Kurteisi, alúð og hjálpsemi Íra verður því meiri, sem fjær dregur höfuðborginni. Á vesturströndinni heilsa menn bílstjórum með handarsveiflu, alveg eins og væru þeir gamlir kunningjar. Hvarvetna leggja menn sig í líma við að greiða götu ókunnugra og draga þá inn í samræður heimamanna.
Bezta leiðin til að kynnast Írlandi á stuttum tíma er að fá sér bílaleigubíl. Þá erum við frjáls, getum valið hvaða sveitavegi, sem við viljum; og látið staðar nema, hvar sem okkur lízt á góða bændagistingu. B&B er hvarvetna á boðstólum og felur venjulega í sér fullnægjandi aðstöðu samkvæmt íslenzkum kröfum.
Írland ber mildan og grænan svip. Flestir vegir eru varðaðir trjám og beitilöndum, þar sem una sér kýr og kindur, hestar og geitur. Sveitabæir og þorp kúra í landslaginu eins og eðlilegur þáttur þess. úti við ströndina, einkum að vestan, rís náttúran í svipmeiri dráttum.
Forn mannvirki segja gamla sögu, einkum frá fyrstu öldum kristni, þegar Írland var miðstöð kristinnar kirkju á myrkum miðöldum. Við kynnumst klaustrum, þaðan sem munkar fóru norður og vestur um höf; og skráðu eins og Íslendingar frægar sögur á vandlega lýst bókfell. Við kynnumst líka kastölum og hústurnum, sem voru miðpunktar í erjum milli smákónga og í styrjöldum milli Íra og Englendinga.
Allt þetta þræðum við upp á eina langa perlufesti, sem nær hringinn um landið. Það getur tekið nokkrar vikur að aka þennan hring, en það er líka unnt á skemmri tíma, af því að fjarlægðir eru stuttar í landinu.
Lýsingin nær einkum til fornra mannvirkja og sérstæðs landslags, svo og halla og herragarða, sem yfirleitt leika nú hlutverk hótela og veitingahúsa. Gaman er að skoða þessar hallir og herragarða, þótt menn kjósi svefnstað í bændagistingu.
Hér er ekki bent á einstaka ferðabændur, enda skipta þeir þúsundum og eru oft ekki auðfundnir í leit. Bezt er að velja bændagistingu, B&B, eftir hendinni. Ef „en suite“ stendur á skiltinu, þýðir það, að herbergið sé með einkabaðherbergi, sem algengt er orðið nú á tímum.
Við förum norður úr Dublin, höldum fyrst til Norður-Írlands, síðan vestur með ströndinni og aftur inn í írska lýðveldið, förum einkum um slóðir keltneskrar tungu á vesturströndinni, síðan suður um og norður austurströndina til Dublin. Öllum er auðvitað frjálst að taka króka og útúrdúra af þeirri perlufesti, sem hér er lýst. Bezt er að taka lífinu með ró og setja sér ekki skýrt markaða áfanga.
Trim
Við förum N3 norður frá Dublin og beygjum í Black Bull á R154 til kastalans í Trim á bakka árinnar Boyne.
Rústir Trim Castle eru einna fyrirferðarmestar í öllu landinu, nærri hektari að flatarmáli. Enskir landvinningamenn reistu kastalann á miðöldum. Hann er lauslega normanskur að stíl, miðturninn frá 1220-1225 og útveggirnir frá 1250. Héðan slapp Hinrik IV úr fangavist á vegum Ríkharðs II og vann af honum ensku krúnuna.
Gengið er úr þorpsmiðju upp í kastalann að vestanverðu. Í miðturninum voru tveir veizlusalir og svefnherbergi þar fyrir ofan.
Aðalhlið kastalans var áður að austanverðu, þar sem voru tvær vindubrýr og útvirkisturn með dýflissum (I3).
Tara
Frá Trim förum við R161 í áttina til Navan og finnum vegprest, sem vísar leiðina til Tara-hæðar.
Tara var eins konar Þingvöllur Norðvestur-Írlands í heiðnum sið, en lætur núna lítið yfir sér. Þar er kirkja með trjálundum nær og beitilandi í brekkunum fjær. Þar mótar fyrir hólum, sem eru leifar af fornu helgisetri, konungshöll og þingstað Kelta frá heiðnum tíma, er Tara var eins konar höfuðstaður Írlands. Eftir valdatöku Njálunga í Ulster á 6. öld og kristnitöku á Írlandi var hér kristinn helgistaður fram til 1022. Eftir það hvarf Tara af sjónarsviðinu, en lifði áfram í sögum og ævintýrum (I3).
Newgrange
Við höllum okkur aftur að R161 og ökum hann til Navan og þaðan N51 um Slane í átt til Drogheda, unz við komum að vegvísi til Newgrange-hofs.
Newgrange er mikið útfararhof frá því um 3000 fyrir Krists burð, eitt hið merkasta af því tagi í Evrópu. Það er grasi vaxinn steinhaugur, klæddur hvítu kvarzi, gerður af manna höndum, 80 metra breiður og 12 metra hár. Hið næsta er hann umlukinn liggjandi björgum, sem sum eru höggvin táknum, en fjær er hringur lóðréttra steina. Bygging hofsins hefur verið mikið afrek á tímum frumstæðrar tækni og ber vott um öfluga trú og styrka stjórn.
Frá íhvolfum inngangi liggur 20 metra langur gangur inn í útfararsal með þremur útskotum. Á vetrarsólstöðum skín sólin nærri lárétt eftir ganginum inn í greftrunarsalinn og lýsir hann upp í nokkrar mínútur. Aðgangur £1,50 (I3).
Mellifont
Við förum til baka og beygjum til hægri á N51, en næstum strax aftur til vinstri eftir vegpresti til Mellifont-klausturs.
Mellifont eru vel varðveittar rústir elzta klausturs af reglu Sistersíana á Írlandi, frá 1142. Aðeins sjást undirstöður kirkjunnar, sem var vígð 1157. Eftir standa einkum garðport hægra megin og átthyrnt handþvottarhús fyrir miðju, hvort tveggja upprunalegt, svo og vinstra megin yngra kórsbræðrahús frá 14. öld. Klaustrið var lagt niður 1556. Aðgangur £0,80 (I3).
Monasterboice
Við förum áfram eftir hliðarveginum samkvæmt vegvísi til Monasterboice.
Í kirkjugarðinum í Monasterboice er mikill sívaliturn frá víkingatíma. Slíka turna reistu írskir munkar til að skýla sér og dýrgripum kirkjunnar fyrir víkingum. Turninn var brenndur 1097 og gripum tvístrað, en stendur enn að mestu leyti.
Í kirkjugarðinum eru þrír hákrossar, einsteinungar frá 10. öld, sá stærsti 7 metra hár. Þetta eru einna bezt varðveittu og fegurstu hákrossar Írlands, rækilega myndhöggnir atburðum úr biblíunni.
Hákrossar með löngum fæti og baug um krossmiðju voru einkenni írskrar kristni frá 8. öld og fram á 10. öld, á stórveldistíma Írlands sem miðpunkts hins kristna heims. Þeir voru 2-7 metra háir, fyrst skreyttir óhlutlægum táknum og síðar biblíumyndum (I3).
Ballymascanlon
Héðan förum við beint á N1 í átt til Dundalk. Við förum framhjá miðbænum eftir vegvísi í átt til Belfast, förum yfir brú og framhjá kirkjugarði út úr Dundalk, alltaf á N1, og skömmu síðar eftir vegvísi til Ballymascanlon hótels.
Ballymascanlon er gamall herragarður, sem breytt hefur verið í notalegt 36 herbergja hótel með golfvelli og heilsuræktarstöð.
Herbergi eru fremur lítil, en búin þægindum á borð við kaffivél og buxnapressu. Herbergi 30 kostaði £75 fyrir tvo með morgunverði.
Veitingasalurinn snýr stórum gluggum að garðinum. Flugnaveiðarar hanga í gömlum ljósakrónum. Þjónusta var góð, sömuleiðis matreiðsla gamaldags. Hefðbundinn, franskur matseðill bauð þríréttaðan kvöldmat, með nokkru úrvali á hverju sviði, á £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Ballymascanlon Hotel, Dundalk, sími 42-71124, fax 42-71598) (I4).
Belfast
Aftur förum við inn á N1, yfir landamærin til Norður-Írlands, þar sem vegurinn heitir A1, alla leið inn í miðbæ í Belfast. Úr King Street ökum við inn í bílageymslu við Castlecourt verzlanakringluna. Þaðan er um 600 metra gangur, fyrst eftir King Street og síðan til vinstri eftir Wellington Place, að miðpunti borgarinnar, ráðhúsinu.
City Hall er mikilúðlegasta mannvirkið í Belfast, hvít höll, sem allar leiðir liggja að. Hún var reist 1898-1906 í nýgnæfum rjómatertustíl með mikilli koparhvelfingu yfir miðþaki. Ferðamenn mega skoða höllina.
Fyrir framan er Donegal Square, aðaltorg borgarinnar og strætisvagnamiðstöð hennar. Andspænis ráðhúsinu handan torgsins eru göngugötur (J4).
Crown Liquor
Sömu leið förum við til baka. Ef við beygjum til vinstri í Fisherwick Street í stað þess að fara til hægri í King Street, komum við eftir 200 metra að þekktasta hóteli og frægustu krá borgarinnar við Great Victoria Street.
Hotel Europe hefur nýlega verið gert upp og er nú afar vel búið að öllu leyti. Til dæmis eru kaffivélar á herbergjum. Herbergi fyrir tvo kostaði £125 með morgunverði.
(Hotel Europe, Great Victoria Street, Belfast, sími 232-327000 (Bretland))
Andspænis hótelinu er Crown Liquor Saloon, ríkulega skreyttur að utan og innan. Kráin er í vel varðveittum viktoríustíl, með postulínsflísum að utan, steindum gluggum, gasljósum, lokuðum gestabásum við útvegg og útskornum viðarsúlum og viðarlofti. Þetta er sennilega merkasta mannvirki borgarinnar og sælustaður göngumóðra. Ef hann væri ekki, mundum við tæpast stanza lengi í Belfast (J4).
