Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.
Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.
1. ganga:
Kóngsins Nýjatorg
Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.
Gróðurreitur, kallaður Krinsen, er á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis.
Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og þótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.
Til hægri sjáum við hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.
Við röltum til hægri framhjá Hvíti (Hviids Vinstue), yfir Litlu Kóngsinsgötu (Lille Kongensgade), framhjá Mjóna (Stephan á Porta) og höll vöruhússins Magasin du Nord, þar sem áður var sögufrægt hótel, Hótel du Nord, og beygjum til hægri í Víngarðsstræti (Vingårdstræde).
Brimarhólmur
Hér við hægri hlið götunnar er falið í kjallara matarmusterið Kong Hans (sjá bls.23). Við förum ekki þangað svo snemma dags, heldur göngum áfram út að Brimarhólmi (Bremerholm), sem áður var illræmdur og hét Hólmsinsgata (Holmensgade).
Við erum komin í hverfi, sem að stofni til er frá árunum eftir borgarbrunann 1795. Á síðustu árum hafa mörg hinna gömlu húsa verið rifin og ný reist í staðinn, svo að gamli heildarsvipurinn er horfinn. Við getum kíkt inn í sumar litlu og gömlu hliðargöturnar, áður en við höldum til vinstri niður Brimarhólm.
Í gamla daga var þetta þröng gata með öldur- og vændishúsum á báða vegu. Sukkinu var útrýmt héðan með gömlu húsunum og flutt til Nýhafnar fyrst og síðan Istedgade. Nú ríkir hér siðprýðin ein, en hvorki tangur né tetur af fornri frægð.
Við höldum þvert yfir Hólmsinssíki (Holmens Kanal), sem áður var eitt af síkjum borgarinnar, og göngum eftir Hafnargötu (Havnegade) inn á hinn forna Brimarhólm. Þar var áður fyrr skipasmíðastöð konungs og flota. Vinnuaflið var fengið úr þrælakistu Brimarhólms, þar sem geymdir voru lífstíðarfangar.
Danmörk var mikið flotaveldi á fyrri tímum. Veldi konungs byggðist mest á flotanum, sem hér var smíðaður, nánast undir glugggum konungshallar Kristjánsborgar. Í eina tíð réð þessi floti öllum Norðurlöndum og í annan tíma teygði hann arma sína til fjarlægra heimsálfa.
Á hægri hönd okkar er Hólmsinskirkja (Holmens Kirke), upprunalega reist sem akkerasmiðja skipasmíðastöðvarinnar 1563. Þessa gömlu smiðju í endurreisnarstíl lét hinn mikli byggingastjóri, Kristján IV konungur, dubba upp í kirkju fyrir flotann 1619. Síðan hefur kirkjan nokkrum sinnum verið endurbyggð og lagfærð.
Hún er opin 9-12 virka daga og á sumrin 9-15 mánudaga-föstudaga. Aðgangur er ókeypis. Við látum duga snögga heimsókn og höldum áfram Hafnargötu út að síkinu. Nú verða senn kaflaskil á göngu okkar. Við yfirgefum Brimarhólm og erum senn komin út á Hallarhólma, þá eyju, sem öldum saman hefur verið pólitísk þungamiðja Danmerkur. Við nemum staðar á Kauphallarbrú (Børsbroen).
Hallarhólmi
Framundan sjáum við Kauphöllina (Børsen), handan brúarinnar, reista í hollenzkum fægistíl 1619-40 að tilhlutan Kristjáns IV konungs. Kauphöllin er ríkulega skreytt, bæði innan dyra og utan. Mesta athygli okkar vekur turnspíran mikla, ofin saman úr fjórum drekasporðum.
Við beygjum af brúnni til vinstri, förum í kringum Kauphöllina og göngum eftir Hallarhólmagötu (Slotsholmsgade) út á hallartorg Kristjánsborgar. Framhlið hennar blasir við okkur. Að baki styttunnar af Friðriki VII konungi eru svalirnar, þar sem Margrét II Þórhildur drottning var hyllt við valdatöku.
Núverandi Kristjánsborg var reist 1907-28 eftir hallarbrunann 1884. Hún er klædd marglitu graníti frá Borgundarhólmi og ber ógrynni af kopar á þaki, eins og svo margar hallir borgarinnar. Hún hefur að geyma hæstarétt Danmerkur, þjóðþing Dana, svo og hluta utanríkisráðuneytis og veizlusali konungs og ríkisstjórnar.
Undir höllinni hafa fundizt leifar af fyrsta kastala Kaupmannahafnar, borg Absalons erkibiskups frá 12. öld. Á þeim grunni voru síðan reistar konungshallir Dana, allt til hallarbrunans 1794, er heimkynni konungs voru flutt úr rústum Kristjánsborgar til fjögurra halla Amalíuborgar.
Meðan konungar sátu í Hróarskeldu (Roskilde) höfðu völdin hér arftakar Absalons biskups. Á 15. öld komst borgin í hendur Danakonunga. Þeir tóku þá sæti biskupa á Hallarhólma. Og loks á tíma lýðræðis tóku þingmenn og ráðherrar sæti konungs. Hallarhólmi hefur þannig staðið af sér allar veltur stjórnmálasögunnar.
