Madrid hefur á hálfum öðrum áratug breytzt úr friðsælu stórþorpi í fjörugustu höfuðborg Vesturlanda. Fólkið í Madrid hefur tekið nýfengið lýðræði og frelsi með slíku trompi, að því er líkast sem það sé að vinna upp hálfrar aldar kúgun á valdatíma Francos. Miðbærinn er á fullum dampi frá morgni til morguns. Barir og kaffihús eru alltaf meira eða minna þétt skipuð gestum. Það er rétt svo, að göturnar róist milli 5 og 7 á morgnana. Á móti hvílir fólk sig milli 14 og 16 á daginn.
Movida kalla heimamenn þetta hraðgenga fyrirbæri. Allt er keyrt á fullu, bæði vinna og skemmtun, og lítill tími er aflögu til svefns. Rannsóknir sýna, að í Madrid sofa menn minna en í öðrum höfuðborgum Vesturlanda. Frjálslyndið er svo mikið, að víða má sjá fólk koma í veitingahús og skemmtistaði eftir miðnætti með smábörn í vöggu.
Madrid er ekki bara fjörugusta höfuðborg Evrópu, heldur líka sú hæsta, í 646 metra hæð yfir sjávarmáli, með þrjár milljónir íbúa. Nafn borgarinnar er frá Márum, sem kölluðu hana Magerit. Árið 1083 náðu kristnir menn henni af íslömum. Hún varð af tilviljun höfuðborg árið 1561, þegar Habsborgarinn Filippus II ákvað að reisa konungshöllina El Escorial. En hún var áfram sóðalegt þorp enn um skeið.
Borgin fékk ekki höfuðborgarbrag fyrr en með valdatöku Búrbóna á 18. öld. Þeir byggðu konungshöllina og málverkahöllina Prado og lögðu breiðstræti og garða um borgina. Með opnun nýrra listasafna er Madrid orðin ein helzta lista- og menntaborg heimsins.
Gisting
ð er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Madrid á hótelunum.
Spönsk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi, þar á meðal pípulagnir, ef þau eru þriggja eða fleiri stjarna að opinberu mati, en sum tveggja stjarna hótel geta líka verið mjög góð, þótt ekki sé sjónvarp í herbergjum. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri og sturtu.
Í öllum tilvikum setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu með beina línu úr húsi. Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Þá viljum við helzt hafa loftkælingu, en hún er því miður víða ekki í nógu góðu lagi, þar á meðal í fínum hótelum.
Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir og svo að stutt sé að fara í síðdegislúrinn að spönskum hætti.
Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá 4.700 pts fyrir tvo án morgunverðar, upp í 32.000 pts fyrir tvo án morgunverðar.
Öll hótelverð eru hér gefin upp án morgunverðar, því að á spönskum hótelum er hann yfirleitt lítilfjörlegur að frönskum hætti. Miklu bragðbetra og hagkvæmara er að fá sér gott kaffi og nýbakað smjördeigshorn úti á götuhorns-kaffihúsi, eins og heimafólk gerir.
Öll hótelin prófuðum við veturinn 1990-1991 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult. Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki. Sum fjögurra stjarna hótel eru raunar mun lakari en sum tveggja stjarna hótel.
Palace
Lúxushótelin í miðborginni eru tvö, Ritz og Palace, sem horfast á yfir torgið Cánovas del Castillo. Ritz þykir heldur fínna og þar búa sendiherrarnir, enda kostar tveggja manna herbergi 62.000 pts, eitthvert hæsta verð í Evrópu. Á 500 herbergja Palace kostar tveggja manna herbergi 32.000 pts, sem ætti að vera nóg samt.
Palace er þingmannahótelið í Madrid, enda er spánska þingið, Cortes, handan götunnar Carrera de San Jeronimo. Prado listasafnið er svo handan götunnar Paseo del Prado. Palace er réttu megin við þá götu, það er að segja miðbæjarmegin, en Ritz utanmegin. Palace er hð sjá en Ritz. Þar eru líka mjög fínar og víðáttumiklar setustofur á neðstu hæð, þar á meðal hringlaga kaffistofa með gler- og kristalshvolfi. Víða uppi á hæðunum eru setustofur á göngum og við lyftur. Húsið er frá 1912, en hefur nýlega verið endurnýjað eftir ýtrustu kröfum nútímans.
Mörg herbergin eru þó enn í gömlum stíl, þar á meðal nr. 106. Það er fremur stórt, búið virðulegum, póleruðum húsgögnum, leðurstólum og mjög fínu gólfteppi, svo og öllum þægindum. Mikið af speglum og flísum er í stóru baðherbergi. Nokkur hávaði var utan af götunni, en fólk getur líka fengið herbergi, sem snýr að húsabaki.
(Palace, Plaza de las Cortes 7, s. 429 75 51, fax 429 82 66, telex 23903, D4)
Victoria
Í næstu röð miðborgarhótela leizt okkur einna bezt á 200 herbergja Victoria. Það er afar vel í sveit sett, við torgin Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, sem eru hávær þungamiðja helzta gleðskaparhverfis kaffihúsa og drykkjarkráa borgarinnar, rétt sunnan við Plaza Puerta del Sol. Þar bjuggu nautabanar og Hemingway á sínum tíma, en nú hefur það verið gert upp á nýtízkulegan hátt, þótt útlit hússins hafi verið friðað. Niðri er feiknastór og glæsileg stofa.
Mörg herbergin hafa setukrók með hægindastólum við stóra, útbyggða glugga út að öðru torginu, þar á meðal nr. 306. Innréttingar herbergisins eru smekkvíslegar og vandaðar, pláss með allra bezta móti og baðherbergi glæsilegt. Af hinum dýrari hótelum borgarinnar er þetta í mestu uppáhaldi hjá okkur. Verðið var 14.500 pts.
(Victoria, Plaza del Ángel 7, s. 531 60 00, fax 314 31 56, telex 42920, C4)
Liabeny
Annað helzta uppáhaldshótelið okkar í dýrari kantinum í Madrid er 209 herbergja Liabeny, sem er við litla göngugötu í verzlanahverfinu rétt norðan við Plaza Puerta del Sol og rétt sunnan við Gran Vía. Enginn umferðarhávaði er við þetta einkar virðulega hótel. Það er í mexíkanskri eigu og gestir eru margir frá rómönsku Ameríku.
Herbergi nr. 201 er meðalstórt, búið óvenjulega vönduðum húsgögnum. Því fylgir glannalega glæsilegt baðherbergi, lagt marmara og flísum. Verðið var 12.500 pts.
(Liabeny, Salud 3, sími 532 53 06, fax 532 74 21, telex 49024, C3)
Suecia
Í svipuðum gæðaflokki og töluvert dýrara er Suecia, lítið 128 herbergja hótel að baki þinghússins, við umferðarlétt og rólegt torg í hjarta borgarinnar. Þar er skemmtilegur kaffibar uppi á palli inn af anddyri. Í móttökunni er afar notalegt starfsfólk, sem spyr gesti, hvort þeir vilji reyklaust svefnherbergi.
Við báðum um reyklaust og fengum afar fallegt herbergi, en fremur lítið, nr. 201, með pottablómum, sem eru sjaldgæf sjón í hótelherbergi. Það snýr út að torginu, með hljóðheldum gluggum, innréttað í ljósbláum og léttum blóma- og sumarstíl, með miklum speglum. Baðherbergið er glæsilegt. Sum herbergi hótelsins á efstu hæðum hafa enn ekki verið gerð upp og þau ber að forðast. Herbergið kostaði 17.500 pts.
(Suecia, Marqués de Casa Riera 4, sími 531 69 00, fax 521 71 41, telex 22313, D3)
Carlos V
Af meðalverðs-hótelum borgarinnar leizt okkur einna bezt á Carlos V, sem er lítið, 67 herbergja hótel við friðsæla göngugötu í verzlanahverfinu rétt norðan við Plaza Puerta del Sol og rétt sunnan við Gran Vía. Starfslið var mjög glaðlegt og hjálpsamt.
Við fengum gott herbergi, nr. 209, með svölum út yfir göngugötuna, þar sem fiðluleikari og flautuleikari skiptust á um að flytja hina ljúfustu tóna langtímum saman. Þetta er lítið herbergi, en notalegt, með gömlum húsgögnum og snyrtilegu baði. Enskumælandi rás frá Sky var í sjónvarpinu. Herbergið kostaði 9.500 pts.