Carrickfergus
Við ökum úr bænum, fyrst M2, síðan M5 og loks A2, samtals stutta leið til Carrickfergus úti við sjóinn. Við stönzum á bílastæði við bátahöfn og kastala, sem er áberandi við aðalgötu bæjarins.
Carrickfergus Castle stendur á sjávarhömrum, upprunalega laus frá meginlandinu. Hann er normanskur kastali frá 1180, einn af stærstu og bezt varðveittu kastölum á Írlandi. Hann varði innsiglinguna til Belfast og var lengi eitt helzta virki Englendinga gegn írskum uppreisnarmönnum. Hann var þó tekinn þrisvar, af Skotum 1315, af mótmælendum 1689 og Frökkum 1760.
Í kastalanum er safn, sem segir sögu hans. Elzti hlutinn er innsta og hæsta virkið, en utar eru tvö yngri virki. Kastalinn er afar gott sýnishorn af verk- og varnartækni hinna fransk-norrænu Normanna á miðöldum (J4).
Dobbin’s
Við göngum þvert yfir aðalgötuna til gamla kráarhótelsins á staðnum.
Dobbin’s Inn er dæmigert hótel í fornu húsi í gömlum stíl írskum, frægast fyrir nafnkunnan draug, “Maud”, sem þar er sagður búa. Frá hótelinu eru neðanjarðargöng til kastalans og til bæjarkirkjunnar. Hér getum við gist eða matast eða farið á krána áður en við höldum lengra.
Tveggja manna herbergi kostaði £60 með morgunverði. Hádegisverður fyrir tvo kostaði £10 auk drykkjarfanga.
(Dobbin’s Inn, 6-8 High Street, Carrickfergus, sími 9603-51905 (Bretland), J4)
Ballygally
Við ökum nú greiða leið áfram A2 og stönzum ekki fyrr en við gamalt kastalahótel á vegarbrúninni við sjávarsíðuna.
Ballygally Castle var reistur 1625 í skozkum stíl, enda er í góðu skyggni útsýni úr honum til Skotlands. Hann er vel varðveittur í upprunalegu ástandi, en mestur hluti hótelsins er í viðbyggingu. Sum gistiherbergin eru í gamla kastalanum og er sjálfsagt að panta þau. Herbergin eru vel búin nútímaþægindum, svo sem hárþurrku og buxnapressu. Og pípulögnin er ekki upprunaleg.
Tveggja manna herbergi kostaði £60 með morgunverði.
(Ballygally Castle Hotel, Ballygally, sími 574-83212 (Bretland), J5)
Cushendun
Áfram höldum við A2 til Glenariff, þar sem okkur eru tveir kostir á höndum. Við getum farið til vinstri smáhringferð eftir A43 um Glenariff-skóg og -foss og síðan B14 til Cushendun eða farið til hægri með sjónum eftir B92 til Cushendall og Cushendun.
Cushendall og Cushendun eru rómantísk þorp við ströndina. Hið síðarnefnda er allt undir verndun þjóð–minjalaga. Hvít og friðsæl smáhús lúra milli stóra trjáa við breiðar götur (J5).
Carrick-a-Rede
Frá Cushendun förum við aftur inn á A2 og á honum til Ballycastle, þar sem við beygjum til hægri eftir B15 og komum fljótlega að bílastæði, þaðan sem gengin er hálftíma leið að frægri hengibrú fyrir göngufólk.
Carrick-a-Rede er 20 metra löng göngubrú, sem liggur í 25 metra hæð frá landi yfir í höfða, þar sem fiskimenn stunda laxveiðar á sumrin. Göngubrúin er úr reipum og sveiflast undir fólki, svo að ekki er heiglum hent að fara yfir hana. Ekki fara þó neinar sögur af slysum á brúnni í 200 ára sögu hennar (I5).
Giant’s Causeway
Áfram förum við B15 út á A2 og komum fljótlega að ferðamannamiðstöð, þaðan sem litlir strætisvagnar flytja fólk fyrir £0,50 niður á strönd að stuðlabergi, sem er þekktasta náttúruundur Írlands.
Giant’s Causeway er víðáttumikið stuðlaberg, sem gengur í sjó fram. Steinninn er úr basalti og hefur myndazt við afar hæga storknun hrauns, þannig að steinninn hefur náð að kristallast í margstrendar súlur. Þetta fyrirbæri er víða á Íslandi, en sjaldgæft annars staðar. Súlurnar í Giant’s Causeway eru taldar vera 40.000. Aðgangur £1,50 (I5).
Bushmill’s
Við höldum áfram A2 stutta leið að Bushmill. Í þessum enda þorpsins er sögufræg krá, þar sem við gistum.
Bushmill’s Inn er notalegt og gamalt hús frá upphafi 19. aldar við þjóðveginn, vel við haldið. Lifandi eldur er í arni í gestamóttöku. Þröngir gangar og stigar og tröppur eru út um allt hús. Skemmtileg bókakompa er yfir inngangi. Herbergi 24 er fremur stórt og vel búið, með blómaveggfóðri, grófum viðarinnréttingum, brakandi trégólfi teppalögðu, svo og parketti á baðherbergi. Herbergið kostaði £74 fyrir tvo með morgunverði.
Veitingasalurinn er mikið stúkaður með grófum viðarinnréttingum. Boðið var upp á þríréttaðan kvöldmat fyrir tvo á £27 og fjórréttað á £35 auk drykkjarfanga. Matreiðslan var í bezta lagi.
(Bushmill’s Inn, Bushmill, sími 2657-32339, fax 2657-32048 (Bretland), I5)
Dunluce
Frá þorpinu förum við áfram A2 og komum fljótlega að kastalarústum.
Dunluce Castle ber drungalegan svip draugaborgar á 30 metra háum klettahöfða, sem stendur út í sjó. Elztu hlutar kastalans, austurturnarnir og suðurveggurinn, eru frá 14. öld, en annað að mestu frá 16. öld. Árið 1639 hrundi eldhúsið með manni og mús niður í sjó og lagðist kastalinn við það í eyði. Aðgangur £0,75, (I5).
Derry
Enn höldum við áfram A2 til borgarinnar Derry, öðru nafni Londonderry og ökum inn í gömlu borgarmiðjuna innan borgarmúranna.
Borgarmúrinn frá 1613-1618 er helzta stolt Derry, upphaflega með fjórum borgarhliðum, sem nú eru orðin sjö alls. Þetta er bezta dæmi Írlands um borgarmúr, sem haldizt hefur svo heillegur til nútímans að ganga má hringinn eftir honum. Svæðið innan múranna er 500 metrar á langveginn og 250 metrar á þverveginn.
Í miðjunni er torgið Diagonal. Þaðan liggur gatan Bishop’s Street Within til suðurs til dómkirkjunnar St Columb’s, frá 1628-1634, fyrstu dómkirkju, sem reist var á Bretlandseyjum eftir siðaskipti, í gotneskum stíl. Til norðurs frá torginu liggur verzlunargatan Shipquay Street, afar brött (I5).
Malin Head
Við getum farið héðan í 160 km hringferð um fjalllendi Inishowen-skaga. Þá förum við úr Derry eftir R238 um Moville, Carndonagh og Malin Head og til baka sama veg um Carndonagh, Ballyliffin og Buncrana. Við komum þá inn á N13 rétt áður en komið er að Grianan of Aileach, sem lýst er í næsta kafla.
Milli Moville og Carndonagh komum við fyrst að afleggjara til vinstri að tveimur hákrossum og krossaðri grafhellu við Carrowmore og skömmu síðar til hægri að Clonca kirkjurúst og hákrossi. Malin Head er lítið fiskiþorp í skjóli sjávarhamra. Á bakaleiðinni er hákross frá 8. öld rétt handan Carndonagh og krossuð grafhella frá 7. öld í kirkjugarði þorpsins Fahan.
Krossaðar grafhellur eru frá 7.-12. öld, flöt og óregluleg steinbjörg, höggvin krossum, öðrum helgitáknum og áletrunum á latínu, lögð yfir grafir manna (I5).
Grianan of Aileach
Ef við förum ekki krókinn, tökum við stefnuna frá Derry eftir A2 í átt til Buncrana og áfram handan landamæranna N13 í átt til Letterkenny. Vegprestur til vinstri sýnir krók upp fjallið til Grianan of Aileach.
Grianan of Aileach er heilleg endurgerð frá 1870 á virki, sem upprunalega var reist á 5. öld, í upphafi írskrar kristni. Það var konungssetur Njálunga frá þeim tíma og fram á 12. öld, en var eyðilagt árið 1101 í innanlandserjum írskra konunga.
Hringlaga virkið er efst á hæðinni, 23 metrar í þvermál, 5 metrar á hæð og með 4 metra þykkum útveggjum. Að innanverðu eru útveggirnir skásettir tröppum til að auðvelda tilfærslur varnarliðs. Ágætt útsýni er af virkisveggjunum, meðal annars til Derry (I5).
Rathmullan
Frá virkinu höldum við áfram N13 alla leið til Letterkenny og förum þar yfir á N56, sem við fylgjum í stórum dráttum alla leið til Donegal, með nokkrum útúrdúrum þó.
Við getum tekið krók frá Letterkenny eftir R245 og síðan R247 til Rathmullan, ef við viljum borða og gista á öndvegishótelinu Rathmullan House. Eftir það förum við R247 og R249 inn á N56, sem er áðurnefnd höfuðleið frá Letterkenny út á Donegal-skaga.
Rathmullan House er fagurt og afskekkt sveitasetur í georgískum stíl frá upphafi 19. aldar með notalegum fornminjum, bókasafni, arineldi, sundlaug, gufubaði, og friðsælum görðum.
Sum herbergin hafa útsýni yfir fagra garða til Swilly-fjarðar. Slík herbergi kostuðu £121 fyrir tvo með morgunverði.
Snætt er í garðskála sveitasetursins. Forréttavagninn er einn hinn bezti í öllu landinu og önnur matreiðsla er einnig til fyrirmyndar. Svo margir koma til að borða á þessum afskekkta stað, að ráðlegt er að panta með góðum fyrirvara. Kvöldmatur fyrir tvo kostaði £60 auk drykkjarfanga.