Ekki voru Kaupmannahafnarbúar alltaf jafn uppnæmir fyrir konungi og hirð. Höllin stendur að hluta, þar sem áður voru öskuhaugar borgarinnar, Skarnholmen. 1650 neyddist konungur til að gefa út tilskipun um bann við, að borgarbúar notuðu nafnið Skarnhólma yfir Hallarhólma.
Við yfirgefum umferðargný torgsins og förum göngin milli hallar til hægri og ríkisskjalasafns til vinstri og komum inn í Þjóðþingsport (Rigsdagsgården). Þar er til hægri voldugt anddyri Þjóðþingsins. Við beygjum hins vegar til vinstri inn fyrstu göng og erum komin inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar.
Hér ríkir friður og ró, aðeins steinsnar frá ys og þys nútímans. Við hvílumst um stund á bekk, andspænis styttu heimspekingsins Søren Kierkegård, sem sómir sér vel á þessum stað. Við virðum fyrir okkur Ríkisskjalasafnið að baki, Týhúsið (Tøjhuset) til hægri, Konunglega bóksafnið framundan og Próvíanthúsið (Proviantgården) til vinstri.
Þar sem þessi garður er nú, var áður herskipahöfn konunga Danmerkur. Þá voru vistageymslur flotans í Próvíanthúsinu og aðsetur lífvarðar konungs í Týhúsinu. Það hús lét Kristján IV konungur reisa 1598-1604. Nálægðin við Kristjánsborg sýnir, hve mikilvægt var konunginum að hafa flotann undir handarjaðrinum.
Eftir hvíldina förum við aftur út í Þjóðþingsport og beygjum þar til vinstri að anddyri Týhússins. Þar var 1928 komið upp merku vopnasafni, þar sem mest áberandi eru margir tugir, ef ekki hundruð, fallstykkja frá fyrri tímum. Safnið er opið 13-15 virka daga og 11-16 sunnudaga á veturna og 13-16 virka daga og 10-16 sunnudaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.
Við erum á morgungöngu og safnið lokað, nema sunnudagur sé. Við verðum því að láta heimsókn bíða betri tíma. Andspænis Týhúsinu er hesthús konungs og við förum inn sund milli þess og Þjóðþings. Við okkur blasir paðreimur Kristjánsborgar í skjóli hallar á alla vegu.
Í framhaldi af honum er innri hallaragarðurinn, þaðan sem hægt er að fara í skoðunarferðir um veizlusali hallarinnar 13 og 15 alla daga nema mánudaga á sumrin og 14 alla daga nema mánudaga og laugardaga á veturna. Ennfremur fornleifar kastala Absalons 9:30-16 alla daga á sumrin og alla daga nema laugardaga á veturna.
Af skeiðvellinum er gengið inn í leiklistarsafnið, sem er til húsa í hirðleikhúsi Kristjánsborgar. Það er opið sunnudaga og miðvikudaga 14-16 og á sumrin að auki föstudaga 14-16.
Við komumst ekki þangað að sinni og göngum frá höllinni af skeiðvellinum út á Marmarabrú (Marmorbro). Á hinum bakkanum vinstra megin er hádegisverðarkjallarinn Kanal Caféen við Frederiksholms Kanal 18 (sjá bls. xx).
Andspænis okkur hægra megin er eitt elzta og stærsta þjóðminjasafn heims, Nationalmuseet, í Prinsens Palæ. Í húsinu eru níu söfn, flest opin 10-16 á sumrin og 11-15 á veturna, lokuð mánudaga. Hér eru sýndir danskir og erlendir forngripir, myntir og ótalmargt fleira.
Við getum litið á safnið, gengið inn frá Ny Vestergade í framhaldi Marmarabrúar. Við getum líka haldið áfram götuna og yfir Dantes Plads, þar sem blasir við Glyptoteket, eitt af meiriháttar söfnum Evrópu á sviði fornlistar Egypta, Grikkja og Rómverja. Það er opið þriðjudaga-laugardaga 10-16 á sumrin, 12-15 á veturna og sunnudaga 10-16 allt árið.
Ef við höfum ekki hug á þessum söfnum að sinni, beygjum við síkisbakkann til hægri frá Marmarabrú og förum aftur yfir næstu brú út á Hallarhólma. Þar göngum við síkisbakkann í átt til Thorvaldsensafns og virðum fyrir okkur húsin við Nybrogade, handan síkis.
Þar er húsið nr. tólf eitt glæsilegasta svifstílshús borgarstéttar gamla tímans í Kaupmannahöfn, ríkulega skreytt sandsteini. Og húsin nr. 14-20 eru dæmigerð “brunahús” með kvistgöflum í hlaðstíl, reist eftir brunann 1728. Í nr. 18 er hádegisverðarstofan Nybro (sjá bls. xx)
Næst liggur leið okkar í Thorvaldsensafn, byggt 1839-48 yfir listaverk og minjar, sem frægasti myndhöggvari danskrar og íslenzkrar ættar, Bertel Thorvaldsen, gaf dönsku þjóðinni. Mest er þar um hvít og virðuleg, nýklassisk verk úr grískri goðafræði. Safnið er opið 10-15 alla daga nema þriðjudaga á veturna og 10-16 alla daga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.
