Madrid Barcelona

Ferðir

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”.

Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Gamla hverfið í miðbænum, Barri Gòtic, er sérstaklega skoðunarvert.

Hótel

Colón

Góða hótelið í miðborg Barcelona er Colón, frábærlega í sveit sett, andspænis dómkirkjunni. Colón er eina fjögurra stjarna hótelið, sem er beinlínis í gömlu, gotnesku borgarmiðjunni. Það er hóflega stórt, 160 herbergja, fremur gamaldags, en hefur að mestu verið endurnýjað að innanverðu. Mörg herbergin eru í ljósum blómalitum. Gott herbergi með útsýni til dómkirkjunnar kostaði 16.500 pts. Flest hótel í þessum gæðaflokki taka miklu meira fyrir gistinguna. (Colón, Avenída Catedral 7, s. 301 14 04, fax 317 29 15, telex 52654, C3)

Regencia Colón

Að baki hótelsins Colón er yngri systir þess, Regencia Colón, töluvert ódýrari og minni, 55 herbergja. Það hefur líka verið gert upp og meðal annars sett inn loftkæling, sem ekki var áður. Herbergi nr. 557 er mjög snoturt og fínlegt, með litlum svölum með útsýni til turns konungshallarinnar. Í þessu herbergi er blómaveggfóður eins og hjá eldri systur handan hornsins, svo og gömul húsgögn í góðu viðhaldi. Baðherbergið er vel flísað og var í góðu lagi. Þægilegt starfsfólk lífgaði tilveruna enn frekar. Verð tveggja manna herbergis var 9.800 pts. Þetta er óskaverð á óskastað. (Regencia Colón, Sagristans 13-17, sími 318 98 58, fax 317 28 22, telex 98175, C3)

Metropol

Annað hótel, jafnvel enn notalegra, líka í gotneska miðbænum, er Metropol, 68 herbergja hótel, 300 metrum sunnan við ráðhústorgið, Plaça Sant Jaume. Þar fengum við afar fínt herbergi, nr. 404, með risastóru og glæsilegu baðherbergi, sem saman mynda U kringum lítið port. Baðherbergið er allt lagt í marmara. Húsgögnin í herberginu eru með hinum vönduðustu, sem ég hef séð í hótelherbergi á Spáni. Meðal húsgagna er skrifborð í fullri stærð. Allt var sem spánnýtt í herberginu. Verðið var 9.500 pts. (Metropol, Ample 31, sími 315 40 11, fax 319 12 76, B4)

Suizo

Ef ekki er pláss á ofangreindum hótelum, má notast við Suizo, sem er lítið 48 herbergja hótel við lítið torg í gamla bænum, rétt hjá hinum hótelunum, 200 metrum frá dómkirkjunni. Það er að vísu orðið nokkuð þreytulegt og ekki nógu vel ryksugað. Herbergi nr. 211 er lítið, búið gömlum húsgögnum, sæmilega virðulegum. Svalir snúa út að rólegri hliðargötu. Baðherbergið er flísalagt og í góðu lagi. Verðið var 10.200 pts. Betri herbergi fengust á 13.200 pts. (Suizo, Plaça del Ángel 12, sími 315 41 11, fax 315 38 19, telex 97206, C4)

Veitingar

Katalúnía

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin síðustu, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfræðis, eigin menningar og auðsöfnunar.
Frá Katalúníu koma zarzuela, sem er blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.
Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum í Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá héraðinu Penedès.

