Friðland að Fjallabaki
Umferð hestamanna um hálendið fer ört vaxandi. Aðfaranótt 21. júlí voru 240 hestar í Hvanngili í góðu yfirlæti. Daginn áður og daginn eftir urðu ferðahópar að fara af stað úr Hólaskjóli og Hvanngili með ákveðnu millibili til að lenda ekki í árekstri. Ferðahópur beið í Landmannalaugum eftir að hópur úr Landmannahelli færi hjá á leið í Hólaskjól. Á Leirubakka voru nokkrir ferðahópar að koma og fara 25. júlí. Fjallabakið er að verða að Laugavegi hestaferða.
Allt gengur þetta upp, ef menn vita hver af öðrum og ferðast skipulega. Í auknum mæli fer jeppamaður á undan hópnum og slær upp gerði á ógrónu landi með 7-9 km bili til að halda hrossunum saman, skipta um reiðhross, tryggja að hrossin haldi sig við hefðbundnar og viðurkenndar reiðleiðir og að hægt sé að hleypa öðrum hópum hjá. Slík ferðamennska stuðlar að nauðsynlegri sátt milli hestaferðamanna og annarra málsaðila á hálendinu.
Til mikilla bóta væri til dæmis, ef friðlandsvörðurinn að Fjallabaki merkti áningarstaði á 7-9 km bili á þessu svæði með merkifánastöng til að tryggja, að allir hóparnir slái þar upp girðingu og hafi áningu á sömu stöðum, en ekki hér og þar. Þetta mundi kosta lítið í fé og fyrirhöfn, meðan beðið er eftir fjármagni í varanleg hestahólf á þessum svæðum. Sjö km bil hæfir í mishæðóttu landi og níu km í flötu landi. Að auki gæti hann gefið út hnit fyrir staðina. Þessi einfalda aðgerð mundi skapa aukinn frið um ferðir hestamanna á svæðinu.
Síðan mætti ganga lengra og setja upp lausar girðingar með plasthúðuðum járnstaurum, sem stungið er niður með handafli og breiður hvítur borði þræddur um augu þeirra, svipað lausu girðingunum, sem hestamenn hafa margir í trússi sínu. Svona hólf, um 25 metra á kant, getur einn maður búið til á 10 mínútum og það endist allt sumarið með smávægilegu eftirliti. Frá Áfangagili til Hólaskjóls yrðu þetta samtals sjö girðingar eða minna en eitt dagsverk og samtals innan við 30.000 krónur í útlögðum kostnaði. Síðar mætti setja upp fasta og trausta hornstaura.
Þetta væri áreiðanlega gagnlegri iðja friðlandsvarðar en að abbast ítrekað upp á friðsama og ódrukkna hestaferðamenn, þar á meðal landsþekkta náttúruverndarmenn, sem fara eingöngu viðurkenndar reiðleiðir í halarófu, og tala fyrst til þeirra og ljúga síðan um þá í fjölmiðlum eins og þeir séu að spóla um öll fjöll eins og jeppakallar eða torfærumenn. Því miður er skapstyggur friðlandsvörðurinn að Fjallabaki andvígur umferð íslenzkra hestamanna og reynir að snapa tilgangslausan fæting við hestafólk. Maður hlýtur að spyrja sig, hvort eitthvað sé að marka illt umtal hans um jeppakalla og torfærumenn.
Hann hefur þá kenningu, að hver hestamaður þurfi ekki nema tvö hross og þurfi ekki að stanza oftar en á 12-15 km bili. Hann hefur það eftir forstöðumanni hestaferðafyrirtækis, sem röltir mikið á feti með hópa erlendra ferðamanna. Íslenzkir hestaferðamenn, sem eru meira hestaðir, ferðast hraðar og skipta oftar um hesta, eru utan sjóndeildarhrings hans, eru ekki fagmenn að hans mati.
Betri eru viðtökurnar og meiri er árangurinn í Hvanngili, þar sem hægt er ráðgast við staðarhaldarann um, hvernig heppilegast sé að fara milli Hvanngils og Króks. Að ráði staðarhaldara fór stór ferðahópur lengri leið um jeppaslóðina meðfram Álftavatni í stað þess að fara hefðbundnu leiðina hjá Klámbrekkum og Torfahlaupi til þess að halda sig á leiðum, þar sem ekki verða nein spjöll af umferð hesta. Þannig næst árangur, ef forvígismenn málsaðila tala saman um leiðir í stað þess að hoppa um og rífast.
