Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Amsterdam á hótelunum.
Hollensk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í góðu lagi. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri eða sturtu.
Í öllum tilfellum setjum við það skilyrði, að sími sé í herberginu.
Helst viljum við búa í gömlu húsi með útsýni út á eitthvert síkið, varðað trjám, til þess að hafa Amsterdam fyrir augunum, einnig þegar við hvílum okkur. Um leið viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum, þótt þau snúi út að síkisgötu.
Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að unnt sé að ganga í rólegheitum í 17. aldar andrúmslofti til allra áhugaverðustu staðanna. Leigubílar eru ekki á hverju strái og bílstjórar aka sumir eins og brjálaðir menn milli umferðarhnúta.
Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynst okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá Fl. 135 fyrir tvo með morgunverði, upp í Fl. 610 fyrir tvo með morgunverði. Öll prófuðum við veturinn 1991-92 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult.
Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum verðflokki.
Ambassade
Hótelið „okkar“ í Amsterdam er Ambassade. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi er það vel í sveit sett, nálægt miðju borgarkortsins á bls. 12-13. 1 öðru lagi er það ódýrt, miðað við gæði, kostar Fl. 250, meðan jafnfín hótel kosta yfir Fl. 350.
Mikilvægast er þó, að Ambassade gefur hótela bezt næma stemmningu 17. aldar heimilis auðugs kaupmanns. Það er aðeins búið 46 herbergjum, svo það er nánast heimilislegt, fullt af gömlum húsgögnum.
Öldruð gólfklukka í fallegu anddyri gaf vonir um framhaldið, sem magnaðist í setustofu persateppis og fornminja og einfaldari morgunverðarstofu á tveimur gólfum uppi á annarri hæð. Þaðan er fallegt útsýni yfir virðulegt Herengracht síki.
Starfslið og eigendur voru sérdeilis vingjarnlegir. Þeir létu næturhröfnum í hópi gesta í té útidyralykil, svo að þeir þyrftu ekki að trufla aðra við heimkomu.
Herbergi nr. 28 er uppi á fjórðu hæð, heil húsbreidd með góðu útsýni yfir síkið úr þremur stórum gluggum. Það er stórt og var meðal annars búið gamalli kommóðu og gömlum borðstofustól og tveimur voldugum hægindastólum. Þriðja rúmið í herberginu var fellt upp að vegg. Baðherbergið var fullflísað og hið vandaðasta að búnaði.
Héðan eru ekki nema 500 metrar til Dam og 800 metrar til Rembrandtsplein og Leidseplein. Betri getur staðsetningin tæpast orðið.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 250 með morgunverði.
(Ambassade, Herengracht 341, sími 626 2333, fax 624 5321, telex 10158, B3)
Classic
Eitt af þremur öðrum uppáhaldshótelum okkar er Classic, í göngugötu að baki Nieuwe Kerk, aðeins 80 metrum frá aðaltorginu Dam. Það er nýtízkulega innréttað í gömlu genever-brugghúsi við hlið smakkstofunnar Drie Fleschjes.
Þrátt fyrir nálægðina við ys og þys stórborgarinnar, er þetta hljóðlátt og rólegt hótel, en of hljóðbært er milli herbergja. Flest er lítið við þetta hótel. Það hefur lítið anddyri með litlum bar og setukrók, opið inn í morgunverðarsal. Herbergin eru aðeins 33 að tölu og verðið lágt.
Það eina, sem ekki var lítið, var sjálft herbergið nr. 110. Það var fremur stórt, hafði glugga til tveggja átta og var búið samstæðum reyrhúsgögnum af vandaðasta tagi. Enginn var minibarinn, en hins vegar hin ágætasta kaffivél. Baðið var fullflísað.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 225 með morgunverði.
(Classic, Gravenstraat 14-16, sími 623 3716, fax 638 1156, B2)
Pulitzer
Þriðja vildarhótelið okkar er Pulitzer, þar sem við höfum notið eins fegursta hótelherbergis, sem við höfum séð. Allt hótelið er innréttað af frábærri smekkvísi í nútímastíl innan í sautján samliggjandi húsum. Þau eru flest frá fyrri hluta 17. aldar og sum frá því um 1600, frá tíma Guðbrands biskups Þorlákssonar.
