Sitthvað fleira en hníf og snæri í vösum.
Eitt af því fyrsta, sem ég heyrði um útbúnað til hestaferða, voru hnífur og baggaband í vasanum. Þetta tvennt átti að vera til marks um, hvort maður væri hestaferðamaður eða ekki. Enn eru þetta í góðu gildi sem nytsamlegir hlutir, en ýmislegt fleira kemur í ljós, þegar gamalreyndir fararstjórar eru beðnir um að tína upp úr vösum sínum og hnakktöskum. Hér á eftir fer það, sem þeir telja nytsamlegast að hafa við hendina í hestaferðum. Áður var Eiðfaxi búinn að skoða í vestisvasa Baltasars Samper, þar sem finna mátti sjö-átta kíló af ýmsum ferðahlutum og birtist sú frásögn í þriðja tölublaði síðasta árs.
Andreas Bergmann:
Í vösunum er ég með hníf og baggaband, áttavita og kort, atlasblöð í hlutföllunum einn á móti hundraðþúsund.
Við reynum að hafa jeppa með hópnum og höfum þar regnfatnað, aukapeysur og nóg af nesti, einnig rúsínur og súkkulaði. Annars notum við einn trússhest undir það nauðsynlegasta af þessu. Í trússinu eru líka flugnanet, skeifur og járningadót. Við höfum verið með strigatöskur, sem eru furðanlega vatnsþéttar, en þéttum þær oft að innan með svörtum plastpoka.
Árni Ísleifsson:
Í vösunum hef ég hníf og spotta og í beltinu hef ég fjölnota járningatöng. Þær eru feiknarlega þægilegar og fyrirferðarlitlar.
Ég nota ekki hnakktöskur af neinu tagi, en hef í staðinn trússhest, ef bíll fylgir ekki hópnum. Mér finnst þægilegt að hafa trússhest. Það léttir á reiðhestunum og eykur svigrúm reiðmanna. Í trússinu eru járningatæki, skeifur, sjúkradót, vatnsgallar og nesti til dagsins. Ég nota venjulegar trússtöskur úr striga og set innan í þær maurasýrubrúsa, sem ég er búinn að stinga úr eina hliðina. Brúsarnir passa nokkurn veginn í töskurnar, vatnsverja farangurinn og verja hann gegn hnjaski.
Töskuhesturinn þarf að vera þægur og traustur og það er nóg af slíkum klárum. Hestar venjast trússinu fljótt. Helzt er það aftari gjörðin, sem getur kitlað þá. Ég hef fest ól á milli gjarðanna, svo að aftari gjörðin sæki ekki aftur undir nára. Trússið er yfirleitt léttur burður, 20-30 kíló, sem reynir lítið á hestinn. Mér finnst gott að skipta um trússhest á miðjum degi og létta töskunum af hestunum í áningum.
Bjarni E. Sigurðsson:
Í vösunum er mest lítið, safafernur, vasahnífur og baggaband. Hins vegar hef ég alltaf tvær litlar framtöskur. Í annarri er sjúkradót, blanda af því brýnasta úr sjúkrakössum fyrir menn og hesta, sem eru í trússinu. Meðal þess mikilvægasta eru stór og góð sárabindi fyrir hesta. Þar eru líka góð græðandi smyrsl í stórum, bláum túpum. Ennfremur plástrar og teygjubindi. Það er mikið öryggi að vera þannig búinn, að maður geti tekið á flestum slysum. Ég læt fjaðrir líka í þessa tösku, því að þá hringla þær ekki.
Í hinni framtöskunni hef ég lítil járningatæki, nettan hamar, nettan naglbít og hnykkingatöng. Svo haga ég málum alltaf þannig, að einhver annar í hópnum hafi vandaðri járningatæki í hefðbundinni þverbakstösku, svona til að dreifa byrðinni af sameiginlegum áhöldum á fleiri aðila. Ég fæ líka einhvern þriðja aðila til að hafa á sér bandið, sem við notum stundum og stundum ekki við hestaskipti í áningum.
