Rauna- og gleðisaga hestakaupanda

Hestar

Sérstæðir persónuleikar

Jónas Kristjánsson:

Fyrsti hesturinn minn var klárhestur, hátíðlegur og fremur latur, hastur á brokki, ekki mikið gefinn fyrir að tölta, en lét sig hafa það með semingi. Hann tölti raunar nokkuð hágengt, en þó ekki lengi í senn nema hann væri á heimleið, en þá varð hann líka rokna viljugur. Raunar átti dóttir mín hann, fékk hann í eins konar síðbúna fermingargjöf vorið 1987 með öðrum hesti, sem var hins vegar lullari.

Félagarnir höfðu verið að velkjast um á markaði. Þetta hestaval var misheppnað, dæmigerð vond byrjun, fyrst fyrir hana og síðan fyrir mig, 47 ára gamlan byrjanda. Seljandinn var auðvitað bara að gera sitt bezta, en ofmat greinilega getu okkar og þolinmæði til að fást við erfiða hesta, sem tóku auðvitað of mikil völd af byrjendunum í sínar hendur, fóru jafnvel að bíta í vegkantinum, þegar þeim hentaði.

Lastið virkaði öfugt

Vinkona hennar vildi ári síðar eignast lullarann, þrátt fyrir varnaðarorð mín. Ég sat lengi með foreldrum hennar og rakti alla galla hestsins, en allt kom fyrir ekki. Því meira sem ég lastaði hestinn, þeim mun sannfærðari urðu þau um ágæti hans. Þetta er raunar eini hesturinn, sem ég hef selt um ævina, en ég veit altjend, hvernig á að selja hest. Kannski get ég haldið námskeið fyrir hrossabraskara.

Við gömlu hjóninn sátum þá bara uppi með klárhestinn og sex hesta hús, þegar dóttirinn nennti þessari vitleysu ekki lengur. Við vorum eina fólkið á landinu, sem átti bara einn hest í sex hesta húsi. Þetta var Kóngur, fæddur 1979, Þráðarson 912 frá Nýja-Bæ, Sörlasonar 653 frá Sauðárkróki, sótvindrauður hestur með stjörnu í enni, ættaður frá Blönduósi, undan óþekktri meri út af Stormi 521 frá Eiríksstöðum.

Hann var upphafið að ellefu reiðhesta flokki, þar sem allir eru enn á lífi. Þar sem þessir hestar hafa komizt í eigu okkar með margvíslegum og mismunandi hætti, en þó einkum fyrir tilviljun, getur verið lærdómsríkt fyrir aðra að læra af reynslu okkar og kannski varast vítin í sumum tilvikum. Þetta er sem sagt sagan um, hvernig tólf hesta hús var fyllt af sérvitringum, sem hentuðu okkur misjafnlega vel.

Hátíðlegur höfðingi

Bezta ráðið í langferðum var að halda sig í eftirreiðinni. Kóngur vildi ekki missa af lestinni og vaknaði til lífsins, þegar hann dróst aftur úr. Þá sætti hann sig við að tölta virðulega nokkuð lengi í senn á milliferð. Í rauninni er hann fremur hringvallarhestur en ferðahestur og var raunar einu sinni lánaður í keppni með skammlausum árangri. Hann var þá hátíðlegur. Mig minnir, að Sigurbjörn Bárðarson kalli svona hesta höfðingja.

Samt notaði ég hann ætíð í langferðum tvisvar eða þrisvar á sumri, t.d. yfir Sprengisand og nokkrum sinnum yfir Kjöl og Arnarvatnsheiði. Hann var dæmdur óvenjulega fótaslappur í vísindarannsókn á gömlum ferðahestum, en reyndist aldrei til vandræða, varð aldrei fótaveikur. Hann er nú kominn alveg óbilaður á eftirlaunaaldur og hefur það gott, 26 vetra gamall, í sveitinni, enginn nennir að ríða honum, að minnsta kosti ekki frá húsi.

Við keyptum þessa tvo hesta ódýrt í einum pakka af kunnum hestamanni. Mér þótti það samt löngu síðar maklegt, þegar ég frétti, að lullarinn var aftur kominn í hendur seljandans, sem þá var búsettur í Svíþjóð. Báðir þessir hestar eru dæmi um, að hestar geta lifað af í sambýli við manninn, þótt þeir séu lítt þjónustuliprir við óvana. Þeir ganga þá kaupum og sölum, því að alltaf má finna nýja aula.