Neichel

Við tökum Neichel með í hóp veitingahúsanna, þótt það sé ekki í miðbænum. Það er bezti matsalur Barcelona og einn þriggja beztu veitingastaða á Spáni. Það er í háskóla- og fótboltavallarhverfinu vestarlega í bænum, falið í götubotnlanga að baki sundlaugar. Borðað er í látlausum og veggmyndalausum sal, sem er fremur kuldalegur, áður en hann fyllist af fólki. Stórir gluggar veita útsýni til sítrónutrjáa í garðinum. Þjónusta var svo góð, að ég hef aldrei séð kveikt í Havanavindli með annarri eins nákvæmni og hjá einum þjóninum. Ólíkt öllum öðrum beztu veitingastöðum landsins ráða hér ekki Baskar ríkjum, heldur Elsassmaðurinn Jean-Louis Neichel, sem eldar að nýfrönskum hætti. Kona hans, Evelyne Neichel, stjórnar í sal. Við prófuðum mjög góða skeljasúpu (sopita de cigalas y centollo); enn betri humar og túnfisk í eggaldini (esqueixada de atún al limón verde y bogavante con caviar de berengenas); frábæran sæskegg í skorpu með skógartíndum sveppum og sveppasoði (croustillant de salmonete y hortalizas en un fumet de setas de bosque); góðan eplakraumís (granizado de manzanas verdes y coulis de frutas silvestres); mjög góðar kjötsneiðar af Limousin-nauti (lomo de buey del Limousin en escalopas a las cinco pimientas aromáticas); og eftirrétti af vagni (la caravana de los finos postres). Þegar búið var að velja eftirréttina af vagninum, var farið með vagninn fram, þar sem Neichel bjó til listaverk úr því, sem valið var. Verð fyrir tvo var 15.000 pts. (Neichel, Avenída de Pedralbes 16 bis, sími 203 84 08, fax 205 63 69, lokað sunnudaga)

El Túnel

Innst í þröngu húsasundi við hliðina á hótelinu Metropol er falinn El Túnel, einn af beztu matstöðunum í gamla bænum. Þetta litla veitingahús hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá 1923. Þar eldar Virgilio Casado og býður hefðbundna rétti frá Katalúníu í samræmi við val hráefna á markaði dagsins. Fjölmennir meðal gesta eru tryggir hópar heimamanna. Innréttingar eru virðulegar í aldamótastíl, með vönduðum harðviðarpanil langt upp á veggi. Við prófuðum afar gott hrásalat með svartsveppum og gæsalifur (ensalada de judía verde con fois gras y trufas); ágæta tómatsúpu með góðum fiski (sopa de pescados con su rouille); mjög góðan kola grillaðan (lenguado pieza grille); grillaða þykkvalúru (turbot planche); afar góða eplatertu (tarta Tatin); og ís með súkkulaðisósu (biscuit). Meðal annarra sérgreina kokksins eru kið (cabrito), lýsingur (merluza) og mjólkurbúðingur með karamelluskorpu (crema catalana). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (El Túnel, Ample 33, sími 315 27 59, lokað sunnudagskvöld, mánudaga, BC4)

Agút d’Avinyó

Í öðru þröngu húsasundi rétt hjá ráðhústorginu, Plaça Sant Jaume, er falið annað af beztu veitingahúsum gamla bæjarins, Agút d’Avinyó. Það er óvenjulega fallega innréttaður staður með borðkrókum hér og þar á ýmsum pöllum. Samanlagt er staðurinn meðalstór, en leynir á sér, því að fá borð eru í hverju skoti ?Ä@ð tröppum og handriðum út um allt. Hátt er til lofts, feiknastór veggmálverk frá aldamótum og allt fullt af forngripum. Hér snæða stjórnmála- og kaupsýslumenn og aðrir fastagestir í hádeginu í góðu yfirlæti hjá Mercedes Giralt veitingastjóra. Matreiðslan er í hefbundnum Katalúníustíl. Við prófuðum sitt lítið af hverju; góða humarsúpu (sopa di bogavante) með ristuðum brauðmolum; kjúklinga- og grænmetisbollu með skinkuteningum; plokkaðan saltfisk (bacalao) afar góðan; ágæta rækju (langostinos) í ostahlaupi; góðan fisk og skelfisk í sterkri tómatsósu; rauðsprengt kálfakjöt; pönnusteikta lambakótilettu lélega; gott andakjöt (pato); ýmsa góða eftirrétti og skógartínd jarðarber, sem voru mjög góð. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.500 pts. (Agút d’Avinyó, Trinitat 3 / Avinyó 8, sími 302 60 34, B4)