(Rathmullan House, Rathmullan, sími 74-58188, fax 74-58200, I5)
Glenveagh
Af N56 förum við til hægri afleggjara til Glenveagh-þjóðgarðs og -kastala. Frá ferðamiðstöð þjóðgarðsins er farið í litlum strætisvögnum til kastalans.
Þjóðgarðurinn nær yfir tæpa 10.000 hektara af skógi og mýrum umhverfis gervikastala í Disney-stíl, sem reistur var við Beagh-vatn 1870 til að búa til rómantískt umhverfi fyrir hallareigandann og gesti hans. Undir niðri er kastalinn hefðbundið sveitasetur í virkisklæðnaði. Þar er nú minjasafn með ríkmannlegum húsbúnaði fyrri eigenda. Aðgangur £1 að garði og £1 til viðbótar að kastala.
Við erum á þessum slóðum í afskekktasta héraði Írlands, eins konar rana, sem gengur úr írska lýðveldinu upp með Norður-Írlandi. Hér erum við komin í gelískar sveitir, eins og við sjáum á mörgum skiltum. Landslagið er skarpt og fremur nakið. Áður hét héraðið Tirconnaill, en nú Donegal, sem er afbökun úr írsku heiti, Dún na nGall, er þýðir virki útlendinga, það er að segja víkinga. Á þessum slóðum er líka talinn bruggaður bezti landi Írlands, Poitin (H5).
Doe
Við förum til baka leið merkta Creeslough yfir á N56 og beygjum næst til hægri eftir vegvísi til Doe-kastala, rétt áður en komið er til Creeslough.
Rústir Doe-kastala eru tiltölulega heillegar. Mannvirkin standa fagurlega á höfða við sjávarsíðuna. Ekki er vitað um aldur kastalans, en hann var byggður á ýmsum tímum og oft skemmdur í árásum. Margir sögufrægir herforingjar hafa komið við sögu hans, ýmist til varnar eða sóknar. Í lok 18. aldar fékk kastalinn loks sitt endanlega útlit og hefur varðveitzt að mestu síðan (H5).
Bunbeg
Frá Doe förum við aftur á N56 og höldum áfram, unz við komum að afleggjara til hægri til sjávarþorpsins Bunbeg.
Eins og í sumum öðrum írskum sjávarþorpum horfir byggðin í smáþorpinu Bunbeg ekki móti hafi, eins og við erum vön frá Íslandi, heldur inn til lands. Hafnarmannvirkin standa ein sér, töluvert frá byggðinni, sem er á víð og dreif. Það er eins og fólk hafi óttast sjóræningja eða náttúrukraft hafsins og viljað búa úr sjónmáli. Sjálf höfnin er ósköp friðsæl og nánast rómantísk, ber ekki vott um mikinn veiðiskap (H5).
Rosses
Við erum á slóðum, sem kallaðar eru The Rosses, sem þýðir skagar. Lítið er um mannabyggðir og skóga, en þeim mun meira um mýrar og smávötn. Hér er töluverð móvinnsla úr mýrum, eins og raunar víðar í landinu. Efsta torfulagið er tekið ofan og síðan lagt ofan á aftur, þegar búið er að taka nokkrar skóflustungur af mó undan laginu. Þess vegna eru langir mókantar einkennistákn mómýranna (peat bogs) (H5).
Glencolumbkille
Við höldum áfram N56, fyrst um Rosses-mýr–ar, framhjá Dungloe og Gwebarra unz við erum komin rétt framhjá Ardara. Þar beygjum við til hægri eftir skilti til Glengesh-skarðs. Í skarðinu er í góðu skyggni skemmtilegt útsýni til baka niður dalinn. Við höldum alla leið til Glencolumbkille.
Stórbrotið landslag er í dalnum og við ströndina kringum Glencolumbkille. Hér er talið, að dýrlingurinn Columba, öðru nafni Kólumkilli, hafi setzt að á efri árum, fjarri heimsins glaumi. Hér í dalnum er líka töluvert af forsögulegum mannvistarminjum.
Í þorpinu utanverðu, sunnan ár er héraðsminjasafn í nokkrum húsum, sem hafa verið reist í fátæklegum stíl áranna 1720, 1820 og 1920. Í húsunum eru verkfæri og áhöld, húsbúnaður og húsgögn frá þessum tímum. Aðgangur £1,50 (H5).
Bunglass
Frá Glencolumbkille förum við til Carrick og beygjum þar til vinstri til Teelin og áfram samkvæmt vegpresti til Bunglass-bjargs, þar sem örmjór bílvegur liggur glæfralega utan í klettum fram á útsýnisbrún. Útskot eru þó á leiðinni, svo að bílar geta mætzt, ef aðgát er höfð.
Frá bílastæðinu er gott útsýni til 600 metra bjargsins Bunglass í suðurhlíðum Slieve League fjalls. Í dimmviðri er þetta drungaleg sjón, en litskrúðug í sólskini, því að mislitar steintegundir leiftra í bjarginu (H5).
Killybegs
Frá Bunglass förum við til baka um Teelin og Carrick til Killybegs.
Killybegs er alvöru fiskveiðihöfn eins og við þekkjum þær á Íslandi. Hér eru nútíma fiskiskip og fjörlegt í höfninni, þegar landað er. Fámenn byggðin er í brattri hlíð ofan við höfnina. Í bænum eru handunnin teppi, sem eru kennd við staðinn og hafa verið vel þekkt frá því um miðja síðustu öld. Írski ullarvefnaðurinn tweed á einnig sína þungamiðju á þessum slóðum (H5).
Donegal
Frá Killybegs höldum við áfram og komum fljótlega á N56, sem við fylgjum alla leið til Donegal-borgar. Þar reynum við að stanza sem næst aðaltorginu, Diagonal.
Donegal var upprunalega víkingaþorp, enda þýðir nafnið Útlendingavirki. Þar er nú miðstöð tweed-ullarvefnaðar á Írlandi. Þríhyrnt aðaltorgið var skipulagt 1610. Á því miðju er nú einsteinungur til minningar um fjóra írska lista- og fræðimenn. Rétt hjá torginu er Donegal Castle, sem að hluta er gamall kastali og að hluta sveitasetur frá fyrri hluta 17. aldar, einnig porthús kastalans næst aðaltorginu (H5).
Sand House
Frá Donegal förum við N15 í átt til Bundoran og beygjum til hægri í átt til Rossnowlagh-strandar.
Sand House Hotel stendur eitt sér á ströndinni, bjart hús með skrautskotraufum á þaki. Húsakynni eru virðuleg, húsgögn vönduð og eldur logar í anddyri. Þjónusta var einkar góð, jafnvel á hátimbraðan írskan mælikvarða.
Herbergi 33 snýr að hafi og hlustar á notalega svæfandi brimhljóð, ef gluggar eru opnir. Innréttingar eru vandaðar og virðulegar og húsbúnaður raunar óvenjulega fagur. Baðherbergi var einnig fallegt. Herbergið kostaði £80 fyrir tvo með morgunverði.
Veitingasalur hótelsins er með bezta móti. Kvöldverður bauð upp á fjölbreytt val milli rétta á föstu verði og kostaði £44 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Sand House Hotel, Rossnowlagh, sími 72-51777, fax 72-52100, H4)
Rosserk
Við förum aftur til baka inn á N15 og höldum áfram suður, um Bundoran og Sligo, og beygjum nokkuð fyrir sunnan Sligo til hægri út á N59 til Ballina. Þaðan getum við farið sama veg beint til Castlebar eða tekið fyrst krók til hægri eftir R314 út að afleggjara til hægri til Rosserk Abbey.
Rústir Fransiskusar-klaustursins Rosserk Abbey frá miðri 15. öld eru tiltölulega vel varðveittar, þótt það hafi verið brennt á 16. öld, þegar Englendingar stökktu munklífi á brott. Ýmsar upprunalegar skreytingar sjást enn á vesturdyrum, austurglugga og suðurþverskipi.
Þetta afskekkta hérað heitir Mayo, þekkt fyrir fábreytilegt mýrlendi og strjála byggð til sveita og sandstrendur og klettahöfða til sjávar (G4).
Breaffy
Leiðin liggur sömu leið til baka til Ballina og þaðan N59 og síðan N5 til Castlebar. Frá Castlebar getum við farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst krók úr Castlebar til vinstri eftir N60 í átt til Claremorris, þar sem við komum fljótt að skondnu sveitasetri.
Breaffy House er furðuleg blanda af gömlu og nýju, því að nýtízkulegri gler- og steypuálmu í reglubundnum stíl hefur verið skeytt við gamla og óreglulega höll. Hótelið stendur í stórum og fögrum garði. Það býður meðal annars fiskveiði, skotveiði og hestaferðir.
Aðalsalirnir eru skemmtilegir, nema borðsalurinn er hversdagslegur. Gestaherbergin eru nýtízkuleg, vel viðuð og búin, til dæmis kaffivélum og baðsloppum.
Herbergi fyrir tvo kostaði £76 með morgunverði. Hádegisverður fyrir tvo kostaði £20 og kvöldverður £30 auk drykkjarfanga.
(Breaffy House Hotel, Castlebar, sími 94-22033, fax 94-22033, G4)
Ballintubber
Við förum sömu leið til baka til Castlebar. Þaðan getum við enn farið beint til Newport eftir R311 eða tekið fyrst annan krók úr Castlebar til vinstri eftir N84 til enn eins klaustursins, Ballintubber Abbey.
Í gotneskri klausturkirkju Ballintubber Abbey hefur messa verið sungin í 780 ár, án þess að dagur hafi fallið úr, þótt mikið hafi stundum gengið á, og er það sennilega Írlandsmet. Kirkjan var reist fyrir reglu Ágústínusa 1216, en endurbyggð að hluta eftir bruna 1265.
Árið 1653 lét Cromwell eyðileggja klaustrið og brenna kirkjuþakið. Nýtt kirkjuþak í upprunalegum stíl var sett á kirkjuna 1966. Inni í kirkjunni eru ýmsir gripir frá 13. öld, svo sem altari (G4).