Flest hinna 236 herbergja hótelsins snúa að Prinsengracht, en í rauninni nær hótelið meira eða minna yfir heila húsablokk milli þess síkis og Keizersgracht. Þar að aftanverðu er gengið til hótelbars og veitingastofunnar Goedsbloem, sem er þekkt fyrir hina nýju, frönsku matargerðarlist.
Að utanverðu bendir fátt til, að hér sé hótel hið innra. Anddyrið er lítið og yfirlætislaust og starfsliðið var þægilegt og afslappað. Á jarðhæðinni eru miklir rangalar inn húsagarðinn að hótelpartinum við Keizersgracht.
Lyfta er í hótelinu, en eigi að síður þurfa menn sífellt að ganga upp og niður smátröppur, því að gólfin í húsunum sautján standast engan veginn á. Þetta eru skemmtilegir gangar fyrir þá, sem ekki eru fatlaðir.
Herbergi nr. 419 var óvenjulega smekklegt, með öllum nútímaþægindum undir berum bitum hinnar öldnu burðargrindar. Í sumum öðrum herbergjum eru bitar meira áberandi, svo og berir múrsteinsveggir. Herbergið nær yfir heila húsbreidd út að Prinsengracht og var fullt af sólskini.
Hinir björtu og samstæðu litir herbergisins og búnaðar þess mögnuðu sumarstemmninguna. Stólar og annar búnaður var hinn þægilegasti og vandaðasti. Sama var að segja um baðherbergið. Allt var hreint og nýtt sem ónotað væri, indæl hótelvin í Amsterdam.
Yfirleitt mælum við með slíkum herbergjum, sem snúa út að síkjum. En á Pulitzer er víða fallegt útsýni úr bakherbergjum niður í friðsælan hótelgarðinn með indælu kastaníutré, svo að hinir óheppnu verða líka heppnir.
Frá Pulitzer eru aðeins 300 metrar að Húsi Önnu Frank og annað eins að tískuhverfinu Jordaan.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 470 með morgunverði.
(Pulitzer, Prinsengracht 323, sími 523 5235, fax 627 6753, telex 16508, A4)
Rembrandt
Fjórða hótelið í þessum fyrirmyndarhópi er Rembrandt. Það er innréttað með svipuðu hugarfari og Pulitzer, en er þó ekki eins smart. Hins vegar er það sérlega vel í sveit sett, aðeins 300 metra frá Spui og 400 metra frá Dam.
Hótelið er í einu stóru húsi, sem snýr út að Herengracht og þremur litlum, sem snúa að Singel síki. Anddyrið er lítið og látlaust, en herbergin 111 eru stílhrein og skemmtileg, ekki síst uppi í risi, þar sem burðarbitarnir njóta sín.
Herbergi nr. 407 var rúmgott og bjart eins og önnur, sem lýst hefur verið hér að framan. Burðarbitarnir voru alls ráðandi í innréttingunni. Útsýnið úr tveimur voldugum gluggum út á Herengracht var einkar skemmtilegt. Búnaður í herbergi og á baði var vandaður.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 300 með morgunverði.
(Rembrandt, Herengracht 255, sími 622 1727, fax 625 0630, telex 15424, 83)
Europe
Annað af tveimur fínustu hótelunum í borginni er Europe, sem raunar heitir „de l‘Europe“ upp á frönsku. Við tökum það fram yfir Amstel, þótt opinberu salarkynnin séu ekki eins fín, því að það er í fyrsta lagi minna og í öðru lagi svo miklu meira miðsvæðis.
Raunar er Europe í hjarta borgar innar, ekki síður vel staðsett en Ambassade, sem fremst var getið. Til Rembrandtsplein eru 300 metrar. 600 metrar til Dam og 900 metrar til Leidseplein. Hótelhöllin rís andspænis Munttoren, þar sem mætast áin Amstel og síkin Rokin og Singel.
Þessu 100 herbergja hóteli frá 1895 hefur verið líkt við risastóra afmælistertu á floti. Mesta athygli þeirra, sem hjá fara að kvöldlagi, vekur þó upplýst eldhúsið í kjallaranum, því að yfirborð vatnsins nær upp að gluggum og kokkarnir virðast vinna í kafi.