El Gran Café

Við sömu götu, Avinyó, handan við hornið, er skemmtilegt veitingahús, El Gran Café. Hátt er þar til lofts og hluti borðanna er uppi á svölum. Innréttingar eru í nýstíl aldamótanna, með miklum gluggum, speglum, ljósakrónum og ljósastyttum. Staðurinn getur orðið mjög rómantískur á kvöldin, þegar leikin er málsverðartónlist á slaghörpu. Matreiðslan er ekki eins góð og á stöðunum, sem nefndir hafa verið hér að framan, en eigi að síður frambærileg, hefðbundin að katalúnskum hætti. Við prófuðum edikslegnar saltfiskflögur með stórum, hvítum baunum, góðan rétt (amanida de bacalla marinat); rækjur og lifrarkæfu á salati (amanida de tofones i llagostins); vel steikt nautakjöt með tómatsósu (filet d´Ávila a la vinagreta); og lélega nautasteik á teini (burxets de filet al oporto); ostatertu og ágæta eplatertu. Meðal sérgreina staðarins er sveppasalat með hráskinku (salade di robellons con jabugo serrano). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts. (El Gran Café, Avinyó 9, sími 318 79 86, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, B4)

Cuineta

Aftan við dómkirkjuna er búið að skíra Bona Cuina upp á nýtt, svo að staðurinn heitir nú Cuineta, eins og systurstaðurinn handan við hornið, í þrönga göngusundinu Paradiso, á nr. 4 í 17. aldar húsi. Sami matseðill er á báðum stöðum, en umhverfi öllu skemmtilegra og þjónusta öllu betri hérna megin, við Pietat. Þetta er afar fallegur, lítill staður, hlaðinn harðviði og gleri upp eftir öllum veggjum, svo og forngripum, því að eigendur eru forngripasalar. Gestir sitja í þægilegum armstólum á fínu teppi og fá þurrt sérrí meðan þeir skoða matseðilinn. Við prófuðum góðan, ostbakaðan spergil með skinku (espárragos gratinados); mjög góða kæfu hússins með fíkjum (pate higos); afar góðan og bragðmildan saltfisk hússins með spínati og rúsínum (bacalao Cuineta); góðan kola grillaðan (lenguado plancha); búðing með rjóma og kiwi; svo og ricotta-ost með hnetum og hunangi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (Cuineta, Pietat 12, sími 315 41 56, C4)

Seynor Parellada

Nálægt gamla borgarmúrnum, steinsnar frá hótelinu Suizo, er Seynor Parellada, stór og hávaðasamur veitingastaður, einfaldur í sniðum og þó vingjarnlegur, tiltölulega ódýr. Þar gengur herra Parellada sjálfur um og sér um, að gestir hafi það eins gott og þeir vilja. Í hádeginu er matstofan þétt setin kaupsýslumönnum úr nágrenninu. Matreiðslan er hefðbundin. Við fengum okkur góðar, næfurþunnar laxasneiðar úr legi (carpaccio); afar gott saltfisksalat (esqueixada con escalibada); 10 litla smokkfiska, mjög góða (calamars); góðan lýsing grillaðan; frysta froðu og ís. Meðal sérgreina hússins er saltfiskur (bacalao con samfaina). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.000 pts. (Seynor Parellada, Argentería 37, sími 315 40 10, lokað sunnudaga, C4)

Siete Puertas

Stutt frá Seynor Parellada, niðri við höfnina, er ákaflega stór og fjörugur matsölustaður á franska vísu, jafnan yfirfullur af fólki. Það er Siete Puertas, stofnaður fyrir rúmlega hálfri annarri öld, eitt af einkennistáknum borgarinnar. Setið er á litlum stólum og löngum bekkjum undir panil- og flísaveggjum. Í lofti eru riÄð enn frekar. Antonio Roca kokkur er beztur í hrísgrjónaréttum, svo sem sardínum á hrísgrjónum (arroz de sardinas) og pælu. Við prófuðum nokkuð saltan saltfisk í tómat (esqueixada); góðan spergil (espárragos); góða, ofnsteikta þykkvalúru (rodaballo); ágæta pælu hússins (paella parellada); ís með heitri súkkulaðisósu (biscuit); og ískraum með rúsínum (sorbete de orujo con pasas). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (Siete Puertas, Passeig d’Isabel II -14, sími 319 30 33, C5)