Erlendir ferðamenn kunna vel að meta lífið sem fylgir hestaferðunum. Hvarvetna stekkur fólk úr leigubílum sínum og rútum og myndar í gríð og erg, þegar hópar hestaferðamanna fara hjá eða æja. Einn útlendingurinn sagðist hafa tekið fleiri myndir af hestunum á einum stað en samanlagt af öllu landslaginu að Fjallabaki. Þannig gefa hestarnir æskilegt líf í forgrunn mynda af landslaginu og eru hluti af ímynd landsins í augum ferðamanna.
Því miður eru enn nokkur dæmi um, að íslenzkir hestaferðamenn fari um drukknir á ferðum sínum eða sinni fáum ferðareglum. Einn hópurinn girti yfir fjallveginn nálægt Gullfossi og neitaði að flytja sig til hliðar við veginn til að hleypa umferð í gegn. Svona hópar koma auðvitað óorði á hestaferðamenn og valda því, að samskipti þeirra við aðra málsaðila eru lakari en þau eiga að geta verið.
Jónas Kristjánsson
Draumalandið
Löngufjörur
Löngufjörur eru draumaland hestamannsins, endalaus skeiðvöllur til allra átta, sums staðar láréttar leirur og annars staðar vægt hallandi sandfjara hvít eða gullin. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum, bæði dagleiðin suður í átt til Hítarness og Akra og dagleiðin vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Ef menn ríða bara einu sinni þessa leið, er bezt að ríða vestur og hafa Snæfellsjökul í fangið.
Hestum líður vel á þessari leið, þeir teygja sig á góðgangi og hafa margir gaman af að sulla eins og börn. Gamlir klárhestar verði ágætlega meðfærilegir á tölti, skeiðhestum er att saman og lausu hrossin æða áfram á stökki eins og þau eigi lífið að leysa. Erfitt er að hemja allt þetta á leirunum og þá er ráðið að leita upp í gróðursælar eyjar til að hvíla hrossin og sprengja ekki gæðingana.
Syðst á Löngufjörum er Akraós milli Akra og Stóra-Kálfalækjar í suðri og Hítarness í norðri, síðan Kaldárós milli Hítarness, Snorrastaða og Eldborgar, þá Haffjarðarós milli Stóra-Hrauns, Kolviðarness og Skógarness og loks Straumfjarðarós milli Skógarness og Stakkhamars. Allt eru þetta láréttar leirur. Þar fyrir vestan tekur við hallandi sandfjara, stundum hvít eða gullin af skeljum og gulum olivínkornum, oft kölluð gullsandur, fyrst frá Melkoti að Staðará og svo frá Görðum um Búðaós að Búðum.
Fjölmörg sumur hef ég farið reglulega með hópi hestamanna í rúma vikuferð um Löngufjörur og nágrenni. Oftast hefur verið farið frá stöðum í Borgarfirði yfir gömlu Hvítárbrúna við Ferjukot og síðan þvert yfir þjóðveg 1 um Laxholt, Stangarholt, Grenjar að Grímsstöðum, þar sem góð gisting á þjóðbraut hestamanna til Kaldármela. Frá Grímsstöðum er skemmtileg dagleið um Hraundal, Svarfhól, Staðarhraun, Fagraskógarfjall og Kaldármela í Snorrastaði, þar sem við höfum oftast byrjað ferðir okkar á fjörurnar.
Mikilvægt er að hafa staðkunnugan leiðsögumann, sem veit, hvar og hvenær vöð eru á Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará og Búðaósi. Þekktastur slíkra er Haukur Sveinbjarnarson á Snorrastöðum. Dagleiðum á þessu svæði verður að haga eftir flóðatöflum og reynslu staðkunnugra til að sleppa við sundreið yfir ála. Flóðatöflur Almannaksins duga ekki einar, því að þær hafa ekki frávik fyrir þetta svæði, nema fyrir Búðir.