Þegar við komum úr safninu, beygjum við til vinstri framhjá Hæstarétti Danmerkur og aftur til vinstri milli safns og Hallarkirkju Kristjánsborgar og komum út á síkisbakkann. Handan síkis sjáum við húsaröðina við Gömluströnd (Gammel Strand), sem við munum senn kynnast nánar.
Kaupmannabærinn
Við förum til vinstri yfir Hábrú (Højbro) og virðum fyrir okkur framboð og ferskleika þess, sem fiskisölukonan við brúarsporðinn hefur á boðstólum. Síðan förum við inn á Højbro plads og skoðum styttuna af Absalon biskupi, stofnanda Kaupmannahafnar, og fögur, gömul hús á nr. 6, 9 og 17-21.
Héðan er ágætt útsýni til baka, til Hólmsinskirkju, Kauphallar, Kristjánsborgar, Hallarkirkju og Thorvaldsenssafns. Hér er líka skammt til góðra fiskréttahúsa, ef við erum sein fyrir og hádegissultur farinn að segja til sín. Vinstra megin, í kjallara hornhússins á Ved Stranden 18 og Fortunstræde, er Fiskekælderen (sjá bls. 26). Hægra megin, á Gömluströnd, eru Fiskehuset og Kroghs.
Við göngum einmitt Gömluströnd meðfram síkinu og virðum fyrir okkur hin gömlu hús, einkum Frænda (Assistenshuset) frá 1728, aðsetur menntamálaráðuneytisins, við hinn enda götunnar. Hægra megin þess förum við inn í skemmtilega þorpsgötu, hlaðna rómantík fyrri tíma. Þetta er Snaragata (Snaregade), mjó og undin, með gömlum kaupsýsluhúsum á báða vegu. Á nr. 4 er veitingastaðurinn Esbern Snare (sjá bls. xx).
Við erum komin inn í hina gömlu Kaupmannahöfn borgarastéttarinnar, kaupmanna og iðnaðarmanna. Hér heita margar götur eftir gömlum einkennisstörfum þeirra, Skindergade, Vognmagerstræde, Farvergade, Brolæggerstræde og Læderstræde. Ein heitir Hyskenstræde eftir húsum, “Häuschen”, þýzkra Hansakaupmanna.
Á mótum Snaragötu og Magstræde göngum við spölkorn til hægri inn í Knabostræde að gatnamótum Kompagnistræde, bæði til að drekka í okkur meira af gömlum tíma og til að fá útsýni til Frúarkirkju, sem við munum skoða nánar síðar. Förum síðan Knabostræde til baka og beygjum til hægri í Magstræde.
Þetta er önnur dæmigerð gata gamla tímans í Kaupmannahöfn. Húsin nr. 17 og 19 eru af sumum talin vera elztu hús borgarinnar. Á nr. 14 er Huset, sem er eins konar klúbbur eða félagsmálamiðstöð ungra Kaupmannahafnarbúa.
Við förum ekki óðslega hér í gegn, því að Snaragata og Magstræde eru sennilega þær götur, sem bezt hafa varðveitt andrúmsloft gamalla tíma. Vindingur þeirra veldur því, að við sjáum ekki til nútímalegri gatna og stöndum því hér eins og í lokuðum heimi.
Við hinn enda Magstræde er agnarlítið torg, Vandkunsten, þar sem áður stóð vatnsdæla Kristjánsborgar. Við beygjum til hægri eftir Ráðhússtræti (Rådhusstræde) upp á Nýjatorg (Nytorv) og Gamlatorg (Gammeltorv). Þessi torg voru áður fyrr miðstöð daglega lífsins í Kaupmannahöfn. Enn er fjörugt hér, en eingöngu vegna þess, að Strikið liggur þvert í gegn.
Bæjarþing voru háð á Gamlatorgi. Ráðhúsið var á mótum torganna efst á Nýjatorgi fram að brunanum 1795. Þá var það ekki endurreist á sama stað. Torgin voru í staðinn sameinuð í eitt og mynda nú langan ferhyrning með virðulegum húsum á alla vegu.
Hér héldu konungar burtreiðar til að skemmta lýðnum. Hér voru framkvæmdar hýðingar og aftökur, lýðnum bæði til viðvörunar og skemmtunar. Hér var auðvitað gapastokkurinn og svartholið. Hér var bjórsala borgarráðsmanna í Ráðhúskjallaranum. Hér komu fram farandtrúðar og -listamenn. Hér var húllum og hér var hæ.