Europe er eitt af þessum gömlu aðalshótelum, sem eru virðuleg, án þess að vera merkileg með sig. Að innanverðu hefur það verið endurnýjað hátt og lágt, svo að tæknilega stenst það samkeppni við keðjuhótel kaupsýslumanna á borð við Hilton og Marriott.
Persónuleg þjónusta er auðvitað mun betri á hóteli af þessu tagi en keðjuhótelunum. Gestir eru fljótlega ávarpaðir með nafni. Enga stund tekur að fá það, sem óskað er eftir, hvort sem það er miðnæturverður eða bílaleigubíll.
Eins og opinberu salirnir var herbergi nr. 316 innréttað í hvítu og daufbláu í frönskum stíl, með samræmdum, gömlum húsgögnum. Það var risastórt og með vel opnanlegum glugga, sem vísaði beint út á Muntplein og umferð ferðamannabáta á Amstel. Umferðarhávaðans vegna var þægilegra að hafa gluggann lokaðan.
Baðherbergið var kapítuli út af fyrir sig, allt klætt í marmara, vel búið sápuvörum og risastórum handklæðum, svo og þykkum baðslopp. Í náttborðum voru stjórntæki fyrir allt, sem þurfti, þar á meðal fyrir sjónvarpstækið og ýmiss konar hótelþjónustu, sem kom að vörmu spori. Á jarðhæð, með svipuðu útsýni, er veitingasalurinn Excelsior, sem áður bauð einn bezta franskættaða mat í borginni, en hefur dalað upp á síðkastið og hefur dottið úr þessari bók.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 610 með morgunverði.
(Europe, Nieuwe Doelenstraat 2, sími 623 4836, fax 624 2962, telex 12081, C2)
Marriott
Eina bandarískt-ættaða keðjuhótelið fyrir kaupsýslumenn í Amsterdam, sem kemst með tærnar, þar sem Europe og Amstel hafa hælana, er Marriott, sem stendur andspænis Leidseplein, handan Singelgracht, með góðu útsýni yfir miðborgina.
Eins og á öllum slíkum hótelum minnir anddyrið á járnbrautarstöð. Gestir eru sífellt að koma og fara úr hinum 393 herbergjum hótelsins. Rétt að baki er þó friðsæll hótelbar, sem er innréttaður á nokkrum pöllum í stíl bókasafns. Í kjallaranum er annað tveggja bestu diskóa borgarinnar, Windjammer Club (sjá bls. 53).
Herbergi nr. 307 snýr út að Leidseplein eins og vera ber. Það var rúmgott, búið þungum húsgögnum í stílhreinu samræmi við litskrúðug gluggatjöld og djarflita veggi. Sérkennilegt var, að vel búið og smekklegt baðherbergi var veggfóðrað, en ekki flísalagt.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 500 með morgunverði.
(Marriott, Stadhouderskade 21, sími 607 5555, fax 607 5511, telex 15087, D5)
Ramada
Ein skærasta stjarnan á himni hótela kaupsýslumanna og ráðstefnufólks í Amsterdam er Ramada. Það er byggt í samráði við yfirvöld húsfriðunarmála í borginni, en í andstöðu við róttækari húsfriðunarsinna.
Ráðstefnusalur hótelsins er hin hringlaga Ronde Luterse Kerk, sem hefur verið afvígð vegna skorts á Lúterstrúarmönnum í borginni. Andspænis kirkjunni hafa þrettán friðuð hús frá 17. öld verið felld inn í nýja stórbyggingu, sem er í hefðbundnum gaflastíl borgarinnar. Milli hótels og kirkju liggja göng undir götuna.
Þessu afreki sameiningar gamals og nýs tíma hefur fylgt nýtt líf, sem hefur skotið rótum í þessu gamla hverfi pakkhúsa. Umhverfis hafa verið innréttuð skemmtileg veitingahús af ýmsu tagi, ölstofur og léttvínssalir, enda er mikil umferð í kringum 432 herbergja hótel. Þar sem áður var doði, er nú líf og fjör.
Hótelið snýr einni hlið að götu, sem liggur samsíða Damrak, í næsta nágrenni aðaljárnbrautarstöðvarinnar. Það liggur því vel við nyrðri hluta gömlu miðborgarinnar, en síður við hverfunum umhverfis Leidseplein og Rembrandtsplein.