(Carlos V, Maestro Victoria 5, s. 531 41 00, fax 531 37 61, telex 48547, B3)
Mayorazgo
Mayorazgo er vel staðsett og nothæft, 200 herbergja hótel í svipuðum verðflokki og Carlos V, nokkurn veginn alveg við Gran Vía, í næsta nágrenni Spánartorgs, en þó á kyrrlátum stað. Það er sérkennilega innréttað í kastilískum kastalastíl, bæði á almennum svæðum og inni í herbergjum. Verð gistingar er nokkuð misjafnt.
Herbergiþði 8.500 pts, sneri inn í port og var fremur hljóðbært. Betra er að taka heldur dýrara herbergi, á um það bil 11.000 pts. Herbergi 323 er fremur lítið, en með parketi og fínum teppum, svo og buxnapressu, sem er of sjaldgæf sjón í hótelherbergjum. Baðherbergið er vel búið og lagt marmara.
(Mayorazgo, Flor Baja 3, sími 247 26 00, fax 241 24 85, t.x 456479, B2)
París
Helzta uppáhaldshótel okkar í Madrid er 114 herbergja París. Það er feiknarlega vel staðsett, því að mörg herbergi eru með svölum út að miðtorgi borgarinnar, Plaza Puerta del Sol. Það er líka ódýrt hótel, því að það hefur aðeins tvær stjörnur og tréstiginn er afar slitinn. En ég hef ekki séð hreinlegra, betur bónað eða rykfrírra hótel á Spáni. Sjónvarp er ekki í herbergjum, en sími með beinu sambandi út. Þau herbergi, sem ekki snúa út að torginu, snúa inn í port með blómaskrúði.
Herbergi nr. 221 snýr út að höfuðtorginu, með frábæru útsýni af svölunum yfir lífið, sem er í fullum gangi frá klukkan sjö á morgnana til klukkan fimm á morgnana.
Glerið í gluggunum er tvöfalt og vel hljóðhelt. Parketið á gólfinu var hált af bóni. Baðherbergið er fullflísað og með öllum tækjum í lagi. Þetta herbergi kostaði 6.500 peseta.
(París, Alcalá 2, sími 521 64 96, telex 43448, C3)
Moderno
Nothæft hótel á svipuðu verði, einnig við aðaltorgið, Plaza Puerta del Sol, er 100 herbergja Moderno, en ekki með útsýni yfir torgið. Það er hreinlegt, en á ýmsan hátt þreytulegt, með parketi á göngum og búið góðum og glanspóleruðum húsgögnum í herbergjum, síma, en ekki sjónvarpi. Morgunverður er ekki seldur, en rétt hjá er ein bezta morgunverðarstofa bæjarins, Mallorquina.
Herbergi 412 snýr ekki út að götu, er með parketgólfi og öllum þægindum á baði, en þyrfti málningu á baðloft. Verðið var 6.800 pts.
(Moderno, Arenal 2, sími 531 09 00, fax 531 35 50, B3)
Europa
Ódýrast af hinum frambærilegu hótelum í miðbænum er Europa, sem einnig er við megintorgið, Plaza Puerta del Sol. Þar er ákaflega vingjarnlegt starfsfólk. Sími er í herbergjum, en ekki sjónvarp eða loftkæling.
Ekki er tekið við krítarkortum og ekki er seldur morgunverður, en kaffistofa er við hlið hótelsins. Þau herbergi, sem ekki eru út að götu, snúa inn í snyrtilegt blómaport.
Herbergi nr. 214 er stórt og sérkennilegt í laginu, með setukróki úti við svalir, sem hafa útsýni yfir göngugötu á ská til torgsins. Engin bílaumferð er fyrir framan, en samt er tvöfalt og vel hljóðhelt gler í gluggunum. Baðherbergið er stórt og fullflísað, með öllum pípulögnum í fínu lagi.
Næturgistingin kostaði aðeins 4.800 pts. Miðað við stað og gæði eru þetta beztu kaup í borginni.
(Europa, Carmen 4, s. 521 29 00.C3)
Veitingar
Þar sem Spánverjar borða tvisvar á dag og á undarlegustu tímum, þurfa þeir snarl inn á milli. Það kalla þeir tapas, sem þeir úða í sig á vín- og snarlbörum milli klukkan 13 og 14 á daginn og milli klukkan 20 og 23 á kvöldin, meðan þeir eru að bíða eftir, að tímabært sé að fara í veitingahús. Tapas-barir eru alveg rosalega fjörlegir og hávaðasamir staðir. Snarlið er oft djúpsteikt og fitandi, en sumt er gott, svo sem smokkfiskhringir (calamares), rauðar smápylsur, skarpkryddaðar og áfengisvættar (chorizo), rækjur (gambas og cigalas), skeljar (almejas), ansjósur (anchoas), sniglar (caracoles), ostur (manchego) og hráskinka (jamón serrano).
Þótt Madrid sé inni í miðju landi, er borgin fræg fyrir góða sjávarrétti. Aflinn kemur í flugi á nóttunni frá sjávarplássum við Miðjarðarhaf og Atlantshaf. Kokkarnir fara sjálfir snemma á morgnana á fiskmarkaðinn til innkaupa. Matreiðslan er svo sem ekki betri en á Íslandi, en tegundirnar eru miklu fleiri. Þar eru ostrur (ostras) og ótal skelfiskar (almejas), margar tegundir af rækjum (gambas, cigalas, langostas, langostinos), humar (bogavante), fiskar á borð við þykkvalúru (rodaballo) og kólguflekk (besugo) og hafurriða (merluza). Yfirleitt borgar sig að biðja um einfalda matreiðslu, til dæmis grillun (a la parilla) eða ofnbökun (al horno). Ekki má heldur gleyma saltfiskinum (bacalao), sem er á boðstólum í flestum veitingastofum, þar á meðal hinum beztu, og er langtum betri en við þekkjum heima á Íslandi.
Gagnstætt því, sem margir halda, er hægt að fá mjög góða nautasteik (buey) víðast hvar á Spáni. Ennfremur er þar fjölbreytni í ýmissi villibráð, svo sem dádýrum (corzo og venado), akurhænum (perdiz) og orrum (codorniz). Um slíkar steikur gildir hið sama og um aðra matreiðslu á Spáni, að hún er bezt sem einföldust, grillun (a la parilla) eða ofnsteiking (asado). Hrásteiking er bezt (poco hecho), fremur en miðlungi steikt (regular) eða mjög steikt (muy hecho).
Spánverjar eru mikið fyrir hrísgrjónagrauta, -vellinga og súpur með kanil (arroz con leche). Eftirréttir af því tagi eru í boði víðast hvar og eru mun frumlegri en við þekkjum á Íslandi. Steingrímur Hermannsson ætti að prófa það.
Eitt hið bezta við veitingamennsku í Madrid og raunar víðast hvar á Spáni er kaffið, sem kemur sterkt og gott úr ítölskum kaffivélum. Spánverjar drekka það svart, (café solo). Á morgnana fá þeir sér það stundum mjólkurblandað, (café con leche).
Önnur sérgrein í Madrid eru vindlarnir frá rómönsku Ameríku, þar á meðal frá Kúbu. Hvergi hef ég séð annað eins úrval af allra fínustu vindlum heims, né á jafnlágu verði og á Spáni.
Öll verð hér í bókinni eru fyrir þríréttaða máltíð með glasi af víni eða flöskuvatni, svo og kaffi, allt fyrir tvo.
Vín
Vín eru góð á Spáni, en menn hugsa ekki eins mikið um fræg búgarðsvín og gert er í Frakklandi. Flestir biðja um rauðvín hússins eða þá sérstaklega um vín frá héraðinu Rioja, ef vín hússins er þá ekki þaðan.
Ekkert þykir heldur sjálfsagðara en, að fólk vilji heldur flöskuvatn eða sódavatn með matnum og er því þá hellt í vínglösin, og vatnsflöskurnar eru oftast settar óumbeðið í hvítvínskæliföturnar.
Aðferðir við vínyrkju í Rioja eru runnar frá Frakklandi og víngæðin eru mest þar. Ilmur vínsins minnir á vanillu og eik, en þó í tempraðra mæli en áður var. Þessi vín eru geymd lengi, áður en þau eru sett á markað, og eldast ákaflega vel. Vín frá 1964 eru til dæmis enn að batna. Nærri allir árgangar frá Rioja eru góðir, en beztir hafa verið 1952, 1955, 1964, 1968, 1970, 1973, 1978 og 1982.
Meðal Rioja-vína er algengt Marqués de Riscal, sem margir Íslendingar þekkja, gott og traust vín. Önnur mjög góð Rioja-merki eru til dæmis Marqués de Murrieta, Marqués de Cáceres og Marqués de Alella. Meðal frægustu vína Spánar eru Castillo Ygay og Vega Sicilia, en þau fást ekki víða.