Nú er neðst til vinstri við Nýjatorg dómhús Kaupmannahafnar. Á miðju Gamlatorgi er eitt elzta augnayndi borgarinnar, brunnurinn frá 1608-10. Þar eru gulleplin látin skoppa á konunglegum afmælisdögum. Og hér á torginu eru sæti, svo að við getum fengið okkur kaffi eða öl og horft á fólksstrauminn fara hjá.
Við beygjum síðan norður Strikið, fyrst eftir Nýjugötu (Nygade), síðan Vimmelskaftet, unz við komum að Heilagsandakirkju (Helligåndskirken) á mörkum Amákurtorgs (Amagertorv), endurreistri 1730-32 eftir borgarbruna. Við göngum hjá kirkjunni og beygjum til vinstri inn Hemmingsensgade til að skoða Heilagsandahúsið að baki kirkjunni.
Það er sambyggt kirkjunni og er eitt allra elzta mannvirki Kaupmannahafnar, reist um miðja 14. öld. Það var upprunalega sjúkrastofa Ágústínusarklausturs, er þarna var á kaþólskum tíma.
Latínuhverfið
Eftir skoðun Heilagsandahúss liggur leið okkar áfram Hemmingsensgade upp á Grábræðratorg (Gråbrødretorv). Nafn þess minnir á Fransiskusar-munkana, er bjuggu við torgið. Hér í kjallara á nr. 11 og 13 hafa fundizt leifar sjálfs klausturs þeirra, þar sem nú er veitingastofan Bøf & Ost.
Grábræðratorg er ennfremur mannlegasta torg borgarinnar, lokað bílum, en í þess stað iðandi af fólki. Hér sitja hinir ungu úti og hlusta á hljómlist eða stinga sér niður í einn hinna mörgu veitingakjallara (sjá bls. xx), sem einkenna torgið.
Nú er gamla kaupmannahverfið að baki og við erum komin inn í háskólahverfið eða Latínuhverfið eins og það hefur verið og er venjulega kallað.
Grábræðratorg er þægilegt anddyri þessa hverfis, sem öldum saman hefur ómað af söng og skálaglammi.
Þess vegna skulum við hvílast hér um sinn á torginu og virða fyrir okkur átjándu aldar húsin, máluð sterkum litum. Síðan göngum við norður af torginu eftir stytztu götu borgarinnar, er ber hið virðulega nafn Keisaragata (Kejsergade).
Fyrst lítum við til hægri eftir Skinnaragötu (Skindergade) til að sjá fornlega götumynd, áður en við höldum götuna til vinstri. Hún liggur út að Gamlatorgi og síðan áfram undir nafninu Vesturgata (Vestergade) í mjúkum sveigjum alla leið að Ráðhústorgi (Rådhuspladsen). Hin virðulegu hús við Vesturgötu eru flest frá því um 1800.
Á torginu blasir ráðhúsið við til vinstri, frægt af myndum, en ekki að sama skapi stílhreint. Það var byggt 1892-1905 í svonefndum sögustíl, sem stældi endurreisnarstíl norðurítalskra borga og þótti mikið hneyksli á sínum tíma.
Höfuðprýði ráðhússins er raunar heimsklukka Jens Olsen innan við aðaldyrnar. Hún sýnir margs konar tíma og gang himintungla, einstæð í sinni röð í heiminum. Ráðhúsið er opið mánudaga-föstudaga 10-16, laugardaga 10-13 og lokað sunnudaga.
Eftir að hafa virt fyrir okkur hinn samfellda straum fólks og bíla um þetta önnum kafna torg, höldum við í átt frá ráðhúsinu eftir Vesturvegg (Vester Voldgade) yfir Stúdíustræti (Studiestræde) að Jarmerstorgi. Þar á miðju torgi má sjá leifar turns frá 1528 úr hinum gamla borgarmúr, er lá, þar sem nú er Vesturveggur, Norðurveggur (Nørrevoldgade) og Austurveggur (Øster Voldgade).
Við förum Vesturvegg til baka að Stúdíustræti og beygjum þar til vinstri. Þar hefur fornbókaverzlunum fækkað, en þó má enn sjá bókakassa úti á stétt. Ef við getum stillt okkur um að eyða tíma í að róta í kössunum, erum við von bráðar komin yfir Larsbjörnsstræti út á Norðurgötu (Nørregade), þar sem við beygjum til vinstri.
Hér á horninu er Biskupsgarður, sem einu sinni var ráðhús Kaupmannahafnar. Handan götunnar rís hin kuldalega Frúarkirkja (Vor Frue Kirke), dómkirkja borgarinnar, endurreist 1811-29 eftir fallstykkjahríð brezka flotans 1807. Kirkjan er kunnust fyrir listaverk Thorvaldsens innan dyra.
Við sjáum háskóla Kaupmannahafnar snúa framhlið að stjórnborða kirkjunnar handan Norðurgötu. En hérna megin götunnar er “brunahús” frá 1728 á nr. 13. Og á horni Norðurgötu og Pétursgötu (Sankt Petersgade) sjáum við elztu kirkju borgarinnar, Sankti Péturskirkju. Hennar er fyrst getið í heimildum 1304. Hún hefur margsinnis verið endurreist eftir bruna.