Anddyrið er hávaðasamt, eins og við er að búast á svona stóru hóteli, sem hefur fullt af verzlunum og dálítið af veitingasölum innanborðs. Hótelið er raunar smábær út af fyrir sig handa þeim, sem ekki vilja fara út undir bert loft eða meira en 25 metra frá næsta hótelbar. Þarna er meira að segja annað af tveimur beztu diskóum borgarinnar, Boston Club (sjá bls. 53).
Herbergi nr. 806 var rúmgott, vel innréttað og notalegt. Þykkt, vínrautt teppi var á gólfi og allir húsmunir í samræmi. Baðherbergið var fullflísað og fullkomið að búnaði. Við höfðum ekki haft vit á að panta herbergi með útsýni til betri áttar.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 525 með morgunverði.
(Ramada, Kattengat 1, sími 621 2223, fax 627 5245, telex 17149, A2)
American
Eitt skemmtilegasta hótel borgarinnar er 188 herbergja American, vel í sveit sett við Leidseplein. Það var reist 1897 í geðveikislegum „art nouveau“ eða „Jugend“-stíl með gotneskum tilþrifum og minnir á Walt Disney-kastala. Það er orðið svo sögufrægt í byggingarlistinni, að það hefur verið alfriðað. Frægasti hlutinn er innréttingin á Café Americain (sjá bls. 47).
Þetta er hefðbundinn áningarstaður listvina, listamanna og skemmtikrafta. Borgarleikhúsið, óperan og ballettinn eru í næsta húsi, alls staðar í kring eru næturklúbbarnir og kabarettarnir og hinum megin við Singelgracht eru öll heimsfrægu söfnin og sinfóníuhöllin. Á þessu hóteli skríða gestir úr rúmum um hádegisbil.
Fjörlegast er að fá herbergi með svölum út að Leidseplein og gangstéttarkaffistofu hótelsins, en því fylgir töluverður hávaði frá sporvögnum, þegar gluggar eru opnir. Friðsælla og fegurra er útsýnið að breiðum Singelgracht.
Herbergi nr. 416 snýr út að Singelgracht með fallegu og notalegu útsýni gegnum voldugar trjákrónur. Herbergið var sæmilega rúmgott og vel búið húsgögnum og öllum aðbúnaði á baði.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 450 með morgunverði.
(American, Leidsekade 97, sími 624 5322, fax 625 3236, telex 12545, C5)
Krasnapolsky
Í verðflokki með American er eitt af einkennistáknum borgarinnar, hótelið Krasnapolsky við Dam, andspænis konungshöllinni. Þetta rúmlega 100 ára gamla hótel býður gestum sínum til morgunverðar í víðfrægum vetrargarði, Wintertuin, þar sem risastórar plöntur héngu til skamms tíma niður úr glerþakinu og gera vonandi aftur, þegar breytingum er lokið.
Smám saman hefur Krasnapolsky vaxið út í næstu hús, upp í 323 herbergi, svo að ekki er auðvelt að rata, en lyftur eru hér og þar til bóta. Viturlegast er auðvitað að panta sér herbergi í elzta hlutanum með útsýni yfir á torgið til konungshallarinnar. Innréttingar þar hafa að verulegu leyti verið endurnýjaðar. Boðið er upp á reyklausar vistarverur.
Herbergi nr. 2032 bjó yfir tilætluðu útsýni yfir aðaltorg borgarinnar, þar sem uppákomur skemmtikrafta, ofsatrúarmanna og mótmælafólks lífga hellurnar frá morgni til kvölds. Þetta er kjörinn útsýnisstaður, með stuttum vegalengdum til allra átta í gömlu miðborginni.
Sjálft herbergið bar þess merki, að innanhússarkitekt hafði nýlega fengið að leika lausum hala. Allir litir voru í svörtu, hvítu og silfruðu í leikrænni samsetningu. Meiri dirfsku höfum við ekki séð annars staðar í innréttingu hótelherbergja. En allur búnaður verkaði eins og í sögu, bæði í herbergi og á baði.
Herbergi nr. 4018 var með yngri mahóní-innréttingu, sem var afar vönduð og samræmd, en ekki eins skemmtileg, því að hún gat verið á hvaða fyrsta flokks hóteli sem er.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 425 með morgunverði.