Vestur Snæfellsnes hefur verið hefðbundið hjá okkur að hafa eina dagleið frá Snorrastöðum í Skógarnes, aðra frá Skógarnesi í Garða, þá þriðju frá Görðum í Arnarstapa og stundum þá síðustu frá Arnarstapa út fyrir jökul í Ingjaldshól eða Rif. Sjaldnar hef ég farið fjörurnar milli Snorrastaða og Hítarness og milli Hítarness og Syðri-Kálfalækjar, sem eru samtals ein dagleið.
Allt þetta svæði Löngufjara er með víðáttumiklu grunnsævi og leirum, sandfjörum og fitjum, eyjum og skerjum, blautum brokflóum, afar mikilvægt fyrir fjölbreytt fuglalíf, allt upp í eitt arnarpar nálægt Saltnesál. Tveir gamlir kaupstaðir voru áður fyrr á þessari leið og sést votta fyrir þeim, að austanverðu í Skógarnesi og að vestanverðu í Fram-Búðum. Hvítu og ljósrauðu fjörurnar vestan Melkots er bezt að ríða á útfallinu, því að þá eru þær blautar og harðar.
Eftir að fjörunum linnir að vestanverður, taka við áhugaverðir kaflar, fyrst Klettsgatan um Búðahraun, síðan Hraunlandarif fyrir Breiðuvík, Sölvahamar að Arnarstapa og svo kirkjustígur um Svartahraun norðan Dagverðarár, næst um opið land ofan við fornu kaupstaðina í Dritvík og Djúpalónssandi með góðri viðkomu í réttinni í Beruvík og loks aftur kirkjustígur norður um Prestahraun að Ingjaldshóli.
Lítið er riðið um bílvegi eða meðfram þeim á þessari leið allri. Fara þarf yfir þjóðveg 1 hjá Ferjukoti, þjóðveg 54 hjá Kaldármelum, meðfram sama vegi um 10 km leið frá Staðará að Görðum, og loks nokkrum sinnun yfir fáfarinn þjóðveg 574 á leiðinni út fyrir jökul.
Gætið þess að láta ekki ýta ykkur af Klettsgötu yfir á malbikaðan þjóðveginn, sem liggur himinhátt yfir landslaginu og er nánast ófær hestum á kafla. Klettsgatan er hefðbundin þjóðleið, sem harðar skeifur hesta bjuggu til á löngum tíma. Hestamenn eiga að nota þessa leið, en gott og skynsamlegt er að láta þjóðgarðvörð Snæfellsjökuls vita um ferðir ykkar í síma 436 6860. Stanzið ekki í Klettsgötu, til dæmis ekki við hliðið á vesturgirðingunni til að hafa hestaskipti, það getur leitt til traðks.
Gisting á Löngufjörum, sem hentar hestamönnum, er einkum þessi:
Grímsstaðir
Grímsstaðir, 35 km frá Hvanneyri, 35 km frá Snorrastöðum, vinsæll áningarstaður á leið manna vestur um Mýrar. Umsjónarmaður er Guðni Haraldsson í Borgarnesi, síma 892 3525. Á Grímsstöðum er gamalt íbúðarhús með dýnum fyrir 20 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1900 kr og fyrir hestinn 190 kr.
Snorrastaðir
Snorrastaðir, 35 km frá Snorrastöðum, 25 km frá Skógarnesi, helzti viðkomustaður hestamanna á Löngufjörum. Þaðan má ríða suður í Stóru eða vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Umsjónarmaður er hinn landskunni Haukur Sveinbjarnarson, síma 435 6627. Við gistihús hans er nú kominn heitur pottur. Gisting fyrir manninn kostar 2.000 krónur og fyrir hestinn 200 kr.
Stóri-Kálfalækur og Lindartunga
Aðrir gististaðir á svæðinu eru Stóri-Kálfalækur sunnan Akrafjöru, umsjónarmaður Sigurður Jóhannsson, síma 437 1822, 15 km frá Snorrastöðum; og félagsheimilið Lindartunga við Kolbeinsstaði, síma 435 6633.
Eldborg
Hótel Eldborg í Laugagerðisskóla á Kolviðarnesi, síma 435 6602, auglýsir pakka fyrir hestamenn með gistingu, morgunmat og kvöldmat í tvær nætur og aðstöðu fyrir hesta á 10.000 kr samtals. Að öðru leyti kostar þar gisting fyrir manninn 1.500 kr og fyrir hestinn 200 kr.