Við förum yfir Norðurgötu og lítum inn í háskólaportið. Þar inni ríkir miðaldaró aðeins steinsnar frá nútímanum. Og þar er konsistoríið, einu leifar hins kaþólska biskupsseturs miðaldanna. Í kjallara þess hvíla sex hvelfingar í rómönskum stíl á granítsúlum.
Úr portinu beygjum við til hægri og göngum meðfram byggingum háskólans. Hér við Norðurgötu var Kannibalen, mötuneyti stúdenta. Nafnið bendir til, að þar hafi matur ekki verið góður. Við beygjum síðan enn til hægri fyrir háskólahornið og göngum Kristalsgötu (Krystalgade) framhjá vöruhúsi Daells að Fjólustræti (Fiolstræde), einni af göngugötum borgarinnar.
Á horninu er útsýni eftir Kristalsgötu til Sívalaturns, sem við munum skoða nánar síðar. Fyrst beygjum við krók til vinstri eftir Fjólustræti og þræðum milli torgsölutjaldanna til að grúska um stund í fornbókaverzlunum götunnar, en snúum síðan til baka suður götuna.
Við tökum eftir fallegu, gömlu bindingshúsi á horni Fjólustrætis og Kristalsgötu og göngum framhjá háskólabókhlöðunni á hægri hlið, unz við komum aftur að Frúarkirkju, en í þetta sinn aftan að henni.
Við nemum staðar til að virða fyrir okkur kirkjuna og háskólann frá nýju sjónarhorni, áður en við beygjum til vinstri inn Stóra Kanúkastræti (Store Kannikestræde), götu stúdentagarðanna. Við erum hér í hjarta Latínuhverfisins, í götunni, sem stúdentar gengu löngum milli Garðs og skóla.
Við þessa götu hafa flest hús áratugum og öldum saman verið beint eða óbeint tengd stúdentum og starfi háskólans. Hér eru frægir stúdentagarðar á báðar hendur, Borchs Kollegium á nr. 12, Ehlers Kollegium á nr. 9 og Admiral Gjeddes Gård á nr. 10. Við lítum andartak inn í friðsælan garð Borchs Kollegium til að fá snertingu við gamlan tíma.
Við hinn enda götunnar, vinstra megin, er stærsti og merkasti stúdentagarður götunnar, Garður (Regensen). Hann var reistur 1623-28, en brann að nokkru 1728. Frá þeim tíma eru rauðu tígulsteinsveggirnir, sem setja svip á húsið. Hér getum við gengið inn í portið og setzt um stund við linditréð.
Þegar við komum úr garðinum blasir við Sívaliturn (Rundetårn) handan Kjötmangarans (Købmagergade). Hann var reistur eins og fjöldi frægra húsa að tilhlutan Kristjáns IV konungs 1637-42. Turninn er í senn stjörnuskoðunarstöð og kirkjuturn Þrenningarkirkju (Trinitatis Kirke), sem er hér að baki, fullbyggð 1656. Turninn er opinn 10-20 á sumrin og 11-16 virka daga og 12-16 sunnudaga á veturna.
Sívaliturn er 36 metra hár og rúmlega 15 metra breiður. Upp hann liggur 209 metra löng snigilbraut, sem rússneska keisaraynjan Katrín ók einu sinni upp í hestvagni, meðan maður hennar, Pétur mikli, fór ríðandi. Þetta var 1716 og fara engar sögur af slíku framtaki hefðarfólks á síðari öldum.
Það er léttara að ganga upp Sívaliturn en aðra kirkjuturna, af því að brautin er slétt, en ekki í tröppum. Uppi er gott útsýni yfir þök og turna miðborgarinnar. Þar fáum við góða hugmynd um, hve þröngt er byggt innan gömlu borgarmúranna. Hvarvetna lítum við þétt húsþakahrjóstur.
Við förum aftur út á Kjötmangarann, beygjum til vinstri og göngum þessa bílalausu viðskiptagötu í átt til Striksins. Ef við viljum skoða gömul “brunahús” frá 1728 við Gömlumynt (Gammelmønt), beygjum við til vinstri inn Klörubúðir (Klareboderne) og Möntergade og síðan til hægri í Gömlumynt. Úr henni beygjum við svo enn til hægri eftir Sværtegade og Kronprinsengade til Kjötmangarans.
Við höldum þar til vinstri eftir Kjötmangaranum yfir Silkigötu (Silkegade) niður á Strik, sem hér heitir Amákurtorg (Amagertorv). Þar beygjum við til vinstri eftir að hafa skoðað okkur um á torginu og ef til vill sezt niður á gangstéttarkaffihúsi.
Við göngum Strikið eftir Austurgötu (Østergade), sem er austasti endi hinnar frægu göngugötu. Austurgötu og Amákurtorgi er nánar lýst í verzlunarkafla þessarar bókar (sjá bls. xx-xx). Við förum framhjá litlum þvergötum og Brimarhólmi, sem áður var nefndur í þessari leiðarlýsingu, og höfum auga með þröngu sundi, Pistolstræde, á vinstri hönd.