Brasserie Flo

Skammt vestur af Katalúníutorgi er einn af allra beztu matstöðum miðbæjarins, Brasserie Flo, stór og hávaðasamur, glaðlegur og fjörugur. Við innganginn eru ostrur til sýnis, vinsælar á þessum stað. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja, miklar ljósakrónur og súlur. Á veggjum eru fjöldamörg, gömul plaköt innrömmuð og háir speglar. Mikið er um fastagesti úr fjölmiðlaheiminum og óperugesti, enda er staðurinn opinn fyrir matarpantanir til kl. 1 að nóttu. Matreiðslan er fransk-katalúnsk eins og innréttingarnar. Við fengum okkur kalda humarsúpu, frekar daufa (crema de bogavante); ostbakaðar ostrur í kampavíni, mjög góðar (ostras al cava); afar góðar nautalundir (solomillo de buey) í of sterkri sósu; einnig mjög gott dádýrakjöt (filet mignon de ciervo) með rúsínum, perum og ákaflega sterkri sósu; góðan búðing með karamelluskorpu (crema catalana); og ferska ávexti góða (macedonia de frutas). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts. (Brasserie Flo, Junqueres 10, sími 317 80 37, C2)

Quo Vadis

Quo Vadis er gamalgróinn og tiltölulega einfaldur matsalur með góðum mat og góðri þjónustu í hliðargötu út af La Rambla, rétt við Palacio de la Virreina. Hann er oft opinn fyrir matarpantanir til kl. 2 að nóttu fyrir óperugesti, enda er Liceo rétt hjá. Stutt er að sækja vandað hráefnið, því að matvælamarkaður miðbæjarins, Boquería, er rétt hjá veitingahúsinu. Matreiðslan er meðal hinna beztu í miðborginni. Við prófuðum sex mismunandi sveppi, sem ekki voru á seðlinum, sérstaklega góða; nokkuð góða blöndu af ýmsu grænmeti í olíu; rækjur, egg, fisk og saltfisk í olíu á afar heitri pönnu, mjög góðan rétt; sérstaklega góða fisk- og sjávarréttablöndu í mildri tómatsósu; góða osta; og blöndu ferskra berja og ávaxta. Þríréttað fyrir tvo: 10.000 pts. (Quo Vadis, Carme 7, s. 302 40 72, lokað sunnudaga, B3)

Göngur

Plaça de Catalunya

Við hefjum gönguferðina um gömlu Barcelona á Katalúníutorgi, Plaça de Catalunya (B2), sem er miðtorg borgarinnar. Það er stórt, með gosbrunnagarði í miðju. Við austurhlið þess er vöruhúsið El Corte Inglés. Við göngum meðfram vöruhúsinu og áfram niður göngugötuna Portal de l’Ángel. Smám saman þrengist gatan og endar á Plaça Nova, þar sem dómkirkjuturnar blasa við.

Catedral de Santa Eulalia

Á vinstri hönd okkar er nútímalegt hús með stórri lágmynd eftir Picasso, sem sýnir Katalúna dansa þjóðdans sinn, Sardana. Framundan eru tveir turnar, leifar vesturports rómverska borgarmúrsins frá 4. öld. Hægra megin turnanna er biskupshöllin, Palau Episcopal, og vinstra megin er hús erkidjáknans, Casa de l’Ardiaca, upprunalega frá 11. öld, en endurnýjað á 16. öld.

Catedral de Santa Eulalia var reist á 14. öld og fyrri hluta 15. aldar í gotneskum stíl, en með því katalúnska sérkenni, að kirkjuskipið er aðeins eitt, án hliðarskipa. Inn á milli útveggjastoðanna er skotið ótal smákapellum. Kirkjan var gerð upp á 19. öld og ber að mestu upprunalegan svip. Inni í henni má meðal annars sjá 16. aldar kórhlíf úr hvítum marmara. Hægt er að ganga hægra megin úr dómkirkjunni inn í lítinn og friðsælan klausturgarð frá 15. öld, þar sem gæsir ganga á beit. Kirkjan er opin 7:30-13:30 og 16-19:30.