Trukkur á tölti

Nú vantaði okkur hest handa konunni, svo að við gætum farið saman í hesthúsið. Jens Einarsson fann fyrir hana frekar ódýran hest, Stíg, fæddan 1980, Léttisson 600 frá Vík, sem var á aldur við Kóng, undan lítt þekktri meri í Mýrdalnum. Þetta var feiknalega mjúkur og þægilegur trukkur, hvort sem var á tölti eða brokki, lággengur og fótviss, mikill og feitur hestur, þindarlaus og áhugasamur á ferðalögum, akkúrat fyrir okkur.

Þessi dökkjarpi trukkur fékk í áðurnefndri rannsókn fína fótaeinkunn, en eigi að síður bilaðist hann um tvítugt í fótum og fór þá á ellilaun. Hann hafði þá verið í þjónustu okkar í hálfan annan áratug og aldrei misst úr ferðasumar, en var farinn að hrasa síðasta sumarið. Lengst af var hann foringi hópsins. Í ellinni hefur hann safnað svo miklu spiki á haustin, að hann hlýtur að lifa af veturinn, þótt matarlaus yrði.

Eingangshesturinn

Jens hafði um svipað leyti milligöngu um kaup á hesti fyrir mig. Álmur, fæddur 1987, fékkst hjá Þorkeli Steinari á Stóru-Ármótum, ættaður úr Landeyjum. Foreldrarnir voru lítt þekktir, en föðurafinn var frá Kirkjubæ, Reginn 866, á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman var af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Þorkell Steinar sendi mér raunar tvo hesta og sagði mér að velja. Báðir fóru þeir að Sigmundarstöðum sumarið 1991, þaðan sem við ætluðum í okkar fyrstu langferð á hestum fram og til baka yfir Arnarvatnsheiði. Annar heltist í haganum áður en lagt var af stað og er því úr þessari sögu, en Álmur lagði einn lagði af stað. Hann var í rekstrinum frá Sigmundarstöðum upp í réttina fyrir ofan Kalmanstungu, þar sem ég fór fyrst á bak honum.

Það skipti engum togum, að þessi fjögurra vetra rauðglófexti Kirkjubæingur tók milliferð og tölti með mig dagleið upp í Álfakrók, þar sem við biðum lengi dags eftir samferðafólkinu. Ljóst var, að hann taldi sig jafnan mér í goggunarröðunni, vildi ráða gangi og hraða, en ég mátti ráða kompásnum. Ég hef að mestu leyti sætt mig við þetta, en reyni að ríða honum lítið í þéttbýli, því að hann hleypur á aðra hesta, sem eru fyrir.

Tók mig með trompi

Hann hefur allar gangtegundir hreinar eins og litina hjá Ford, svo framarlega sem þær eru yfirferðartölt. Hann hefur að vísu ekki fengizt til að brokka og sjaldan til að feta, en einu sinni lét Bjarni Eiríkur Sigurðsson hann skeiða. Mér var hins vegar ráðlagt að láta það eiga sig, af því að töltið er svo fínt. Hann hefur borið mig eins og dúnsæng um fjöll og firnindi. Þessi erfiði hestur tók mig með trompi.

Því miður fékk hann mörgum árum seinna kvíslbandsbólgur í þrígang með nokkurra ára millibili, sem endaði með því, að hann fór á eftirlaun í haust, aðeins 17 vetra, að vísu aftur orðinn óhaltur eftir lækningu. Ég hélt þá, að ég mundi hætta í hestamennsku, svo nátengdur er þessi hestur orðinn mér, hefur verið minn aðalhestur í öllum hestaferðum til þessa. Þótt ég hafi komið á marga góða hesta síðan, jafnvel verðlaunahesta, hef ég ekki fundið jafningja hans.

Eitt sérkenni þessa hests, að ekki er hægt að teyma á honum, en sjálfur er hann ljúfur í taumi. Ég nota hann til að hengja þriðja hestinn utan á, því að Álmur er alltaf á sama stað, við hæl, hvað sem þriðji hesturinn ólmast. Ef hins vegar ég ætla að teyma á honum sjálfum, verður hann alveg ólmur og óreiðfær. Þetta er því ekki einvörðungu streita, heldur meira í ætt við vilja og kappsemi.

Dýralæknirinn bjargaði

Um svipað leyti kom í hesthúsið grár hestur ættlítill, sem tengdadóttir okkar, Katrín dýralæknir, keypti á Krossi í Landeyjum, einhver ferðafúsasti hestur, sem ég veit um. Hann afsannar kenningu Jens Einarssonar um, að hestum leiðist að ferðast. Kári er alltaf til í tuskið, en nennir stundum ekki að tölta langtímum saman og hrekkur þá í brokk. En hann er alltaf jafn kátur og ötull, á alltaf eitthvað eftir.