(Krasnapolsky‚ Dam 9, sími 554 9111‚ fax 622 8607, telex 12262, B2)
Scandic Crown
Í næsta verðflokki fyrir neðan er sögufrægt, en ekki litríkt Scandic Crown, sem áður hét Victoria, með 321 herbergi eftir mikla stækkun. Það er virðulegt hús við norðurenda aðalgötunnar Damrak, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni, rétt hjá áðurnefndu Ramada hóteli. Eftir endurnýjun sómir það sér vel á nýjan leik.
Herbergi nr. 411 var í gamla hlutanum, mjög stórt og næstum tómlegt, af því að fínu húsgögnin fylltu það ekki. Tveir gluggar veittu útsýni til járnbrautarstöðvarinnar. Hávaðinn frá umferðargötunum barst ekki inn í herbergið. Baðherbergið var líka vel búið að öllu leyti.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 395 með morgunverði.
(Scandic Crown, Damrak 1, sími 623 4255, fax 625 2997, telex 16625, A1)
Doelen
Rétt hjá Europe, einnig við Amstel, þar sem hún mætir Kloveniersburgwal, er virðulegt og gamaldags Doelen, sem minnir á Europe, en er ekki eins fínt. Hótelið er langt og mjótt með þekktum hótelbar í mjóa endanum við síkið. Helmingurinn af 85 herbergjum snýr út að síki og á og eru þau æskilegri til búsetu en hin.
Herbergi nr. 218 var rúmgott, búið flestum þægindum í gamaldags og ópersónulegum stíl og tveimur stórum gluggum, sem vísuðu út á svalir að ánni.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 375.
(Doelen, Nieuwe Doelenstraat 24, sími 622 0722, fax 622 1084, telex 14399, C2)
Ascot
Hentugt hótel við breiðgötuna Damrak, um 50 metrum frá aðaltorginu Dam, er Ascot með 109 vel búnum herbergjum, en fremur kuldalegu starfsliði. Annar galli er á þessum stað, að morgunmatur var fremur vondur og sama var að segja um annan mat, svo að ráðlegt er að fara út að snæða.
Herbergi nr. 311 var fremur stórt og notalegt, búið ljósbláum ábreiðum og gluggatjöldum og bauð upp á gott útsýni út á breiðgötuna. Baðherbergið var marmaraslegið og vandað eftir því.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 360.
(Ascot, Damrak 95-98, sími 626 0066, fax 627 0982, telex 16620, B2)
Dikker en Thijs
Ágætt hótel er Dikker en Thijs á horni Prinsengracht og verslunargötunnar Leidsestraat, aðeins 100 metrum frá skemmtanatorginu Leidseplein. Það er með minnstu hótelum bókarinnar, aðeins búið 25 herbergjum.
Dikker en Thijs er útibú frá samnefndri kaffistofu á jarðhæðinni, þar sem áður var fræg sælkerabúð. Undir kaffihúsinu er Prinsenkelder veitingahúsið (sjá bls. 40), yfir henni Dikker en Thijs veitingahúsið (sjá bls. 40) og þar fyrir ofan hótelið, allt í sömu eign.
Uppi á hverri hæð er dálítil forstofa fyrir framan fjögur herbergi. Það eykur einkaíbúðabraginn á hótelinu. Bezt er að vera ofarlega til að fá útsýni og í herbergjum með tölum sem enda á 03 og 04, því að þau snúa út að Prinsengracht með útsýni yfir kirkjuturna miðborgarinnar.
Herbergi nr. 504 beið okkar nýtízkulegt, með ferskum ávöxtum í skál. Plastinnréttingarnar voru hvítar og dálítið kuldalegar. Rúm var fyrir tvo hægindastóla við stóran útsýnisglugga, sem opnaðist út á örlitlar svalir. Tvöfalt glerið hindraði hávaða frá Leidsestraat. Baðherbergið var fullflísað, vel búið og hafði einnig stóran útsýnisglugga.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 350 með morgunverði.
(Dikker en Thijs, Prinsengracht 444, sími 626 7721, fax 625 8986, telex 13161, C4)
Port van Cleve
Enn eitt mjög vel í sveit setta hótelið er 99 herbergja Port van Cleve, sem er að baki konungshallarinnar, við hlið gamla aðalpósthússins, er hefur verið breytt í eins konar Kringlu. Þetta er lítið og notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði. Niðri er einn af frægustu veitingasölum borgarinnar.