Skógarnes
Í Skógarnesi, 25 km frá Snorrastöðum, 35 km frá Görðum, er hægt að fá næturhólf fyrir hesta, en menn verða að fara annað í gistingu, til Eldborgar eða í Garða til dæmis. Umsjónarmaður er Trausti Skúlason, síma 435 6687. Aðstaðan kostar 200 kr fyrir hestinn.
Garðar
Gistihúsið Langaholt í Görðum í Staðarsveit, 35 km frá Skógarnesi, 35 km frá Stapa. Þar ráða ríkjum hin þekktu hjón, Svava Guðmundsdóttir og Símon Sigurmonsson, síma 435 6789. Gisting fyrir manninn kostar 2.200 krónur og fyrir hestinn 150 kr.
Lýsuhóll
Gistihúsið Lýsuhóll er annar kostur á sama svæði. Umsjónarmenn eru Jóhanna Ásgeirsdóttir and Agnar Gestsson, síma 4356716. Gisting fyrir manninn kostar um það bil 1.700 kr í 6.900 kr smáhýsum og útvegað er pláss fyrir hesta í nágrenninu á 150-200 kr.
Snjófell
Gistihúsið Snjófell á Arnarstapa hefur verið helzti áningarstaður hestamanna á leið áfram vestur fyrir jökul, 35 km frá Görðum, 35 km frá Rifi. Umsjónarmaður er Tryggvi Konráðsson, síma 854 5150. Umsjónarmaður hestahólfs hefur verið Þorkell Högnason, síma 853 7638, en hann hefur nú misst hagana í hendur sveitarfélagsins, sem hefur skipulagt þar sumarhúsabyggð.
Gíslabær
Gíslabær á Hellnum tekur 14 manns í gistingu og útvegar hagabeit fyrir nóttina, þó ekki fyrir marga hesta. Umsjónaraðili er Björg Pjetursdóttir, síma 435 6886. Gistingin kostar 2000 kr fyrir manninn.
Hellissandur
Hótel Hellissandur, 35 km frá Arnarstapa, hefur svefnpokapláss fyrir 13 manns í Gimli, síma 444 4940. Gistingin kostar 2.000 kr fyrir manninn. Sæmundur Kristjánsson hestamaður og sagnaþulur útvegar beitarhólf fyrir hesta, síma 893 9797, 436 6767.
Hreppaafréttir
ekki fyrir bíla
Afréttir Hreppamanna eru víðáttumikið skemmtilegt land með ýmsum áningarstöðum, sem ekki eru aðgengilegir þeim, sem ferðast um á bílum. Þar á meðal eru hin frægu Laxárgljúfur, ýmsir fossar í Þjórsá, svo sem Gljúfurleitarfoss og Dynkur, og vinjar undir Hofsjökli, svo sem Nautaver og Arnarfelli hið mikla. Á þessu svæði eru einnig Háifoss í Þjórsárdal og Kerlingarfjöll á Kili.
Góðir leitarmannaskálar varða hringinn um þetta fjölbreytta svæði. Sums staðar eru hreinar eyðimerkur, annars staðar grösugir hagar og náttúruundur. Verin milli Hofsjökuls eru kapítuli út af fyrir sig, fræg af deilum um virkjanir og stíflur, eins og fossarnir í Þjórsá, sem fæstir hafa barið augum og verða kannski von bráðar ekki nema svipur hjá sjón vegna fyrirhugaðra raforkuframkvæmda.
Gott er að byrja ferðina í Hólaskógi, því að þangað liggur vegur, sem er fær öllum bílum. Einnig er hægt að byrja niðri í byggð í Gnúpverjahreppi og ríða fyrsta daginn upp í Hólaskóg. Einnig er hægt að ríða frá Kaldbak í Hrunamannahreppi meðfram Laxárgljúfrum upp í Helgaskála. Í þessari leiðarlýsingu er gert ráð fyrir, að menn byrji í Hólaskógi og fari rangsælis um afréttir Hreppamanna.