Í stað hanastéls fyrir mat drekka margir glas af skraufaþurru sérríi frá Andalúsíu, svo sem Tio Pepe eða La Ina, sem eru beztu fordrykkir, er hugsazt getur, af því að þeir dempa ekki bragðlaukana eins og sætar sterkvínsblöndur gera.
Zalachaín
Bezta veitingahúsið í Madrid og eitt af þremur beztu á Spáni er Zalachaín. Þess vegna fær það að fljóta með í bókinni, þótt það sé eiginlega utan verksviðs hennar, það er að segja ekki í miðborginni, eins og hún er skilgreind á kortinu í bókinni. Zalachaín er ekki bara gott, heldur líka mjög fínt. Til dæmis varð Tony Curtis, sem sat við næsta borð, að setja upp hálsbindi, sem hann fékk lánað hjá yfirþjóninum. En hann hefndi sín með því að skila því með bugti og beygingum á miðju gólfi.
Zalachaín er í nokkrum virðulegum og harðviðarhlöðnum stofum hverri inn af annarri og eru nokkur borð í hverri stofu, hlaðin fínasta kristalli og postulíni. Þjónustan er eftir því. Matreiðslan er í baskneskri útgáfu af nýfrönskum stíl, svo sem yfirleitt tíðkast í beztu veitingahúsum Spánar. Kokkurinn er Baski, Benjamín Urdáin. Nærri allir frægustu kokkar Spánar eru frá Baskalandi.Ein sérgreina hans er saltfiskur (bacalao Tellagorri) og önd (pato azulón al chartreuse verde).
Við höfum hins vegar prófað hjá honum rækjusalat með sætum maís í tómataískraumi (ensalada de gambas con maíz dulce al sorbete de tomates); sveppi og gæsalifur í pasta (raviolis rellenos de setas, trufas y foie gras); humarragú með artistokkum (ragoût de bogavante con alcachofas); haf-urriðaflök með skelfisksósu (escalopes de lubina con salsa de almejas); kaffiís með súkkulaðisósu (biscuit glacé con chocolate fundido); og ber árstíðarinnar með ískraumi (frutas del tiempo con sorbete). Allt var þetta í þeim hágæðaflokki, sem allir segja, að einkenni þennan stað. Verðið var líka mjög hátt, þrír réttir á 20.000 pst. fyrir tvo.
(Zalachaín, Álvarez de Baena 4, sími 261 48 40, fax 261 47 32, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga)
El Cenador del Prado
Einn af þremur beztu matstöðunum í gamla miðbænum er El Cenador í tveimur glæsilegum sölum rétt hjá Plaza de Santa Ana. Fremri salurinn er virðulegur og búinn forngripum, en hinn innri er í björtum og léttum garðstofustíl, með hvítu rekkverki, pottablómum, blómamálverkum og þakglugga, svo og fögru marmaragólfi. Herranz-feðginin reka þennan stað, hann í eldhúsi og hún í sal. Þjónustan er formleg og fullkomin.
Tomás Herranz er mjög frumlegur kokkur í nýfrönskum stíl, óhræddur við hamborgara. Meðal sérgreina hans er dádýr með kastaníuhnetum (corzo con castañas), gufusoðinn lýsingur (merluza al vapor con espárragos y mariscos). Við prófuðum mjög góða, kínverska eggjadropasúpu (sopa de centollo y maiz al estilo oriental); kryddleginn smátúnfisk, geysilega meyran (bonito marinado al perfume de tomillo); risarækjur með olífumauki (langustinos a la parilla solve cremo de aceitunas); frábæran hamborgara (!) úr andakjöti með tómatsósu, steiktum lauk, frönskum kartöflum og þriggja lita sinnepi (hamburgesa de pato con ketchup (!), casero y cebolla); skógartínd jarðarber með kraumís (fresones con sorbete); og ísturn í súkkulaðigrind með kaniltertu í vanillusósu til hliðar (bartolillo de crema y cabello de Ángel con leche merengado). Þrírréttað fyrir tvo kostaði 13.000 pts, sem er tiltölulega lítið í samanburði við gæði.
(El Cenador del Prado, Prado 4, sími 429 15 61, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, C4)
Café de Oriente
Annar af beztu matstöðunum er líka nýfranskur og það með baskneskum hætti, Café de Oriente, andspænis konungshöllinni við Plaza de Oriente. Í rauninni eru það tveir matstaðir og þarf að fara um húsasund til að komast í betri hlutann, sem er vinstra megin. Snætt er í virðulegri borðstofu í gömlum góðborgarastíl. Kokkurinn er Bernardo Santos.
Hjá honum prófuðum við sérstaklega gott humarsalat; jafngott spergilfrauð með sæsniglum og sterkri þangsósu; fallega gerða og góða dúfnasteik; sneidda nautalund, mjög góða; eldsteiktan og glæsilegan núggatís með sykurþráðaþaki; og mjög góðan sólberjakraumís með svartberjasósu. Meðal annarra sérgreina hans eru hafurriði (darne de lubina a las hierbas aromáticas) og turnbauti (tournedó Felipe V con vino de Burdeos). Þríréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts, lítið miðað við gæði.
(Café de Oriente, Plaza de Oriente 2, sími 541 39 74, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, A3)
Club 31
Þriðji hágæðastaðurinn í miðborginni er hins vegar með hefðbundna matreiðslu. Það er Club 31, nálægt horni Alcalá og Plaza de la Independencia, þangað sem viðskiptahöldar streyma í hádeginu og fínar frúr á kvöldin. Þetta er dökkbrúnn, stór salur, sem væri tómlegur, ef hann væri ekki alltaf þétt setinn háværu fólki. Spánverjar tala alls staðar rosalega hátt og mikið og hratt, líka í Club 31. Innréttingin er óvenjuleg. Meðal annars er risastórt veggteppi á einum veggnum, korkveggur á öðrum stað og tréveggur á öðrum. Teppi er á gólfi. Mikill fjöldi þjóna er á stöðugum þeytingi. Kokkurinn er Ángel Paracuellos.
Við fengum góða, ofsaheita þykkvalúrufroðu í djúpri skál (souffle de rodaballo con bacon a las finas herbas); góða snigla með gæsalifrarkæfu í bakaðri kartöflu (cacaroles de borgona con foie en nido de patata asado); mjög góða akurhænu með bakaðri kartöflu (perdiz asada en hoja de vid); og gott dádýr að áströlskum hætti, með sveskjum og rúsínum (venado estilo australio, ciruelas, parsas y pinones); eplafylltar pönnukökur eldsteiktar (crepes de manzana al calvados con sorbete al cava); og franskar og sérstaklega léttar smjördeigsbollur (nuestra tarta milhojas). Meðal sérgreina staðarins er þykkvalúra með sveppum (rodaballo al horno con setas) og appelsínuönd (pato azulón a la naranja y compota de membrillo). Þetta er mjög dýr staður. Þríréttað fyrir tvo kostaði 16.000 pts.
(Club31, Alcalá 58, s. 532 05 11,E3)
Bajamar
Þótt Madrid sé inni í miðju landi, kemur góður fiskur í flugi á hverjum degi. Þekktasta sjávarréttahús miðbæjarins, vinsælt af ferðamönnum, er Bajamar í kjallara við horn Plaza de España. Innan við stigann er risavaxið humarbúr, þar sem fórnardýrin bíða matargesta, sem bæði eru kaupsýslumenn og ferðamenn. Staðurinn er fremur kaldur, í norrænum stíl, klæddur ljósum viði og minnir á norskt hótel frá 1965.
Humar og ýmsir aðrir réttir eru seldir eftir þyngd, svo að gestir verða að gæta þess að vita, hvað þeir hafa pantað mikið. Við prófuðum nokkuð góðan, soðinn humar, án meðlætis; afar góðar risarækjur í hvítlauksolíu, sjóðandi í potti; bakað epli; og bakaðan hrísgrjónamjólkurgraut með kanil (torrija de la casa). Þríréttað fyrir tvo: 11.000 pts.
(Bajamar, Gran Vía 78, sími 248 59 03, fax 248 90 90, B2)
Korynto
Hinn sjávarréttastaðurinn er Korynto, rétt við Plaza de Callao á Gran Vía. Úti í glugga er mikið fiskabúr, sem á að trekkja að. Frammi er afar nýtízkulegur og skemmtilegur humarbar, en innar er virðulegur matsalur með fínum panil og þykku veggfóðri. Staðurinn er nokkuð kuldalegur, en greinilega vinsæll af fastagestum úr nágrenninu, fremur en ferðamönnum, enda er hráefnið mjög ferskt.