Einar Bollason:
Í vasanum er ég með svissneskan herhníf og treysti á, að einhver í hópnum sé með járningasamstæðu í beltinu. Annað er ég með í litlum töskum framan við mig í hnakknum og er raunar einn sá fyrsti, sem fór að nota slíkar töskur hér á landi. Þar er ég öðrum megin með blandaðan sjúkrakassa fyrir menn og hesta, ásamt vettlingum. Hinum megin hef ég nesti, botna, tvær skeifur og aukasokka. Þegar maður blotnar, breytir öllu að fara í nýja sokka, þótt maður nái ekki að þurrka skófatnaðinn.
Aftan á hnakknum hef ég mjúka tösku, sem má vöðla saman, ef ekkert er í henni og setja má í þvottavél. Þetta eru töskur, sem norski herinn notar, nánast eins vatnsþéttar og leðurtöskur. Ég hef þessa tösku til vonar og vara, til dæmis ef ég þarf að fara úr peysunni vegna hita. Alltaf er einhver í ferðinni með spotta, sem er nógu langur til að ná utan um öll hrossin í áningu.
Mér finnst mesta upplifunin að vera í trússferðum í fámennum hópi, þar sem farangurinn er á hestum, en ekki í bíl. Ógleymanlegasta ferðin í minningunni er trússferð tveggja hjóna inn á Hveravelli. Við notuðum vaxþéttar gallon-töskur, sem reyndust einstaklega vel.
Hannes Einarsson:
Ég er frekar þungur og reyni að hafa sem minnst af dóti á mér á hestbaki. Eina framfótarskeifu og eina afturfótarskeifu hef ég í vösunum og stundum fleiri, aðallega stærðina 11,5. Svo er ég alltaf með í vasanum Ledermann-hníf, sem hentar til margs konar viðgerða. Svo er baggaband og plastpoki með mylsnu eða nammi fyrir hesta.
Ég er sjálfur ekki með plástra, en vil, að einhver í hópnum sé með nauðsynlegustu sjúkragögn, grisju og bindiplástur. Svo er ég frá gamalli tíð með flautu í vasanum til að nota í rekstri og í þoku, en hef í rauninni ekkert notað hana. Flugnanet er nauðsynlegt, svo og áttaviti. Svo er oft í vösunum ein flatbrauðssamloka og vatnsílát með safa. Nú er yfirleitt búið að banna allt sem heitir áfengi, enda sýnir reynslan, að það hentar ekki á daginn í löngum hestaferðum, allra sízt ef hópurinn er fjölmennur.
Ég er með járningasamstæðu í beltinu, eitthvert mesta þarfaþing, sem ég hef eignazt. Ég á bæði hefðbundna þverbakstösku og stórar hliðartöskur til að hafa af aftanverðu, en nota hvorugt. Mér finnst koma til greina að fá mér litlar töskur til að hafa að framanverðu. Ég hef ekki ferðast með trússhesta, en hefði gaman af að prófa slíka ferð, til dæmis á norðanverðum Ströndum, þar sem ekki verður komið við bílum.
Haraldur Sveinsson:
Alltaf er ég með hníf og spotta í vasa, en ekki mikið annað. Svo er ég með hefðbundna hnakktösku, þar sem ég hef nokkrar skeifur, fjaðrir og naglbít og stundum einnig eina eða tvær brauðsneiðar. Annars hef ég vanizt því að borða vel á morgnana og kvöldin í ferðalögum, en lítið þess á milli.
Áður fyrr var ég mikið í löngum ferðalögum með trússhesta. Ég eignaðist forláta trússtöskur úr leðri hjá Bjarna Ásgeirssyni. Við skiptum um trússhesta einu sinni á meðallangri dagleið og tókum trússið þar að auki af baki, þegar skipt er um hesta. Við vorum sjálfstæðari í gamla daga, þegar við ferðuðumst með töskurnar og gistum í tjaldi, sem við höfðum meðferðis.
