Þannig koma menn úr Fáki og Herði að Heimsenda að ofanverðu, en ekki að neðanverðu.

Síðar verður gerður varanlegur reiðvegur milli Víðidals og Heimsenda nær Elliðavatni, nálægt bænum á Vatnsenda. Lega hans hefur ekki verið endanlega ákveðin og ekki heldur, hvenær komi að framkvæmdum.

Fákur-Heiðmörk

Lokið er við nýja leið frá Víðidal inn í Heiðmörk um ný göng undir Breiðholtsbraut, meðfram Bugðu að austanverðu og síðan upp með Bölta á gömlu leiðina inn í Heiðmörk. Þessi leið var tekin í notkun hestamanna í lok janúar. Samkvæmt upphaflegu skipulagi áttu blokkir að vera við hlið reiðvegarins sunnan skógarlundarins við Norðlingabraut, en Fákur og reiðveganefndin fengu þessu breytt í raðhús.

Hólmsheiði

Í vor á að ljúka stuttum kafla frá Fjárborg inn á nýjan reiðveg um Hólmsheiði og vestan við Hafravatn að Reykjahverfi í Mosfellsbæ, þaðan sem reiðvegur liggur áfram um Skammadal niður í Mosfellsdal, þar sem hann skiptist í Skógarhólaleið annars vegar og leið með Kaldá niður í hverfi Harðar á Varmárbökkum.

Þetta er góður reiðvegur. Hinn nýi hluti hans er að miklu leyti klæddur sérstakri reiðstígablöndu úr Bolöldu. Reiðveganefndin hefur mælt með þessu efni, sem sums staðar er komið í reiðvegi á höfuðborgarsvæðinu.

Hólmsheiðarvegurinn er mikill fengur fyrir hestamenn á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er mikilvægt, að hestamenn hafa fengið skriflegt leyfi Orkuveitu Reykjavíkur til að nota veginn meðfram Nesjavallaæð til austurs frá Hólmsheiðarvegi að Hafravatnsvegi.

Hörður-Fákur

Þá er að nýju komin tenging byggðaleiðina milli Varmárbakka og Víðidals, sem rofnaði við miklar vegaframkvæmdir á Vesturlandsvegi milli Grafarholts og Grafarvogs. Gerð hafa verið undirgöng fyrir hestamenn á þremur stöðum, annars vegar undir Vesturlandsveg og hins vegar undir Víkurveg og aðrein af Vesturlandsvegi á Víkurveg.

Á allri þessari leið milli Fáks og Harðar eru að vísu fimm staðir, þar sem ríða verður göngubrautir þvert yfir bílvegi, en verða síðar þrír staðir. Syðst er það við Víðidal, þar sem farið er yfir Selásbraut. Síðan er það í Hádegismóum við Rauðavatn, þar sem riðið er yfir heimreiðina að húsi Árvakurs. Þar á raunar síðar að leggja reiðvegarkrók austur fyrir húsið.

Þriðji staðurinn er við göngin undir Vesturlandsveg, þar sem fyrst þarf að fara yfir Krókháls og síðan Grafarholtsveg, áður en komið er að göngunum. Líta má á þann vanda sem eins konar skipulagsslys.

Loks þarf að fara yfir afrein Víkurvegar, áður en komið er að síðustu undirgöngunum. Undir þessa afrein eiga síðar að koma göng.
Þegar norður fyrir slaufurnar er komið, er greið leið alla leið á Varmárbakka.

Á golfvallarsvæðinu á Korpúlfsstöðum er reiðvegurinn ekki í endanlegri mynd. Hann verður síðar færður þannig, að minni truflun verði milli hans og vallarins. Þá verður ekki lengur farið yfir Korpu á Klapparvaði, heldur nokkur hundruð metrum ofar við ána.

Elliðaárdalur

Þá er í góðu gildi reiðleiðin milli gamla Fáks og Faxabóls um Elliðaárdal. Það er hindrunarlaus leið, sem mikið er notuð af hestamönnum.
Segja má, að reiðvegamál í Reykjavík sé í miklum bata um þessar mundir. Borgin gerir ekkert í skipulagsmálum hesthúsahverfa og reiðvega án þess að hafa samráð við Fák og reiðveganefndina.

Heimsendi-Kjóavellir

Við Heimsenda er í uppsiglingu það vandamál, að skipulagðar hafa verið fjórar 9-12 hæða blokkir 120 metrum norðaustan við hesthúsahverfið. Reiðveganefndin hefur fengið því áorkað, að minnkuð hefur verið lóðin, sem næst er Heimsenda. Vestan við hverfið, en nokkru fjær, áttu að koma 20 hæða blokkir, en þar hefur deiliskipulagi verið frestað. Ekki verður tekin ákvörðun um svæðið öðruvísi en að höfðu samráði við hestamenn. Háhýsi við hesthúsahverfi þrengja auðvitað andrými hestamennskunnar.