Herbergi nr. 518 sneri að húsabaki með útsýni yfir nálæg þök. Það var mjög stórt og stílhreint að búnaði, með stóru og fullflísuðu baðherbergi.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 310 með morgunverði.
(Port van Cleve, Nieuwezijds Voorburgwal 178-180, sími 624 4860, fax 622 0240, telex 13129, A3)
Frommer
Eitt skemmtilegu hótelanna í Amsterdam er Arthur Frommer, 90 herbergja hótel nálægt Rembrandtsplein og Museum Fodor. Það er innréttað í sambýlishúsi þrettán vefara.
Herbergi nr. 214 var búið sérkennilegum húsgögnum, þar á meðal útskornum hægindastólum og ruggustól, sem var um það bil að fara úr límingu. Geysiþykkar ábreiður voru á rúmum. Húsbúnaðurinn var dálítið byrjaður að láta á sjá.
Baðherbergið var lítið en hafði að geyma stóran, niðurgrafinn sturtubotn. Engin herbergisþjónusta var veitt.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 240 með morgunverði.
(Arthur Frommer, Noorderstraat 46, sími 622 0328, fax 620 3208, telex 14047, D3)
Agora
Af ódýru hótelunum reyndist okkur drýgst Agora, sem er við Singel, rétt við Koningsplein. Það er ákaflega vel í sveit sett, rétt hjá hótelinu Ambassade, og skemmtilega lítið, aðeins 14 herbergja. Útidyrnar eru alltaf læstar, en hótelgestir fá útidyralykil. Morgunverðarstofan er smekkleg, með stórum glugga út að litlum garði. Hótelhaldarar eru afar viðkunnanlegir. Lága verðið stafar að einhverju leyti af, að ekki er lyfta í húsinu.
Herbergi nr. 27 var fremur lítið og búið öldruðum húsgögnum vönduðum, þar á meðal póleruðu skrifborði. Allt var í góðu lagi í baðherberginu, sturta til dæmis einkar öflug.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 180.
(Agora, Singel 462, sími og fax 627 2200, telex 12657, C3)
Owl
Einna ódýrust af þeim sómasamlegu hótelum með baði á herbergjum, sem við fundum í Amsterdam, eru nokkur hótel víð Roemer Visscherstraat að baki Marriott hótels og í næsta nágrenni við söfnin frægu umhverfis Museumsplein.
Skemmtilegast þeirra er Owl, við þann enda götunnar, sem næstur er Marriott. Þetta er friðsælt, lítið, 34 herbergja hótel með vingjarnlegu starfsliði. Morgunverðarsalur í kjallara er snyrtilega innréttaður.
Herbergi nr. 444 sneri út að garði að húsabaki. Það var lítið, en sómasamlegt og hafði fullflísað baðherbergi. Nokkuð hljóðbært er í húsinu.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.
(Owl, Roemer Visscherstraat 1, sími 618 9484, fax 618 9441, telex 13360, D5)
Vondel
Við enda sömu götu, enn nær Marriott, er 35 herbergja Vondel, notalegt hótel með vingjarnlegu starfsliði og svipuðum kostum og göllum og Owl. Herbergi nr. 5 var þó mun stærra en tilsvarandi herbergi á Owl, hefur raunar setustofupart og samt pláss fyrir þriðja rúmið. Húsgögn voru gömul, en hreinleg. Baðið var flísalagt.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 175 með morgunverði.
(Vondel, Vondelstraat 28, sími 612 O120, ekki telex, C5)
Parkzicht
Þetta er lítið og notalegt hótel með aðeins 15 herbergjum, sem sum snúa út að Vondelpark. Herbergi nr. 5 var búið gamaldags húsgögnum í góðu lagi. Baðherbergi var með fullnægjandi búnaði.
Tveggja manna herbergi kostaði Fl. 145 með morgunverði.
(Parkzicht, Roemer Visscherstraat 35, sími 618 1954, ekki telex, D5)
Önnur hótel á sama verði á svipuðum stað við götuna eru Sipermann, Roemer Visscherstraat 35, sími 616 1866, Fl. 135 með morgunverði; og Engeland, Roemer Visscherstraat 30a, sími 612 9691, Fl. 155 með morgunverði. Athugið, að ekki eru öll herbergi með baði á þessum hótelum.
1984 og 1992
© Jónas Kristjánsson