Aðrar borgir
Valencia
Héraðið
Valencia er eitt mesta ferðamannahérað Spánar. Þar eru Costa Blanca, Benidorm og Alicante. Þar eru mestu appelsínulundir Spánar, sól og sumar nær árið um kring.
Þetta er líka hrísgrjónaland Spánar, land fjölmargra hrísgrjónarétta, einkum pælunnar, pönnusteiktra hrísgrjóna með saffran, upphaflega með kjötbitum og baunum, en á síðari tímum einnig með sjávarfangi.
Valensíumenn eru frægir fyrir hátíðir sínar, sem standa með hléum árið um kring. Í apríl er mest um að vera, á Moros y cristianos, þar sem leiknir eru bardagar milli mára og kristinna frá 13. öld og þáttakendur klæðast ofsalega skrautlegum búningum. Um jól og áramót eru líka miklar hátíðir, svo og kjötkveðjan í febrúar.
Vegna andstöðu sinnar við falangista fóru Valensíumenn illa út úr valdaskeiði Francos. Síðan hann féll frá, hefur efnahagur skánað töluvert. Einnig hafa þeir lagt mikla áherzlu á endurheimt tungu sinnar, sem er svipuð katalúnsku. Valensíska er komin á götuskilti og leigubílaskilti, svo og suma matseðla, svo að dæmi séu nefnd.
Borgin
Valencia er þriðja stærsta borg Spánar með tæplega 800 þúsund íbúum, einn helzti gluggi landsins til viðskipta á austanverðu og sunnanverðu Miðjarðarhafi.
Valencia er fræg fyrir Fallas, varðelda- eða kjötkveðjuhátíðina í marz, þegar heilsað er vori. Þá fara menn í skrúðgöngur með risastór líkneski, svonefndar fallas, sem unnið hefur verið við allt árið á undan. Klúbbar keppa um að búa til beztu líkneskin. Þá eru sungnir söngvar á valensísku, svonefndir Llibret, sem fela í sér háð og spott og hafa pólitískt sjálfstæðisgildi, sem óbeint er stefnt gegn kúgun af hálfu Kastilíu.
Gisting og matur
Inglés
Erfitt er að gera upp á milli hótela í Valencia. Við kunnum bezt við okkur í 62 herbergja Hotel Inglés, sem er í gamalli höll við hliðina á höll markgreifans af Dos Aguas, sem nú er keramiksafn. Starfslið var mjög vingjarnlegt og hótelbarinn skemmtilegur. Herbergi nr. 102 er stórt og gott, með óvenjulega rösklegri loftræstingu, svo og litlum svölum út að götunni. Baðherbergið er hins vegar lítið og með þreytulegum flísum, en pípulagnir allar í fínu lagi. Friðsælli herbergi snúa út að hliðargötu og keramiksafninu. Tveggja manna herbergi kostaði 10.500 pts. (Inglés, Marqués de Dos Aguas 6, sími (6) 351 64 26)
Ma Cuina
Einn allra bezti matstaðurinn í miðborginni er Ma Cuina, afar huggulegur og smekklegur staður í nokkrum sölum á tveimur hæðum, með góðu rými á milli borða og góðri þjónustu, en dálítið ævintýralegri eldamennsku á köflum, undir nýfrönskum áhrifum. Við fengum okkur mjög góða sveppi í afar mjúkri kæfu; allgóða dádýra-rifjasteik í súkkulaðisósu, þótt ótrúlegt megi virðast, enda hæfði hún kjötinu ekki; og smjördeigsbakstur hússins. Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.500 pts. (Ma Cuina, Gran Vía Germanías 49, sími (6) 341 77 99, lokað sunnudaga)
El Plat
Hinn dæmigerði Valensíustaður er El Plat, einfaldur matsalur, mikið sóttur af kaupsýslumönnum. Þjónusta er óvenjulega góð, en alþýðleg. Þar er jafnan á boðstólum hrísgrjónaréttur dagsins, svo og auðvitað pæla og ýmsir réttir í sterkri piparsósu, sem er annað einkennistákn borgarinnar. Við prófuðum góða pælu með kjúklingabitum, stórum baunum og artistokkum (paella valenciana); og mjög góðar risarækjur í sterkri piparsósu (all-i-pebre de langostinos); og ágæta kastaníuhnetufroðu með þeyttum rjóma (mousse de castane). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.200 pts. (El Plat, Conde de Altea 41, sími (6) 334 96 38, lokað mánudaga)
La Oca Dorada
Einn af fínu stöðunum er La Oca Dorada, innréttaður á annarri hæð í bleikum Parísarstíl við stóran glugga út að sigurboganum á torginu. Þar eru virðulegir, bakháir tréstólar og miklir speglar. Sumt á matseðlinum var ekki fáanlegt og smjör var borið fram frosið í álpappír. Maturinn var samt nokkuð góður, góðar risarækjur (langostinos) grillaðar, mjög góður lýsingur, grillaður (merluza al txacolí); og loks kaffi-íshröngl sniðugt. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (La Oca @ýð í laugardagshádegi og sunnudagskvöld)
Rölt
Micalet
Þekktasti hluti dómkirkjunnar í Valencia er Micalet, áttstrendur turn í gotneskum stíl, einkennistákn borgarinnar, byggður um aldamótin 1400. Úr honum er gott útsýni yfir borgina og héraðið í kring.