Engar hindranir eru milli Heimsenda og Andvara.

Gustur

Gustarar þurfa að fara tvisvar yfir veg á leiðinni á Kjóavelli eða Heimsenda, fyrst við hesthúsahverfi þeirra og síðan yfir Vatnsendaveg eða Flóttamannaveginn. Mikil byggð á að rísa á þessum slóðum, en gert er ráð fyrir mörgum undirgöngum fyrir hestamenn, einkum annars á sérstakri leið, sem fyrirhuguð er meðfram Arnarnesvegi frá Gusti til Fáks.

Má segja, að reiðvegamál í Kópavogi hafi tekið mikinn kipp til hins betra, enda hafa aðstæður hestamanna þar í bæ löngum verið erfiðastar á höfuðborgarsvæðinu. Á nýjum byggingasvæðum er gert ráð fyrir mörgum undirgöngum fyrir hestamenn.

Þrengslin í Kópavogi eiga raunar eftir að verða enn erfiðari, þegar gerð verða mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar eftir fimm-sex ár. Þá verður að rífa efstu hesthúsalengjuna í Gusti og vegfláinn mun koma alveg að næstu húsaröð. Reynt var að lina þetta með því að bjóða makaskipti á landi við Garðabæ og færa veginn aðeins sunnar, en Garðabær hefur ekki tekið það í mál.

Andvari-Sörli

Í sumar hyggst Vegagerðin breikka Elliðavatnsveg á köflum sunnan Vífilstaða og færa til reiðleiðina á þessum köflum á leið hestamanna milli Andvara í Garðabæ og Sörla í Hafnarfirði. Á þeirri leið þarf að fara yfir Vífilstaðaveg og Elliðavatnsveg á Setbergsholti. Þegar á svæði Sörla er komið liggja góðar reiðgötur til flestra átta, enda hefur Hafnarfjörður tekið myndarlega á málum hestamanna.

Tvær stofnbrautir

Staðan á höfuðborgarsvæðinu er nú þannig, að greiðar eru tvær stofnbrautir frá suðri til norðurs, annars vegar leiðin, sem þræðir hesthúsahverfin og hins vegar ofanbyggðavegurinn, sem liggur um Heiðmörk og Hólmsheiði.

Milli þessara stofnleiða eru góðar tengingar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Þverleið hefur verið sett á skipulag í Garðabæ meðfram Heiðmerkurvegi undir Vífilstaðahlíð. Hún hefur verið stikuð út og Vegagerðin hefur boðizt til að leggja fram helming kostnaðar. Verið er að reyna að fá Garðabæ til að leggja fram fé á móti.

Garðabær erfiður

Af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu hefur Garðabær um langt árabil verið erfiðastur viðureignar. Þar voru engir reiðvegir á gildandi aðalskipulagi, voru þurrkaðir út árið 1995. Raunar tafði bærinn fyrir því árið 1996, að lagður yrði Hjallavegur um Heiðmörk, en gaf þó eftir að lokum og vegurinn var lagður árin 1998-2000.

Ennfremur hefur bærinn sett í bið óskir hestamanna um reiðleið út á Álftanes, þar sem hestamannafélagið Sóti er einangrað eins og úti á eyju. Þegar gerð verða mislæg gatnamót um Engidal, ætti að vera auðvelt að gera ráð fyrir göngum fyrir hestamenn. Tekið hefur verið frá land fyrir reiðveg á þessum slóðum, án þess að því fylgi nokkuð loforð um framkvæmdir.

Þverleiðir milli stofnleiða
Fyrir atbeina nefndarinnar gerir Garðabær þó ráð fyrir undirgöngum undir Urriðaholtsveg, fyrirhugaðan bílveg milli Reykjanesbrautar og Elliðavatnsvegar. Mannvirki tengd þessum vegaframkvæmdum gætu orðið þáttur í leið út á Álftanes.

Þegar byggt verður við Úlfarsfell, verður lagður reiðvegur milli stofnleiðanna nálægt Úlfarsá og mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Þessi leið er raunar komin á skipulag. Í tengslum við þetta fyrirhugaða skipulag verða reiðgöng gerð í sumar undir Vesturlandsveg við Korpu.

Erfiðara verður að fá tengingu milli stofnleiðanna frá Varmárbökkum um Álafoss upp í Reykjahverfi. Nú ríða hestamenn þessa leið á bílaumferðargötum, sem býður hættunni heim. Mosfellsbær hefur ekki hafið neinn undirbúning að reiðleið á þessum slóðum og þarf greinilega að taka sig á í reiðvegamálum að þessu leyti.