Af þessu sundi megum við ekki missa (sjá bls. xx). Þar er margt skemmtilegt að skoða, einkum gömul bindingshús. Við göngum í vinkil, framhjá veitingastofunni Alsace (sjá bls. xx ) og komum úr sundinu í Nýju Austurgötu (Ny Østergade). Andspænis okkur er kaffistofan Victor (sjá bls. xx). Við sjáum fallegt bindingshús á horni Nýju Austurgötu og Grænugötu (Grønnegade).
Grænagata er rétt að baki hins fína Kóngsins Nýjatorgs. Hér var áður eitt illræmdasta fátækrahverfi borgarinnar, fullt af tæplega manngengum sundum, sem voru engir þröngir vegir dyggðarinnar. Hér í Grænugötu ólst myndhöggvarinn Bertil Thorvaldsen upp við drykkjuskap föður og ósamlyndi foreldra.
Nýju Austurgötu göngum við til baka til Striksins, beygjum þar til vinstri og erum eftir andartak komin aftur að Kóngsins Nýjatorgi, nákvæmlega þeim stað, þar sem við hófum hringferðina.
Þetta hefur verið krókaleið um elzta hluta Kaupmannahafnar. Ekki þurftum við nauðsynlega að byrja ferðina og enda á torginu. Við gátum til dæmis byrjað á Ráðhústorgi eða hvar sem betur kynni að liggja við ferðum okkar.
Ef við erum ekki mjög gönguhraust, getum við líka skipt leiðinni í þrjá hluta. Í einum hluta hefðum við þá skoðað Brimarhólm og Hallarhólma og endað á torginu Hábrú við Strikið. Í öðrum hluta hefðum við skoðað kaupmannahverfið, byrjað á Hábrú og endað á Amákurtorgi. Í þriðja hluta latínuhverfið frá Amákurtorgi til Kóngsins Nýjatorgs. Í öllum tilvikum byrja ferðirnar og enda í nágrenni Kóngsins Nýjatorgs.
2. ganga:
Kóngsins Nýjatorg
Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).
Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus”. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.
Nýhöfn
Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.
Hér ætlum við að rölta til vinstri eftir Nýhöfn í átt til sjávar. En fyrst förum við spölkorn til hægri að botni Nýhafnar til að missa ekki af innstu húsunum. Við förum hægt yfir, því að hér er margt smáskrítið og skemmtilegt að sjá í gömlum skreytingum húsanna. Allt það yrði of langt mál að telja upp.
Elzta húsið við götuna er nr. 9, frá 1681. Við missum ekki af sérkennilegri klukku uppi á nr. 11 og gömlu ölkrárskilti frá 1803 á nr. 23, meðan við göngum í rólegheitum í átt til sjávar, fyrst framhjá Tollbúðargötu (Toldbodgade) og síðan Kvesthúsgötu (Kvæsthusgade), unz við nemum staðar fyrir utan hótelið Nyhavn 71 (sjá bls. 8) við enda götunnar.
Á leiðinni lítum við inn í eina eða tvær ölkrár til að finna reykinn af réttum gamla tímans, þegar þetta var hafnarhverfi Kaupmannahafnar. Erlendar tungur eru enn talaðar í öðru hverju horni, en þær eru fæstar sjómanna, heldur ferðamanna. Hnútur fljúga ekki lengur um borð né hnífar hafnir á loft.
Fleiri minningar eru bundnar við Nýhöfn en hrossahlátrar sjómanna. Ævintýraskáldið H. C. Andersen batt mikla tryggð við götuna. Hann ritaði fyrstu ævintýri sín í húsinu nr. 20, bjó með hléum 1854-64 á þriðju hæð hússins nr. 67 og varði tveimur síðustu árum ævinnar á nr. 18.
Fyrir utan hótelið Nyhavn 71, sem er innréttað í rúmlega 200 ára pakkhúsi, höfum við gott útsýni til hafnarbakka Málmeyjarbátanna, yfir innri höfnina og til Kristjánshafnar (Christianshavn) handan hennar.
Síðan förum við eftir Kvesthúsbrúnni (Kvæsthusbroen) meðfram innri höfninni að götunni Sankt Annæ Plads. Við beygjum til vinstri og þar eru brátt á vinstri hönd hótelið Neptun (sjá bls. xx) og hádegisverðarstofan Sankt Annæ (sjá bls. xx) á nr. 12. Til hægri, við þvergötuna Tollbúðargötu, er hótelið Admiral (sjá bls. xx) í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi.
Amalíuborg
Við höldum áfram eftir Sankt Annæ Plads og beygjum til hægri inn í Amalíugötu (Amaliegade). Ef komið er hádegi, er kjörið að líta inn í áðurnefnt Sankt Annæ eða í Amalie, sem hér er framundan vinstra megin, á nr. 11. — Konungshöllin Amalíuborg er skammt undan. Við göngum inn á hallartorgið og svipumst um.
