Hesturinn minn

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Hesturinn minn

Á bak Álmi kom ég fyrst við hraunréttina í Kleppahrauni norðvestan við Strútinn. Það var sumarið 1991 í Tvídægruferð með Reyni Aðalsteinssyni á Sigmundarstöðum. Fjögurra vetra unghesturinn byrjaði að dansa dúnmjúkt tölt um leið og ég var kominn á bak og renndi sér á fulla ferð í átt til öræfanna.

Álmur leyfði mér að stýra, en vildi sjálfur ráða hraða og gangi. Aldrei fataðist honum taktvisst töltspor, þótt yfirferðin væri svipuð öðrum hestum á stökki. Þegar hann var kominn um það bil 20 metra fram úr samferðahestunum, slakaði hann á sér og valsaði áfram á góðri milliferð, reistur og stoltur.
Álmur leit ekki við Surtshelli, en fékkst loks til að stanza í Vopnalág.

Síðan tók við grýttur og seinfarinn áfangi yfir Þorvaldsháls að Helluvaði á Norðlingafljóti. Hann fékkst til að slá örlítið af hraðanum í grjótinu, en var ekki til viðtals um að gera sér hlaupin léttari með því að færa sig úr taktföstu danstölti yfir í traust brokk eða skeiðlull.

Álmur var kominn í mínar hendur fyrir tilviljun. Af Þorkeli Steinari Ellertssyni á Ármótum hafði ég keypt hest, sem ég var ekki viss um, að ég kynni við. Þorkell sagði mér að prófa hestinn betur á ferðalagi og taka með mér annan hest frá sér til viðbótar. Gæti ég þá að loknu ferðalagi valið hvorn, sem ég vildi heldur. Fyrri hesturinn heltist raunar og fór aldrei í ferðina. Síðari hesturinn er Álmur.

Hann er rauðglófextur og faxmikill, svipfríður og nettbyggður, ættaður úr Landeyjum. Föðurafi hans er lítt þekktur Kirkjubæingur, Reginn 866, sem er á ýmsa vegu út af Ljúfi 353 frá Hjaltabakka. Móðurafinn er þekktur skeiðgarpur, Fönix 903 frá Vík, af Svaðastaða- og Stokkhólmaættum. Móðuramman er Sunna, hryssa af hinu óstýriláta Stórulágarkyni, undan Hrafni 583 frá Árnanesi.

Frá Regin hefur Álmur sennilega litinn og fegurðina, frá Fönix teygjuna í vöðvunum og frá Hornfirðingunum í Árnanesi og Stórulág hefur hann örugglega óbeizlaðan kraftinn og úthaldið.

Álmur sá um, að gera mér ferðina ógleymanlega norður Tvídægru og Grímstunguheiði og síðan suður aftur um Haukagilsheiði. Ég sé hann enn fyrir mér eða finn frekar, hvernig hann fer reistur og stoltur fyrir hópnum góða götu létta á fótinn fram eftir Haukagilsheiði. Alltaf dansandi og alltaf áreynslulaust.

Snemma þótti fólki ráðlegt, að ég gluðaði ekki út og suður á þessum hesti, heldur riði settlega eins og góðborgara sæmir, sérstaklega í fjölmenni um helgar að vetrarlagi í Víðidal. Ekki gekk það vel, því að Álmur vildi enn ráða ferðahraða og skeytti engu, hvort hestar yrðu í vegi hans. Hann hljóp bara aftan á þá og hratt þeim til hliðar. Urðum við af þessu óvinsælir að makleikum.

Leitaði ég þá ráða hjá einum þekktasta tamningamanni og reiðkennara landsins. Réð hann mér að fara með hestinn í þröngt hringgerði og láta hann hamast þar, unz ofsinn rynni af honum. Prófaði ég þetta, en gafst fljótlega upp, því að Álmur varð hálfu trylltari af þrengslunum, gnísti tönnum og ólmaðist.

Stefán Pálsson bankastjóri hefur dálæti á Hornfirðingum og mikla reynslu af þeim. Hann sagði mér að reyna ekki að kúga Álm til hlýðni, ekki þrengja að svigrúmi hans og ekki fara mikið á honum í fjölmenni að sinni. Við skyldum heldur fara einir saman langar ferðir upp í heiði og gefa okkur góðan tíma. Helgi Leifur Sigmarsson tamningamaður bætti við, að ég skyldi fara nokkrum sinnum af baki, ganga með hestinum góðan spöl og tala við hann.