Kári er fæddur 1986, með Fönix 903 frá Vík og Hrímni 585 frá Vilmundarstöðum að öfum, mjallhvítur og sumarfagur, en hefur á veturna þann leiða sið að sækjast eftir að velta sér upp úr skít. Hann lenti hjá mér í slysi, er hestakerra valt á malbikuðum þjóðvegi eitt á Kjalarnesi. Fjórðungur af hófi skarst af og hefði illa farið, ef ekki hefði verið aðgangur að teygju fyrir farangursgrind til að stöðva blóð. Eigandinn hjúkraði hestinum í heilt ár með daglegum skiptum á sárabindum.

Síðan er liðinn áratugur og hófurinn er farinn að líkjast venjulegum hófi. Samúðin, sem hesturinn fékk í erfiðleikum sínum hafði svo þau hliðaráhrif, að hann varð dálítið heimtufrekur á fóðurmola. Það er skammt í gæludýrið í reiðhestum, ef fólk gætir sín ekki í góðseminni. Mér sýnist það raunar vera víðar vandamál en hjá mér, að ekki er gott að fá þriðjung af tonni í fangið til að biðja um mola.

Kári er djúpsyndari en aðrir hestar, raunar óþægilega. Í Fáksferðinni 1996 vorum við á Þingeyrum að leika okkur að sundríða í sumarhita. Ég var óviðbúinn á Kára. Hann synti svo djúpt, að það flaut ekki bara yfir bakið, heldur yfir hálsinn líka og á endanum stóðu nasirnar einar upp úr. Ég hélt, að ég væri að drekkja hestinum og fleygði mér af baki, en hesturinn hélt áfram að synda með þessum einstæða hætti, sem örugglega hentar ekki í jökulfljótum.

Þóttafullur Sörlahaus

Næstir í röðinni voru tveir öflugir hestar. Annan keypti ég handa sjálfum mér af Einari á Skörðugili, var raunar lengi búinn að fala hest af honum. Skemmst er frá því að segja, að það tók Einar tvö ár að finna í stóði sínu hestinn, sem hann seldi mér á sanngjörnu verði og sagði allt nákvæmlega satt um hestinn. Síðar gaf ég konu minni þennan hest og varð hann fljótlega uppáhaldshesturinn í hennar gengi.

Þetta er brúnn hestur, Prúður, fæddur 1987, undan Sörla 654 frá Sauðárkróki og Prúði 6285, undan Skó 823 frá Flatey, feiknarlegur ferðahestur með svo langstígu tölti á ferðalögum, að hestar hafa ekki við honum á stökki og skeiði. Hann sparar þá lyftinguna, en getur lyft á hringvelli, enda notaði sonur Einars hann til keppni, þegar hann var í skóla úti á Króki. Prúður hefur Sörlahaus með kunnuglega köldum þóttasvip.

Stundum hefur komið upp í honum kergja, þegar farið er frá húsi. Hann skýtur þá upp kryppu og höktir af stað. Eftir nokkur skref hrekkur allt í lag. Engar mælingar benda til, að líkamlega sé neitt að hestinum, hann virðist bara vera með þennan löst, sem kemur fram suma vetur, en ekki aðra. Á sumrin er þetta hreinn öndvegishestur, allra hesta beztur á þindarlausum yfirferðargangi, fyrirmynd annarra hesta á ferðalögum.

Urrandi hestur

Hinn hesturinn kom til skjalanna á sérkennilegan hátt. Ég var á langferð í Kelduhverfi, þegar bóndi í héraðinu, sem reið með hópnum, vildi prófa hnakkinn minn. Ég fékk að prófa hestinn hans á meðan. Ég sá strax, að þetta væri gullmoli fyrir bakveika konu, svo mjúkur var hann á töltinu, falaði hestinn og við urðum sáttir um kaupin, ef Kristín kæmi norður til að prófa og segði til um, hvort hún vildi eiga þennan jarpa hest.

Hún fór norður og beið með húsfreyjunni í kaffi eftir bónda, sem kom með hestinn bullsveittan í taumi. Hún fór á bak og féll fyrir hestinum eins og ég. Hesturinn var sendur suður með fyrstu ferð. Hann var faxmikill og mikilúðlegur og urraði, þegar hann kom af bílnum. Því fannst mér ráð að prófa hann sjálfur fyrst. Það gerðist nokkrum dögum síðar, að ég reið þessa hefðbundu leið Fáksmanna niður að stíflunni í Elliðaánum.

