Amsterdam inngangur

Ferðir

Ævintýralega Amsterdam

— 17. aldar safn

Miðborg Amsterdam er stærsta safn heims, einstæð vin þúsunda húsa og hundraða brúa frá sautjándu öld, blómaskeiði siglinga og kaupsýslu Hollendinga. Um 7.000 hús í miðborginni hafa beinlínis verið friðuð, svo að sautjánda öldin megi varðveitast um ókomna framtíð.

Kílómetra eftir kílómetra rýfur ekkert samræmið í mjóum húsgöflum, fagursveigðum síkisbrúm og laufskrýddum trjám. Borgarsíkin eru lengri en í Feneyjum og mynda svigrúm og andrúm í annars þröngt byggðri borg. Hið eina, sem truflar myndina, er‚ eru bílarnir, sem komast vart leiðar sinnar.

Síkin eru nú orðið lítið notuð, nema fyrir útsýnisbáta ferðamanna. Hjólhesturinn og fætur postulanna eru samgöngutækin, sem henta borginni. Vegalengdirnar eru raunar svo stuttar, að á annatíma er oft fljótlegra að ganga milli staða en að aka stóran krók einstefnugatna.

Í Amsterdam er fullt af söfnum með minjum frá gullöldinni, þegar hér var meðal annars prentuð Specimen lslandiae historicum eftir Arngrím Jónsson lærða. En ferðamenn þurfa ekki að sækja söfnin til að kynnast sautjándu öldinni. Þeir hafa andrúmsloftið allt í kringum sig‚ bæði úti og inni.

Mörg notaleg hótel hafa verið innréttuð í mjóu, 300-350 ára gömlu húsunum við síkin. Enn fleiri veitingahús eru í þessum gömlu húsum, mörg hver prýdd forngripum sautjándu aldarinnar. Ekki má heldur gleyma knæpunum, sem margar eru óbreyttar enn þann dag í dag.

Að baki hins íhaldssama yfirbragðs borgar kaupsýslumanna ríkir svo um leið óvenjulegt og að sumra viti óhóflegt frjálslyndi, sem spannar frá gleðikonum í búðargluggum yfir í frjálsa dreifingu vímuefna til sjúklinga á læknabiðstofum og til ungmenna á opinberum félagsmiðstöðvum.

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og fundist þær að ýmsu leyti takmarkaðar. Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver miklum hluta tímans á hóteli og veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða sinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók. Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verslanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur.

Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram, fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundist myndirnar falsaðar. Innanhúss eru myndirnar stúdíóteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins. Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinganna.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Bankar

Bankar eru opnir mánudaga-föstudaga 9-16, sumir fimmtudaga -19 og á aðaljárnbrautarstöðinni 7-22:45 alla daga. Farðu ekki með ávísun til Hollands, aðeins reiðufé, ferðatékka eða plastkort.

Barnagæsla

Hringdu í Oppascentrale Kriterion, sími 624 5848.

Bátar

Farið er frá 11 stöðum í 1 stundar bátsferðir um síkin.

Ferðir

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs er fyrir framan aðaljárnbrautarstöðina, Stationsplein 10, opin mánudaga-laugardaga 9-23, sunnudaga -21, á veturna mánudaga-föstudaga 9-18, laugardaga -17, sunnudaga 10-13 og 14-17, sími 626 6444.

Fíkniefni

Ólöglegt er að hafa fíkniefni með höndum, þótt sums staðar sé það látið afskiptalaust.

Flug

Flugvallarvagninn til Schiphol fer á 15 mínútna fresti frá nokkrum helztu hótelunum. Hann er venjulega tæpan hálftíma á leiðinni. Leigubíll er 20 mínútur á leiðinni og kostar Fl. 70.Í síma 601 0966 eru gefnar upplýsingar á ensku um komu og brottför flugvéla.

Flugleiðir

Skrifstofa Flugleiða er á Apollolaan 7, opin 9-17, sími 76 95 35.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á klukkutíma.

Gisting

Upplýsingastofa Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan) útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Hótel

Ef þú vilt útsýni úr hótelherbergi, skaltu panta herbergi með „canal view“. Þá eru „twin room“ oft stærri en „double room“ fyrir sama verð.

Krítarkort

Ef þú hefur glatað krítarkorti, er heima svarað allan sólarhringinn í 354-1-68 54 99 fyrir Eurocard og í 354-1-67 17 00 fyrir Visa.

Leigubílar

Hringdu í 677 7777 eða farðu á næstu biðstöð leigubíla. Aðeins er unnt að veifa í leigubíl á förnum vegi, ef þakskilti hans er upplýst. Sumir leigubílstjórar vita lítið um götunöfn og heimilisföng í borginni.

Lyfjabúð

Hringdu í 664 2111 til að fá að vita, hvar sé næsta næturvarsla.

Læknir

Hringdu í 664 2111 til að fá upplýsingar um læknisþjónustu.

Löggæsla

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við lögreglu. Hún er ekki eins hjálpleg við útlendinga og hún er í Kaupmannahöfn og London.

Peningar

Hollenski gjaldmiðillinn heitir formlega Flórína, skammstafað Fl., en hversdagslega er hann kallaður Guilders eða Gyllini. Smámynt er centímur. Flest hótel og veitingahús taka bæði Eurocard og Visa.

Pósthús

Aðalpósthúsið við Singel 250-256 er opið mánudaga-föstudaga 8:30-18, fimmtudaga -20:30 og laugardaga 9-12.

Rafmagn

Rafspenna er sama og hér heima, 220 volt.

Reiðhjól

Best staðsetta reiðhjólaleigan er Koenders, 33 Stationsplein, við aðaljárnbrautarstöðina.

Ræðismaður

Aðalræðismaður íslands er við Herengracht 176, sími 626 2658.

Salerni

Þú mátt nota salerni kaffihúsa og barstofa, af því að það eru taldir opinberir staðir.

Samgöngur

Ódýr dagskort, 2ja, 3ja og 4urra daga kort, sem gilda á öllum leiðum strætisvagna, sporvagna og neðanjarðarlesta, fást á upplýsingastofu Ferðamálaráðs (sjá „Ferðir“ hér að ofan).

Sími

Mun ódýrara er að hringja heim úr almenningssímum en frá herbergjum hótela. Á Tele Talk Center við Leidsestraat 101 og Telehouse við Raadhuisstraaat 46-50 er allan sólarhringinn alþjóðleg símaþjónusta.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að fá sjúkrabíl.

Skemmtanir

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritinu What is on in Amsterdam.

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 06 11 til að ná sambandi við slökkvilið.

Tannlæknir

Hringdu í 664 2111 til að fáupplýsingar um tannlæknaþjónustu.

Vatn

Þótt ótrúlegt megi virðast er kranavatnið drykkjarhæft .

Verðlag

Verðlagið hér í bókinni er frá vetri 1992. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 5% verðbólgu á ári í Hollandi.

Verslun

Flestar verslanir eru opnar mánudaga-laugardaga 9-17:30 eða -18 og fimmtudaga -21 . Margar eru lokaðar mánudagsmorgna.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og í gjaldmælum leigubíla. Sumir viðskiptavinir slétta upphæðir upp í næstu tölu, sem endar á 5 eða 10 gyllinum. Hótelverðir, sem útvega leigubíl, fá eitt-tvö gyllini og sömuleiðis fatageymslufólk.

1984 og 1992

© Jónas Kristjánsson