Sjálf er kirkjan frá ýmsum tímum, elztu hlutar frá síðari hluta 13. aldar, reistir í rómönskum stíl, þar á meðal suðurvirkið. Norðurvirkið er hins vegar gotneskt.
Við þær kirkjudyr, Puerta de los Apóstoles, eru enn haldin vatns-dómþing (tribunal de las aguas) á hverjum fimmtudagsmorgni kl.10, þar sem kviðdómur bænda úrskurðar, eftir munnlegan málflutning, í ágreiningsmálum vegna áveituréttinda appelsínubænda. Úrskurði verður ekki áfrýjað.
Vinstra megin við dómkirkjuna er önnur kirkja, Nuestra Señora de los Desamparados.
Lonja
Ef við förum yfir torgið fyrir framan kirkjurnar, fullt af dúfum, erum við strax komin að héraðsstjórnarhöllinni, Palacio de la Generalidad, 15. aldar höll í gotneskum stíl.
Nokkru vestan dómkirkjunnar er kauphöllin, La Lonja, önnur 15. aldar höll, reist í gotneskum stíl af silkikaupmönnum borgarinnar, með einkar virðulegum inngangi. Hún er talin ein fegursta bygging veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma á Spáni, opin þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-18, sunnudaga 10-14.
Andspænis kauphöllinni er matvælamarkaður borgarinnar í 8000 fermetra glerhúsi, einn hinn stærsti í Evrópu.
Dos Aguas
Við Inglés-hótelið er sérkennilega skrautleg höll í kúrríkskum stíl, byggð um miðja 18. öld og síðar löguð að svifstíl, Palacio del Marqués de Dos Aguas, þar sem nú er safn 5000 keramikgripa frá öllum tímum menningarsögunnar. Inngangur hallarinnar er sérstaklega skrautlegur, gerður úr alabastri, eitt þekktasta dæmið um hlaðstíl á Spáni. Um leið vísar hann fram til nýstíls eða ungstíls síðustu aldamóta, sem náði mikilli útbreiðslu á Spáni, einkum í Barcelona, og þá í ýktri mynd. Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-18, sunnudaga 10-14.
San Sebastián
Euzkadi
Baskaland, Pais Vasco, Euzkadi. Þetta er einn dularfyllsti hluti Spánar, þar sem fólk talar tungu, euskara, sem ekki er skyldi neinni annarri í heiminum. Og það sem meira er: Það er farið að taka niður spönsku götuskiltin og setja upp skilti á baskamáli, þar sem allt er fullt af x-um og z-um og enginn utanaðakomandi skilur neitt.
Hinar ofsafengnu pólitísku deilur í Euzkadi og milli Baska og Kastilíumanna hafa engin önnur áhrif á stöðu ferðamanna. Þótt menn séu enn skotnir á færi í Euzkadi, eru ferðamenn kerfisbundnir látnir í friði. Baskar eru slyngir kaupsýslumenn og vita, hvar mörkin liggja.
Eitt helzta sérkenni Baska er, að þeir eru meiri matgæðingar en flestir aðrir Evrópumenn, nema ef til vill Frakkar. Flest beztu veitingahús Spánar eru rekin af Böskum eða hafa að minnsta kosti Baska í eldhúsi. Heima fyrir í Euzkadi keppast karlar um að vera í matreiðsluklúbbum, txokes, og skiptast á um að halda dýrindis veizlur. Í Euzkadi jafngildir þetta Lions og Kiwanis.
Marmitako er túnfisksúpa, blönduð kartöflum, papriku og kryddi, þekktur baskaréttur. Txakoli heitir fölt og grænleitt vín svæðisins. Idiázabal er frægasti baskaosturinn. Smokkfiskur í eigin bleiki, chipirones en su tinta, er hvergi betri en í Euzkadi.
Borgin
Guipúzoca heitir sá hluti Euzkadi, sem næstur er Frakklandi og áhugaverðastur er ferðamönnum. Þar er höfuðborgin San Sebastian, ein af meiriháttar sumarleyfaborgum Spánar og mesta matreiðsluborg Spánar.