Á leiðinni mættum við manni á hjóli. Þá snarsneri hesturinn og rauk til baka. Ég mátti hafa mig allan við að haldast á baki. Eftir 200 metra róaðist hesturinn og við mættum Magnúsi Norðdahl. Hvaða hestur er þetta, spurði hann. Þetta er nú eiginlega frúarhesturinn, sagði ég. Þá glotti hann og sagði: Er þér eitthvað illa við hana? Enda kom á daginn, að það tók hana tíma að venjast hesti, sem urraði eins og ljón.

Þetta er sannur Víkingur, fæddur 1987, sonur Leós 975 frá Stóra-Hofi, elzta ættbókarsonar Dreyra 834 frá Álfsnesi og merar af Hindisvíkurkyni frá Polda í Hreðavatnsskála. Hann er orðinn afar þægur við Kristínu, en hendir öðrum af baki, jafnvel máttarstólpum í þjóðfélaginu, ef hann er ekki sáttur. Hann gæti sjálfsagt tölt undir hnakki þindarlaust heilu dagana, án þess að blása úr nös, blæs raunar aldrei úr nös og er alltaf til í eltingaleik við óþæg hross.

Einhvern grun hafði bóndinn um, að ekki væri allt í lagi með þessi viðskipti með ljónið, enda hringdi hann til að kanna, hvort við vildum ekki heldur fá aðeins dýrari hest, sem væri betri í umgengni. Sá hestur kom raunar suður, en reyndist latur og heimþrár, svo að hann fór til baka. Víkingur komst hins vegar smám saman í uppáhald hjá okkur hjónum, feitari en aðrir hestar og þekkir ekki þreytu á ferðalögum.

Klikkaður fyrir mína tíð

Síðastur hestanna í fyrra reiðhestagengi okkar er eldrauður Logi frá Húnavöllum, með Hervar 963 frá Sauðárkróki og Sleipni 785 frá Ásgeirsbrekku að öfum. Hann er alger sprengja, sennilega orðinn klikkaður löngu fyrir mína tíð. Ég veit ekki, af hverju mér datt í hug að kaupa hann, því að hann hafði aðeins einn gang, roku á tölti. Hann hefur lítið lagazt með aldrinum, en sættir sig þó við að feta, þegar ég vil það. En hann vill helzt ekki annað tölt en fótvisst yfirferðartölt.

Eins og Álmur er Logi svo erfiður í umgengni, að ekki er hægt að teyma á honum, en teymist sjálfur vel. Þessir hestar valda mér erfiðleikum í svokölluðum teymingaferðum, en eru gallalitlir í rekstrarferðum. Sérstæður persónuleiki þessara hesta bætir mér upp vandamálin. Það fer oft svo, að erfiðir og sérstæðir hestar verða manni minnisstæðari en nánast fullkomnir hestar, sem hlýða nákvæmlega hverri beiðni.

Á ferðalögum er þetta átakahestur, viljugur og þolgóður töltari. Sumarið 2002 misstum við 45 hesta frá Langavatni yfir Staðartungu og Langá vestur um Hraundal niður að afréttargirðingu við Svarfhólsmúla, um 18 km leið. Við vorum þrír í þessum eltingaleik, hörkutólin Hannes flísari Einarsson og Jón lögmaður Egilsson. Ég missti dýnu undan hnakknum og félagarnir misstu skeifur. Allan tímann tölti Logi á hundraðinu, yfir hraun, fjöll, ár, hvað sem var.

Logi er dæmi um, hversu erfitt er að meta hest. Í rauninni hefur hann alltaf verið ómögulegur sem reiðhestur, af því að hann tekur engri kennslu, hvorki frá mér né færari mönnum. Hins vegar get ég ekki hugsað mér neinn hest, sem hentaði mér betur í svaðilförum á sumrin, þegar allt er undir hestinum komið, hvort maður nær áfanga eða öðrum árangri. Hann virðist vera gersamlega þindarlaus á töltinu.

Skeiðari eða símastaur

Við gerðum nú hlé á hestakaupum, enda hestarnir orðnir sjö og við því sæmilega hestuð til ferðalaga. Nokkrum árum síðar kom skriða af yngri hestum, sem eiga að taka við hlutverki hinna, sem eru farnir að verða tvítugir. Við kaup á þessum nýju hestum, sem urðu fimm talsins, nutum við leiðsagnar og milligöngu Helga Leifs Sigmarssonar, sem um leið kenndi okkur á hestana, sem flestir voru keyptir yfir getu.