Frá Hólaskógi liggur grösug leið yfir Sandafell og Skúmstungur og síðan um Starkaðarver og meðfram Hjallaverskvísl og Blautukvísl að skálanum í Gljúfurleit. Síðan liggur leiðin upp með Þjórsá, áfram að mestu um gróið land, framhjá fossunum Gljúfurleitarfossi, Dynki og Kjálkaversfossi að skálanum í Bjarnalækjarbotnum. Í öllum tilvikum þarf að taka krók af leiðinni niður að fossunum í Þjórsá. Þetta er hin gamla Sprengisandsleið.
Eftir Bjarnalækjarbotna er farið yfir árnar Miklalæk og Kisu og síðan meðfram Norðlingaöldu, þar sem skiljast leiðir. Önnur heldur áfram Sprengisandsleið í Tjarnarver, þar sem er áningarstaður þeirra, sem ætla í Arnarfell og kannski áfram yfir Þjórsá á Sprengisand. Hin liggur yfir eyðimörkina Stórasand framhjá skálanum Setrinu að Kerlingafjöllum. Þar er bæði hægt að fara suður fyrir eða norður fyrir, sem er heppilegra, ef menn ætla í sumarhúsahverfið í Ásgarði. Þá er farið um Illahraun, Kisubotna í 800-900 metra hæð, og í Jökulkrók, að lokum vestur fyrir Ásgarðsfjall.
Kerlingafjöll eru kapítuli út af fyrir sig, litskrúðugur heimur fjallstinda og smájökla. Jarðhiti er við áningarstaðinn, svo að þar er hægt að fara í sturtu og heitan pott, sem auðvitað hefur ekki verið hægt í neinum skálanna, sem undan hafa gengið og eftir eiga að koma.
Frá Ásgarði liggur liðin niður með Kerlingafjöllum vestanverðum, fyrst suður milli Skeljafells og Mosfells og síðan austur Hænsnaver og Miklumýrar í skálann í Leppistungum, síðan um vel gróið land niður með Sandá til skálans í Svínárnesi og loks að Helgaskála, sem er á krossgötum línuvegarins milli Hólaskógs og Tungufells annars vegar og leiðarinnar, sem hér hefur verið lýst.
Frá Helgaskála liggur leið suður Hrunaheiðar meðfram Laxárgljúfrum að Kaldbak, innsta bæ við Stóru-Laxá. Að öðrum kosti halda menn meðfram línuveginum frá Helgaskála að upphafsreitnum í Hólaskógi. Skömmu áður en komið er á leiðarenda er afleggjari að góðum útsýnisstað við Háafoss.
Gisting á afréttum Hreppamanna, sem hentar hestamönnum er einkum þessi:
Hólaskógur
Hólaskógur á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Helgaskála, 25 km frá Gljúfurleit. Umsjónarmaður er Sigurður Gröndal, síma 820 8784. Hér er nóg pláss og sturtur í nýjum skála. Gisting fyrir manninn kostar 1.600 kr og fyrir hestinn 295 kr.
Gljúfurleit
Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Hólaskógi, 20 km frá Bjarnalækjarbotnum. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 486 6014, umsjónarmaður skála Atli Eggertsson, síma 864 6119. Hér er pláss fyrir 20-30 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1.000 krónur og hey kostar 700 kr hver 15-16 kg baggi.
Bjarnalækjarbotnar
Bjarnalækjarbotnar á Gnúpverjaafrétti, 20 km frá Gljúfurleit, 25 km frá Tjarnarveri. Umsjónaraðilar, sjá Gljúfurleit. Hér er pláss fyrir 20 manns. Gisting, sjá Gljúfurleit, og hey kostar 750 kr bagginn.
Tjarnaver
Tjarnarver á Gnúpverjaafrétti, 25 km frá Bjarnalækjarbotnum, 15 km frá Setrinu og 50 km frá Kerlingafjöllum. Hér er pláss fyrir 10 í lélegum skála og 10 í innréttuðu hesthúsi, alls 20 manns. Umsjónaraðilar, sjá Gljúfurleit. Hér er pláss fyrir 20 manns. Gisting, sjá Gljúfurleit, og hey kostar 1000 kr bagginn.
Kerlingafjöll
Kerlingafjöll á Hrunamannaafrétti, 50 km frá Tjarnarveri, 25 km frá Leppistungum. Hér er nóg pláss. Umsjónaraðilar eru Páll í síma 892 5132 og Gunnar í síma 894 2132. Heitir pottar eru innifaldir í gistingarverði. Gisting fyrir manninn kostar eftir aðstæðum 2.000-2.300 kr og fyrir hestinn 350 kr.