San Sebastian komst í tízku um og eftir miðja nítjándu öld, þegar Ísabella II og síðan María Cristina Spánardrottningar gerðu borgina að sumardvalarstað hirðarinnar.
Enn þann daga í dag er stéttaskiptingin hin sama. Almúginn fer í sólskinið til Costa del Sol, Costa Brava, Costa Blanca, Costa Dorada, Benidorm og svo framvegis, en fína fólkið í fréttunum fer til San Sebastian, þar sem sólskinið er minna, en samkvæmislífið er betra. Borgin er Biarritz Spánar.
San Sebastian er orðin að tæplega 200 þúsund manna bæ. Það, sem skiptir ferðamenn máli, er þó aðeins pínulítill blettur af borginni, það er að segja gamli miðbærinn, þar sem eru frægu hótelin og góðu matsölustaðirnir, svo og baðströndin fræga, Playa de la Concha.
Gisting og matur
María Cristina
Fína fólkið gistir í 139 herbergja María Cristina við Urumea-ána, sem markar miðbæinn að austanverðu. Hótelið er eitt bezta hótel Spánar, í aldamótastíl, reist 1912, allt hið glæsilegasta og stílhreinasta, allt frá virðulegu anddyri yfir til þungra viðarinnréttinga í herbergjum. Tveggja manna herbergi kostaði 30.000 pts. (María Cristina, Paseo República Argentina, sími (43) 42 49 00, fax 42 39 14, telex 38195)
De Londres y de Inglaterra
Bezt staðsetta hótelið í San Sebastian er 142 herbergja Londres, beint við helztu baðströndina, með útsýni til höfðanna Urgull og Igueldo. Það var lengi fína hótelið í bænum, unz María Cristina tók við. Spilavítið er á jarðhæð Londres. Hótelið hefur allt verið endurnýjað að innanverðu og er nú hið glæsilegasta, hólf í gólf, þar á meðal herbergin, sem sum hafa svalir út að sjó. Hins vegar er þjónusta hin slakasta, sem ég hef séð í fjögurra stjörnu hóteli, en verðið er heldur ekki hátt, miðað við stjörnurnar. Herbergi nr. 319 snýr í vitlausa átt, en hefur svalir út á torgið, er með góðri loftræstingu og góðu baðherbergi marmaralögðu. Herbergið er innréttað að ljósum, frönskum hætti. Tveggja manna herbergi kostaði 13.300 pts. (De Londres y de Inglaterra, Zubieta 2, sími (43) 42 69 89, fax 42 00 31, telex 36378)
Arzak
Bezta veitingahús Spánar er Arzak. Það er vinstra megin á leiðinni úr miðbænum í átt til Frakklands, eftir þjóðvegi 1, um 2,5 km frá miðbæjarbrúnni, Puente Santa Catalina, yfir Urumea-ána. Þar er Juan Mari Arzak kokkur og konan hans, Maite Arzak, veitingastjóri. Arzak tekur sjálfur við pöntunum og kemur stöku sinnum til að spjalla um, hvort allt sé eins og það eigi að vera. Og hann verður miður sín, ef gestir kveðja hann ekki persónulega, þegar þeir fara. Staðurinn er afar huggulega innréttaður á tveimur hæðum, með panil upp á miðja veggi, armstólum, mikið blómum skreyttur. Arzak eldar á nýfransk-baskneska vísu og er raunar einn af höfuðsmönnum nýfrönsku stefnunnar í heiminum yfirleitt. Við fengum okkur smakkseðil, sem fól í sér mjög gott rækjusalat (langostinos frescos salteados con ciruela y pimiento dulce); ákaflega góða skógarsveppi með marglitu makkaroni (karraspinas rellenas al jugo de trufa); heimsins beztu þykkvalúru með ýmsu grænmeti (rodaballo al horno sobre aceite de oliva virgen y cintas de verdura); allgóða önd í hjúp, með góðri appelsínusósu (ragout de pato con frambuesa, naranja y pinones); og súkkulaðitertu með sítrónu- og hindberja-ískraumi (sorbetes y tartas). Aðrir frægir réttir eru meðal annars ostrusúpa með spergli (sopa de ostras con espárragos verdes); og humar í ávaxtasafa árstíðarinnar (bogavante con zumo de frutas del tiempo); Þríréttað fyrir tvo kostaði 13.500 pts. (Arzak, Alto de Miracruz 21, sími (43) 27 84 65,, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)
Akelarre