Newport
Við förum til baka N84 til Castlebar og þaðan R311 til Newport. Í miðbænum förum við yfir brúna á ánni og beygjum strax til vinstri um mikið hlið inn á landareign herragarðs og hótels.
Newport House er gamalt sveitasetur í georgískum stíl, fagurlega klætt gróskumiklum rauðblaða vafningsviði, svo að rétt grillir í gluggana. Húsakynni eru einstaklega virðuleg, til dæmis mikill stigasalur í miðju húsi. Matsalur er með sama brag, en matur ekki í frásögur færandi. Kaffi og konfekt eftir mat er borið fram í setustofu að höfðingja sið. Þjónusta er afar góð.
Herbergi 1 er stórt, búið fornminjum og gömlum húsbúnaði og því fylgir stórt og gott baðherbergi. Gott útsýni er til árinnar. Það kostaði £87 fyrir tvo með morgunverði og kvöldverði inniföldum.
(Newport House Hotel, Newport, sími 98-41222, fax 98-41613, (G4)
Burrishoole
Frá Newport getum við farið suður N59 til Westport. Við getum líka tekið krók norður N59 til að skoða gamlar rústir og fara út í Achill-eyju. Í síðara tilvikinu beygjum við fljótlega til vinstri á afleggjara til Burrishoole-klausturs.
Burrishoole Friary var klaustur Dóminíkusa, stofnað 1486, en breytt í virki einni öld síðar. Uppi stendur breiður og skakkur kirkju- eða virkisturn, kirkjuskip, kór og syðra þverskip, einnig hlutar klausturs (G4).
Carrigahowley
Við förum aftur út á N59, höldum þar áfram skamman veg og beygjum aftur til vinstri eftir afleggjara að gömlum hústurni.
Carrigahowley Castle er einnig nefndur Rockfleet Castle. Hann er á fjórum hæðum, reistur á 15. öld, eins og svo margir aðrir slíkir í landinu. Játvarður VI Englandskonungur niðurgreiddi slíka hústurna til að treysta tök lénsmanna sinna á óþægum þegnum írskum. Á neðstu hæð þeirra voru geymslur, en á fjórðu hæð voru vistar–verur húsráðanda. Carrigahowley Castle er vel varðveitt dæmi um þetta (G4).
Dooagh
Hér getum við snúið við, ef við höfum lítinn tíma. Annars förum við áfram N59 til Mulrany, þar sem við beygjum til vinstri eftir R319 út í Achill-eyju til þorpanna Keel og Dooagh.
Achill-eyja er tengd með brú við meginlandið. Landslag þar er sérstætt og veðurbarið, kjörið fyrir öldureið, strandlegur og fiskisport. Sandstrendur og klettahöfðar skiptast á við ströndina. Trjálaus þorpin hvíla hvítmáluð við langa sanda (G4).
Westport
Við förum sömu leið til baka R319 og N59 til Newport og síðan áfram suður til Westport.
Westport er þægilegur ferðamannabær, skipulagður og reistur 1780. Þar er þekktur herragarður, Westport House. Skemmtilegast er að koma á gamla hafnarbakkann, Quay, þar sem innréttuð hafa verið hótel og fiskveitingahús í gömlum húsum. Frá Quay er í góðu skyggni ágætt útsýni til fjallsins helga, Croach Patrick, sem við skoðum næst (G4).
Croach Patrick
Við förum R395 meðfram ströndinni frá Westport.
Til vinstri við okkur er 763 metra hár tindur fjallsins Croach Patrick, sem hefur verið heilagt fjall allt frá heiðnum tíma. Helgisögnin segir, að þar hafi heilagur Patrekur drepið alla snáka Írlands með því að hringja bjöllu sinni. Síðan hafa ekki verið snákar á Írlandi.
Síðasta sunnudag í júlí er fjallið klifið af tugþúsundum pílagríma, sumra berfættra, sem syngja síðan messu í bænhúsinu á fjallstindinum. Að vestanverðu eru ljót sár í hlíðum fjallsins af völdum þessa árlega áhlaups (G4).
Kylemore
Við förum áfram R395, unz hann mætir N59, þar sem við beygjum til hægri og förum N59 um Leenane til draumahallarinnar Kylemore.
Við sjáum Kylemore Abbey rísa skyndilega með ótal turnum og skotraufum úr skógi handan stöðuvatns eins og í draumi eða Disney-mynd.
Þetta er raunar ekki gömul bygging, nýgotneskur kastali frá 19. öld og hýsir skóla af nunnureglu Benedikts. Hlutar kastalans eru opnir almenningi (G3).
Connemara
Við höldum áfram N59 skamma leið og beygjum til vinstri afleggjara að þjóðgarðinum í Connemara.
Connemara National Park nær yfir 200 hektara af heiðum, mýrum, móum og skógi. Hér eiga heima rauða dádýrið írska og Connemara-smáhesturinn. Yfir ferðamiðstöðinni gnæfir tindurinn Diamond Hill, 445 metra hár. Þaðan er gott útsýni yfir Connemara-hérað.
Connemara er eyðilegt og fjölbreytt land, þar sem skiptast á vötn og ásar, lækir og mýrar, höfðar og fjörusandar. Strjálbýlt er í þessu ófrjósama landi og fólk talar enn gelísku að fornum sið. Héraðið er stundum kallað Gaeltacht, land keltanna (G3).
Currath
Áfram liggur leið okkar á N59. Fljótlega komum við að Letterfrack, þar sem við eigum ýmissa kosta völ. Fljótlegast er að halda beint áfram. Við getum líka beygt til hægri á hliðarveg niður að Tullycross og Renvyle.
Við ströndina í Renvyle er Currath Castle, einn margra hústurna Írlands. Þessi hefur þá sérstöðu, að brimið hefur brotið eitt hornið, svo að hægt er sjá innri gerð turnsins, svo sem steintröppur milli hæða (G3).
Rosleague
Við höldum sömu leið til baka upp á N59. Fljótlega komum við til hægri að Rosleague Manor.
Rosleague Manor er sveitasetur á smáhæð í stórum garði við Letterfrack. Það er nú hótel, hlaðið forngripum og listaverkum. Þjónusta er sérstaklega vingjarnleg. Gestaherbergin eru yfirleitt stór og afar vel búin. Tveggja manna herbergi kostaði £90 með morgunverði.
Veitingasalurinn Rosleague Manor er með hinum betri í landinu. Þetta er virðulegur og fallegur salur, þar sem boðið er upp á fjórrétta kvöldverð, sem kostaði £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Rosleague Manor Country House, Letterfrack, sími 95-41101, G3)
Abbeyglen
Við förum áfram N59 til Clifden, þar sem við leitum uppi Abbeyglen Castle, sem er utan í hæðinni handan bæjarins.
Abbeyglen Castle er hótel, sem byggt hefur verið í kastalastíl með oddmjóum gluggum, hornturnum og skotraufum á þakbrún. Umhverfis hótelið eru miklir garðar og skógar fjær. Þjónusta er mjög góð. Gistiherbergi eru fremur stór og vel búin. Gott útsýni er úr flestum þeirra. Bezt eru herbergin í aðalbyggingunni. Tveggja manna herbergi kostaði £99.
(Abbeyglen Castle, Clifden, sími 95-21201, fax 95-21797, G3)
Clifden
Við höldum áfram þennan hliðarveg upp brekkuna. Við erum á svonefndum Sky Road, sem liggur í hring um skagann fyrir utan Clifden.
Gott útsýni er af þessum vegi, einkum til annesja, eyja og hafs. Þetta er fagra landslagið, sem Connemara er þekkt fyrir (G3).
Cashel
Aftur erum við komin upp á N59 og förum hann gegnum Clifden á nýjan leik. Næst beygjum við af honum til hægri, annað hvort á R341 eða R340 og fylgjum vegprestum til Cashel Bay.
Við þjóðveginn í Cashel Bay eru tvö frábær hótel, Zetland House og Cashel House. Hið síðarnefnda er í sérflokki að gæðum, þótt það sé frægast fyrir að hafa verið hvíldarstaður de Gaulle Frakklandsforseta.
Cashel House er einstaklega fagurt hús í fögrum garði, sem er nánast bótanískur. Að húsabaki eru hesthús. Húsakynni eru fremur fornleg og tilviljanakennd, en ákaflega viðkunnanleg. Til dæmis er hvert skotið inn af öðru á leiðinni á barinn. Alls staðar eru setustofur, bókasöfn og kimar með þröngum göngum á milli.
Herbergi 18 er stílhreint, fremur lítið, en afar vel nýtt og vel búið og með góðu útsýni út í garðinn. Hnausþykkt teppi er á gólfi. Það kostaði £127 fyrir tvo með morgunverði.
Veitingasalurinn er í virðulegum glerskála, sem skagar út í garðinn. Þar er matreiðsla afar góð, en leiðindaþjónn skildi litla ensku og talaði frönsku upp í nef á sér. Fimm rétta kvöldverður er með fjölbreyttu vali í hverjum lið og kostaði £64 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Cashel House, Cashel Bay, sími 95-31001, fax 95-31077, G3)
Ashford
Frá Cashel förum við áfram R341 og síðan til vinstri R340 og svo til hægri N59 alla leið til Maam Cross. þar beygjum við til vinstri R336 til Maam og þaðan til hægri R345 til Cong. Þar er Ashford Castle handan steinbrúar í risastórum garði.
Ashford Castle er kapítuli út af fyrir sig. Það er steingrátt draumahótel í furðulegri blöndu af fornum 13. aldar kastala, gömlum herragarði í frönskum hallarstíl og nýjum byggingum í gömlum kastalastíl. Allt er þetta í óraunverulegum graut. Eigin golfvöllur er á landareign hótelsins.
Sem hótel er Ashford Castle frábær. Að innan er andrúmsloft takmarkalauss ríkidæmis, viðarklæðningar þungar og fornminjar margar. Góð fundaraðstaða er fyrir mandarína Evrópusambandsins, sem oft hittast hér. Gistiherbergi eru mjög rúmgóð og bjóða gott útsýni og hvers kyns lúxus, enda kostaði tveggja manna herbergi £256 (!) með morgunverði.