Dropinn holar steininn

Ekki hefur verið átakalaus sá árangur, sem náðst hefur í reiðvegamálum höfuðborgarsvæðisins. Reiðveganefndin sækir fundi hjá yfirvöldum og sendir þeim bréf. Formlegar og skriflegar athugasemdir hafa gefið beztan árrangur. Nefndin kvartar og minnir á fyrri loforð. Hún vinnur samkvæmt kenningunni um, að dropinn holi steininn.

Hún er alltaf á vaktinni, af því að reynslan sýnir, að árangur, sem náðst hefur inn á skipulagskort, getur skyndilega dottið út af næstu kortum. Dæmi er líka um, að sprengt sé fyrir undirgöngum, en þau síðan fyllt af möl. Almennt má segja, að við séum ekki vissir um árangur, fyrr en reiðgatan er orðin sýnileg.

Svo þegar reiðvegirnir eru komnir, taka við verktakar, sem vantar athafnapláss og finnst kjörið að koma gámum og vinnuskúrum fyrir á reiðvegum. Algengt, að verktakar loki leiðum og hirði aðeins um hjáleiðir fyrir bíla, en ekki fyrir reiðmenn. Fleiri líta girndaraugum til reiðvega. Ég á mynd af strætisvagnaskýli, sem sett var á reiðveg. Skýlið var með víðáttumiklu skyggni í hálshæð reiðmanns.

Ekki má gleyma vélhjólamönnum, einkum á torfæruhjólum, sem hafa spænt upp reiðvegi og gera enn. Samtök þeirra hafa gefið út ágætar umgengnisreglur, sem birtast á heimasíðu þeirra, en einstakir torfærukappar fara ekki eftir neinum reglum.

Reiðveganefndin

Reiðveganefndin hefur starfað síðan 1990. Hún er skipuð fulltrúm allra sjö hestamannafélaganna á suðvesturhorninu. Sjálfur kem ég frá Andvara, Valdimar Jónsson er frá Fáki, Guðmundur Jónsson frá Herði, Sævar Kristjánsson frá Gusti, Sveinbjörn Jónsson frá Sörla, Jóhann Þór Kolbeinsson frá Sóta og Vilberg Skúlason frá Mána.

Nefnin hefur afskipti af reiðvegamálum utan höfuðborgarsvæðisins, sem er umræðuefni þessa viðtals. Mikill árangur hefur náðst á leiðinni suður með sjó og unnið er að endurheimt reiðleiðar undir Esju á Kjalarnesi. Það er ekki fjarlægt markmið, að samfelld reiðleið, aðskilin frá bílaumferð, nái ofan úr Kjós um höfuðborgarsvæðið suður í Reykjanesbæ og Grindavík.

Aðskilnaðarstefna

Það er almenn stefna sveitarfélaga á þessu svæði að skilja sundur umferð bíla annars vegar og stíga fyrir útivistarfólk hins vegar, þótt stundum skorti nokkuð á, að góðu áformin verði að veruleika. Almennt má þó segja, að við séum komnir hálfa leið, þegar skipulagið er komið og reiðleiðirnar sjást á skipulaginu. Lykillinn að árangri er að koma sjónarmiðunum á framfæri strax við gerð skipulags. Þegar bílvegir eru komnir af teikniborði í landslagið, verður nýlagning reiðvega miklu dýrari og torsóttari.

Almenn get ég sagt um samskiptaaðila okkar hjá Vegagerðinni og sveitarfélögum svæðisins, að samskiptin eru orðin miklu ljúfari og árangursríkari en þau voru, þegar nefndin tók fyrst til starfa fyrir hálfum öðrum áratug. Hestamenn standa í mikilli þakkarskuld við þá, sem áður skipuðu nefndina, einkum fyrrverandi formenn, sem þurftu að brjóta ísinn í samskiptum við opinbera aðila.

Þá er ótalinn Sigurður Þórhallsson, fyrrum framkvæmdastjóri Landssambands hestamannafélaga, sem var mikill áhugamaður um reiðvegi og ekki sízt Skógarhólaleið, sem er í umsjón nefndarinnar.

Í ágætum samskiptum við Vegagerðina hefur reiðveganefndin í auknum mæli lagt áherzlu á samning Landssambands hestamannafélaga og Vegagerðarinnar frá 1982 um, að gerður sé reiðvegur af vegafé, þegar lagt er bundið slitlag á vegi, sem notaðir hafa verið öðrum þræði sem reiðvegir.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 2.tbl. 2004.