Helzti keppinautur Arzaks í Baskalandi er Pedro Subijana, sem eldar nýfranskan mat á glæsilegu sveitasetri með góðu útsýni við þjóðveginn um Igueldo-fjall, 7,5 km frá miðbænum. Beygt er til hægri, þegar komið er út úr undirgöngunum við austurenda Concha-baðstrandar. Þetta er fjórði bezti veitingastaður Spánar. Meðal þekktra rétta eru sveppasalat (pequeño ragout de setas con trufa); leginn túnfiskur í tómatsalati (ensalada de tomate con bonito marinado); koli í basknesku eplavíni (lenguado al chacolí); andasteik (pato semilacado al sésamo); og peru- og rúsínuterta með frosnum hrísgrjónabúðingi (hojaldre de pera y pasas con helado de arroz con leche). Þríréttað fyrir tvo kostaði 11.000 pts. (Akelarre, Carretera Barrio de Igueldo, sími (43) 21 20 52, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)
Casa Nicolasa
þriðja bezta veitingahúsið, er í gamla miðbænum, rétt við María Cristina, afar dökkur staður og stranglegur frá 1912, viðarklæddur upp alla veggi. Við hvert borð er rafmagnshnappur til að gestir geti kallað til þjónustu. José Juan Castillo, kokkur og eigandi, var sífellt á ferðinni að ræða við gesti og hljóp á eftir okkur niður stigann til að kveðja. Hann eldar á hefðbundinn hátt. Við prófuðum mjög góðan forrétt, papriku, fyllta fiski, með svartri kolkrabbasósu (pimientos verdes rellenos de chipirón); góða þykkvalúru með tvenns konar sósu og tvenns konar kavíar (rodaballo en cama de col y caviar); og blandaða eftirrétti af vagni (orgía de postres). Aðrir þekktir réttir eru skötuselur með skeljasósu (rape asado con salsa de almejas); og lýsingur í grænni sósu (merluza en salsa verde). Þríréttað fyrir tvo kostaði 13.500 pts. (Casa Nicolasa, Aldamar 4, 2. hæð, sími (43) 42 17 62, lokað sunnudaga og mánudagskvöld)
Rölt
Urgull
Skemmtilegast er að rölta úr miðbænum eftir Paseo Nuevo kringum höfðann Urgull. Uppi á honum er virki og stríðsminjasafn, svo og gott útsýni yfir miðbæinn. Þangað upp verður að fara fótgangandi.
Að öðru leyti gera menn það sér til dægradvalar að þræða veitingahúsin í miðbænum, sofa og éta, éta og sofa.
Santiago de Compostela
Galicia
Galicia er gamalt Keltaland eins og nafnið sýnir, sæbarið, fátækt og afskekkt eins og Bretagne og Cornwall. Grafnir hafa verið upp 5000 kastalar og virki kelta á þessu svæði. Tungumálið í nútímanum er þó ekki keltneskt, heldur rómanskt, milli spönsku og portúgölsku. Hins vegar eru sekkjapípurnar greinilega skyldar hinum brezku.
Matreiðslan í Galisíu er dálítið sérstök. Frægur er Galisíugrautur, búinn til úr baunum, kartöflum og kjötbitum, Cocido gallego. Einnig Galisíusúpa, búin til úr kartöflum, káli og baunum, Caldo gallego. Þetta eru réttir, sem menn eiga fremur von á í köldum löndum norður í höfum. Empanadas heita pæ, sem eru fylltar kjöti eða sjávarréttum.
Borgin
Helzti ferðamannastaður í Galiciu er borgin Santiago de Compostela, sem var á miðöldum jafn eftirsótt takmark pílagríma og sjálf Róma. Þá fóru upp undir milljón pílagrímar árlega til Santiago de Compostela til að komast í návígi við leifar Jakobs postula. Reistar voru miklar pílagrímakirkjur í rómönskum stíl á leiðinni frá Frakklandi til Compostela. Fyrsta leiðsögubók ferðamanna í mannkynssögunni var skrifuð um þessa leið árið 1130. Enn þann dag í dag eru farnar hópferðir suður Frakkland og eftir norðurströnd Spánar til að feta í fótspor forfeðra okkar í stétt pílagríma.
Miðbærinn í Santiago de Compostela er að miklu leyti frá ofanverðri 12. öld og hefur að geyma beztu minjar frá rómönskum tíma byggingarlistar á Spáni. Dómkirkjan sjálf er höfuðmannvirkið frá þeim tíma.
