Kjölur: Þjóðbraut að fornu og nýju

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hveravellir

Hveravellir eru miðpunktur allra Kjalarferða, hvaðan sem þeir koma og hvert sem þeir fara. Þaðan liggja leiðir til allra átta. Þetta var þjóðleið Gizurar jarls og Kolbeins unga í herferðum þeirra og samráðafundum á Sturlungaöld. Þetta er ein af vinsælustu leiðum fyrirtækja í hestaferðum nútímans, enda víðast hægt að fara langt frá bílvegum. Heita laugin magnar gildi staðarins fyrir þreytta og rykuga hestaferðarmenn.

Í árbók Ferðafélagsins árið 2001 er Kili lýst þannig, að hann sé allt að 30 km breiður salur milli Langjökuls og Hofsjökuls og 50 km langur frá ármótum Jökulfalls og Hvítár að sunnan og ármótum Blöndu og Seyðisár að norðan. Allt er þetta land meira en 400 metra yfir sjávarmáli og reiðgata fer hæst í 600 metra hæð við Grettishelli á austurleið hins forna Kjalvegar.

Leiðirnar frá Hveravöllum liggja norður í Áfanga vestan Blöndu til að komast niður í Austur-Húnavatnssýslu, einnig yfir Blöndu norður í Ströngukvísl til að komast niður í Blöndudal austanverðan eða í Skagafjörð, þangað sem hinn forni Kjalvegur liggur

Þær liggja suður í Árbúðir til að komast vesturleið hins forna Kjalvegar niður í Biskupstungur vestan Hvítár og einnig suður um austurleið hans í Svartárbotna til að komast yfir Hvítá í Kerlingafjöll eða í Leppistungur áleiðis niður í Hreppa.

Og loks liggur leið norðvestur um Djöflasand og Krák til að komast um skálana í Fljótsdrögum og Álftakróki yfir í Borgarfjörð eða um Fellaskála norður í Vestur-Húnavatnssýslu.

Landið er ekki lengur gróið saman yfir Kjöl og menn gera ekki lengur þar til kola úr viði eins og í upphafi Íslandsbyggðar. Enn er þó jafn mikilfenglegt sem fyrr að ríða þessa leið, varðaða tveimur af helztu jöklum landsins og miklum fjöllum á borð við Bláfell, Hrútafell, Kerlingafjöll og Blágnípu.

Suður Kjöl

Tvær greinilegar reiðleiðir liggja frá Hveravöllum suður um Kjöl.
Önnur liggur með fjöllum í stóran sveig til vesturs umhverfis Kjalhraun, að mestu leyti um gróið land og að mestu leyti vörðuð. Þetta er falleg leið um Tjarnardali, Sóleyjardal og Þjófadali og síðan niður með Fúlukvísl undir rismiklu Hrútafelli og ávalri Baldheiði suður í Árbúðir. Rétt er að fara með laus hross austur fyrir Þjófadali, en ríða einhesta um dalina. Þessi dagleið er sennilega hin minnisstæðasta á reiðvegum á Kili og við hann, enda sú sem mest er farin.

Hin leiðin liggur beint til suðurs um greinilega og að mestu leyti varðaða reiðgötu yfir Kjalhraun vestan Rjúpnafells, framhjá Grettishelli í 700 metra hæð, Beinahóli Reynistaðabræðra og síðan austan Kjalfells í Svartárbotna, þar sem er kominn nýr skáli. Þriðja leiðin um Kjöl er svo nálægt bílveginum austan Kjalhrauns, sem hestamenn hafa dálítið farið síðustu árin.

Úr Svartárbotnum liggur leið til suðvesturs yfir á vestari Kjalveg til Árbúða. Önnur liggur til austurs yfir bílveginn og Kerlingafjallaafleggjarann á brúna yfir Jökulfall. Við hinn enda Jökulfallsbrúar skiptast leiðir og liggur önnur stuttan veg upp í Kerlingafjöll og hin lengri veg niður til byggða, fyrst um hrjóstrugt land og síðan niður í Miklumýrar um gróin heiðalönd í skálana í Leppistungum fyrst og síðan Svínárnesi, þaðan sem leiðin liggur áfram í Helgaskála. Þaðan er svo stutt dagleið vestan við hin miklu Laxárgljúfur, sem fáir hafa séð, niður að Kaldbak, innsta bæ við Stóru-Laxá, þar sem hægt er að fá haga.

Sé farinn sveigurinn frá Hveravöllum til Árbúða, liggur leiðin frá Árbúðum fyrst meðfram Hvítárvatni og síðan yfir Hvítárbrú, þar sem hestamenn beygja yfirleitt á hefðbundna reiðleið um blaut Lambafellsver austur fyrir Bláfell, en sunnan undir því er skálinn í Fremstaveri. Þetta er mun grónari og skemmtilegri leið en barningurinn við bílveginn um Bláfellsháls vestan Bláfells. Útsýni er hins vegar mikilfenglegra af hálsinum í góðu veðri. Frá Fremstaveri er farið að mestu um sendið og grýtt land til byggða í Kjóastöðum, efsta bæjar í Biskupstungum, þar sem hægt er að fá haga.

Norður heiðar

Góð leið, en ekki sjáanlega forn, liggur frá Hveravöllum vestan Blöndu og bílvegar um dæmigerðar heiðar Húnvetninga niður að skálanum við Áfanga, þaðan sem leiðin liggur áfram niður í byggðir Húnvetninga vestan Blöndu, fyrst í Friðmundarvötn og síðan annað hvort vestur í Vatnsdal eða norður í Svíndal í félagsheimilið í Dalsmynni, þar sem er gisting og hagi. Greið leið er til dæmis niður í bændagistinguna að Hofi í Vatnsdal, þar sem er gisting og hagi, og síðan áfram á bökkum Vatnsdalsár norður á Þingeyrar, þar sem er gott reiðland.