Amalíuborg er einkar viðfelldin og sérkennileg konungshöll í fjórum höllum í svifstíl, aðskildum af krossgötum. Hallirnar mynda átthyrning umhverfis torgið. Upphaflega voru þetta hallir fjögurra aðalsmanna, en voru gerðar að konungshöll, þegar Kristjánsborg brann 1794.
Við förum undir tengibyggingu, þegar við komum inn á torgið. Hægra megin tengiálmunnar er bústaður Margrétar II Þórhildar drottningar og Hinriks prins. Vinstra megin eru veizlusalir drottningar. Í þriðju höllinni, hægra megin, býr Ingiríður, ekkjudrottning Friðriks VIII. Og í fjórðu höllinni, vinstra megin, bjó Kristján X.
Tjúgufáni yfir höll Margrétar sýnir, hvort hún er heima eða ekki. Við stillum helzt svo til að vera hér kl. 12 til að sjá varðsveitina koma með lúðrablæstri eftir Amalíugötu inn á torgið, þegar skipt er um varðmenn með tilheyrandi serimoníum.
Hverfið umhverfis Amalíuborg heitir Friðriksbær, byggt eftir ströngum og þá nýtízkulegum skipulagsreglum um miðja átjándu öld. Göturnar eru tiltölulega breiðar og húsin einkar virðuleg. En mannlíf er hér miklu minna og fátæklegra en í gamla bænum, sem við lýstum í fyrstu gönguferð. Helzt er líf í verzlunargötunni Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade), sem liggur samsíða Amaliegade.
Frá torgmiðju sjáum við Marmarakirkjuna (Frederikskirke) gnæfa yfir Friðriksgötu (Frederiksgade) með einn af hæstu kúplum heims, 45 metra á hæð og 30 metra á breidd, grænan af kopar. Smíði kirkjunnar hófst 1746 og varð ekki lokið fyrr en 1894. Hún er opin 9-15 alla daga nema sunnudaga á veturna, 9-16 mánudaga-föstudaga og 9-12 laugardaga á sumrin. Aðgangur er ókeypis.
Hér eiga hinir göngumóðu þess kost að ganga nær kirkjunni og beygja til vinstri eftir Breiðgötu (Bredgade) til Kóngsins Nýjatorgs, þar sem gangan hófst. Hinir beygja til hægri eftir sömu götu.
Brátt komum við að Listiðnasafninu (Kunstindustrimuseet), sem er hægra megin götunnar, í fyrri húsakynnum Friðriksspítala. Þar er fjöldi fornra og nýrra listmuna, danskra og erlendra. Hægt er að ganga inn í safnið bæði frá Breiðgötu og Amalíugötu. Safnið er opið 13-16 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis virka daga nema í júlí-ágúst.
Langalína
Þegar við komum aftur út á götuna, beygjum við til hægri og förum Breiðgötu á enda. Við göngum stuttan spöl til hægri framhjá Frelsissafninu (Frihedsmuseet), sem er timburhús handan götunnar Esplanaden. Þar eru sýndar minjar andspyrnuhreyfingarinnar dönsku frá stríðsárunum síðustu.
Safnið er opið á sumrin 10-16 virka daga og 10-17 sunnudaga og á veturna 11-15 virka daga og 11-16 sunnudaga, en lokað alla mánudaga. Aðgangur er ókeypis.
Að baki safnsins er Churchill-garður. Þar sjáum við álengdar ensku kirkjuna og til hægri við hana Gefjunarbrunn (Gefionspringvandet). Gosbrunnurinn sýnir, hvernig gyðjan Gefjun bjó til Danmörku með því að breyta sonum sínum í naut og beita þeim fyrir plóg, sem hún notaði til að plægja upp Skán.
Við getum haldið áfram eftir Esplanaden til að fá okkur að borða í Lumskebugten, á nr. 21 (sjá bls. xx). Eða farið gönguleið hjá Gefjunarbrunni út Löngulínu (Langelinie). Á leiðinni er Langelinie Pavilionen, þar sem við getum fengið snarl við ágætt útsýni. Síðan höldum við áfram út Löngulínu að Hafmeyjunni litlu, höggmynd Edvard Eriksen frá 1913, kunnasta einkennistákni Kaupmannahafnar.
Gatan sveigir hér frá sjónum og við göngum hana spölkorn, förum yfir brú og beygjum út af til vinstri í átt til Kastellet, aðalvirkis borgarinnar, reist 1662-65, en þá byggt á eldra grunni. Ytri virkin eru sumpart eyðilögð, en eftir stendur fimmstrendur kjarninn.
Þar sjáum við falleg hlið og kastalakirkjuna, sem er áföst fangelsinu á þann sérkennilega hátt, að í gamla daga gátu fangar hlýtt messu án þess að yfirgefa svartholið. Fallegust er vindmyllan, sem prýðir vesturhorn virkisveggjarins. Kastellet er opið frá 6 til sólarlags, en kirkjan aðeins til 18. Aðgangur er ókeypis.