Gisting og matur
Reyes Católicos
150 herbergja hótelið Reyes Católicos er elzta hótel heims, fimm alda gamalt, á bezta stað í bænum, við aðaltorg bæjarins, þar sem er hin fræga dómkirkja. Hótelið er frá lokum 15. aldar og hefur alltaf verið hótel fyrir ferðamenn. Það var upprunalega byggt handa pílagrímum, en núna er það stórkostlegt lúxushótel með víðáttumiklum göngum og setustofum, allt fullt af fornum húsmunum. Það er annað af tveimur flaggskipum parador-keðjunnar. Hótelið myndar kross og ferning utan um fjóra garða. Herbergi nr. 108 er með sérstakri forstofu og marmaralögðu baðherbergi, parketti á gólfum og vönduðum húsgögnum í fornum stíl. Tveggja manna herbergi kostaði 17.900 pts. (Reyes Católicos, plaza de España 1, sími (81) 58 22 00, fax 56 30 94, telex 86004)
San Martín
Hægt er að gista við dómkirkjuna án þess að borga morð fjár. Milli Reyes Católicos og dómkirkju er klaustrið San Martín Pínario, sem býður á sumrin 126 herbergi, hrein og einföld, öll með baði. Tveggja manna herbergi kostaði ekki nema 3.000 pts. og er það bókarmet. (San Martín, Plaza de la Inmaculada 5, sími (81) 58 30 09, opið 1.7.-30.9.)
Don Gaiferos
Í næsta nágrenni kirkjunnar, í skemmtilegri götu, er fínasta veitingahúsið í bænum, Don Gaiferos. Þar er eldað á hefðbundinn galisíuhátt, svo sem bauna- kartöflu og kjötgrautur (cocido gallego), þjóðarréttur Galiciu. Þríréttað fyrir tvo kostaði 10.000 pts. (Don Gaiferos, Rúa Nova 23, sími (81) 58 38 94, lokað sunnudaga)
Las Huertas
Ef við förum niður brekkuna austur frá Reyes Católicos, eru 50 metrar að veitingahúsinu Las Huertas. Þar er eldað ágætlega á nýfranskan galisíuhátt. Þríréttað fyrir tvo kostaði 7.800 pts. (Las Huertas, Las Huertas 16, sími (81) 56 19 79, lokað sunnudaga)
Rölt
Catedral Vieja
Dómkirkjan í Compostela var reist á 11., 12. og 13. öld í rómönskum stíl, sem barst til Spánar frá Frakklandi. Hún er eitt fárra spánskra dæma um þann stíl, þar sem mestur hluti Spánar var á þeim tíma á valdi Mára. Kirkjan var þá mjög stílhrein sem slík, að öðru leyti en því, að mikil vængjaþrep liggja upp í hana, því að hún er byggð ofan á hvelfingu, þar sem varðveittur er helgur dómur Jakobs postula. Hún skiptist samkvæmt hefðum þess tíma í eitt aðalskip í miðju og tvö hliðarskip. Í þessari dómkirkju náðu hliðarskipin í boga aftur fyrir háaltari, svo að skrúðgöngur pílagríma gætu farið í hring innan í kirkjunni. Á þeirri leið var skotið út fjölda af litlum kapellum ýmissa dýrlinga.
Um miðja sautjándu öld var sett nýtt vesturvirki á kirkjuna, svokölluð Obradoiro-framhlið í hlaðrænum stíl, sem einni öld síðar var klædd í afar skrautlegan, kúrríkskan hlaðstíl. Beint fyrir innan framhliðina er Pórtico de la Gloria frá 1188. Þar þökkuðu pílagrímarnir fyrir að komast á leiðarenda með því að krjúpa við miðsúluna, sem stendur enn í dag, slitin af fingraförum milljónanna.
Suðurvirki kirkjunnar er í upprunalega, rómanska stílnum frá 12. öld. Þar eru Silfursmíðadyrnar, Puerta de las Platerías, nákvæmlega þaktar í tilhöggnum myndum. Kirkjan er opin 10:30-13:30 og mánudaga-laugardaga 16-19:30, á veturna 11-13:30 og mánudaga-laugardaga 16-18.
Við förum umhverfis kirkjuna, því að torg standa að henni á alla vegu, að vestanverðu Plaza del Obradoriro, að sunnanverðu Plaza de la Platerías, að austanverðu Plaza de la Quintana og að norðanverðu Plaza de la Immaculada. Suður frá þremur fyrstnefndu torgunum liggja skemmtilegar göngugötur um gamla miðbæinn. Þar eru kaffihús og námsmannakrár, silfursmiðir og svartarafs-smiðir.
Kastilía
Kastilía er hjarta Spánar og upprunaland tungumálsins, sem við köllum spönsku, en minnihlutaþjóðir á Spáni kalla kastilísku. Kastilía er þurr háslétta, illa ofbeitt og strjálbýlt eyðiland fjárhirða, skálda, hermanna og presta. Það er land kastala, enda kemur nafn landsins þaðan. Í Kastilíu eru frægir kastalar: Manzanares el Real, Mombeltrán, Coca, Gormaz, Peñafiel, Belmonte og Sigüenza. Við ætlum að þessu sinni ekki að skoða kastalana, heldur nokkrar sögufrægar borgir í nágrenni höfuðborgarinnar.