Hinn kosturinn á norðurleið er að fara hinn forna Kjalveg yfir vaðið á Blöndukvísl ofan við ármót Seyðisár og síðan yfir vaðið á Ströngukvísl ofan við Draugháls, fyrst í skálann austan Ströngukvíslar og síðan yfir Haugakvísl í skálann við Galtará. Langt er síðan ég fór þessa leið, en í minni mínu er hún skemmtileg og greið reiðleið fjarri leiðum bíla.

Frá Galtará liggja leiðir vestur yfir Blöndustíflu yfir í áðurnefndan Áfanga eða til innstu byggðar í austanverðum Blöndudal að Bollastöðum, þar sem er hægt að fá haga fyrir hross, og loks einnig tvær leiðir milli fjalla til Skagafjarðar. Í Kjalarferðum Eldhesta er farið frá Hveravöllum um Áfanga í Bollastaði, en í Kjalarferðum Íshesta er farið frá Hveravöllum um Ströngukvísl og Galtará í Hvíteyrar. Hvor leið hefur sína kosti.

Til Skagafjarðar er venjulega er farin nyrðri leiðin, hinn hefðbundni Kjalvegur um Mælifellsdal norðan Mælifells og þá komið niður að Hvíteyrum í Skagafirði, þar sem hægt er að fá hestahaga og ekki langt að láta flytja sig út í Varmahlíð til gistingar og sundlaugarferðar. Hin leiðin liggur sunnan Mælifells og er þá komið niður að Gilhaga í Skagafirði.

Um fyrsta fund Kjalvegar segir í Landnámabók frá þrælnum Rönguði, sem Eiríkur í Goðdölum í Skagafirði sendi á fjall til að leita landa:

“Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með þeirri er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá er nú heitir Rangaðarvarða. Þaðan fór hann aftur og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendingafjórðungs og Norðlendinga.”

Skálar

Fremstaver

Fremstaver undir Bláfelli, 30 km frá Kjóastöðum, 30 km frá Árbúðum á Kili. Umsjónaraðili er Bláskógabyggð, símar 486 8808 og 852 7258. Hér er pláss fyrir 28 manns. Gisting fyrir manninn kostaði í sumar 1.500 krónur. Hey var selt í böggum, líklega 300 kr á hest.

Árbúðir

Árbúðir á Kili, 30 km frá Fremstaveri, 20 km frá Svartárbotnum, 40 km frá Hveravöllum vestri leið, 25 km eystri leið. Umsjónaraðili, sjá Fremstaver. Hér er pláss fyrir 28 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Fremstaver.

Hveravellir

Hveravellir þjónustumiðstöð, leiðir til allra átta, 40 km frá Árbúðum vestri leið, 25 km eystri leið, 20 km frá Svartárbotnum, 25 km frá Ströngukvísl, 40 km frá Áfanga. Umsjónaraðili er Svínavatnshreppur, símar 452 7123, staðarsímar 452 4200 og 853 4685. Hér er nóg pláss, gamli skálinn einn tekur 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.700 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Áfangi

Áfangi ofan Svínadals, 40 km frá Hveravöllum, 25 km frá skálanum við Friðmundarvötn og síðan 25 km til viðbótar frá Dalsmynni í Svínadal og 35 km frá Hofi í Vatnsdal, 25 km frá Galtará, 40 km frá Bollastöðum í Blöndudal. Umsjónarmaður er Jón Gíslason, símar 452 7133, 853 6416 og 868 3750. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.800 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Galtará

Galtará ofan Blöndudals, 40 km frá Hvíteyrum í Skagafirði, 30 km frá Bollastöðum í Blöndudal, 25 km frá Ströngukvísl, 25 km frá Áfanga. Umsjónaraðili er Sigfús Guðmundsson, símar 853 0269 og 846 5545. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.400 krónur, hey var selt í rúllum, líklega 300 kr á hest.

Strangakvísl

Strangakvísl ofan Svínadals, 25 km frá Galtará, 25 km frá Hveravöllum. Umsjónaraðili, sjá Galtará. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Galtará.

Svartárbotnar

Svartárbotnar á Kili, 20 km frá Hveravöllum, 15 km frá Kerlingafjöllum, 20 km frá Árbúðum , 30 km frá Leppistungum. Umsjónaraðili, sjá Fremstaver. Hér er pláss fyrir 40 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Fremstaver.

Leppistungur

Leppistungur á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Svartárbotnum, 25 km frá Kerlingafjöllum, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili er hreppurinn, síma 480 6600 umsjónarmaður skála Guðbjörn Dagbjartsson, síma 486 6725. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir manninn kostaði 1.200 kr og fyrir hestinn 250 kr.

Svínárnes

Svínárnes á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Leppistungum, 25 km frá Helgaskála. Umsjónaraðili, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Leppistungur.

Helgaskáli

Helgaskáli á Hrunamannaafrétti, 25 km frá Kaldbak, 25 km frá Svínárnesi. Umsjónaraðili, sjá Leppistungur. Hér er pláss fyrir 30 manns. Gisting fyrir mann og hest, sjá Leppistungur.

Heiðajarðir

Vel staðsettar heiðajarðir, sem selja beit fyrir ferðamenn, sem fara á Kjöl eða koma af Kili eru m.a. Bollastaðir í Blöndudal, Hvíteyrar í Skagafirði, Kaldbakur í Hrunamannahreppi og Kjóastaðir í Biskupstungum.

Eiðfaxi 9.tbl. 2004