Matreiðsla er ekki síðri í Ashford Castle. Annar matsalurinn, Connaught Room, er í gamla herragarðinum, konunglegur að svipmóti, með miklum viðarklæðningum og risastórum gluggum. Hinn er George V Room, stærri og heldur ódýrari. Í fyrri salnum kostaði kvöldmatur £80 fyrir tvo og í hinum síðari £70, hvort tveggja auk drykkjarfanga.
Aðgangur að svæðinu kostaði £2.
(Ashford Castle, Cong, sími 92-46003, fax 92-46260, G3)
Ross
Áður en við snúum til baka frá Cong, getum við tekin krók og farið áfram 345 til Cross og síðan til hægri R334 stutta leið til klaustursins í Ross.
Ross Abbey er bezt varðveitta munkaklaustur Fransiskusa á Írlandi, upphaflega reist 1351, en stækkað og endurbyggt á 15. öld. Munklífi var hér til 1753. Úr kirkjuturninum frá 1498 er gott útsýni yfir klausturbyggingarnar og sveitirnar í kring. Í kirkjunni eru veggfreskur og 15. aldar gluggar. Í klaustrinu má meðal annars sjá skrúðhús, handþvottahús, mötuneyti og handritaverkstæði (G3).
Oughterard
Frá Ross förum við til baka, fyrst R334 og R345 til Cong, síðan áfram R345 til Maam og R336 til Maam Cross. Þar beygjum við til vinstri á N56 til bæjarins Oughterard.
Þegar við komum inn í Outherard, er hvíta hótelið Sweeny’s Oughterard House á vinstri hönd, klætt vafningsviði, 200 ára gamalt, með svefnálmu í yngra bakhúsi. Forngripum er smekklega komið fyrir í almenningssölum hótelsins og sumum herbergjum. Andrúmsloft staðarins er einkar þægilegt. Gistiherbergi eru einföld, en vel búin að öllu leyti. Tveggja manna herbergi kostaði £70 með morgunverði og kvöldverði.
(Sweeny’s Oughterard House, Oughterard, sími 91-82207, fax 91-82161, G3)
Currarevagh
Við förum áfram gegnum þetta rólega sveitaþorp. Úr þorpsmiðju er hliðargata til vinstri til Currarevagh House. Við tökum þann krók um skóga á bakka Corrib-vatns.
Currarevagh House er gamalt sveitasetur á friðsælum stað í eigin skóglendi. Húsið líkist ekki hóteli, heldur heimili. Það er einkum stundað af veiðimönnum og ber þess merki í húsbúnaði.
Herbergi 1 er frábært hornherbergi með þremur stórum gluggum með góðu útsýni til vatnsins. Hátt er lofts og vítt til veggja, húsbúnaður gamaldags, vel teppalagt alveg inn að baðkeri. Öll þægindi eru í herberginu, nema sjónvarp og sími, því að hér er ætlast til, að gestir vilji gleyma umheiminum. Herbergið kostaði £90 fyrir tvo með morgunverði.
Hótelgestir borða allir sama fjórréttaðan kvöldmat á sama tíma. Gestgjafinn ber sjálfur kjöt eða fisk á borð og spjallar við fólk. Á eftir drekka gestir saman kaffi í setustofu. Þetta er afar heimilislegt og þægilegt. Fólk fer snemma í háttinn og morgunverður hefst ekki fyrr en klukkan níu. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £38 auk drykkjarfanga.
(Currarevagh House, Oughterard, sími 91-82313, fax 91-82731. Plastkort eru ekki tekin gild. G3)
Aughnanure
Við förum afleggjarann til baka til Oughterard, beygjum í þorpinu til vinstri N59. Síðan beygjum við til vinstri afleggjara, sem merktur er Aughnanure kastala.
Aughnanure Castle er vel varðveitt turnhús með virkisveggjum og rústum veizlusalar. Turninn er sex hæða með 73 þrepa hringstiga. Á næstefstu hæð eru svefnherbergi og setuskáli með arni á efstu hæð. Ofan af turninum er gott útsýni til Corrib-vatns (G3).
Galway
Við förum afleggjarann til baka og beygjum til vinstri inn á N59, sem við förum alla leið til Galway. Við förum yfir brúna og af hringtorginu inn í miðbæinn og finnum bílastæði.
Galway er stærsta borg vesturstrandarinnar og miðstöð gelískrar tungu. Gamli miðaldakjarninn með þröngum götum og lágum húsum er helzta aðdráttarafl ferðamanna.
Shop Street er aðalstræti gamla bæjarins og mætti vera lokað fyrir bílaumferð. Fyrir því miðju er Lynch’s Castle frá 16. öld með ýmsum skreytingum á útveggjum og lifir góðu lífi sem bankastofnun í nútímanum.
Aðeins sunnar við götuna er St Nicholas’ kirkja, reist 1320 og stækkuð á 15. og 16. öld, einföld og traustleg í sniðum (G3).
Dunguaire
Úr bænum förum við fyrst N6, síðan N18 og loks N67, þar sem við komum fljótt að Dunguaire kastala við sjóinn á hægri hönd.
Dunguaire Castle er fjögurra hæða hústurn með ytri virkisvegg, reistur 1520, en lagfærður á 20. öld. Á 1. og 2. hæð turnsins eru nú haldnar tvisvar á dag bráðskemmtilegar miðalda-matarveizlur með leikþáttum, gamanmálum, ljóðlist, klámi, söng og dansi, allt flutt af miklum krafti. Veizlurnar hefjast kl. 17:45 og 21 og kostuðu £60 fyrir tvo (G3).
Aillwee
Við höldum áfram N67 og beygjum til vinstri á R480, þar sem við komum að Aillwee-helli.
Aillwee Cave er langur og mjór hellir, sem fannst 1940. Hann nær 1034 metra inn í hriplekt kalksteinsfjallið. Hann skartar mörgum, litlum dropasteinum í lofti og gólfi og býr yfir örlitlum fossi. Skemmtileg flóðlýsing magnar hellisskartið. Í nágrenni hans er mikið kerfi hella og neðanjarðarlækja, sem fannst 1987 (G3).
Burren
R480 liggur áfram upp á Burren, nakið, vatnslaust og gróðurlítið, 260 ferkílómetra kalksteinshálendi, sem er verið að gera að þjóðgarði.
Við veginn, einkum vinstra megin, er töluvert af steinaldargröfum, eins konar Grettistökum, frá 4000-2000 fyrir Krist. Voldugar steinhellur hafa verið reistar upp á rönd og enn þyngri hellur lagðar yfir sem þak (Mynd aftan á bókarkápu) (G3).
Leamaneh
Við förum áfram R480 og beygjum til hægri inn á R476.
Á vegamótunum gnæfir mikilúðleg rúst Leamaneh Castle, fjögurra hæða hallar með stórum gluggum frá 17. öld, áföst eldri hústurni með litlum gluggum frá 15. öld. 88 þrep eru upp (G3).
Kilfenora
Áfram förum við R476 til Kilfenora.
Í miðju þorpinu eru klausturrústir, sem að hluta til eru frá elztu kristni, 6. öld. Í litlum kirkjugarði eru þrír hákrossar frá 12. öld. Sjálf kirkjan er að mestu frá 1190, en lagfærð á 15. öld og stendur nú uppi að mestu, enn notuð við guðsþjónustur. Fyrr á öldum var þetta biskupssetur, en má nú muna fífil sinn fegurri (G3).
Moher
Við höldum áfram R476 til Lisdoonvarna, þar sem við beygjum til vinstri á L54 (R478) og förum þann veg alla leið til Moher-kletta.
Cliffs of Moher er 8 kílómetra langt belti myrkra sandsteinskletta, sem gnæfa 182 metra úr sjó, næsta lóðréttir. Auðveldur göngustígur er upp að turni O’Brien’s, þaðan sem útsýni er gott til klettanna. Turninn er frá 1853. Við bílastæðið er ferðamannamiðstöð, þar sem upplýsingar fást um gönguferðir á svæðinu. Aðgangur að turni £0,65. Einnig bílastæðagjald (G3).
Ennis
Frá klettunum förum við áfram L54 (R478) til Lahinch, þaðan N67 til Ennistymon, þar sem eru skemmtilega gamlar framhliðar verzlana við aðalgötuna, og frá Ennistymon N85 til Ennis. Þar staðnæmumst við fyrir framan Ennis-munkaklaustrið.
Ennis Friary var á sínum tíma öflugt klaustur Fransiskusar-munka. Á 14. öld voru þar 350 munkar og 600 skólanemendur á sama tíma. Staðurinn komst nýlega aftur í eigu munkareglunnar.
Klausturkirkjan er frá 13. öld, nema suðurþverskip og miðturn frá 15. öld. Hún er þaklaus, en stendur að öðru leyti að mestu uppi. Þekktasta einkenni hennar eru háir og mjóir gluggar í kórbaki (G2).
Clare
Við förum R469 frá Ennis til Clare, Quin, Knappogue og Craggaunoven og komum fljótt að fyrsta áfangastaðnum, þar sem við beygjum til hægri framan við járnbrautarstöðina.
Clare Abbey eru víðáttumiklar rústir Ágústínusarklausturs frá 1189. Enn stendur uppi kirkjuskipið að mestu, miðturn hennar og hluti klaustursins (G2).
Quin
Áfram förum við R469, unz við komum að rústum á vinstri hönd.
Quin Fransican Friary eru umfangsmiklar rústir mikilfenglegs klausturs Fransiskusarmunka frá 1430. Enn standa klausturhús að mestu, miðturn og suðurþverskip kirkjunnar. Klaustrið var byggt á rústum normansks kastala, sem aftur á móti var reistur á rústum eldra klausturs (G2).
Knappogue
Enn liggur leiðin R469 og við beygjum til hægri að Knappogue kastala.