Kastilíumenn kunna vel að ofnsteikja smágrísi (cochinillo asado) og lambakjöt (cordero asado), einnig kiðlinga, akurhænur og ýmsa villibráð. Þekktur er osturinn frá La Mancha héraðinu, manchego.
Við ímyndum okkur, að við séum í Madrid. Við erum orðin þreytt á borgarfjörinu og höfum tekið bílaleigubíl, sem við ætlum að aka til annarra frægðarborga Kastilíu. Leið okkar liggur um Segovia, Ávila, Salamanca og Toledo. Frá Madrid til Segovia eru 87 kílómetrar, frá Segovia til Ávila eru 67 kílómetrar, frá Ávila til Salamanca eru 98 kílómetrar, frá Salamanca til Toledo eru 234 kílómetrar, lengsti áfanginn, og frá Toledo til Madrid eru 70 kílómetrar.
Segovia
Segovia er 50 þúsund manna bær í 1000 metra hæð og rís eins og skip upp af hásléttunni. Staðurinn er einkum frægur fyrir rómverska vatnsriðið, sem er nítján alda gamalt, og borgarkastalann, sem stendur fegurst kastala.
Los Linajes
Bezta og skemmtilegasta hótelið í Segovia er falið í þröngri götu í gamla bænum, rétt norðan við dómkirkjuna og austan við borgarkastalann. Það er 55 herbergja hótelið Los Linajes í höll Falconi-ættarinnar frá 11. öld, hlaðið forngripum. Pantaðu herbergi í gamla stílnum. Tveggja manna herbergi kostaði 8.400 pts. (Los Linajes, Dr Velasco 9, sími (11) 43 17 12)
Mesón de Cándido
Bezta og skemmtilegasta veitingahúsið í Segovia er Mesón de Cándido, rétt við rómverska vatnsriðið, í húsi frá 15. öld, innréttað á nokkrum hæðum í gömlum Segovia-stíl, óhjákvæmilega afar vinsælt af ferðamönnum, sem eru að skoða vatnsriðið.
Þar eru beztar smágrísasteikur (cochinnillo asado) og lambasteikur (cordero asado) og ýmsir réttir frá Kastilíu. Meðal sérrétta hússins er kastilíusúpa í gömlum stíl (sopa castellana del siglo XV); silungur (truchas frescas Felipe V); og fyllt akurhæna (perdiz estofada). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.500 pts. (Mesón de Cándido, Plaza Azoguejo 5, sími (11) 42 59 11)
Acueducto romano
Hið mikla vatnsrið Rómverja, Acueducto romano, frá því um 100 eftir Krist, blasir við ferðamönnum, sem koma að miðbænum í Segovia. Það er eitt af bezt varðveittu minjum frá tímum keisaranna Vespaníusar og Trajanusar.
Það flytur enn vatn til borgarinnar á 167 steinbogum, er 728 metra langt og 28 metra hátt við torgið, þar sem gatan liggur undir það. Það er reist úr höggnum granítsteinum án nokkurs bindiefnis. Rétt austan við vatnsriðið er matsölustaðurinn Mesón de Cándido.
Alcázar
Ef vatnsriðið er sagt vera við skut skipsins, er borgarkastalinn, Alcázar, í stafni. Milli þeirra er um eins kílómetra ganga um gamla bæinn. Þar verður á vegi okkar gotnesk dómkirkja frá 16. öld, grönn og glæsileg, með gullnum bjarma í sólskini. Á svipuðum slóðum er hótelið Los Linajes, ásamt mörgum skemmtilegum húsum og göngusundum.
Borgarkastalinn er frá miðri 14. öld og gnæfir yfir dalnum. Hann var um tíma íbúðarhöll Ísabellu drottningar. Nú er hann vopnasafn. Fáir kastalar á Spáni eru jafn veglegir í landslaginu og kastalinn í Segovia. Hann er opinn 10-18:30, -15:30 á veturna.
Skemmtilegt er að aka umhverfis gamla bæinn í Segovia og virða fyrir sér bæjarstæðið, einkum kastalann, sem tekur sig vel út frá brúnni yfir ána Eresma og frá Vera Cruz kapellunni handan árinnar.
Ávíla
Ávíla er lítill, 40 þúsund manna miðaldabær í 1131 metra hæð, hæsta héraðshöfuðborg Spánar. Hún er frægust fyrir hinn mikla og heillega borgarmúr, sem umlykur borgina, fagurlega flóðlýstur í myrkri, og blasir við ferðamönnum, sem nálgast úr vestri. Þegar við förum úr bænum í átt til Salamanca, getum við staðnæmst á útsýnisstaðnum Cuatro Postes handan árinnar Adaja og virt fyrir okkur bæinn með múrunum.