Hjalti Gunnarsson:
Fyrir utan vettlingana er ég með sjúkradót og smyrsl, snæri, vasahníf, fjaðrir, skeifur, hrossabursta og hófkrækju í vösunum. Stundum er ég með nesti í vasa, en nota það yfirleitt ekki.
Ég hef líka litlar framtöskur með heimasmíðuðum járningatækjum og skeifum. Ég stytti hnykkingatöng og sauð á hana klaufhamarshaus. Þetta er fjölnota áhald, sem virkar á svipaðan hátt og nýju beltistangirnar. Svo er ég með lítinn naglbíta til að draga út fjaðrir. Í töskunum er líka aukataumur og aukamél. Einnig hengi ég rafmagnsborða í hnakkinn, nógu langan til að ná utan um hrossin, og gæti þess vel að ganga þannig frá trossunni, að hún rakni ekki.
Oft nota ég trússtöskur og á tvennar slíkar úr strigaefni. Ég hef notað glæra plastpoka innan í þær, þeir eru þykkari en þessir svörtu og auðveldara að finna rétta pokann. Ég á líka gamla maurasýrubrúsa, sem ég hef skorið úr eina hliðina. Þeir passa eins og kassar innan í trússtöskurnar. Við þurftum trúss á tvö hesta, þegar við fórum sex karlar norður Kjöl, og þá var létt á hestunum. Mesta fyrirferðin var í svefnpokunum. Við gistum þá í skálum og höfðum ekki tjöld. Á léttum dagleiðum var ekki skipt um trússhest, en tekið af honum í aðaláningu á miðjum reiðdegi.
Guðbrandur Kjartansson:
Ég er með hníf og spotta í vösunum, vatnspela, varasalva og hófkröku. Ennfremur er ég með plastpoka af salthnetum og rúsínum, sem við notum stundum og stundum ekki, svo og nokkrar þurrkaða rúgbrauðskubba til að ná hrossum í skiptiáningu. Þar að auki er ég með ýmis sjúkragögn, hálfs lítra vatnspela og stóran tóbaksklút, sem nota má sem umbúðir og jafnvel sem fetil.
Ég er með hefðbundna hnakktösku úr leðri, saumuð fyrir mig á Raufarhöfn. Þar eru járningatæki, skeifur, fjárbyssa, góður hnífur, sjúkradót, aukavettlingar og aukataumur, svo og annar hálfs lítra vatnspeli. Ég drekk heilan lítra á dag í hestaferð. Við klæðum okkur að morgni til dagsins og höfum ekki meðferðis neinn viðbótarfatnað, til dæmis ekki regngalla.
Ólafur B. Schram:
Ég legg mikið upp úr mörgum vösum. Ég vil hafa ótal hluti við hendina, hvern í sínum vasa. Ég hef fjaðrir í einum vasa, júgursmyrsl í öðrum, stærri hníf, taumalás, stóran vasaklút, sem ég nota í miklu ryki, hnakktöskuólar og boginn nagla, sem ég nota sem hófkrækju og svo framvegis. Ég vil ekki, að hlutirnir séu í bílnum, þegar ég þarf á þeim að halda. Ég er ekki með sjúkragögn í ferð með öðrum, læt aðra um það.
Ég hef Max regngalla í hnakktöskunni eða ofan á henni. Neðan á buxurnar hef ég saumað bönd, sem fara undir skóna, svo að buxurnar dragist ekki upp í reið. Úlpuhlutinn er með anóraksniði, lokaður að framan, mér finnst það betra. Í hnakktöskunni eru líka aukapeysa, aukavettlingar, baggabönd, aukataumur, brauðsneiðar og tjaldhæll til að festa hestinn við, þegar ég sinni öðru fólki. Utan á hnakkinn hengi ég 20 m. fánasnúru til að slá um hrossahópinn í áningu
Ég er líka með litlar hnakktöskur framan við hnakkinn. Þar hef ég skeifur og járningatæki. Þessr töskur hafa sérstakar ólar fyrir hamar og naglbít.