Skemmtilegast er að vera hér eftir kl. 12 á sunnudögum, þegar Sardana dansinn byrjar framan við dómkirkjuna. Það er katalúnskur hringdans, nokkuð flókinn, sem er eins konar sjálfstæðisyfirlýsing Katalúna. Á tímum Francos var dansinn bannaður og iðkaður í kyrrþey. Nú er hann framinn af aðvífandi kirkjugestum, ungum sem öldnum. Þessi óskipulagða uppákoma hefur jafnan mikil áhrif á ferðamenn. (BC3)

Barri Gòtic

Hér hefst hinn gotneski, gamli hluti miðborgarinnar, Barri Gòtic, með þröngum og krókóttum húsasundum, fullur af kaffihúsum og veitingahúsum. Nafnið stafar af því, að mörg hús í hverfinu eru í gotneskum stíl frá 13.-15. öld.

Við skulum ganga inn sundið Comtes norðan við kirkjuna. Þar er konungshöll Aragóns vinstra megin sundsins, andspænis dómkirkjunni. Þar bjuggu greifarnir af Barcelona, sem urðu kóngar af Aragón eftir 1137. Núna eru þar söfn. Fyrst komum við að listasafninu Museu Frederic-Marès, opið þriðjudaga-laugardaga 9-14 og 16-19, sunnudaga 9-14. Síðan komum við að fornskjalasafninu, sem er í varakonungshöllinni frá endurreisnartíma, Palau del Lloctinent. Hér framundan til hægri er veitingahúsið Cuineta. Við beygjum hins vegar til vinstri og förum inn á konungstorg, Plaça del Rei.

Plaça del Rei

Við sjáum hér frá Plaça del Rei hina hliðina á varakonungshöllinni. Fyrir enda torgsins er Saló del Tinell, hinn gamli 14. aldar veizlu- og hásætissalur hallarinnar, með frægum tröppum fyrir framan, þar sem Ferdinand Aragónskóngur og Ísabella Kastilíudrottning eru sögð hafa tekið á móti Kristófer Kólumbusi, er hann kom frá fyrstu Ameríkuferð sinni.

Yfir Tinell-sal gnæfir Torre del Rei Martí, 16. aldar útsýnisturn með margra hæða súlnariðum. Hægra megin, andspænis varakonungshöllinni, er konungskirkjan Capella de Santa Agata, gotnesk kirkja frá 14. öld. Suðaustan við torgið, andspænis Tinell-sal, er Casa Clariana Padellòs, 16. aldar hús. Þar og í öðrum mannvirkjum umhverfis torgið er borgarsögusafnið til húsa, Museu d’Història de la Ciutat, opið þriðjudaga-föstudaga 9-20:30, laugardaga-sunnudaga 9-13.30. (C3)

Við göngum áfram suðaustur meðfram Casa Clariana Padellòs og beygjum til vinstri eftir götunni Libreteria, þar sem við komum strax að torginu Plaça de l’Ángel, þar sem hótelið Suizo er. Ef við skreppum norður frá torginu, komum við á Plaça de Ramón Berenguer el Gran, þar sem við sjáum Capella de Santa Agata frá hinni hliðinni, þar sem hún er reist utan í og ofan á gamla borgarmúrnum utan um Barri Gòtic.

Museu Picasso

Við förum frá Plaça de l’Ángel yfir götuna Laietana og göngum eftir Princesa, unz við komum að sundinu Montcada, þar sem við beygjum til hægri. Þessi gata með gróðurbeðjum á svölum var þegar á 12. öld hverfi höfðingjanna í bænum. Aðalshallirnar þar eru frá 13. til 18. öld. Nú er þar Picasso-safnið til húsa í þremur höllum, á nr. 15-19, opið 10-20, lokað mánudaga, C4. Við komum þar fyrst inn í forgarð, sem er dæmigerður fyrir katalúnskar borgarhallir af þessu tagi. Þetta safn er eitt hið merkasta í borginni og er það við hæfi, því að Picasso lærði að mála í Barcelona, kom hingað 15 ára gamall. Andspænis Picasso-safninu er fatatízkusafnið Museu de tèxtil i de la Indumentària.