Palacio Valderrábanos
Tvö ánægjuleg hótel eru í Ávila. Annað er 73 herbergja Palacio Valderrábanos í gamalli biskupshöll andspænis dómkirkjunni, með voldugum, gotneskum granítinngangi frá 15. öld. Herbergin eru stór og þægileg, búin virðulegum húsgögnum. Tveggja manna herbergi kostaði 10.000 pts. (Palacio Valderrábanos, Plaza de la Catedral 9, sími (18) 21 10 23, fax 25 16 91, telex 22481)
Parador Raimundo de Borgona
Hitt hótelið er utan í norðanverðum borgarmúrnum, 62 herbergja Parador Raimundo de Borgona í 15. aldar húsi. Það er innréttað í kastalastíl, hefur vingjarnlegt andrúmsloft, þar á meðal innigarð og býður gott útsýni yfir gamlan bæinn. Tveggja manna herbergi kostaði 9.500 pts. (Parador Raimundo de Borg-ona, Marqués de Canales y Chozas 16, s. (18) 21 13 40, fax 22 61 66)
Meson del Rastro
Bezta veitingahúsið í bænum er Meson del Rastro, undir sunnanverðum borgarmúrnum. Matreiðslan er hefðbundin, m.a. baunir með smápylsum (judías del Barco de Ávila con chorizo); kiðlingur (caldereta de cabrito a los pastoril); og kálfasteik (chuletón de ternera del Valle de Amblés). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.500 pts. (Meson del Rastro, Plaza del Rastro, sími (18) 21 12 18)
Murallas
Tæpast er til greinilegra dæmi um borgarmúr frá miðöldum en Murallas í Ávila. Hann er að mestu leyti frá lokum 11. aldar, að meðaltali 10 metra hár, hálfs þriðja kílómetra langur, með 88 virkjum og átta borgarhliðum. Sjálfsagt er að taka sér göngutúr allan hringinn á borgarmúrnum.
Catedral
Dómkirkjan í Ávila er ein elzta kirkja Spánar í snemmgotneskum stíl, byggð úr graníti á 12. öld. Hún er hermannakirkja, lítur út eins og virki og er raunar hluti af borgarmúrnum austanverðum.
Ávila var lengi á landamærum kristni og íslams á Spáni, eins konar herbúð, og ber kirkjan þess merki.
Nokkru eldri kirkja er San Vicente, utan við norðausturhorn múrsins, rómönsk kirkja frá upphafi 12. aldar.
Salamanca
Salamanca er Oxford Spánar, lítill bær 170 þúsund manna, með mjóum götum og stórum háskóla, sem var stofnaður 1215 og var á miðöldum einn af hinum fjórum mestu, ásamt með háskólunum í París, Oxford og Bologna.
Gran Hotel
Bezta hótelið í miðbænum er 100 herbergja Gran Hotel, vel í sveit sett við suðausturhorn Plaza Mayor. Herbergi nr. 211 er stórt og þægilegt, með glugga út að hávaðasamri aðalgötunni og býr yfir marmaralögðu baðherbergi. Tveggja manna herbergi kostaði 13.500 pts. (Gran Hotel, Plaza poeta Iglesias 5, sími (23) 21 35 00, telex 26809)
Chez Victor
Bezta veitingahúsið í Salamanca er Chez Victor, í einföldum og opnum sal rétt norðvestan við Plaza Mayor. Þar eldar Victoriano Salvador og kona hans, Margarita Salvador, stjórnar í sal. Víctor bjó lengi í Frakklandi og eldar á franska vísu, lagað að spönskum staðháttum. Við prófuðum mjög góða snigla í olíu (ragout de caracoles); afar góða nautasteik (filet de buey); og kaffiblandaðan súkkulaðibúðing (fondant de chocolate al café). Meðal annarra sérrétta eru saffransúpa (sopa marinera al azafrán); sjávarréttir með pasta (raviolis relennos de mariscos); og margir súkkulaði-eftirréttir. Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.000 pts. (Chez Victor, Espoz y Mina 26, sími (23) 21 31 23, lokað sunnudagskvöld og mánud.)