Knappogue Castle var reistur 1467 til varnar gegn normönsku innrásarliði og hefur að mestu verið í ábúð síðan. Hann er raunar fagurlega hönnuð höll, sem byggð er kringum kastala. Nú eru haldnar miðaldaveizlur í glæsilegum matsal kastalans tvisvar á dag, kl. 17:45 og 21 og kostuðu £60 fyrir tvo. Matur og borðbúnaður er að fornum hætti. Gestum er skemmt með söng og ljóðum, leikþáttum og dansi, sem gefa góða innsýn í sögu Írlands og sönghefð (G2).
Craggaunoven
Aftur förum við á R469 og staðnæmumst loksins við Craggaunoven-safnið.
Craggaunoven Centre er eins konar safn til írskrar fornsögu. Safnið er í fornum hústurni frá 16. öld. Þar hefur verið til sýnis nautshúðabáturinn Brendan, sem siglt var til Ameríku 1976-1977 til að staðfesta, að heilagur Brendan hafi getað fundið Ameríku á slíkum báti á 6. öld.
Fyrir neðan turninn hefur verið gerð eftirlíking af bronsaldarþorpi á hólma úti í vatni með brú í land. Byggingarstíll þorpsins minnir á hliðstæð Afríkuþorp (G2).
Dromoland
Við förum R469 til baka til Ennis og þaðan N18 til Newmarket-on-Fergus, þar sem við komum að víðáttumiklum görðum og golfvelli voldugs kastala.
Dromoland Castle er frá 1570 og var í eigu helztu ættar írskra konunga, Brjánunga, unz kastalanum var breytt í eitt mesta lúxushótel Írlands. Helzta einkenni hans er mikill sívaliturn á einu horninu. Að innanverðu er kastalinn einkar notalegur, með snarkandi eldi í arinstæðum, miklu af forngripum og listaverkum. Við fáum okkur drykk á bókasafnsbarnum og kaffi við einn arineldanna. Herbergin eru misjöfn að stærð, en öll einkar vel og fagurlega búin, enda kostar nóttin hér £252 (!) fyrir tvo með morgunverði.
Höfuðveitingasalur hótelsins, Earl of Thomond Room, er einn hinn bezti á Írlandi, enda þarf hann að vera það, því að kvöldverður fyrir tvo kostaði £90 auk drykkjarfanga.
(Dromoland Castle, Newmarket-on-Fergus, 61-368144, fax 61-363355, G2)
Bunratty
Frá Dromoland förum við N18 næstum alla leið til Limerick, en fylgjum vegvísi til Bunratty-kastala, sem er raunar alveg við þjóðveginn.
Bunratty Castle er óvenjulega stór og mikilúðlegur hústurn frá 1460, nýlega færður í það horf, sem hann var í á 16. öld. Í honum er safn húsmuna og teppa frá 14. öld til 17. aldar.
Við hlið kastalans er eins konar Árbæjarsafn, Bunratty Folk Park, þar sem sýnd eru gömul hús og endurgerðir gamalla húsa, sem mynda saman tilbúna þorpsgötu með vel heppnuðu 19. aldar yfirbragði.
Við kastalann er einnig veizlusalur, þar sem gestir fá að borða með hníf og fingrum og fylgjast með írskri skemmtidagskrá hávaðasamri. Veizlurnar hefjast kl. 17:45 og 21 allt árið um kring og kostuðu £60 fyrir tvo (G2).
Limerick Inn
Frá Bunratty er stutt leið eftir N18 til Limerick. Rétt fyrir utan bæinn komum við að ágætu gistihúsi vinstra megin vegar, greinilega merktu.
Limerick Inn er lágreist nútímahótel í stöðluðum hótelstíl, en eigi að síður notalegt. Þetta er annasamt flugvallar- og ráðstefnuhótel.
Herbergi 404 var stórt og vel búið, til dæmis hárþurrku og buxnapressu. Baðherbergið var ekki síðra. Það kostaði £73 fyrir tvo með morgunverði.
Matreiðsla er betri en við má búast á hóteli af þessu tagi. Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £50 auk drykkjarfanga.
(Limerick Inn, Limerick, sími 61-326666, fax 61-326281, G2)
Limerick
Við höldum áfram N18 inn í Limerick, beygjum til vinstri, þegar við komum að ánni og förum yfir næstu brú. Þar komum við handan ár að borgarkastalanum.
King John’s Castle er afar vel varðveittur og mikilúðlegur normanskur kastali frá því um 1200. Hann kom víða við sögu Írlands, svo að vel er við hæfi, að þar hefur nú verið innréttað þjóðminjasafn.
Næst kastalanum neðar við ána er kirkja í rómönskum stíl, St Mary’s Cathedral, elzta mannvirki bæjarins, frá 1168.
Við ökum áfram beina línu Nicolas Street, Mary Street, yfir brú og síðan John Street og komum þar í borgarmiðju.
St John’s Cathedral er kirkja í nýgotneskum stíl frá 1861, með hæstu turnspíru Írlands, 85 metra hárri. Við kirkjuna er John Square, þar sem er borgarsögusafnið, Limerick Museum, í 18. aldar húsi (G2).
Adare
Úr Limerick förum við fyrst N20 og síðan N21 til Adare, fallegs þorps með afar fínu hóteli.
Adare Manor er höll í nýgotneskum stíl með mörgum smáturnum í stórum garði við ána Maigue. Hótelið er afar vel innréttað í gömlum stíl og gestaherbergin í aðalhúsinu eru sérstaklega falleg og vönduð. Tveggja manna herbergi kostaði líka £220 með morgunverði.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði £65 auk drykkjarfanga.
(Adare Manor, Adare, sími 61-396566, fax 61-396124, G2)
Crag
Áfram höldum við eftir N21 unz við komum rétt hjá Castleisland að afleggjara til vinstri til Crag-hellis.
Crag Cave er meira en milljón ára gamall kalksteinshellir, sem fannst af tilviljun 1983. Hann er nærri fjögurra kílómetra langur, en til sýnis er 350 metra kafli. Þar eru ósnertir dropasteinar, sem eru fegurstir í flóðlýstum aðalsalnum, Crystal Gallery (G2).
Blennerville
Við förum afleggjarann til baka inn á N21 og ökum um Castleisland til Tralee, þar sem við förum á R559 til Blennerville, þar sem við stönzum við vindmyllu handan langrar brúar.
Blennerville kornmölunar-vindmyllan er 18 metra og fimm hæða, reist um 1800 og er enn í lagi, þótt rafmótor fari í gang, þegar vindur bregzt. Í safni við hlið myllunnar er sagt frá vindmyllun og kornmölun, svo og frá írskum vesturheimsförum.
Hér er einnig brautarstöð rúmlega hundrað ára gamallar mjóspora járnbrautar milli Tralee og Blennerville. Ferðamenn fara þessa leið í þremur upprunalegum vögnum, sem eru dregnir af upprunalegum eimvagni (G2).
Connor
Við höldum áfram R559 og síðan R560 í átt til Connor Pass og loks þverveg merktan Connor Pass. Þann veg förum við upp í skarðið.
Connor Pass er hæsti fjallvegur Írlands, 456 metra hár. Vegurinn liggur í sneiðingi upp snarbratta klettahlíð inn í smáskarð í fjallakambinum. Í skarðinu er bílastæði, þaðan sem útsýni er til beggja átta. Á þessum slóðum er landslag nakið og hrikalegt (F2).
Dingle
Við förum niður sneiðinginn hinum megin til bæjarins Dingle.
Dingle er blanda af fiskveiðibæ og ferðamannabæ. Ytri og innri höfnin veita gott skjól gegn höfuðskepnunum, því að þær eru báðar næstum lokaðar. Annað hvert hús í miðbænum er annað hvort krá eða veitingahús (F2).
Doyle’s
Í miðbænum finnum við Doyle’s Seafood Bar, gamalt hús frá 1830. Þar eru átta þægileg gistiherbergi búin forngripum og glæsilegum baðherbergjum. Tveggja manna herbergi kostaði £62 með morgunverði.
Doyle er þó fyrst og fremst þekkt sem bezta fiskveitingahús vesturstrandarinnar. Þar fæst á hverjum degi ferskt sjávarfang og matseðillinn breytist frá degi til dags. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £40 auk drykkjarfanga.
(Doyle’s Seafood Bar, 4 John Street, Dingle, s 66-51174, fax 66-51816, F2)
Fahan
Við förum vestur úr bænum leið merkta Slea Head Drive. Brátt komum við að vegamótum, þar sem hliðarvegur er merktur Gallarus Oratory. Við kjósum í bili að halda beint áfram og förum um þorpið Ventry.
Við komum að skilti við Dunbeg Fort. Þaðan er gengið til vinstri að forsögulegu strandarvirki frá járnöld niðri við sjávarhamra.
Skömmu síðar byrjum við að sjá vegvísa til Fahan-kofa. Við getum stanzað við hinn fyrsta, því að þar er örstutt leið til hægri frá bílastæðinu upp að fornleifunum.
Á þessum slóðum í hlíðum Eagle fjalls eru rúmlega 400 steinhlaðnir kofar (behive huts eða clochans) frá forsögulegum tíma, allir hlaðnir í hálfkúluformi án steinlíms eða annars bindiefnis, margir hverjir í ágætu ásigkomulagi. Þeir eru í smáhópum hér og þar um hlíðina. Flestir kofarnir eru taldir frá 6.-10. öld (F2).
Gallarus
Við getum snúið við og haldið að áðurnefndum gatnamótum til Gallarus Oratory og beygt þar til vinstri. Við getum líka haldið áfram skemmtilega útsýnisleið kringum nesið og komið að Gallarus Oratory úr hinni áttinni.
Gallarus Oratory er ein merkasta fornleif Írlands. Það er steinkirkja frá 8. eða 9. öld, hlaðin úr steinhellum frá jörð og upp í mæni án steinlíms eða annars bindiefnis. Hleðslan er afar vönduð og vatnsþétt og hefur varðveitzt fullkomlega, þótt flestar aðrar slíkar kirkjur hafi hrunið undan eigin þunga (F2).
Aghadoe
Frá Gallarus Oratory förum við aftur til Dingle og þaðan 559 Annaschaul, 561 til Castlemaine, N70 til Milltown og loks R563 næstum alla leið til Killarney, en beygjum til hægri eftir vegvísi til Aghadoe Heights hótels.