Plaça Sant Jaume

Við göngum beinustu leið til baka eftir Princesa, yfir Laietana og áfram eftir götunni Jaume unz við komum inn á borgartorgið Plaça Sant Jaume (BC4). Þar er stjórnarráð Katalúníu á hægri hönd og ráðhús Barcelona á vinstri hönd. Stjórnarráðið er mikil höll frá 15. öld, Palau de la Generalitat. Ráðhúsið á móti er frá 14. öld, Ajuntament. Við skulum ganga eftir sundinu Calle Bisbe Irurita meðfram stjórnarráðinu að dómkirkjunni, sem við vorum áður búin að skoða. Á leiðinni er skemmtileg göngubrú í gotneskum stíl yfir sundið milli húsanna Generalitat og Canonges, þar sem eru skrifstofur formanns stjórnarráðsins. Í þessum höllum er stjórn Katalúníu önnum kafin við að efla sjálfstæði svæðisins gagnvart miðstjórnarvaldinu í Madrid.

Við erum nú komin aftur að dómkirkjunni og getum gertð öðrum kosti röltum við eftir göngusundunum og kynnum okkur Barri Gòtic í návígi. Ef við förum eftir sundunum Gegants og Avinyó, göngum við framhjá veitingahúsunum Agut d’Avinyó og El Gran Café. Við tökum almennt stefnuna til suðausturs og endum niðri við höfn. Á leiðinni förum við yfir götuna Ample, þar sem er hótelið Metropol og veitingastaðurinn El Túnel.

Moll de la Fusta

Niðri við höfn förum við yfir Passeig de Colom út á Moll de la Fusta, sem er pálmum skrýtt göngusvæði við lystisnekkjuhöfnina. Við förum þessa leið til hægri, í áttina að Monument a Colom, súlunni miklu, þar sem efst trónir stytta af Kristófer Kólumbusi (A5). Hægt er að fara upp súluna í lyftu og njóta útsýnis í góðu veðri. Torgið umhverfis styttuna heitir Plaça Portal de la Pau.

Í höfninni fyrir framan, undir höllinni Port Autonom, liggur oft eftirlíking í fullri stærð af Santa María, karavellunni, sem flutti Kólumbus í fyrstu Ameríkuferðinni. Vestar á hafnarbakkanum er tollbúðin, virðuleg höll, en landmegin er gamla skipasmíðastöðin í borginni, Drassanes, frá 14. öld, heimsins eina dæmi sinnar tegundar iðnaðarhúsnæðis frá þessum tíma. Þar er nú viðamikið siglingasafn, Museu Marítim, opið þriðjudaga-föstudaga 10-14 og 16-19, laugardaga-sunnudaga 10-14.

La Rambla

Hér við Monument a Colom er suðurendinn á La Rambla, helztu röltgötu borgarinnar. Hún liggur héðan til Plaça de Catalunya, þaðan sem við hófum göngu okkar. Við förum eftir henni miðri, þar sem er löng og mjó eyja með platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, en bregðum okkur inn í sumar hliðargötur.

Fyrst komum við að vaxmyndasafninu til hægri í Museu de Cera, á horninu við þvergötuna Passatge Banca. Síðan lítum við til vinstri inn í þvergötuna Carrer Nou de la Rambla, þar sem eitt af húsum Gaudís er rétt við hornið. Það er Palau Güell, virkishús með auðþekkjanlegum skreytingum úr smíðajárni og hefur að geyma leikhúsminjasafn (A4). Á þessum slóðum er Kínahverfið í borginni, Barri Chino, þar sem mikið er um hórur og vasaþjófa.

Plaça Reial

Andspænis götunni, hinum megin við La Rambla, er þvergatan Carrer Colom, sem liggur að lokuðu göngutorgi, Plaça Reial (B4). Það er heildarteiknað torg í stíl við Plaza Mayor í Madrid, með skuggsælum súlnagöngum og kaffihúsum allt um kring. Á þessu torgi hittast frímerkjasafnarar og myntsafnarar á sunnudagsmorgnum. Á nóttunni eru hér rónar og fíkniefnaneytendur, sem geta valdið óþægindum.

