Alþjóðleg ráðstefna dýralækna
Burt með spattið
Í tilefni af 70 ára afmæli Dýralæknafélags Íslands hélt það alþjóðlega ráðstefnu á Selfossi 26.-28.júní um sjúkdóma íslenzka hestsins. Yfir hundrað þáttakendur voru á ráðstefnunni, þar á meðal fjölmargir erlendir sérfræðingar í hrossaræktarsjúkdómum.
Þorvaldur H. Þórðarson á Dýraspítalanum í Víðidal er formaður félagsins. Ráðstefnuna skipulögðu dýralæknarnir Sigríður Björnsdóttir, Helgi Sigurðsson, Páll Stefánsson og Þorvaldur Hlíðdal Þórðarson. Um 30 erindi voru flutt.
Mikið af tíma ráðstefnunnar fór í að ræða spatt og aðra sjúkdóma í fótum hesta. Einnig vær rætt um smitsjúkdóma af völdum sníkla, sýkla og veira og loks var fjallað um sumarexem.
Þátturinn um spatt var umfangsmestur og áhugaverðastur. Fram kom, að fræðimenn eru samála um, að spatt er töluvert arfgengt, um og yfir 30%, og að draga má verulega úr vandamálinu með því að banna eða draga úr notkun spattaðra stóðhesta.
A. Barnevald frá Hollandi sýndi, hvernig spatt hefur nánast horfið sem vandamál í hollenzkum hestum á tveimur áratugum í kjölfar þess, að bannað var að nota spattaða stóðhesta.
Almennt eru menn sammála um, að beygjupróf og röntgenmyndir, sem eru rétt teknar, geti sýnt, hvort spatt er í hesti eða ekki. Per Eksell frá Svíþjóð sagði, að fjórar röntgenmyndir teknar á réttan hátt og með réttri stöðu hestsins nægðu til að sýna spatt, ef það er í hesti.
Sigríður Björnsdóttir sagði nauðsynlegt að röntgenmynda alla stóðhesta í ræktun á sama aldri, til dæmis þegar þeir eru sýndir fimm eða sex vetra gamlir. Þetta er í samræmi við umræðuna, sem farið hefur fram um þetta mál, meðal annars hér í Eiðfaxa fyrir ári, í 6. tölublaði 2003, bls. 28-29.
Á ráðstefnunni skýrði Sigríður Björnsdóttir frá rannsóknum á beinum hesta úr kumlum frá heiðnum tíma. Af 23 beinagrindum, sem athugaðar voru, reyndust 7 vera með spatt. Þetta sýnir, að spatt hefur verið algengt vandamál íslenzka hestsins frá fyrstu tíð, þegar notkun hans var þó að ýmsu leyti önnur en hún er núna og hestar voru ekki járnaðir og þegar land var meira gróið en það er nú.
Sigríður flutti annað erindi um spatt sérstaklega. Þar kom fram, að spatt fer snemma í gang í hrossum og þróast hægt á löngum tíma. Umhverfisþættir á borð við notkun og þjálfun virðast ekki hafa áhrif á sjúkdóminn. Flest benti til töluverðs arfgengis, sem byggist líklegra á skakkri afstöðu í beinagerð og liðum, sem leiða til ójafnvægis í hestinum.
Helgi Sigurðsson skýrði frá því, að hér á landi skorti opinberar skýrslur eða tölur um dreifingu sjúkdóma í hrossastofninum. Hann gæti aðeins byggt á eigin reynslu í aldarfjórðung. Síðan ræddi hann um misjafnt gengi hrossasjúkdóma hér á landi, sumir eru fáséðir eða óþekktir, en aðrir algengir. Hann vakti athygli á, að 70-80% hrossasjúkdóma kæmu fram fyrri hluta árs og 20% í maímánuði einum.
Johan Blix er dýralæknir hjá dýrarannsóknastofnun tryggingafélagsins Agria í Svíþjóð. Hann skýrði frá sænskum tryggingaskýrslum, sem sýna yfir langt árabil, að spatt í Svíþjóð er þrefalt algengara í íslenzkum hestum en öðrum hestum. Að spattinu frátöldu séu íslenzkir hestar hins vegar heilsubetri en aðrir hestar í Svíþjóð, í sumum tilvikum mun heilsubetri.