Aghadoe Heights er fremur nýtízkulegt og glæsilegt útsýnishótel uppi á hæð vestur af Killarney, með ágætu útsýni til Leane-vatns og fjallanna kringum Dunloe-skarð. Þjónusta er afar góð á þessu hóteli, enda sameinar hún þýzka nákvæmni og írskt hjartalag.
Herbergi 227 var afar stórt og glæsilegt og ekki sízt stílhreint, með góðu útsýni og öllum þægindum. Það kostaði £145 fyrir tvo með morgunverði.
Veitingasalurinn er ekki síður góður, að hönnun, útsýni og matreiðslu. Kvöldverður fyrir tvo var frábær og kostaði £60 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Aghadoe Heights Hotel, Killarney, sími 64-31766, fax 64-31345, G1)
Waterwille
Frá Aghadoe förum við til Killarney og þaðan R562 til Killorglin og N70 fallega leið til Glenbeigh, Cahirciveen og Waterwille á Iveragh-skaga.
Waterville er þekktur sumardvalarstaður með ánægjulega gamaldags andrúmslofti. Aðalgatan er við sjávarsíðuna, með húsum á aðra hlið og vel ræktuðum garði sjávarmegin. Flest húsin eru gistihús eða veitingahús (F1).
Staigue
Frá Waterville höldum við áfram N70, fyrst upp í Coomakista-skarð fyrir ofan bæinn, þaðan sem er gott útsýni af bílastæði til beggja átta yfir stórbrotið landslag Iveragh-skaga. Áfram höldum við unz við komum að vegvísi til vinstri til Staigue.
Staigue er 2000 ára gamalt hringvirki, sem hefur að mestu staðizt tímans tönn. Veggirnir eru 5 metra háir og 4 metra breiðir. Það hefur sennilega verið reist sem griðastaður héraðsbúa gegn aðvífandi sjóræningjum. Fleiri slík virki hafa fundizt á þessum slóðum, en Staigue er stærst og bezt varðveitt. Aðgangur £0,40 (F1).
Dromquinna
Við förum áfram N70 til snoturs smábæjar, sem heitir Sneem, og áfram næstum alla leið til Kenmare, en beygjum til hægri afleggjara til Dromquinna hótels.
ður í Viktoríustíl í fögru landi við sjóinn, með eigin bátahöfn. Hótelið er einkar notalegt, með brakandi trégólfum, snarkandi arni og hverri setustofunni inn af annarri. Þetta er góður slökunarstaður.
Herbergi án númers, kennt við Robertson, er afar stórt og afar glæsilegt, með himinsæng og stórum gluggum út í garðinn. Baðherbergi er líka glæsilegt, með parketti á gólfi. Verðið var £70 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður kostaði £40 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Dromquinna Manor Hotel, Blackwater Bridge, Kenmare, sími 64-41657, fax 64-41791, G1).
Kenmare
Frá Dromquinna er stutt leið um N70 til Kenmare. Við stönzum við aðaltorgið eða sem næst því.
Kenmare er skemmtilegur bær með gamaldags verzlunargötu, Main Street, upp frá torginu. Samsíða þeirri götu liggur Market Street frá torginu að 4000 ára gömlum steinhring, sem sennilega er gerður af spönskum koparnámumönnum. Einn stór steinn er í miðjunni og 15 minni steinar kringum hann (G1).
Glengariff
Við förum frá Kenmare fallegan fjallveg um N71 með 726 metra jarðgöngum gegnum háfjallið og komum hinum megin niður að bænum Glengariff.
Þorpið hefur verið ferðamannastaður í hálfa aðra öld. Frægasta mannvirkið er Eccles-hótel við höfnina, reist 1833. Það ber enn hinn fagra og upprunalega svip frá þeim tíma, er Viktoría Bretadrottning varði þar sumarleyfi sínu. Að innan sem utan varðveitir hótelið sjarma 19. aldarinnar (G1).
Sea View
Við höldum áfram N71 til Ballylickey, þar sem tvö frábær hótel eru hlið við hlið vinstra megin við þjóðveginn, Ballylickey Manor House og Sea View House.
Sea View House Hotel er hvítmáluð sumarhöll á brekkubrún, afar notaleg, þekktust fyrir matreiðsluna. Forngripir eru víðs vegar um húsið.
Herbergi 4 er meðalstórt, stílhreint og gamaldags, með afar litlu baðherbergi með setubaðkari og sturtu. Þaðan er gott útsýni yfir garðinn í átt til sjávar. Verðið var £132 fyrir tvo með morgunverði, sem fól meðal annars í sér þjóðlegar kartöflupönnukökur og smjörsteikta kartöfluklatta.
Matsalurinn er í nokkrum samtengdum herbergjum. Þar er boðið upp á fimmréttaðan veizlukvöldmat, sem fól meðal annars í sér carragen-þang með rabarbara og rjóma í eftirrétt. Kvöldverðurinn kostaði £46 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Sea View House, Ballylickey, sími 27-50462, fax 27-51555, G1)
Bantry
Áfram förum við N71 stuttan veg til 19. aldar bæjarins Bantry. Þegar við erum komin yfir aðaltorgið, beygjum við til vinstri um hlið á múrvegg um form–lega, ítalska garða að Bantry House.
Bantry House er höll frá 1740 og er í senn hótel og listmunasafn, þar sem ægir saman ýmsu því, sem fyrri eigendur hallarinnar hafa safnað saman á hálfri þriðju öld.
Safnið tekur á móti gestum í tíu gistiherbergi. Tveggja manna herbergi kostaði £90 með morgunverði, kvöldverður £40 fyrir tvo auk drykkja.
Aðgangur að safni £2,50 (G1).
Drombeg
Leið okkar liggur áfram eftir N71 um Skibberen og beygjum síðan til hægri hliðargötu til Glandore, lítið þorp við litla höfn. Við förum R597 um þorpið og gáum að afleggjara til hægri til Drombeg.
Drombeg Circle er einn bezt varðveitti steinhringur Írlands. Fjórtán miklar steinhellur, sem standa upp á rönd, sumar mannhæðarháar, mynda hring með níu metra þvermáli (G1).
Timoleague
Við höldum áfram til Roscarberry, þar sem við komum aftur á N71 og beygjum síðan í Clonakilty á R600 til Timoleague.
Í Timoleague eru rústir munkaklausturs Fransiskusa frá 1320, sem eyðilagt var af Cromwell 1642. Í nágrenninu eru rústir holdsveikraspítala frá 12. öld og Barrymore kastala frá 13. öld (G1).
Kinsale
R600 flytur okkur áfram til hafnarborgarinnar Kinsale. Við stönzum á stæði við bátahöfnina og skoðum bæinn.
Kinsale hefur löngum verið talin veitingaparadís Írlands, þótt minna fari fyrir því um þessar mundir. Sjávarfang einkennir matsölustaði og staðarhótel.
Seglskútur setja svip á höfnina. Þetta er með elztu bæjum Írlands. Götur eru þröngar og tæpast bílfærar. Hús eru hvít og vandlega máluð og snyrtileg. Þetta var lengi svo enskur bær, að Írar máttu ekki búa þar fyrr en við lok 18. aldar (G1).
Charles
Við förum áfram úr bænum og tökum stefnuna til borgarvirkisins.
Charles Fort stendur á höfða vestan innsiglingarinnar til Kinsale. Virkið er frá 1670. Það er svo víðáttumikið, að það er eins og heilt þorp, umlukið feiknalegum múr. Þetta virki reistu Englendingar eftir strandhögg Spánverja og notuðu það til 1922, þegar írska lýðveldið var stofnað. Gott útsýni er úr virkinu til hafnarinnar í Kinsale. Aðgangur £1 (G1).
Cork
Frá borgarvirkinu höldum við áfram eftir R600 inn í borgarmiðju í Cork, þar sem við leitum að bílastæði.
Aðalgöturnar í Cork eru breiðgatan Grand Parade og bogastrætið St Patrick’s Street. Húsin við þessar götur eru fremur lág og björt og gefa miðbænum notalegan svip.
Yfir honum sunnanverðum gnæfir kirkjan St Fin Barre’s Cathedral í nýgotneskum stíl frá 1865. Miðturninn er 73 metra hár. Rétt vestan kirkjunnar er virkið Elizabethan Fort frá 1590, þaðan sem er gott útsýni yfir miðbæinn (G1).
Arbutus
Við ökum úr miðbænum eftir St Patrick’s Street, síðan beint yfir brúna á Lee, beygjum til hægri, ekki á árbakkanum, heldur næstu götu ofar, Mac Curtain Street. Síðan beygjum við lítillega skáhallt til vinstri upp brekkuna Summerhill og í framhaldi af henni skáhallt upp Middle Glanmire Road. Þar er Arbutus Lodge hægra megin götunnar.
Arbutus Lodge er borgarhús í fallegum garði í brekku yfir miðbænum. Það er eitt allra bezta veitingahús Írlands og er lítið hótel um leið. Húsakynni eru gömul og virðuleg. Þjónusta er hressileg.
Herbergi Montenotte hefur því miður ekki útsýni yfir borgina eins og mörg önnur. Það er þó stórt og skemmtilegt, búið gömlum húsgögnum. Það kostaði £110 fyrir tvo með morgunverði, sem meðal annars fól í sér fersk jarðarber og hindber.
Kvöldveizla hússins hófst með geitaostssalati. Síðan komu kræklingur og valhnetur í hvítlaukssósu. Þá rabarbara- og engifer-ískrap. Aðalrétturinn var steikt önd með andalærisfyllingu. Svo komu írskir ostar að eigin vali, eftirréttir af vagni og loks kaffi.
Þessi frábæra veizla kostaði £56 fyrir tvo. Þríréttaður kvöldverður kostaði £44 fyrir tvo.
(Arbutus Lodge, Middle Glanmire Road, Cork, sími 21-501237, fax 21-502893, G1)
Cobh
Við förum niður Middle Glanmire Road og Summerhill og beygjum skarpt til vinstri á Lower Glanmire Road, þaðan sem N25 tekur við úr bænum. Við beygjum síðan til hægri afleggjara til Cobh, þar sem við stönzum við höfnina.