Fyrstan má nefna brúnan skeiðara, Garp frá Dýrfinnustöðum, fæddan 1990, undan Hrafni 802 frá Holtsmúla og ættbókarfærðrar Hofstaðamerar. Hann keypti ég sérstaklega til að læra á skeið. Jafnframt notaði Helgi hann sjálfur um skeið í keppni, þar á meðal í úrtöku í gæðingaskeiði fyrir heimsleika, fékk eitthvað af verðlaunum, en í rauninni var hesturinn of stressaður til að vera keppnishestur. En hann átti að breyta mér í reiðmann.

Margan daginn fórum við Helgi saman í reiðtúr til að kenna mér að liðka hestinn, fá hann til að brokka, fá hann til að halda takti á tölti og fá líka úr honum þessa feiknarlegu skeiðspretti, sem eru toppurinn á tilverunni. Þetta var mikið basl, fyrst og fremst af því að ég verð seint talinn vera næmur nemandi. Allt tókst þetta loksins, ég get hin síðari árin haldið honum til brokks og tölts eftir þörfum.

Fyrstu veturna kom Garpur á hús eins og símastaur af útigangi, svo stirður, að hann gat ekki beygt, bara hrökkvið í beygjum. Smám saman fór hann að lagast og í vetur kom hann á hús í því formi, að hann gat beygt á tölti og brokki og haldið tölti óþvingað í langan tíma, án þess að hafa farið í beygjuæfingar. En fyrir mig var nýjung að komast í tæri við hest, sem hefur lull að frígangi og hrekkur í lull, þegar klárhestar hrökkva í brokk.

Einfaldur stólpagripur

Í sárabætur fyrir þessa erfiðleika keypti ég næst auðveldan hest frá Flagbjarnarholti, Gauk, rauðan hest, fæddan 1993, með Anga 1035 frá Kirkjubæ og Riddara 1004 frá Skörðugili að öfum. Hann minnir á Prúð, er stór hestur, býr yfir skeiði, þægilegur í umgengni og orðinn stólpahestur til ferðalaga, seinþreyttur á tölti. Stundum hefur hann tekið upp á að basla, en hefur svo jafnóðum hætt því aftur, þegar tekið hefur verið af festu á vandanum.

Kraflarssyni fer fram

Ungan Prins, fæddan 1994, fengum við frá Brynjari á Feti, Kraflarsson 1283 frá Miðsitju, móðurafi er Þröstur 908 frá Kirkjubæ. Hann var stór og fallega rauðmjóblesóttur, heldur seinþroska og latur til að byrja með. Auk þess var hann stundum með frekjulæti, lullaði gjarna nokkur spor í upphafi dags. Hann efldist hins vegar í ferðum og varð að lokum sterkur og viljugur hestur, sem hætti öllum ósiðum og fyrir löngu farinn að tölta faglega.

Hágengi dansarinn

Lokahesturinn er Djarfur frá Kálfhóli, fæddur 1991, sonur Topps 1102 frá Eyjólfsstöðum, rauðstjörnóttur, litill og liðugur dansari með öllum gangi, jákvæður og viljugur, erfiðislaus með öllu, enda dýrast keyptur. Stundum hefur Arna Rúnarsdóttir keppt á honum. Hans galli á ferðalögum er, að hann kann ekki að haga fótlyftu eftir aðstæðum eins og Prúður og þreytist því nokkuð fljótt. Raunar er hann meiri sýningarhestur en ferðahestur.

Hamingjurík þrautasaga

Þetta er sagan af hestakaupum okkar hjóna. Við höfum eins og margir fleiri átt í erfiðleikum með að finna réttu hestana, höfum stundum keypt of ódýra hesta, sem við höfum síðan þurft að glíma við. En á móti því kemur ánægjan, sem fylgir því að hafa getað gert hest betri en hann var. Þannig hafa hestar, sem rauverulega var platað inn á okkur, reynzt okkur hinir mestu hamingjugjafar, þegar við höfðum fundið lagið.

Öll er þessi saga mörkuð af þörfum okkar, sem eru sumpart aðrar en ýmissa annarra, af því að við höfum lagt svo mikla áherzlu á hæfni hestanna til ferðalaga. Við höfum litið á öndverðan veturinn sem þjálfunartíma fyrir sumarferðir. Þegar hestur getur tölt á milli- og yfirferð kringum Elliðavatnið án þess að stoppa, telzt hann útskrifaður úr vorskólanum, tilbúinn til að fara í sumarbeit og að takast í ferðum á við firnindin.

Þið hafið kannski tekið eftir, að allir þessir hestar eru geldingar. Það er meðvituð ákvörðun okkar, eftir að hafa verið í sambýli með hryssueigendum í hesthúsi. Það er nóg að hafa eina dellu, þótt við tvöföldum hana ekki með því að fara í ræktun!

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 3.tbl. 2005