Ég fór að ráðum Stefáns og Helga Leifs. Smám saman róaðist Álmur nógu mikið til þess, að við urðum okkur ekki til skammar í fjölmenni. Hann hefur hins vegar aldrei sætt sig við að vera ekki fremstur í flokki, þar sem margir fara saman. Hann sættir sig þó við að hafa annan sér við hlið í hópreið. Við rekstur er hann enn ónothæfur í eftirreið.

Lengi vel var tölt eini gangur Álms. Hann byrjaði meira að segja að dansa tölt í kyrrstöðu, þegar farið var á bak. Helgi Leifur kom honum þó á brokk með ærinni fyrirhöfn, en ráðlagði mér að vera ekki að eyða mikilli orku í það. Hann sagði, að þessi hestur væri bara til í einu eintaki og ég skyldi láta mér það vel líka.

Til að sýna mér ganghæfni Álms lagði Bjarni Eiríkur Sigurðsson skólastjóri hestinn á tilþrifamikið flugaskeið fyrir hrifna áhorfendur við Brennistaði í Flókadal sumarið 1992. Síðan hefur hesturinn ekki verið skeiðlagður, enda hef ég ágætan hest til þess, rólegan, traustan og kraftmikinn skeiðara.

Tilraunir okkar til stökks enduðu með skelfingu meðfram Suðurlandsvegi andspænis Rauðhólum. Á ofsahraða rak Álmur hófinn í stein og kútveltist. Ég lá óvígur eftir í vegkantinum. Á Slysadeild kom ég með hægra lærið tvöfalt af innri blæðingu og var sett í það frárennslislögn. Ekki hefur sú gangtegund verið prófuð frekar.

Síðan lærði Álmur að feta, sérstaklega í upphafi reiðar. Nú er svo komið, að hann er sáttur við að feta af stað frá hesthúsi og hita sig þannig upp fyrir dansinn. En hann kærir sig ekki um að vera truflaður af öðrum hestum. Þá fer hann fljótlega að dansa innra með sér og leita eftir tölti.

Smám saman höfum við Álmur sætt okkur hvor við annan eins og við erum. Ég fæ að ráða mestu um, hvort fetað sé eða tölt. Hann fær að ráða mestu um hraðann. Ég fæ að ráða áttinni og hafa hófleg áhrif á hraðann. Við erum ekki vinsælir í eftirreið, en erum góðir í að ná upp hraða í forreið.

Við höfum séð mikið af landinu á sumrin, Kjöl og Sprengisand, allar húnvetnsku heiðarnar og Tvídægru, Gnúpverjaafrétt og Arnarfell hið mikla. Alltaf er Álmur jafn léttur og fimur, reistur og stoltur, ör og harðfenginn. Alltaf er hann svo mjúkur í gangi, að hann er hvíld frá öðrum hestum, þótt góðir séu.

Álmur er ekki líkur neinum hesti, sem ég hef kynnzt. Í eigu okkar hjóna eru fjórir úrvals töltarar, sem hafa vel við honum á yfirferðinni, og er einn þeirra einnig vakur og annar flugvakur. En eðli þeirra er annað og rólegra, þeir dansa ekki í kyrrstöðu og þeir taka tillit til aðstæðna og ábendinga.

Álmur er styggur og fer undan í flæmingi, þegar á að beizla hann. Svo ákveður hann skyndilega, að hann hafi sýnt nægt sjálfstæði að sinni og stendur grafkyrr, meðan hann er beizlaður. Það er meira að segja hægt að setja hnakkinn á, áður en hesturinn er beizlaður.

Í fyrstu var Álmur einrænn og lítill fyrir sér í hesthúsi, vék fyrir öðrum hestum og vildi fá að vera í friði. Smám saman hefur hann þó fetað upp goggunarröðina og er nú, tíu vetra gamall, orðinn leiðtogi hópsins án þess að vera með nein læti við aðra hesta. Yfirleitt líður honum vel á húsi, er hreinlátur og glansar á feldinn, en beinir oft höfðinu til fjalla og bíður eftir sumri.

Raunar held ég, að Álmur sé af öðru hestakyni, sennilega af því kyni, sem þjóðsögur segja, að sé með álfum. Kannski fæ ég að fara með honum, þegar hann langar til að leita á slóðir upprunans. Ég reyni því að koma mér í mjúkinn hjá honum.

Úrval 3. hefti 1997