Ferðafélagið vinnur fyrir hestamenn

Hestar

Ásgeir Margeirsson, formaður Mannvirkjanefndar LH, og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands:

Ferðafélag Íslands vill auka og bæta sambúð og samstarf við hestaferðamenn, samtök hestamanna og fyrirtæki í hestaferðum, sérstaklega á svæðum, þar sem félagið er með starfsemi. Þessi stefna hefur verið mörkuð af stjórn Ferðafélagsins, sem vinnur nú að ákveðnum aðgerðum og endurbótum á tveimur stöðum til að bæta aðstöðu og aðgengi hestaferðamanna. Þetta eru Hvanngil og Hlöðufell.

Í Hvanngili á Fjallabaki syðra vill Ferðafélagið að hestaferðamenn viti, að þeir eru velkomnir þangað til áningar og dvalar. Skálavörðum verður gert kleift að vera hestamönnum til aðstoðar og upplýsinga. Reynt verður að merkja og greina hestaleiðir í nágrenni staðarins, bæta aðhald fyrir hesta á staðnum og koma upp betri hreinlætis-og svefnaðstöðu. Einnig viljum við leiða betur rekstrarhesta að hestagirðingunni með rafstreng.

Á Hlöðuvöllum við Hlöðufell hefur Ferðafélagið látið bora eftir vatni og tókst sú borun vel. Það undirbýr nú að koma fyrir dælu í borholuna, svo að þar verði nú loks nóg vatn fyrir menn og hesta. Hingað til hefur vatnsskortur háð næturgistingum hestamanna á þessum stað. Skálinn tekur 15 manns og þar er bæði gott gerði og stórt hestahólf. Þetta er í notalegri dagleið frá Skógarhólum, kjörinn áningarstaður fyrir hestamenn á leið frá höfuðborgarsvæðinu um Skógarhóla yfir í Biskupstungur, Hreppa og á Kjöl.

Þegar komin er reynsla á þessa tvo staði, mun Ferðafélagið endurmeta stöðuna og stefna að því að þróa aðra staði sem liggja vel við hestaferðum og þjálfa skálaverði upp í að vera betur í stakk búnir til að þjóna hestamönnum og merkja reiðleiðir í nágrenni þeirra. Ferðafélagið lítur á hestaferðamenn sem hverja aðra félagsmenn, viðskiptavini og samstöðuaðila í góðri umgengni um landið, sanna ferðamenn.

Ferðanefnd hestamannafélagsins Fáks, sem var upphafsaðili langra hestaferða á félagslegum grunni og hefur áratugum saman verið í forustu fyrir slíkum ferðum, hefur óskað eftir samstarfi við Ferðafélagið um gerð umhverfisstefnu, sem farið verður eftir í ferðalögum á vegum félagsins. Mun Ferðafélagið veita aðstoð með hliðsjón af eigin umhverfisstefnu.

Ferðafélagið á í góðum samskiptum við ýmsa aðila, sem skipta máli fyrir hestaferðamenn, svo sem Umhverfisstofnun, samtök ferðaþjónustunnar, sveitarfélög og umsjónaraðila hálendissvæða. Hvarvetna hef ég orðið var við, að ekki er litið öðrum og gagnrýnni augum á hestamenn en göngumenn á ferðum um landið. Markmiðið er að allir málsaðilar geti verið í góðu sambýli.

Í tengslum við það mun ég nýta mér tillögur, sem samþykktar voru á síðasta landsþingi hestamannafélaga um málefni, sem varðar hestaferðamenn. Mun ég ýta á eftir því, að Ferðafélagið taki slík mál upp á sína arma í samskiptum sínum við þessa aðila, sem ég nefndi, og aðra slíka, sem málin kunna að varða.

Þar á meðal eru atriði á borð við merkingu á æskilegum áningarstöðum og uppsetningu hornstaura, sem hestaferðamenn geta síðan tengt saman með bandi til að mynda gerði. Þetta getur verið bráðabirgðalausn meðan málsaðilar hafa ekki fjármagn til þess að gera varanleg gerði. Aðgerðir sem þessar eru öllum ferðamönnum til bóta og eru jákvæðar fyrir náttúruna og umhverfið.

Einnig er um að ræða stuðning við að koma leiðarpunktum reiðleiða á fjallvegum inn á reiðleiðakort Landmælinga Íslands á vefnum.

Ferðafélagið er félag, þar sem margir hestaferðamenn eru félagar. Við viljum benda hinum á að gerast félagar og fá þá í kaupbæti árbók Ferðafélagsins, sem er mikilvægt ferðagagn og stórfróðleg lesning fyrir alla, sem ferðast um landið. Auk þess býður Ferðafélagið upp á margþætta þjónustu og upplýsingagjöf sem nýtist öllum ferðamönnum, hestaferðamönnum og öðrum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 1.tbl. 2005.