Nokkru norðar á La Rambla komum við vinstra megin að Gran Teatre del Liceu, á horni þvergötunnar Sant Pau. Það er borgaróperan, byggð 1846, með risastórum áhorfendasal, en lætur lítið yfir sér að utanverðu (AB4).

Plaça del Pi

Andspænis Liceu liggur þvergatan Cardenal Casanas á ská til norðurs að torgunum Plaça del Pi og Plaça Sant Joseph Oriol undir kirkjunni Mare de Déu del Pi. Á þessum torgum er einn af flóamörkuðum borgarinnar. Þar eru líka oft uppákomur í listum. Norður af Plaça del Pi er heilmikið hverfi verzlana með göngugötum undir þaki, eins konar bazar á austræna vísu, en hreint og fágað á vestræna vísu (B3).

La Boqueria

Við förum til baka eftir Cardenal Casanas til La Rambla og höldum áfram eftir þeirri götu. Til vinstri komum við að höfuðinngangi matvælamarkaðarins í Barcelona. Það er Mercat de Sant Josep, öðru nafni La Boqueria, stálgrinda- og glerhús í ungstíl frá 19. öld (B3). Þar eru stórfenglegar breiður af girnilegum ávöxtum, grænmeti, fiski, skeldýrum og kjöti. Þetta er bezt að skoða á morgnana, því að markaðurinn fjarar út síðdegis.

Næst komum við, líka til vinstri, að Palau de la Virreina. Þar bjó á nýlendutímanum varakonungurinn af Perú, en nú hýsir höllin ýmis söfn og sýningar.

Við höldum áfram eftir eyjunni á miðri La Rambla, göngum fram hjá platantrjám, blómabúðum, fuglabúðum, kaffihúsum og blaðsöluturnum, ef til vill einnig mótmælagöngum, og erum komin til Katalúníutorgs, þar sem við hófum þessa miklu gönguferð.

Passeig de Gracìa

Norður frá Katalúníutorgi er gatan Passeig de Gracìa norður um nýja miðbæinn frá því rétt fyrir síðustu aldamót. Þetta var þá helzta og fínasta íbúðahverfi borgarinnar, Eixample, og er nú helzta og fínasta verzlunarhverfi hennar. Á breiðum gangstéttum Gracìa eru oft smakktjöld framleiðenda freyðivíns, sem bjóða gestum og gangandi upp á glas af cava, einkennisvíni Katalúníu.
Við þessa götu eru líka merk hús, einkum eftir arkitektinn Gaudí. Hægra megin, á nr. 41 og 43 eru hlið við hlið litskrúðug húsin Casa Amatller frá 1900 eftir Josep Puigi Cadafalch í flæmskum stílbrigðum og Casa Batlló, frá 1905 eftir Gaudí, auðþekkjanlegt af bylgjuðum svölum og bjúgu þaki (B1). Nokkru norðar, vinstra megin, á nr. 92, er Casa Milà eða La Pedrera, frá 1905, eftir Gaudí, sjóveikislega bylgjulaga með furðusmíðum á þaki.

Öll þessi hús eru í róttækri útgáfu af ungstíl eða nýstíl aldamótanna, sem hafði meiri áhrif í Barcelona en í flestum öðrum borgum Evrópu.

Sagrada Família

Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família. Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.

Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.

Parc de la Ciutadella

Austan við gamla miðbæinn er mikill garður, Parc de la Ciutadella, þar sem heimssýningin var haldin árið 1888 og þar sem nú er vinsælt að fara í sunnudagsgöngur. Syðst í garðinum er dýragarður borgarinnar, fremur þægilegur garður á nútíma vísu, og fyrir norðan hann er nýlistasafn borgarinnar, Museu d’Art Modern, aðallega með verkum katalúnskra listamanna. Í garðinum er líka þinghús Katalúníu. Milli garðsins og hafnarinnar er uppfylling, þar sem er að rísa ólympíuþorpið fyrir árið 1992.