Þorvaldur Árnason fjallaði um arfgengi spatts. Miklum árangri megi ná gegn því með breyttri ræktunarstefnu. Á fjórum kynslóðum hesta megi auka heilbrigði stofnsins á þessu sviði úr 81% í 89% í sex vetra hrossum. Hann taldi ekki nóg að beina sjónum að stóðhestunum, einnig yrði að fást við spatt í hryssum. Helzti þröskuldurinn í vegi aðgerða væri fjárskortur og andstaða sumra ræktenda.
Per Eksell er fræðimaður við röntgendeild sænska landbúnaðarháskólans í Uppsölum. Hann sagði frá tilraunum með beygjuprófun og röntgenmyndatökur af íslenzkum hestum í Svíþjóð. Samanlagt geta þessar aðferðir nýtzt til að útiloka hross úr ræktun.
Sue Dyson er fræðimaður við brezku Dýraheilsustofnunina í Lanwades Park í Bretlandi. Hún sagði frá ýmsum lyfjum, sem prófuð hafa verið gegn spatti og virtist henni þau flest ná litlum eða engum árangri. Bodo Hertsch er fræðimaður við dýrafræðideild Freie Universität í Berlín. Hann fjallaði rækilega um ýmsar aðferðir við að hamla gegn spatti með flóknum skurðaðgerðum.
A. Barnevald er fræðimaður við hestafræðiskor dýrafræðideildar háskólans í Utrecht í Hollandi. Hann taldi, að róttækar aðgerðir gegn spatti á vegum Konunglegu hollenzku ættbókarinnar þar í landi hefðu minnkað spatt úr 5% í 1%. Nú væri svo komið, að spatt gæti ekki lengur talizt vera alvarlegur hrossasjúkdómur þar í landi og væri ekki lengur til umræðu, þegar hross ganga kaupum og sölum. Engir stóðhestar með spatt fá leyfi til notkunar í Hollandi.
Niðurstöður ráðstefnunnar er í stórum dráttum tvær. Í fyrsta lagi er hægt að draga verulega úr spatti. Í öðru lagi hafa flestir aðrir en Íslendingar þegar tekið á vandanum og leyst hann.
Sigríður Björnsdóttir yfirdýralæknir hrossa:
7 af 23 fornhestum voru spattaðir. Spatt er mjög arfgengt, en aftur á móti óháð notkun. Röntgenmynda ber alla stóðhesta fimm eða sex vetra.
Helgi Sigurðsson dýralæknir, Dýraspítalanum:
70-80% hestasjúkdóma koma upp fyrri hluta ársins, 20% í maí.
Johan Blix, Agria dýratryggingum, Svíþjóð:
Íslenzkir hestar eru heilsubetri en önnur hestakyn, nema hvað þeir eru þrefalt meira spattaðir.
Eric Strand prófessor, Noregi:
Verðgildi íslenzka hestsins felst í því, að hann er fimmgengur miðaldahestur í mörgum litum, hraustur og getur borið þriðjung þyngdar sinnar.
Þorvaldur Árnason, ræktunarráðgjafi, Svíþjóð:
Arfgengi spatts er 0,33 eða um 33%. Með breyttri ræktunarstefnu má bæta heilbrigði hestsins gagnvart spatti úr 81% í 89%.
Per Eksell, háskólakennari, Svíþjóð:
Beygjuprófun og fjórar vandaðar röntgenmyndir teknar á réttan hátt og með réttri stöðu hestsins sýna, hvort hann er með spatt.
Rikke Schulz
Fótasjúkdómar í íslenzkum hrossum tengjast oft járningum, sem byggist á þeirri hefð að menn járna sjálfir í stað þess að láta lærða fagmenn gera það.
Sue Dyson, dýraheilsusjóðnum, Englandi:
Lyfjameðferð við fótasjúkdómum í hrossum hefur ekki gefizt vel.
Bodo Hertsch, háskólakennari, Þýzkalandi:
Með uppskurðum má draga úr áhrifum spatts.
A. Barneveld, háskólakennari, Hollandi:
Spatt er 32% arfgengt. Hollendingar strikuðu spatt út sem vandamál í ræktuninni á tveimur áratugum 1981-2000 með því að banna notkun spattaðra stóðhesta.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 6.tbl. 2004