Við prófuðum mjög góða krabbasúpu; góða þykkvalúru, grillaða (rodaballo); og góða ferska ávexti. Þrírréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts.
(Korynto, Preciados 36, sími 521 59 65, B2)
Ainhoa
Við beinum nú athygli okkar að matstöðum, sem ekki eru í dýrari endanum. Við byrjum norðaustast í miðbænum, þar sem Ainhoa er í hliðargötu rétt við breiðgötuna Paseo de Recoletos. Ainhoa er einn af mörgum Baskastöðum borgarinnar, smekklega einfaldur og nýtízkulegur, stúkaður með rekkverki og hlaðinn speglum á eina hlið. Þar er boðin hefðbundin matreiðsla.
Við prófuðum matarmikla baunasúpu með rófum, kartöflum og túnfiski (marmitako); góða eggjahræru með söxuðum olífum (revuelto de pisto); grillaðan lýsing frambærilegan (merluza a la parilla); ágætan skötusel með grænni baunasósu (rape a la koskera); hversdagslega möndlutertu (tarta et truffa almondes); og baskneskan ost, mjög góðan (idiázabal). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.
(Ainhoa, Bárbara de Braganza 12, sími 308 27 26, lokað sunnudaga, E2)
El Espejo
Rétt hjá Ainhoa, við sjálfa breiðgötuna Paseo de Recoletos, er mjög fallegt veitingahús, El Espejo. Mikið speglaverk, postulínsflísar og steindir lampaskermar, allt í ungstíl eða nýstíl aldamótanna eru helzta aðdráttarafl staðarins. Þetta er fjörugur matstaður, sem minnir á franskt “brasserie”. Þjónustan reyndist afar góð. Eldamennskan er ættuð frá Baskalandi og Navarra.
Við fengum okkur olífuolíuleginn spergil (espárragos Navarra); salat með rækjum, melónu, reyktum laxi og litlum tómötum (ensalade de langosta, melón y salmón ahumado); bleikar og góðar lambalærisneiðar (escalopines de cordero); sæmilega sítrónuönd (pato e la naranja); matarmiklar smjördeigsbollur með rjóma og heitu súkkulaði (profiteroles de nata con chocolate caliente); og lélegan karamellubúðing (flan al caramelo). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.
(El Espejo, Paseo de Recoletos 31, sími 308 23 47, E1)
Al Mounia
Mekka márískrar eldamennsku í Evrópu er Al Mounia, sem er í næsta nágrenni Ainhoa og Espejo, handan Paseo de Recoletos. Teppalögðum staðnum er skipt í nokkrar stofur, þar sem márískar skreytingar eru í hólf og gólf, lofti og veggjum, súlum og arabískum bogum og minna á Alhambra. Gestir sitja í lágum sófum umhverfis kringlótt sófaborð og njóta óvenjulega góðrar þjónustu.
Við fengum ágætar pönnukökur hússins (Al Mounia panache); góðar kjötbollur á teini (brochette khefta); mjög góðan og meyran kjúkling með möndlum og kjötsoði; fremur þurrt, grillað lambakjöt; dísæta eftirrétti með möndlubragði; svo og alveg himneskt mintute, sem Al Mounia er frægt fyrir. Meðal annarra sérgreina hússins er ofnsteikt lamb (cordero mechoui), kjúklingakássur af ýmsu tagi (taginé) og aðrar kássur (alcuzcuz). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.500 pts., sem er hagstætt.
(Al Mounia, Recoletos 5, sími 435 08 28, lokað sunnud. og mánud., E2)
Irizar jatetxea
ðurinn er Irizar, á milli hótelsins Suecia og þinghússins. Hann er uppi á annarri hæð í nokkuð löngum og einföldum sal í ljósgrænum lit, þar sem gestir sitja á bakháum og virðulegum stólum við ljósgrænt dúkuð borð. Staðurinn heitir eftir kokki hússins, sem er Luis Irizar og eldar að hefðbundnum baskahætti.
Þarna fengum við mjög gott ostrugratín með tómati (gratinado de ostras sobre roseta de tomate a la muselina de aromáticos); heita dúfulifur og andalifur í hlaupi (milhofas de paloma y foie a la gelatina de frambuesa); dágott dádýrakjöt í þykkri sveskjusósu, blandraðri möndlum (ragout de cievres); mjög gott akurhænubrjóst (suprema de perdiz en lecho de col fresada); hrísgrjónabúðing með plómustöppu (pudding de arroz con leche a la crema de cirulas farsas); og perutertu með karamellusósu (charlota de peras con caramelo al Williams).
Meðal annarra sérgreina kokksins eru saltfiskur (bacalao al pil-pil), nautalundir með gæsalifur (solomillo con foie-gras a las uvas) og ostur frá Baskalandi (idiázabal). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts.
(Irizar jatetxea, Jovellanos 3, uppi, sími 231 45 69, lokað í laugardagshádegi og sunnudaga, D3)
Taberna del Alabardero
Andspænis konungshöllinni við Plaza de Oriente er Taberna del Alabardero í snotrum nítjándu aldar stíl, sem er líklega of virðulegur til að kallast kráarstíll. Bezt er að fá borð í innsta herberginu, þar sem ýmsir forngripir eru á veggjum. Þessi staður hefur getið af sér afkvæmi, meðal annars í Washington. Matreiðslan er í nýfrönskum stíl frá Baskalandi og ýmislegt skemmtilegt er á nýjungagjörnum matseðli.
Við prófuðum tómata með krabbakjötfyllingu og afar mildri kokkteilsósu; papriku með villisveppa-, rækju- og spínatfyllingu með fínni tómatsósu; góðan og milt eldaðan orra með kartöfluflögum; góðar andasneiðar í appelsínusósu; góðan hrísgrjónavelling; og melónurjómasúpu með hindberjum. Meðal annarra sérgreina staðarins eru saltfiskur (bacalao “Club Ranero”) og nautalundir (corazón de solomillo de toro). Þríréttað fyrir tvo: 9.000 pts.
(Taberna del Alabardero, Felipe V. 6, sími 247 25 77, A3)
Zarauz
Milli höfuðtorgsins Plaza Puerta del Sol og konungshallarinnar er gatan Arenal. Rétt hjá henni er enn einn Baskastaðurinn, Zarauz, í afar einföldum stíl, með kvistafuru hátt upp á veggi. Þar er mikið um fastagesti, sem kunna að meta afar hefðbundinn matseðil og trausta matreiðslu. Meðal sérgreina hússins er saltfiskur (bacalao vizcaína). Við fengum okkur mjög góða, þykka og brúna krabbasúpu með ristuðum brauðteningum (sopa de cangrejos); ekki síður góðan kólguflekk (besugo), grillaðan; og jafngóðan ís með sykruðum valhnetum (helado con nueces). Þríréttað fyrir tvo: 8.000 pts.
(Zarauz, Fuentes 13, sími 247 72 70, lokað sunnudagskvöld, B3)
La Toja
Nú kemur röðin að nokkrum matstöðum, sem eru við veitingakílómetrann, sem liggur frá Plaza Mayor eftir götunum Cuchilleros og Cava Baja. Við norðvesturhorn torgsins, í sautjándu aldar húsi, er La Toja, afar vinsæl og fjörleg, einföld og víðáttumikil matstofa, sem er bæði sótt af heimamönnum og ferðamönnum. Þar er boðin sjávarréttamatreiðsla frá Galisíu.
Við fengum okkur góðar risarækjur í eggjasósu; mjög góðan og matarmikinn krabba; milt grillaðan lýsing með hvítum kartöflum (merluza gallega); ljúflega grillaðan lambabóg; stóra napóleonstertu (tarta Toja); og jarðarber með rjóma. Sérgreinar hússins eru skelfiskar og krabbar af ýmsu tagi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts.
(La Toja, Siete de Julio 3, sími 266 30 34, B3)
Casa Botín
Þegar gengið er niður tröppurnar úr suðvesturhorni Plaza Mayor, eru innan við 100 metrar að Casa Botín á vinstri hönd. Fullu nafni heitir staðurinn Antigua Casa Sobrino de Botín. Veitingastofan var opnuð árið 1725 og er sagt elzta vertshús heimsins, samkvæmt heimsmetabók Guinness. Hér var háður lokakaflinn í skáldsögu Hemingways um sólina, sem einnig rís, enda var hann fastagestur. Matstofunnar er einnig getið í sögu hans um síðdegisdauða. Upprunalega var hún á neðstu hæð, en er nú á þremur hæðum hússins, enda vinsæl af ferðamönnum og raunar einnig af heimamönnum. Innréttingar eru gamlar og skemmtilegar, með trébitum í lofti, postulínsflísum á veggjum og marmara í gólfi. Þetta er kráarlegur staður. Enn er matreitt í meira en 265 ára gömlum ofni.