Valdimar K. Jónsson:
Í vösunum er hnífur og baggabönd, tvær skeifur og fjaðrir. Nesti er ég með í sérstakri beltistösku og járningasamstæðu í buxnabeltinu. Þetta er allt og sumt og enga nota ég hnakktösku. Ég hef ekki heldur vanizt því að setja trúss á hesta, en reyni að láta jeppa fylgja hópnum eftir föngum. Ég á trússtöskur, en hef aldrei komið í verk að nota þær.
Viðar Halldórsson:
Í vösunum hef ég júgursmyrsli í tómu filmuboxi til að bera í munnvik og önnur sárindi á hesti. Oft er ég með flugnanet, þótt ég noti það lítið. Oft leynast líka rúsínur, súkkulaði eða harðfiskur í vasa. Það er lítið meira í vösunum, en í beltinu er ég yfirleitt með járningasett eða hníf með fjölbreyttum eiginleikum.
Móðir mín kenndi mér að hafa alltaf þurra ullarpeysu og þurra sokka í hnakktöskunni og fyrstu árin gerði ég það. Einu sinni var ég á ferð úr Skógarhólum, þar sem reiðmaður lenti í hyl í Öxará og blotnaði allur. Hann vildi enga aðstoð. Þegar við komum niður fyrir afleggjarann á Skálafell var honum orðið svo kalt, að hann vildi bara stoppa og leggjast fyrir. Ég þröngvaði honum í sokkana og peysuna, sem ég var með í hnakktöskunni, og held, að það hafi hreinlega bjargað honum.
Ég hef alltaf verið með hefðbundna þverbakstösku, en viðurkenni, að hinar töskurnar eru þægilegri að mörgu leyti. Konan mín er alltaf með litlar töskur framan við hnakkinn. Ég mæli með því, að menn velji slíkar, ef þeir ætla að fá sér tösku. Þær rúma ekki meira en hefðbundna taskan, en það er þægilegra að komast í þær, jafnvel á ferð. Í hnakktöskunni er vatnsgalli og aukasokkar, svo og nesti, ef ég tek það með. Stundum er ég með brauðsneið og safa, ef ég á ekki von á að hitta trússið á leiðinni.
Þormar Ingimarsson:
Í beltinu er járningatöng og GPS tæki með áttavita, sem ég set stundum í brjóstvasann á peysunni, þegar ég þarf að vera fljótur að ná í það. Í vösunum er ég með vasahníf og baggaband, varasalva og sólarvörn, júgursmyrsl og vatnspela, flugnanet og landakort, skíðagleraugu gegn ryki og rafmagnsvírspotta til að laga reiðtygi.
Ég er með poka af brauðmylsnu í litlum plastpoka til að ná hestum og tvöfaldan pakka af Síríus suðusúkkulaði sem neyðarnesti. Svo er ég með tvær skeifur, framfótar og afturfótar. Ég er með marga vasa og flest er þetta fremur létt. Í haust fékk ég mér eins konar veiðivesti með enn fleiri vösum, sem ég ætla að nota næsta sumar, líklega í staðinn fyrir flíspeysu. Þá get ég skipulagt smádótið betur í vasana. Ég nota hins vegar engar hnakktöskur.
Í ferðum með trússhesta, þegar farangur er ekki fluttur á bílum, nota ég gamlar strigatöskur, sem ég set svarta ruslapoka innan í til að halda farangrinum þurrum. Ég miða við eina tösku á mann, hef svefnpokana ofan á og stundum tjald og gítar, ef það á við. Í töskunni er fjallgöngumannamatur og ýmis annar matur, eldunaráhöld og allra nauðsynlegustu föt til skiptanna, svo og nokkrar skeifur. Þar eru líka sjúkrapakkar fyrir menn og hesta. Valdir eru traustir hestar í trússið og þeir látnir hlaupa lausir, nema þegar farið er gegnum hlið.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 2.tbl. 2004