Leppistungur
Leppistungur á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Kerlingafjöllum, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 480 6600 umsjónarmaður skála Guðbjörn Dagbjartsson, síma 486 6725. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostar 1.200 kr og fyrir hestinn 250 kr.
Svínárnes
Svínárnes á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Leppistungum, 25 km frá Helgaskála. Umsjónaraðilar, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn og hestinn, sjá Leppistungur.
Helgaskáli
Helgaskáli á Hrunamannaafrétti, 20 km frá Kaldbak, 25 km frá Svínárnesi, 25 km frá Hólaskógi. Umsjónaraðilar, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn og hestinn, sjá Leppistungur.
Laxárgljúfur
Ef riðið er niður með Laxárgljúfrum frá Helgaskála eru 25 km til byggða á Kaldbak. Þar er ekki gisting, en hægt að fá næturbeit fyrir hestinn á 250 kr. Símar þar eru 481 2633 og 893 6780.
Fegurst að
Fjallabaki
Fegurst samfellt svæði langferða á hestum er Fjallabak, svæðið umhverfis Heklu, Tindfjallajökul og Torfajökul. Þar er eins og fjöllunum hafi verið grýtt af tilviljun út og suður. Einna fegurst er á syðri leiðinni, þar sem Grænufjöll og Mælifell móta útsýnið nær og bunga Mýrdalsjökuls fjær. Þar er líka einn mesti skeiðvöllur landsins, Mælifellssandur, þar sem oft kemst feiknarlegt skrið á lausagönguhross, sérstaklega á austurleið, því að þau skynja, að indælar gróðurflesjur eru handan við næstu fjöll.
Allt er þetta svæði á virku gossvæði, þar sem frægastar eru Hekla og Katla. Önnur fjöll á svæðinu eru meira eða minna einnig gosstöðvar, tættar giljum, sem eru grafin af vatni og vindum, sumar hverjar klæddar mosa, sem gera þær fagurlega grænar. Örnefnin á svæðinu hæfa stórbrotnu landslagi, hér eru Einhyrningur og Emstrur, Hungurfit og Hvítmaga, Kaldaklof og Klámbrekka, Sauðleysur og Strútur.
Hestamannafélagið Fákur fór í sumar hringferð að Fjallabaki, fram og til baka frá Leirubakka í Landssveit, svipaða leið og margir hafa áður farið, austur Landmannaleið og vestur Fjallabaksleið syðri. Fyrstu nóttina var gist í Áfangagili undir skörðóttu Valafelli eftir stutta dagleið. Síðan var farin önnur stutt dagleið um Klofninga, síðan suður fyrir Sauðleysur og meðfram Helliskvísl í Landmannahelli.
Þriðja daginn var farinn Dómadalur, hjá Frostastaðavatni, sem er í 572 metra hæð, Ljótapolli, Norðurnámum og síðan framhjá Landmannalaugum norður fyrir Kirkjufell, um Jökuldali og Herðubreiðarháls, gegnum Eldgjá í skálann Hólaskjól í Lambaskarðshólum. Þetta var löng daleið um fagurt svæði. Frá Lambaskarðshólum er góður bílvegur til byggða í Skaftársveit.
Úr Hólaskjóli lá leiðin suður um Álftavötn og yfir Hólmsá norður fyrir Brytalæki og áfram inn í eyðimörkina að baki Mýrdalsjökuls, framhjá Háöldu, Mælifelli, frægu af ljósmyndum, og Brennivínskvísl inn á Mælifellssand, sem er í um 600 metra hæð og hann riðinn vestur að Kaldaklofskvísl. Farið var norður yfir hana á grýttu vaði inn í Hvanngil, sem er miðpunktur Syðri-Fjallabaksleiðar.
Fyrir sunnan allt þetta svæði er Mýrdalsjökull, þar sem Katla kraumir undir niðri, heldur sein til aðgerða að þessu sinni. Jarðskjálftarnir í jöklinum að undanförnu hafa einkum verið vestarlega í jöklinum, yfir Þórsmörk, sem eykur hættuna á, að hlaupið fari niður í Markarfljót í stað þess að fara niður Mýrdalssand, sem það hefur oftast gert undanfarnar aldir.