Cobh (borið fram “kóv”) var höfn brezka flotans í frelsisstríði Bandaríkjanna, brottfararhöfn hundraða þúsunda af írskum vesturheimsförum, og síðast áningarstaður stóru áætlunarskipanna á Atlantshafi.
Yfir höfninni gnæfir nýgotneska dómkirkjan St Colman’s Cathedral með risastórum turni, sem hýsir 47 kirkjuklukkur, reist 1868-1915 fyrir samskotafé vesturheimsfara (H1).
Youghal
Við förum aftur út á N25 og ökum alla leið til Youghal, þar sem við stönzum við aðalgötuna, Main Street.
Ýmis merkileg mannvirki eru við þessa götu. Clock Gate er hús í sunnanverðum borgarmúrnum og spannar götuna á fjórum hæðum, reist 1777. Við norðanverðan múrinn er vinstra megin Red House í hollenzkum stíl frá fyrri hluta 18. aldar, og hægra megin Tynte’s Castle, hústurn frá 15. öld. Undir norðurmúrnum er líka St Mary’s Collegiate Church frá fyrri hluta 13. aldar.
Múrinn umhverfis miðbæinn er merkasti borgarmúr Írlands, enda heill enn, þótt reistur hafi verið á 13. öld (H1).
Clonmel
Við förum N25 úr bænum í átt til Waterford, en beygjum fljótlega til vinstri R671, sem við fylgjum fagra leið til Clonmel. Við reynum að leggja bílnum í O’Connell Street eða sem næst því.
O’Connell Street er aðalgata bæjarins. Að austan endar hún á Main Guard, gömlu dómhúsi borgarinnar. Í vesturenda götunnar stendur West Gate klofvega yfir henni, 14. aldar hlið á borgarmúrnum. Frá hliðinu liggur sund til norðurs að St Mary’s Church, sem ber áttstrendan turn. Í kirkjugarðinum er heillegur kafli gamla múrsins (H2).
Caher
Við tökum N24 til Caher og stönzum á bílastæði milli aðaltorgs og kastala.
Höfuðprýðin í Caher er Caher Castle, umfangsmikill kastali við ána Suir. Hann var reistur á 13. öld og endurbættur á 15. öld. Í miðjunni er turnhús og þrjú port, en utar er virkisveggur með þremur stórum turnum. Kastalinn er í góðu ásigkomulagi og hýsir nú héraðsminjasafn (H2).
Cashel
Héðan förum við N8 til Cashel, beygjum til vinstri inn í aðalgötu þorpsins og þaðan til vinstri inn um hlið og heimreið að gamalli biskupshöll.
Cashel Palace Hotel var reist 1730 í palladískum endurreisnarstíl sem biskupssetur, en er nú virðulegt og næstum þreytulegt hótel með forngripum og arineldi, svo og fögrum garði að húsabaki.
Herbergi 35 er afar stórt og snýr miklum gluggum út að garði, búið notalega gömlum húsgögnum og góðu baðherbergi með stórum glugga út í garð. Herbergið kostaði £100 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður fyrir tvo kostaði £46 auk drykkjarfanga. Enn betri matur fékkst í Chez Hans í nágrenninu á £60.
(Cashel Palace Hotel, Cashel, sími 62-61411, fax 62-61521, H2)
Cashel Rock
Frá hótelinu göngum við gegnum hótelgarðinn eftir svonefndum biskupsstíg 7 mínútna leið upp að Cashel-kletti, þar sem eru merkar fornminjar.
Kletturinn var aðsetur konunga Munster-héraðs 370-1101 og var þá svipaður helgistaður og áðurnefnd Tara fyrir norðan Dublin. Hér er heilagur Patrekur sagður hafa skírt Ængus konung 450. Á 12. öld varð kletturinn að dómkirkjusetri og hélzt svo til 1749. Inchiguin lávarður brenndi 3000 borgarbúa í kirkjunni 1647.
Við förum upp á klettinn um safn, sem er í hlíðinni. Safnið er í 15. aldar prestssetri. Aftan við það er svefnskáli frá sama tíma.
Andspænis svefnskálanum er elzti hluti fornminjanna, Cormac’s Chapel frá 1127-1134, byggður í rómönskum stíl, eitt kirkjuskip með kór og tveimur hliðarturnum.
Yfir kapellu gnæfir sjálf dómkirkjan, illa leikin eftir áðurnefndan bruna. Hún er að mestu leyti frá 13. öld, í gotneskum stíl, einföld krosskirkja án hliðarganga, með háum sverðgluggum og öflugum miðturni.
Í vesturenda kirkjuskipsins er kastalaturn frá 1450, upphaflega erkibiskupssetur á umrótatíma.
Aftan við norðurþverskip kirkjunnar er sívaliturn frá 12. öld, svipaður þeim, sem írskir munkar reistu víða á Írlandi til varnar gegn víkingum. Hann er heill alveg upp í keiluþak úr steinhellum.
Aðgangur £1,50 (H2).
Holycross
Við ökum R660 úr bænum til Holycross klausturs.
Holycross Abbey var reist 1168 sem Benediktusa-klaustur, en var nokkrum árum síðar yfirtekið af Sistersíanareglunni. Munklífi hélzt hér fram yfir siðaskipti, enda var mikil helgi á staðnum. Á 17. öld fór klaustrið í eyði, en hefur nú verið endurreist sem sóknarkirkja. Í kirkjunni er miðskip með ferilgöngum og tveimur þverskipum og öflugur turn á miðmótum. Í kirkjunni er veraldlegt veggmálverk frá fyrri hluta 15. aldar. Í munkaálmu er safn (H2).
Kilkenny
Frá Holycross ökum við áfram R660 til Thurles og þaðan N75, N8 og R693 til miðaldabæjarins Kilkenny. Við komum að miðbænum hjá kastalanum.
Kilkenny Castle er stór og virðulegur og vel varðveittur kastali frá 1192-1207 og hefur allan þann tíma verið í notkun. Hið ytra lítur hann út eins og virki en hið innra eins og höll. Hann er í þremur álmum og er núna listasafn. Aðgangur £1.
Í hesthúsum kastalans handan götunnar er ein bezta listmunabúð Írlands, Kilkenny Design Centre.
Aðalgata bæjarins er High Street og byrjar hún þar, sem Castle Road endar. Hægra megin götunnar er Tholsel, ráðhús frá 1761. Nafnið er norrænt og þýðir tollstöð. Nokkru innar er hægra megin þvergata að Kyteler’s Inn, sem er sennilega elzta íbúðarhús borgarinnar, steinhlaðið bindingshús, sem hefur verið krá síðan 1324.
Innar við High Street er Courthouse, dómhús, sem reist er á kastalakjallara frá 12. öld.
Á ská á móti er steinhlaðið hús frá 1594, Rothe House. Það er nú safn (H2).
Kells
Við förum N10 frá Kilkenny til Stoneyford og þaðan afleggjara, fyrst til Kells og síðan til Jerpoint. Fyrst förum við til Kells.
Kells Priory eru rústir Ágústínusarklausturs frá 1193. Lítið er eftir af klaustrinu, nema virkisveggur þess frá 14. og 15. öld (H2).
Jerpoint
Við förum aftur til Stoneyford og þaðan hliðarveg til Jerpoint.
Jerpoint Abbey er annað klaustur og öllu frægara. Það var upphaflega Benediktsklaustur frá 1160-1170, en varð Sistersíanaklaustur 1180. Klausturkirkjan er krosskirkja í rómönskum stíl. Þverskipin eru upprunaleg, en turninn er frá 15. öld. Klausturgarðurinn hefur varðveitzt með mörgum súlnapörum frá 14. og 15. öld. Á súlunum eru höggmyndir, sem gefa hugmynd um klæði og vopn Íra á þeim tíma. Aðgangur £0,80 (I2).
Instioge
Við höldum áfram frá Jerpoint N9 til Thomastown og R700 til Instioge.
Instioge er með skemmtilegustu þorpum í fögru landslagi þessa héraðs. Við ána er stór garður og útivistarsvæði, svo og rústir kastala frá 1220 (I2).
Granville
Áfram ökum við R700 fallega leið til New Ross og þaðan N25 til Waterford. Við stönzum á bílastæði við hafnarbakkann, andspænis Granville-hóteli.
Granville er fremur virðulegt og gamalt hótel fyrir miðjum hafnarbakka, andspænis þekktum klukkuturni frá 1861. Þar eru tveir veitingasalir og feiknarstór bar.
Herbergi 229 var fremur stórt, vel við haldið og snyrtilega innréttað, meðal annars búið hárþurrku og buxnapressu. Því fylgdi glæsilegt baðherbergi, rauðflísað í hólf og gólf. Það kostaði £83 fyrir tvo með morgunverði. Kvöldverður í betri salnum kostaði £44 fyrir tvo auk drykkjarfanga.
(Granville Hotel, Waterford, sími 51-55111, fax 51-70307, H1)
Waterford
Við göngum hafnarbakkagötuna frá hótelinu að umferðarhorninu við Tower-hótel. Þar er sögufrægur sívaliturn frá víkingatíma.
Reginald’s Tower var reistur 1003 af dönskum víkingi, Rögnvaldi Sigtryggssyni. Turninn var upphaflega varnarvirki, en varð síðar myntsláttuverkstæði, vopnabirgðastöð og síðast loftvarnabyrgi. Nú er þar borgarsögusafn. Aðgangur £0,50.
Gaman er að rölta um göngugötur miðbæjarins að baki hafnarbakkanum.
Waterford er þekkt fyrir glerverksmiðjurnar Waterford Crystal, 2,5 km. sunnan við bæinn á N25 (H1).
Wexford
Frá Waterford förum við N25 til baka til New Ross og þaðan áfram sama veg til Wexford, þar sem við stönzum í nágrenni aðalgötunnar, Main Street.
Wexford er gömul borg þröngra gatna. Main Street ber þess merki, enda er hún nú orðin að göngugötu. Hún er helzta aðdráttarafl bæjarins. Framhliðar margra verzlana við hana eru í gömlum 19. aldar stíl (I1).
Avondale
Við förum N11 frá Wexford til Arklow og