Við tökum á spattinu í vor

Hestar

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Fagráð í hrossarækt mun taka á spattinu á næsta sýningarári kynbótahrossa. Næstu fundir ráðsins munu fjalla um málið og væntanlega ljúka því fyrir áramót. Komin er til sögunnar dýrmæt þekking á spatti og arfgengi þess, sem gerir þetta kleift.

Ég tel sjálfur eðlilegast, að niðurstaðan verði, að öllum sex vetra stóðhestum verði að fylgja röntgenmyndir og umsögn, sem birt verði opinberlega.

Á alþjóðaráðstefnu dýralækna, sem haldin var á Selfossi í tengslum við landsmótið, kom fram, að almennt er talið vera 32-33% arfgengi í spatti, sem er mikið. Ennfremur kom fram, að með aðgerðum gegn spatti má draga tíðnina á fjórum kynslóðum hrossa úr 19% í 11%, sem er mikil framför. Í Hollandi hefur spatti nánast verið útrýmt sem vandamáli. Á ráðstefnunni kom almennt fram, að vísindamenn úr mörgum áttum eru sammála um spattið.

Svíar telja, að fjórar rétt teknar röntgenmyndir nægi til að sýna, hvort spatt er í hesti eða ekki. Við gerum ráð fyrir, að dýralæknar taki röntgenmyndir eftir ákveðnum reglum og að þær verði síðan sendar einum trúnaðardýralækni, sem túlkar þær, þannig að sams konar túlkun gildi um alla sýnda stóðhesta.

Margir hafa efasemdir um röntgenmyndir, en ég held, að reynslan eigi að tryggja okkur, að þessar myndir gefi okkur ekki villandi upplýsingar á næsta ári.

Ég hef ekki trú á boðum og bönnum í þessu efni frekar en öðrum þáttum hrossaræktar. Ég veit, að Hollendingar hafa bannað notkun spattaðra stóðhesta, en ég tel samt, að það nægi, að spilin liggi á borðinu, svo að hver hryssueigandi fyrir sig geti metið, hvort hann leggur meiri áherzlu á að forðast spattið eða að sækjast eftir öðrum eiginleikum stóðhesta.

Ekki þýðir að mæla stóðhesta mikið eldri en sex vetra. Spatt er öðrum þræði hrörnunarsjúkdómur, sem stóðhestar geta fengið á löngum tíma, þótt þeir búi ekki beinlínis yfir arfgengi. Það væri líka mismunun að mæla stóðhesta á ýmsum aldri. Bezt er, að það sé við sex vetra aldurinn fyrir alla stóðhesta og verði þá skylda. Það er hættulegt, ef sex vetra hestur er kominn með skugga.

Erlendir kaupendur íslenzkra hesta hafa margir afar miklar áhyggjur af spatti og munu vafalaust fagna því, að Íslendingar taka núna í alvöru á sjúkdóminum. Í Svíþjóð hafa íslenzkir hestar mælzt með óvenjulega háa heilbrigði að öllu öðru leyti en spatti, sem er þrisvar sinnum algengara í íslenzkum hestum en hestum af öðru tagi.

Ég tel, að krafan um röntgenmyndir af sex vetra stóðhestum muni einnig hafa áhrif á hryssur. Eigendur þeirra munu margir hverjir fá áhuga á að láta röntgenmynda sex vetra hryssur og gefa út niðurstöðurnar. Þannig getur framförin orðið hraðari en hún yrði, ef hún beindist eingöngu að stóðhestunum.

Fagráð kemur saman í október út af þessu. Það mun kalla til sérfræðinga, svo sem Þorvald Árnason frá Svíþjóð. Ennfremur mun vinnuhópur um heilbrigðisþætti koma að málinu. Síðan verður það sett í tæknilega úrvinnslu og stefnt að því, að niðurstöður um reglur liggi fyrir í desember. Þetta er í samræmi við ferli, sem fagráð ákvað fyrir rúmu ári.

Við stefnum í þessu efni að árangri, sem muni auka traust manna á góðu heilsufari íslenzka hestsins og efla stöðu hans á markaði. Átak gegn spatti er skref á þeirri braut.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 8.tbl. 2004