Hefðbundið er að fá sér ofnsteikt lamb (cordero asado) eða ofnsteiktan grís (cochinillo asado). Við prófuðum hvort tveggja og reyndist vel. Við fengum líka matarmikla og bragðsterka, heita og góða svartpylsu frá Burgos; ágæta hráskinku á melónu; og allgóða ostaköku hindberjablandaða. Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts., sem er fremur hagstætt.
(Casa Botín, Cuchilleros 17, sími 266 42 17, B4)
Casa Paco
Þegar gengið er áfram niður eftir Cuchilleros, er kastilíska nautakjötshúsið Casa Paco til hægri á næsta horni. Þetta er óvenju fátæklegur staður að öllum búnaði, en bætir sér það upp með hundruðum ljósmynda af eigandanum með alls konar frægu fólki. Þessar myndir eru í tvöfaldri og þrefaldri röð, þétt eftir öllum veggjum í nokkrum matstofum á tveimur hæðum. Hér kemur listafólkið og borðar góðar nautasteikur með hrásalati, en fær ekki kaffi, því að slíkt er ekki á boðstólum. Matreiðslan er hefðbundin.
Við prófuðum seiga hráskinku (jamón serrano); gott hrásalat; ágæta svínasteik; frábæra nautalund (solomillo de buey); sæmilegt ávaxtahlaup (flan); og mjög góða tertu hússins (tarta Santiago). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts., gott verð.
(Casa Paco, Puerta Cerrada 11, sími 266 31 66, lokað sunnudaga, B4)
El Schotis
Í framhaldi af Cuchilleros er löng og mjó gata, Cava Baja, þétt setin veitingahúsum. Við snúum okkur fyrst að El Schotis, löngum og mjóum matsal með risastórum veggmálverkum. Hér sitja heimamenn á bakháum stólum og snæða steikur af sjóðandi leirbökkum.
Við fengum okkur allgóða eggjahræru með löngum baunum (revuelto de trigueros); gott tómatsalat; fína nautasteik á sjóðandi leirfati (solomillo); og eftirréttablöndu hússins, tvo ísa með búðingi, ananas og þeyttum rjóma (especialidad de la casa). Í fiskréttum er lýsingur (merluza) sérgrein hússins og í eftirréttum er það eggjabúðingur (flan de huevo). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.
(El Schotis, Cava Baja 11, sími 265 32 30, lokað mánudaga, B4)
Esteban
Töluvert innar í götunni sitja blaðamenn, aðrir í útgáfubransanum og leikhúsmenn og snæða í Esteban. Þar þekkja allir alla og ráfa milli borða. Staðurinn er eins konar partí. Innréttingar eru afar fornlegar og skemmtilega kraðakslegar. Gamlar stoðir og gamlir bitar eru áberandi. Matreiðslan er hefðbundin.
Við fengum góða artistokka með skeljum í þykkri súpu (alcachofas con almejas); mjög góða dádýralund (solomillo de corzo); og hrísgrjónagraut (torrijas de leche frita). Meðal sérgreina hússins eru saltfiskur í papriku (pimientos rellenos de bacalao); uxahalafylling (rabo de toro estofado); og ofnsteikt lambakjöt (cordero asada). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts.
(Esteban, Cava Baja 36, sími 265 90 91, lokað sunnudaga, B4)
Casa Lucio
ður, gamall og fremur fínn, mikið sóttur af heimamönnum úr heimi lista og stjórnmála, nautaats og sjónvarps, alltaf fullur af fólki á tveimur hæðum. Þjónusta er góð fyrir vini hússins, en ekki aðra.
Við prófuðum afar venjulega skinku með melónu (melón con jamón); hrærða eggjaköku með frönskum kartöflum (revuelto de patatas con huevo); góða nautalund (solemillo); edikslegna akurhænu (perdices), meyra og góða; og afar góð hrísgrjón í mjólkurbúðingi með karamelluskán (arroz con leche). Meðal sérgreina hússins er hráskinka (jamón de Jabugó); koli (lenguado de la casa) og skelfiskur af ýmsu tagi. Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts, sem er fremur dýrt.
(Casa Lucio, Cava Baja 35, sími 265 32 52, lokað í laugardagshádegi, B4)
Gure-Etxea
Á svipuðum slóðum, nokkru vestar en Cava Baja, er baskahúsið Gure-Etxea við lítið kirkjutorg. Þar eru vandaðar innréttingar í virðulegum stíl með bindingsverki. Þjónusta er afar góð. Matreiðslan er með hinum betri í borginni.
Við prófuðum mjög góða hræru af papriku, eggjaköku og skinku (piperrada vasca); ágætar rækjur í krabbasúpu; heilan kólguflekk í olíu (besugo al estilo de Beneo); góðan og léttbakaðan lýsing (merluza al horno); pönnusteikta mjólkursoppu, afar létta og mjúka (leche frita); og óvenjulega góðan karamellubúðing (flan de la casa). Þríréttað fyrir tvo: 9.500 pts.
(Gure-Etxea, Plaza de la Paja 12, sími 265 61 49, lokað sunnudaga, A4)
Skemmtun
Að mati Madridarbúa felst skemmtun fyrst og fremst í að tjá sig í tali. Þeir verja frístundum sínum til að tala, hátt og hratt og mikið. Þetta þjóðarsport er einkum háð í kaffihúsum og á 8000 börum borgarinnar. Þessar þindarlausu samræður fengu byr undir báða vængi, þegar lýðræði var innleitt að nýju á Spáni eftir andlát Francos árið 1975. Aðalannatímarnir eru klukkan 12-14 og 20-22, áður en fólk fer út að borða. Þriðji annatíminn í sumum kaffihúsum er kl.17-19, þegar skoðanabræður flykkjast saman til að ræða stjórnmál eða bókmenntir. Hver hópur hefur þá sitt kaffihús.
Gran Café de Gíjon
Töluvert af stjórnmála- og menningarumræðunni í Madrid fer fram í Gran Café de Gíjon, við umferðaræðina Paseo de Recoletos, rétt norðan við Plaza de Cibeles. Þetta er hið dæmigerða 19. aldar kaffihús, meira en aldar gamalt, opið og hljóðbært. Þar hanga menningarvitar klukkustundum saman og tjá sig í síbylju. Stórir gluggar snúa út að umferðarþunga breiðgötunnar. Á þessu svæði, eftir breiðgötunni endilangri, er töluvert af líflegum útikaffihúsum, þar á meðal útibú frá veitingastofunni El Espejo.
(Gran Café de Gíjon, Paseo de Recoletos 21, E2)
Círculo de Bellas Artes
Eitt skemmtilegasta morgunkaffihús borgarinnar, oft fullt af listmálurum, er kaffistofan í Círculo de Bellas Artes, við umferðargötuna Alcalá, sem liggur milli höfuðtorganna Plaza Puerta del Sol og Plaza de Cibeles. Þar er hægt að setjast með kaffibollana í djúpa leðursófa og hafa gott útsýni, annað hvort út yfir götuna eða yfir salinn, þar sem hátt er til lofts, veggmálverk í lofti og steindar rúður í gluggum. Selt er inn í kaffihúsið, en um leið hafa menn aðgöngumiða að þeirri listsýningu, sem þá stundina er í salnum til hliðar.
(Círculo de Bellas Artes, Alcalá 42, D3)
Mallorquina
Mallorquina er fremur rólegur staður á annarri hæð við aðaltorg borgarinnar, þar sem það mætir Calle Mayor. Þar er vinsælt að fá sér morgunkaffi og alvörusnúð, það er að segja léttan smjördeigsspíral, sem kemur frá Mallorca og heitir ensaimada.
(Mallorquina, Calle Mayor/Plaza Puerta del Sol, B3)
Café Central
Við Plaza del Ángel, andspænis Victoria hóteli er kaffistofa í gömlum speglastíl, sem minnir nokkuð á franskar aldamótakrár. Hér er oft leikinn jazz á kvöldin í góðri stemmningu. Í næsta nágrenni eru fleiri jazzbúlur.
(Café Central, Plaza del Ángel 10, C4)
Cervecería Alemana
Cervecería Alemana er einn staðanna, sem Hemingway gerði fræga í Madrid. Þetta er afar látlaus og einfaldur staður, en yfirleitt iðandi af lífi og fjöri. Cervecería er í senn kaffistofa og bjórkrá, sem býður líka upp á snarl (tapas) fyrir mat eða í stað matar. Á þessu svæði, umhverfis torgin Santa Ana og Ángel, er mikið af snarl- og vínbörum og kvöldlíf einna fjörugast.