Montjuïc

Vestan við miðbæinn er fjallið Montjuïc. Gott er að fá sér leigubíl upp eða fara með kaðallyftu, en ganga niður. Efst uppi er hernaðarsafnið, Museu Militar. Þaðan er mikið útsýni yfir borgina, höfnina og hafið. Fyrir neðan safnið er tívolí-garður með margvíslegum leiktækjum, svo sem Parísarhjóli.

Þar er líka nýlegt safn, Fundació Joan Miró, þar sem sýnd eru verk katalúnska nútímalistamannsins Miró. Safnhúsið er hið frumlegasta að allri hönnun, opið þriðjudaga-föstudaga 11-20, laugardaga-sunnudaga 11-14:30.
Á leiðinni niður komum við næst að svæðinu, þar sem ólympíuleikarnir 1982 verða haldnir. Þar er stóri ólympíuleikvangurinn og margir aðrir keppnisvellir af ýmsu tagi.

Neðan við þetta svæði er Palau Naçional, sem stendur virðulega frammi á fjallsbrún. Þessi mikla höll var reist vegna heimssýningarinnar í Barcelona árið 1929. Þar er til húsa eitt stærsta safn miðaldalistar í heiminum, Museu d’Art de Catalunya, opið 9-14, lokað mánudaga. Í brekkunum austan við höllina eru fornminjasafnið, Museu Arqueològic, opið þriðjudaga-laugardaga 9:30-13 og 16-19, sunnudaga 9:30-14, og þjóðfræðisafnið, Museu Etnològic, opið þriðjudaga-laugardaga 9-20:30 og sunnudaga 9-14.

Poble Espanyol

Í brekkunum vestan við höllina er eins konar Árbær, Poble Espanyol. Þar hafa verið reistar nákvæmar eftirlíkingar af spönskum húsum, raðað saman eftir landshlutum. Þar má til dæmis finna Katalúníuhverfi, Kastilíuhverfi og Andalúsíuhverfi. Í húsunum eru verzlanir, listiðnaðarverkstæði og veitingastofur. Á kvöldin eru oft ýmsar sýningar, til dæmis dansar, svo og tónleikar og kvöldvökur. Poble Espanyol er opið frá 9 á morgnana fram yfir miðnætti.

Frá Palau Naçional liggja voldugar tröppur niður brekkuna, inn á milli sýningarhalla kaupstefnunnar í Barcelona, og niður á Spánartorg, Plaça d’Espanya. Þar er gaman að snúa sér við og virða fyrir sér mikilúðlegt útsýnið upp til Palau Naçional.
Handan við Spánartorg er einn helzti nautaatshringur borgarinnar, í márískum stíl eins og svo margir nautaatshringir á Spáni. Á bak við hringinn er Parc Joan Miró með stórri höggmynd eftir listamanninn.

Héðan tökum við leigubíl niður í bæ. Skoðun Barcelona er lokið að sinni.

Costa Dorada

Frá Barcelona er stutt að fara um ströndina Costa Dorada til Sitges, 30 kílómetrum sunnan borgarinnar. Þar er strönd og kaffihúsalíf og skemmtilega gamall miðbær.

Lengri ferð má fara suður um ströndina til Tarragona, sem er 100 kílómetrum sunnan við Barcelona. Tarragona er gamall Rómverjabær með miklum fornleifum frá þeim tíma, þar á meðal hringleikahúsi og borgarmúr. Miðbær Tarragona er frá miðöldum.
Einnig er stutt að heimsækja fjallaklaustrið Montserrat, 60 kílómetrum frá borginni. Þar er fjölbreytt landslag.

Costa Brava

Einnig má fara norður um ströndina Costa Brava, sem er ein fegursta strönd Spánar, með klettum í sjó fram og sandvíkum á milli. Þar er bærinn Gerona, 100 kílómetrum norðan Barcelona, með skemmtilegum miðbæ frá miðöldum, hinum bezt varðveitta á öllum Spáni.

1991

© Jónas Kristjánsson