Við förum aftur gegnum Churchill-garð og Esplanaden til hægri að enda hennar við Stóru Kóngsinsgötu (Store Kongensgade). Þar á horninu lítum við fyrst til hægri og sjáum hluta af Nýbúðum (Nyboder), hverfi, sem Kristján IV konungur lét reisa fyrir starfsfólk flotans upp úr 1631.
Síðan beygjum við til vinstri inn í Stóru Kóngsinsgötu og svo strax til hægri inn í Sankt Paulsgade. Þar hægra megin götunnar undir Pálskirkju sjáum við húslengju í upprunalegri mynd Nýbúða. Henni hefur verið breytt í minjasafn um Nýbúðir, opið 14-16 á sunnudögum.
Við göngum Pálsgötu á enda, beygjum til hægri í Riegensgade og síðan til vinstri í Stokkhúsgötu (Stokhusgade), er heitir eftir alræmdu fangelsi, sem tók við af áðurnefndum Brimarhólmi 1741 og þótti jafnvel enn grimmilegra. Af því sést nú ekki lengur tangur eða tetur og standa þar nú jarðfræðihús háskólans.
Garðarnir
Úr Stokkhúsgötu förum við framhjá húsi Jóns Sigurðssonar yfir Austurvegg (Øster Voldgade) og brúna yfir járnbrautina út í Østre Anlæg. Þar skoðum við okkur um eins lengi og við höfum tíma til og njótum náttúrunnar í þessum fallega garði, sem er í virkisgröfum hins gamla borgarveggs. Enn sést greinilega, hvernig virkisgrafirnar hafa litið út.
Um síðir tökum við stefnuna á Listasafn ríkisins, sem er í suðurhorni garðsins. Þar er gaman að skoða myndir gamalla meistara, einkum hollenzkra. Uppi hanga verk eftir Rubens, Rembrandt, Cranagh, Tintoretto, Mantegna, Matisse og Picasso. Dönskum listaverkum er líka sómi sýndur. Safnið er opið 10-17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur er ókeypis.
Úr safninu förum við yfir Silfurgötu (Sølvgade) út í Grasgarðinn (Botanisk Have). Þar er fjölskrúðugan gróður að sjá, meðal annars regnskógajurtir innan dyra. Úr garðinum förum við aftur yfir Austurvegg og göngum hann til baka að Silfurgötu, þar sem við förum á horninu inn í Rósinborgargarð eða Kongens Have.
Kongens Have er elzti garður borgarinnar og með hinum stærri. Þar má sjá hinar fegurstu rósir og linditré. Eitt helzta skart garðsins er þó talið vera höllin Rósinborg (Rosenborg), þar sem varðveitt eru krýningardjásn konungsættarinnar og minjasafn hennar.
Rósinborg var reist 1606-17 í endurreisnarstíl að tilhlutan Kristjáns IV konungs hins byggingaglaða. Höllin var upphaflega sveitasetur Danakonunga, en var síðan notuð til veizluhalda þeirra, unz hún var gerð að minjasafni konungs 1858. Safnið er opið á sumrin 11-15 alla daga og á veturna 11-13 þriðjudaga og föstudaga, 11-14 sunnudaga.
Að lokum rennum við okkur út um annað suðurhlið garðsins yfir í Gothersgade. Við göngum eftir henni beint út á Kóngsins Nýjatorg, þar sem við erum á ný á kunnugum slóðum, upphafspunkti gönguferða okkar.
Þar bregðum við okkur inn á Hvít og fáum okkur glas af ágætu víni hússins. Á meðan hugleiðum við, hvort eitthvert safnið eða höllin freisti til nánari skoðunar síðar, ef tími vinnst til.
3. ganga:
Kristjánshöfn
Við eigum eftir að skoða eitt hverfi gamla bæjarins innan borgarmúranna. Það er Kristjánshöfn (Christianshavn) handan innri hafnarinnar. Þar er ýmislegt að skoða, svo að við fáum okkur leigubíl eða strætisvagn nr. 2, 8, 9, 31 eða 37 yfir Knippelsbro að horni Torvegade og Strandgade.
Fyrst lítum við til hægri inn í Strandgade, þar sem Kristjánskirkja (Christianskirke) frá 1755 hvílir fyrir enda götunnar, með smáhöllum á báðar hendur. Á horninu, á nr. 14, er gamla ráðhúsið í Kristjánshöfn.
Við förum í hina áttina og göngum Strandgötu til norðurs. Okkur á vinstri hönd, andspænis Sankt Annægade, er höll Asiatisk Kompagni frá 1740, með minningum frá gullöldinni, þegar danski flotinn sigldi um heimshöfin og Danmörk var nýlenduveldi. Nú er utanríkisráðuneytið í höllinni.
Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.
Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.
Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu. Kirkjan er opin á sumrin 9-16:30 virka daga og 12-16:30 sunnudaga og á veturna 10-13:30 virka daga og 12-13:30 sunnudaga.
Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.
Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.
Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.
Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.
Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.
Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.
1981, 1989
© Jónas Kristjánsson