(Cervecería Alemana, Plaza Santa Ana, C4)
Cuevas de Sésame
Afar vingjarnlegur og gamall píanóbar er Cuevas de Sésame niðri í kjallara við hliðargötu norður frá Plaza de Santa Ana. Gestir sitja á misháum pöllum við lítil borð. Veggirnir eru þaktir málverkum frægra listamanna og spakmælum frægra menningarvita. Stundum taka gestir upp sín eigin hljóðfæri, en þess á milli sér píanisti um tónlistina.
(Cuevas de Sésame, Principe 5, C3)
La Trucha
Snarlbarinn framan við frjálslegt Andalúsíu-veitingahúsið Trucha er einn af hinum vinsælli samræðustöðum við torgið Santa Ana. Þar við barinn stendur fólk í þrefaldri og fjórfaldri röð og hámar í sig snarl (tapas) að hætti Madridarbúa. La Trucha er í göngugötu frá norðausturhorni Plaza Santa Ana.
(Trucha, Manuel Fernadez y Gonzalez 3, C4)
Mesón
Í undirgöngunum, sem liggja í norðvestur frá Plaza Mayor er Mesón, sem býður bezt snarl (tapas) í bænum, smokkfiskhringi, skelfisk, sveppi og margt annað lystugt.
(Mesón, Ciudad Rodrigo, )
Café de Oriente
Í veitingahúsakaflanum hér að framan var fjallað um veitingastaðinn Café de Oriente við samnefnt torg andspænis konungshöllinni. Á sama stað og undir sama heiti er líka kaffi- og snarlstofa, sem er raunar meira áberandi, því að útikaffihúsið fylgir því. Það er samkomustaður tónlistarfólks og stjórnmálamanna.
(Café de Oriente, Plaza de Oriente 2, A3)
Corral de la Morería
Flamenco er dans frá Andalúsíu, undir áhrifum frá Márum og Sígaunum. Bezti Flamenco í Madrid er á hverju kvöldi í Corral de la Morería, þar sem hin fræga Blanca del Rey dansar í rauðum kjól á næstum hverju kvöldi. Þar eru sýningar frá kl.11 að kvöldi til klukkan 3 að morgni. Matargestir koma kl. 9:30 og fá beztu borðin. Maturinn er sæmilegur, umhverfið gott og stemmningin mikil, ef Spánverjar eru fjölmennir meðal gesta.
Dansarar og söngvarar sitja á sviðinu og skiptast á um að koma fram. Undir dansinn og veinandi stríðan sönginn er leikið á gítar, barðar kastanettur og klappað saman lófum. Söngur og dans lýsa miklum tilfinningum, harmi, söknuði og stolti. Konurnar dansa í afar litskrúðugum og efnismiklum kjólum og karlarnir syngja á háhæluðum skóm. Aðgangur kostaði 1.500 pts. Þríréttað fyrir tvo kostaði 12.000 pts.
(Corral de la Morería, Morería 17, sími 265 84 46, A4)
Plaza de Toros
Mikilvægasti nautaatshringur heims er í Madrid, sem er höfuðborg nautaatsins, þótt það sé komið frá Andalúsíu. Plaza de Toros var reistur 1931 í nýmárískum stíl, eins og svo margir nautaatshringir á Spáni, og rúmar 26.000 manns. Yfirleitt fer nautaatið fram síðdegis á sunnudögum og keppir þá við fótboltann hjá Real Madrid og Atlético de Madrid. Stundum er líka nautaat á fimmtudögum.
Spánskt nautaat er ekki íþrótt í hefðbundnum skilningi eða keppni milli nauts og manns, heldur formfastur sorgarleikur, sem lýkur nær alltaf með dauða nautsins. Nautaat hefur verið iðkað frá miðöldum, en núverandi form þess er frá síðari hluta átjándu aldar.
Þrír nautabanar koma fram og drepur hver þeirra tvö naut. Athöfnin fer fram í þremur þáttum.
Fyrst sýnir nautabaninn (matador) nokkrar hefðbundnar hreyfingar (svo sem verónica) með rauðu duluna. Síðan taka riddarar (picadores) við og stinga nautið með spjótum.
Í öðrum hluta athafnarinnar stinga aðstoðarmenn (bandilleras) þremur pörum af örvum í háls nautsins.
Loks í þriðja hluta kemur nautabaninn fram aftur með rauðu duluna (muleta), fremur nokkrar hefðbundnar æfingar og drepur síðan nautið með markvissri sverðstungu ofan í hálsinn (estocada). Allt verður þetta að gerast með mikilli nákvæmni og í samræmi við strangar reglur.
(Plaza de Toros Monumental, Alcalá 231, sími 246 22 00)
Skoðun
1. ganga
Plaza Puerta del Sol
Torgið Puerta del Sol (C3) er miðja borgarinnar, bæði að formi til og í reynd. Frá því eru mældar allar vegalengdir á Spáni. Kílómetrasteinn “0” er fyrir framan höll öryggislögreglunnar, sem er við suðurhlið torgsins. Í turni hallarinnar er klukkan, sem allar aðrar klukkur á Spáni eru miðaðar við. Frá torginu er skammur vegur til flestra staða, sem ferðamenn vilja skoða í Madrid. Það er umlokið samræmdum og rjómalitum húsum frá 18. öld.
Íbúar í Madrid mæla sér mót á torginu á öllum tímum dagsins og koma þangað í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Allan daginn iðar torgið af lífi. Það er líka staður útifunda og mótmælaaðgerða. Við bjuggum á hótelum við torgið og komumst að raun um, að það er helzt milli klukkan fimm og sjö á morgnana, að kyrrð færist yfir torgið.
Norður frá því liggja göngugöturnar Preciados og Carmen í átt til verzlunargötunnar Gran Vía. Við þessar göngugötur eru helztu vöruhús borgarinnar, El Corte Inglés og Galerias Preciados. Suður frá torginu er helzta gleðskaparhverfi borgarinnar, fullt af skyndibitastöðum, kaffihúsum, vín- og snarlbörum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Þar er líka “hitt” torgið í bænum, Plaza Mayor.
Descalzas Reales
Vestur frá Plaza Puerta del Sol liggja tvær götur, Mayor og Arenal. Við höldum þá síðari í átt til óperuhússins. Við getum tekið stuttan krók eftir annarri þvergötu til hægri, San Martín, til að skoða Monasterio de Descalzas Reales við samnefnt torg. Það er nunnuklaustur frá 16. öld fyrir aðalskonur og safnaði fljótt miklum auði, m. a. í listaverkum. Því hefur verið breytt í safn, þar sem sjá má fræg verk eftir Brüghel eldri, David, Titian og Rubens. Miðja safnsins er húsagarður með þrjátíu kapellum allt um kring. Opið 10:30-13; þriðjud.-fimmtud. 16-18; lokað mánud. B3.
Plaza de Oriente
Við hverfum til baka og göngum Arenal áfram, förum framhjá óperuhúsinu Teatro Real, sem er frá fyrri hluta nítjándu aldar, og komum inn á torgið Plaza de Oriente (A3) fyrir framan langhlið konungshallarinnar. Á torginu er stytta af Filipusi IV Spánarkonungi, gerð eftir teikningum eftir Velázquez. Við torgið suðaustanvert er útikaffihúsið Café de Oriente, þar sem við getum hvílt okkur.
Ef við nennum, getum við farið norður fyrir höllina og gengið tröppurnar niður í Sabatini-garða, sem eru með klipptum trjám að frönskum hætti. Þaðan er virðulegt útsýni til konungshallarinnar.
Annars förum við suður fyrir höllina, því að gengið er inn í hana að sunnanverðu, þar sem hallarportið er. Konungsfjölskyldan býr ekki lengur í Palacio Real. Höllin er notuð fyrir opinberar móttökur og gestaboð, en að öðru leyti er hún safn, opið almenningi.
Palacio Real
Palacio Real var byggð á átjándu öld á grunni eldri hallar, sem brann árið 1734. Í henni eru 2.800 herbergi, en frá árinu 1931 hefur enginn búið þar. Hápunktur safnsins er hásætissalurinn, sem er sennilega skrautlegasti salur heimsins, klæddur gullflúruðu pelli og purpura, með loftmálverki eftir Tiepolo. Íbúð Maríu Kristínu drottningar er til sýnis sem veggteppasafn.