Næsta dagleið var um Álftavatn og undir Torfatindi, yfir Markarfljót að krossgötum í Króki, þar sem víðir vex í 550 metra hæð. Þar er hægt að fara vestur Reiðskarð í Hungurfit og síðan niður á Rangárvelli. Í þessari ferð var hins vegar farið niður vestan Markarfljóts að Emstrubrú og síðan niður í skálann Bólstað undir Einhyrningi. Afar fagurt og mikilúðlegt landslag er á þessari leið.
Þar á eftir var farið niður Fljótshlíðarveg og Markarfljótsaura að Goðalandi í Fljótshlíð. Þá voru eftir tvær stuttar dagleiðir í byggðum til baka um Vatnsdal, Gunnarsholt, Heklubraut og loks yfir Rangá að Leirubakka.
Skálar á Fjallabaksleiðum, sem henta hestamönnum, eru einkum þessir:
Leirubakki
Leirubakki, 25 km frá Áfangagili. Umsjónarfólk er Júlíus Ævarsson og Ólöf Eir Gísladóttir, síma 487 6591 og 862 8005. Hér er nóg pláss fyrir hestamenn og hesta þeirra. Gisting á reiðhallarlofti fyrir manninn kostar 1.400 kr og fyrir hestinn kostar 250 kr. Hópar geta tekið söngskálann á leigu fyrir 15.000 kr.
Áfangagil
Áfangagil, 25 km frá Leirubakka á Landi, 20 km frá Landmannahelli. Umsjónarmaður er Jón Gunnar Benediktsson í Austvaðsholti, síma 847 9123. Í Áfangagili eru 24 dýnur og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.500 kr og fyrir hestinn 300 kr.
Landmannahellir
Landmannahellir, 20 km frá Áfangagili, 45 km frá Hólaskjóli. Umsjónarmaður á sumrin er Guðni Kristinsson frá Skarði, síma 893 8407, á veturna Engilbert Olgeirsson í Nefsholti, sími 899 6514. Mikil aðstaða er í Landmannahelli í nokkru upphituðum húsum og einnig hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.600 kr, í tjaldi 550 kr, og fyrir hestinn 310 kr. Sturta kostar 200 kr og veiðileyfi 2.000 kr fyrir kvöldið.
Hólaskjól
Hólaskjól (öðru nafni Lambaskarðshólar), 45 km frá Landmannahelli, 40 km frá Hvanngili. Umsjónarmaður er Berglind Guðgeirsdóttir, síma 847 4577. Mikil aðstaða er í Hólaskjóli, þar á meðal hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1500 kr og fyrir hestinn 100 kr fyrir utan hey, sem kostar 8000 kr rúllan. 250 kr kostar að fara í sturtu.
Hvanngil
Hvanngil, 40 km frá Hólaskjóli, 25 km frá Bólstað um Markarfljótsbrú, 30 km frá Bólstað um Krók. Umsjónarmaður er Ferðafélag Íslands, sími 568 2533. Þar er stór skáli nýlegur og annar gamall, svo og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1600 kr á mann og fyrir hestinn 250 kr. Sturta kostar 300 kr.
Bólstaður
Bólstaður (öðru nafni Einhyrningur), 25 km frá Hvanngili um brú, 30 km frá Hvanngili um Krók, 30 km frá félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð. Umsjónarfólk er Auður og Jens Jóhannsson í Teigi, sími 487 8407. Hér eru 24 dýnur og hestagirðing. Gisting fyrir manninn kostar 1.000 kr. Hey er selt fyrir 2000 kr rúllan fyrir utan flutning, sem er 6000 kr á fimm rúllur hið mesta.
Goðaland
Goðaland er 30 km frá Bólstað. Þetta er félagsheimili Fljótshlíðinga við Kirkjulækjarkot. Umsjónaraðili er sveitarskrifstofan á Hvolsvelli og umsjónarmaður er Sigurður Eggertsson í Smáratúni. Þar er góð aðstaða, meðal annars sturtur. Gisting fyrir manninn kostar 1.100 kr og fyrir hestinn 200 kr.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 7.tbl. 2004