Íbúð Ísabellu prinsessu er til sýnis sem málverka-, útsaums-, postulíns- og kristalssafn. Þar eru til dæmis verk eftir Goya, Bosco, Rubens, Greco og Velázquez. Bókasafn Filipusar V er til sýnis sem bóka- og myntsafn. Einnig er til sýnis lyfjasafn hallarinnar og herklæðasafn. Inn í skrautvagnasafn er gengið á öðrum stað, úr garðinum Campo del Moro, sem er vestan hallar. Þaðan er glæsilegt og bratt útsýni upp til hallarinnar. Palacio Real er opin 9:30-12:45; á sumrin 16-18:30 og á veturna 15:30-17:15. A3.
Plaza de la Villa
Við höldum suður eftir götunni meðfram konungshöllinni, Bailén, unz við komum að Mayor, sem liggur til baka að Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum göngu okkar. Á þeirri leið komum við fljótlega að Plaza de la Villa (B4), hinu gamla ráðhústorgi borgarinnar. Á miðju torginu er stytta af Álvaro de Bazán flotaforingja, hetju sjóorrustunnar við Lepanto.
Andspænis okkur, austan torgsins, er 15. aldar turninn Torre de Los Lujanes, þar sem Frans I var í haldi eftir orrustuna við Pavía. Við hlið turnsins er Hemeroteca í márastíl með voldugum inngangi í gotneskum stíl. Neðan við torgið er Casa de Cisneros, frá 16. öld, í gotneskum silfursmíðastíl, með eftirtektarverðum svalaglugga. Vestan við torgið er svo ráðhús borgarinnar, Ayuntamiento, reist á miðri 17. öld í endurreisnarstíl.
Catedral de San Isidro
Héðan höldum við á vit gamla bæjarins í Madrid. Við göngum sundið Punonrostro norðan við Torre de Los Lujanes og leið okkar liggur til suðurs að 18. aldar kirkjunni San Miguel í ítölskum hlaðstíl með íbjúgri framhlið. Við höldum enn áfram til suðurs eftir götunni Letamendi, unz við komum að kirkjunni San Pedro. 14. aldar turn kirkjunnar er annar af tveimur turnum í borginni í márastíl.
Hér getum við haldið áfram götuna San Pedro til suðurs að Plaza San Andrés, þar sem við beygjum til vinstri inn langa og mjóa götu, Cava Baja, sem er helzta veitingahúsagata borgarinnar. Í þeim kafla bókarinnar segir frá Esteban, Casa Lucio og El Schotis. Síðan beygjum við til hægri götuna Bruno og komum beint að dómkirkjunni, Catedral de San Isidro, sem er við götuna Toledo (B4).
San Isidro er verndardýrlingur Madrid. Mesta hátíð ársins er haldin honum til heiðurs 8.-15. maí. Það er hátíð tónlistar og matargerðarlistar, nautaats og næturlífs, svo og annarrar skemmtunar. Sjálf dómkirkjan er frá 17. öld, í voldugum og ströngum jesúítastíl.
Rastro
Til suðurs frá kirkjunni liggur gatan Estudios að Plaza de Cascorro. Þar byrjar markaðurinn Rastro (B5), sem einkum er í götunni Ribera di Curtidores og raunar líka í flestum nálægum götum. Þetta er helzti flóamarkaður borgarinnar, opinn á sunnudögum 10-14 og í seinni tíð einnig á laugardögum. Þar er jafnan mikið mannhaf og nokkuð um vasaþjófnað.
Á þessum slóðum er elzti og litríkasti hluti borgarinnar. Hér eru víða steinlögð öngstræti og hér er talað með digurstum hreim Madridarbúa.
ð förum hins vegar til baka inn á Cava Baja og höldum þá götu til norðurs yfir torgið Plaza Puerta Cerrada, þar sem nafn götunnar breytist í Cuchilleros. Á þessari leið eru veitingahúsin í röðum, svo sem Casa Paco og Casa Botín. Við förum upp tröppurnar og undirgöngin inn á Plaza Mayor.
Plaza Mayor
Þetta er hitt aðaltorgið í bænum, notalegt torg, laust við bílaumferð, kjörinn staður til að setjast niður á útikaffihúsi. Þetta er rétthyrnt torg í formföstum stíl, byggt í upphafi 17. aldar. Öll húsin við torgið eru í sama stíl, þrjár hæðir og með samtals 114 súlum, þar sem hægt er að ganga í skugga umhverfis torgið. Stytta af Filipusi III er á miðju torgi, svo og skarar af dúfum. Níu undirgöng liggja inn á torgið, sem að öðru leyti er lokað umheiminum.
Plaza Mayor (B3-4) var áður helzta torg borgarinnar. Þar voru trúvillingar dæmdir og teknir af lífi, þar var nautaat háð og kóngar krýndir. Nú er þetta miðstöð ferðamanna í Madrid, en staðarmenn gera sig þar einnig heimakomna. Skrifstofa ferðamála er á nr. 3.
Skemmtilegast er á Plaza Mayor á sunnudagsmorgnum, þegar þar er frímerkja- og myntsafnaramarkaður. Þangað koma menn með albúmin sín til að skiptast á frímerkjum.
Ef við förum til vesturs út um undirgöngin í norðvesturhorni torgsins, framhjá snarlbarnum Mesón, og beygjum síðan til vinstri, komum við að fallegum og skemmtilegum matvælamarkaði miðbæjarins við 17. aldar torgið Plaza San Miguel. Í undirgöngunum til norðurs úr sama horni Plaza Mayor er veitingastaðurinn Toja.
Plaza Santa Ana
Við förum hins vegar til austurs út um undirgöngin í suðausturhorni torgsins og göngum framhjá utanríkisráðuneyti Spánar eftir götunum Gerona og Bolsa, unz við komum að torgunum Plaza del Ángel og Plaza Santa Ana, þar sem hótelið Victoria gnæfir hæst (C4). Á þessum slóðum eru flestir barir og kaffihús í borginni, miðað við flatarmál, þar á meðal Café Central, Cerveceria Alemana, Cuevas de Sésame og La Trucha. Frá þeim segir í bókarkaflanum um skemmtun í Madrid. Hér er líka veitingahúsið El Cenador del Prado. Við göngum svo frá Santa Ana norður Principe, unz við komum að götunni San Jerónimo, þar sem við beygjum til vinstri til Plaza Puerta del Sol, þar sem við hófum þessa gönguferð um gamla miðbæinn í Madrid.
2. ganga
Plaza de España
Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España (A2). Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.
Gran Vía
Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.
Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.
Paseo de Recoletos
Við staðnæmust á næsta torgi, Plaza de Cibeles (E3), og virðum fyrir okkur pósthúsið handan götunnar. Sennilega er þetta virðulegasta pósthús veraldar, enn skrautlegra en gamla pósthúsið í Amsterdam, reist í brúðkaupstertustíl upp úr síðustu aldamótum. Á torginu er átjándu aldar stytta af frjósemisgyðjunni Kýbelu í vagni, sem er dreginn af ljónum.
Við beygjum til vinstri eftir breiðgötunni Paseo de Recoletos til Kólumbusartorgs, Plaza de Cólon (E1). Á þessari leið er allt fullt af útikaffihúsum á grænu eyjunni milli umferðaræðanna, þar á meðal Café d´Espejo í glerhúsi í ungstíl. Við þennan kafla er einnig kaffihúsið Gran Café de Gijón. Hávaðinn í bílunum drukknar í hávaðanum af samræðunum. Og bílaumferðin er á fullu alla daga, öll kvöld og langt fram eftir nóttu.
Næst Kólumbusartorgi að austanverðu er þjóðarbókhlaðan, Biblioteca Naçional, og fornminjasafnið, Museo Arqueológico Naçional, opið 9:15-13:15, lokað mánudaga. Þjóðarbókhlaðan snýr til vesturs að Paseo de Recoletos og fornminjasafnið til austurs að götunni Serrano, sem við munum ganga á eftir.
Næst okkur á Plaza de Cólon gnæfir stytta af Kólumbusi yfir fossaföllum og menningarmiðstöð, sem er neðanjarðar undir torginu. Þar er sýningarsalur og leikhús. Inngangurinn er við styttuna. Innst á torginu eru ljósbrúnir minnisvarðar um fræga spánska landkönnuði.
Serrano
Við förum yfir torgið og göngum suður úr austurenda þess eftir götunni Serrano, sem er helzta gata tískuhúsa og forngripasala í borginni og um leið dýrasta verzlunargatan. Hér má sjá margar tízkudrósirnar stika með bægslagangi milli búða. Hverfið hér í kring heitir Salamanca, upprunalega byggt aðalsfólki seint á 19. öld, og núna helzta aðsetur sendiráða í borginni.
Við göngum götuna alla leið til þvergötunnar Alcalá, þar sem er sigurboginn Puerta de Alcalá (E3), reistur eftir teikningum Sabatinis á síðari hluta átjándu aldar til minningar um innreið Karls III í borgina. Torgið heitir Plaza de la Independencía.
Retiro
Hér af torginu förum við inn í norðvesturhorn hins græna lunga borgarinnar, Retiro-garðsins. Hann er afar stór, að umfangi eins og Hyde Park í London, en miklu meira ræktaður skógi. Þessi garður var upphaflega lagður á 17. öld sem hallargarður sumarseturs Filipusar IV, en var gerður að almenningsgarði seint á 19. öld.
Við förum framhjá stöðuvatninu Estanque, þar sem fólk rær um á skemmtibátum. Handan vatnsins er minnisvarði um Alfons XII, teiknaður í svipuðum brúðkaupstertustíl og minnisvarði Viktors Emanúels II í Róm.
Hér göngum við framhjá brúðuleikhúsi fyrir börn, spákonum, sem segja okkur framtíðina í Tarot-kortum, pylsusölum, vasaþjófum, bridgespilurum, kotrukörlum og skákmönnum, unz við komum að Palacio de Cristal, sem speglast í tjörninni fyrir framan.
Suðurhluti garðsins er afskekktari og þar má sjá heitar ástir og skrítna hunda. Við förum út um suðvesturhornið og göngum niður brekkuna Claudio Moyano. Þar á gangstéttinni eru fornbókasalarnir. Mest er um að vera hjá þeim á sunnudagsmorgnum, þegar borgarbúar gera sér dagamun í Retiro.
Centro de Arte Reina Sofia
Torgið fyrir neðan brekkuna er Plaza del Emperador Carlos V. Við förum yfir torgið, göngum nokkra metra suðvestur eftir breiðgötunni Atocha og beygjum til hægri inn í götuna Santa Isabel. Þar á nr. 52 er nýlega búið að innrétta nútímalistasafn í gömlu sjúkrahúsi. Þetta er Centro de Arte Reina Sofia (D5), auðþekkjanlegt af miklum glerhýsum utan um lyftuganga, sem hafa verið reistir utan við gamalt húsið. Þetta er víðáttumikið safn, á stærð við Pompidou-safnið í París og státar að sjálfsögðu af spönsku snillingunum Salvador Dalí, Joan Miró og Pablo Picasso. Hugsanlegt er, að Guernica eftir Picasso, sem nú er í öðru safni í Madrid, verði flutt í þetta safn.
Paseo del Prado
Við förum til baka til torgs Karls keisara og göngum norður eftir breiðgötunni Paseo del Prado, sem er safngata borgarinnar, liggur nokkurn veginn frá Reina Sofia til Palacio de Villahermosa við torgið Canovas del Castillo, þar sem hótelin Palace og Ritz horfast í augu og þar sem spánska þjóðþingið, Cortes, er handan við Palace-hótel. Á hægri hönd er fyrst grasgarður borgarinnar, Jardin Botanico, og síðan eitt af allra frægustu söfnum heims, Museo del Prado, fölbleikt í nýgnæfum stíl.
Colección Thyssen
Í Palacio de Villahermosa (D3) er svo verið að innrétta enn eitt safnið á þessum litla bletti. Það er safn 787 listaverka, sem svissneski auðkýfingurinn Thyssen-Bornemisza er að afhenda Spáni til varðveizlu. Það verður opnað um áramótin 1991-1992. Þá verða þrjú voldug málverkasöfn á um það bil eins kílómetra kafla við breiðgötuna Paseo del Prado. Það eru Colección Thyssen, Centro de Arte Reina Sofia og síðast en ekki sízt Museo del Prado.
Museo del Prado
Erfitt er að veita leiðsögn um Prado, (E4) ekki bara af því að safnið er stórt, heldur einnig af því að alltaf er verið að færa til hluti og leiðbeiningar eru einstaklega lélegar. Reiknað er með, að málverk Goya verði flutt yfir torgið Canovas del Castillo inn í Palacio de Villahermosa, en síðast, þegar ég vissi til, voru þau í suðurenda Prado, á tveimur hæðum. Bezt er að nota þann inngang, andspænis grasgarðinum, því að oft eru biðraðir við aðalinnganginn á miðri vesturhlið safnsins.
Mörg frægustu málverk Goya hafa til skamms tíma verið varðveitt hér. Þar á meðal eru málverkin af Maju í fötum (nr. 741) og nöktu Maju (nr. 742); af Satúrnusi að éta son sinn (nr. 763); og af lífláti uppreisnarmanna í Madrid 3. maí 1808 (nr. 749). Málverk Goya er í sölum 66-68, 19-23 og 32-38.
Hér er líka mikið af málverkum eftir El Greco. Þau eru miðsvæðis á annarri hæð, í sölum 8b-10b. Þar á meðal er aðalsmaður með hönd við hjartastað (nr. 809) og Lotning fjárhirðanna (nr. 2988).
Ekki er síður El Bosco eða Hieronymus Bosch sjáanlegur í miklu úrvali. Hans myndir eru í sölum 40-44 á efri hæð. Þar á meðal eru lotning vitringanna (nr. 2048) og gleðigarðurinn (nr. 2823).
Eftir Raphael má nefna myndina af rauðklædda kardínálanum (nr. 299) í vesturenda efri hæðar og eftir Velázquez má nefna myndina af konungsbörnunun (nr. 1174) í miðsal efri hæðar.
Þá má ekki gleyma nöktu jússunum hans Rúbens, sem þekja fermetra eftir fermetra í safninu.
Allt eru þetta meðal merkustu málverka heims, kunn úr listaverkabókum. Prado er eitt af helztu söfnum gamallar listar í heiminum, við hlið Louvre í París, Uffizi í Flórens og National Gallery í London.
Eitt frægasta verk safnsins er þó ekki hér í húsinu, heldur í sérstöku húsi í nágrenninu, í Casón del Buen Retiro. Það er Guernica eftir Picasso, ef til vill frægasta málverk aldarinnar. Það lýsir afleiðingum þýzkra loftárása á borg í Baskalandi í borgarastyrjöldinni 1936-1939. Hann málaði það fyrir lýðveldisstjórnina, sem Franco hrakti frá völdum. Heimkoma málverksins til Spánar varð tákn fyrir sigur lýðræðis. Til að komast þangað er gengið upp brekkuna norðan við Prado, alla leið að Retiro-garði.
Við að skoða öll þessi listaverk, sem meira eða minna eru úr eign Spánarkonunga, sker í augun, hvað mikið er af hrottalegum og ofsafengnum málverkum í samanburði við önnur söfn af þessu tagi. Tortíming, dauði og djöflar hafa greinilega verið hugleikin umþóttunarefni sumra hinna rammkaþólsku Habsborgara, sem réðu fyrir Spáni.
Prado er opið þriðjudaga-laugardaga 9-15, sunnudaga 9-14
El Escorial
Einn þessara sérkennilegu Spánarkonunga var Filipus II af Habsborg. Hann var ofsatrúaður kaþólikki og reisti sér vinkilrétt reglustrikaða grjóthöll mikla, El Escorial, í nágrenni Madrid, um miðja 16. öld.
Við skulum ljúka kaflanum um Madrid með því að skreppa í útrás til þessarar hallar, sem er 55 kílómetrum norðan við borgina.
El Escorial er í afar ströngum og kuldalegum fægistíl, hönnuð af Juan de Herrera og reist á síðari hluta 16. aldar, um leið og Madrid var gerð að höfuðborg. Höllin er ferningslaga, reist með mikla kirkju að miðpunkti og er að öðru leyti skipt í fjóra jafna ferninga, tveir af hverjum skiptast í fjóra minni ferninga. Í tveimur ferningum var klaustur, í einum háskóli og í einum vistarverur konungs. Allar línur eru afar hreinar, beinar og kuldalegar, í stærðfræðilegum málsetningum.
Gaman er að bera saman tiltölulega fátæklegar vistarverur Habsborgarans Filipusar II á 2. hæð við ríkmannlegar vistarverur eins eftirkomanda hans, Búrbónans Karls IV, á 3. hæð.
Í höllinni eru líka ýmis söfn, þar sem meðal annars má sjá kvöl heilags Máritz eftir El Greco. Hallarkirkjan er í fægirænum endurreisnarstíl; eins og grískur, jafnarma kross að grunnfleti, með víðáttumiklu hvolfi. Undir henni eru grafir flestra Spánarkonunga, sem ríkt hafa frá þeim tíma.
El Escorial er opin 10-13:30 og 15:30-19, -18 á veturna, lokuð mánudaga.
1991
© Jónas Kristjánsson