Río de la Plata
Einn hinna betri matstaða er Río de la Plata, á ská andspænis Gran hóteli. Nokkrir matstaðir eru í sama húsi, en þetta er sá bezti og sá, sem minnst er áberandi. Þar eldar Paulina Andrés hefðbundna borgarrétti, svo sem Kastilíusúpu (sopa castellana); grillaða þykkvalúru (rodaballo a la plancha); kálfasteik (ternera de Ávila); lambarif (chuletillas de cordero); möndlubúðing (flan de almendras); og hrísgrjónagraut (arroz con leche). Þríréttað fyrir tvo kostaði 8.000 pts. (Río de la Plata, Plaza del Peso 1, sími (23) 21 90 05, lokað mánudaga)
Plaza Mayor
Plaza Mayor í Salamanca var byggt í hlaðstíl á fyrri hluta átjándu aldar, teiknað af Alberto de Churriguera. Það er ferhyrnt torg án bílaumferðar með súlnagöngum á alla vegu, þar sem eru kaffihús og verzlanir. Það minnir á samnefnt torg í Madrid og raunar á fleiri borgartorg á Spáni, svo sem Plaça Reial í Barcelona. Plaza Mayor í Salamanca er hjarta borgarinnar, fullt af iðandi mannlífi frá morgni til kvölds.
Í næsta nágrenni torgsins er Gran Hotel og veitingahúsin Chez Victor og Río de la Plata. Frá torginu liggur Rúa Mayor að dómkirkjunum. Miðja vega klofnar gatan hjá Casa de las Conchas, 16. aldar húsi, sem skreytt er steinhöggnum hörpuskeljum. Hliðargatan liggur að háskólatorginu, Patio de las Escuelas.
Patio de las Escuelas
Patio de las Escuelas er lítið torg, sem er bezta sýnishorn Spánar af silfursmíðastíl. Fyrir miðju torgi er þrungin skreyting risavaxins aðalinngangs háskólans, frá fyrri hluta 16. aldar. Steinninn er svo fínlega höggvinn, að hann minnir á víravirki silfursmiða. Þaðan kemur heitið silfursmíðastíll eða platerískur stíll. Hér sjáum við eitt fullkomnasta dæmi Spánar um þennan stíl. Háskólinn er að öðru leyti að mestu frá 15. öld. Hann er opinn mánudaga-laugardaga 9:30-13:30, -13 á veturna, og 16:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10-13, 11-13 á veturna.
Til hliðar við torgið er næst stúdentagarðurinn, Hospital del Estudio, og síðan Escuelas Menores, hvort tveggja með aðalinngangi í silfursmíðastíl. Fyrir innan síðari innganginn er hugljúfur garður frá fyrri hluta 15. aldar, með súlnagöngum á alla vegu.
Catedral Nueva y Vieja
Handan aðalbyggingar háskólans liggur mjótt sund að dómkirkjunum tveimur, hinni gömlu og hinni nýju.
Vinstra megin er “nýja” dómkirkjan frá fyrri hluta 16. aldar, tæplega fimm alda gömul, í gotneskum stíl. Vesturvirki kirkjunnar, sem snýr að götunni, er afar skrautlegt, hannað af arkitektunum Churriguera, sem kúrríkskur stíll er kenndur við. Það er ýkt útgáfa af svokölluðum silfursmíðastíl, sem einkenndist af fínlegum steinskurði.
Innan úr nýju dómkirkjunni er gengið inn í hina gömlu, sem er rómönsk kirkja frá 12. öld, í frönskum Akvítaníustíl. Þar inni er fræg risastór og litskær altaristafla frá miðri 15. öld, með 53 stökum málverkum úr æfi Krists, eins konar myndasöguhefti þess tíma. Gamla dómkirkjan er opin 10-14 og 15-20, á veturna 9:30-13:30 og 15:30-18.
Frá dómkirkjunum er hægt að fara til baka Rúa Mayor til Plaza Mayor, þaðan sem við hófum gönguna, eða rölta um götukróka borgarinnar, þar sem víða eru hús frá 15. og 16. öld. Vestur frá Plaza Mayor er Barrio de San Benito með gömlum húsum hefðarfólks og kirkju frá síðari hluta 15. aldar.
Toledo
Toledo er ein elzta borg Spánar, sögufrægur 60 þúsund manna miðaldabær, sem stendur á graníthöfða við fljótið Tajo, girtur múr á þá hlið, sem snýr frá ánni. Þetta er einn elzti bær Spánar, lagður þröngum og undnum göngusundum. Toledo var höfuðborg Vestgota og lengst af helzta borg Kastilíu, unz Madrid var gerð að höfuðborg um miðja 16. öld. Hún er enn höfuðborg kaþólsku kirkjunnar, því að æðsti kardínáli landsins hefur þar vist.
Hostal del Cardenal
Frábært hótel er í Toledo, 27 herbergja Hostal del Cardenal, í kardínálahöll frá 18. öld upp við borgarmúrinn rétt hjá Bisagra-hliðinu. Gengið er um garð ávaxtatrjáa að innganginum í rólegt og friðsælt hótel. Tveggja manna herbergi: 8.000 pts. (Hostal del Cardenal, Paseo Recaredo 24, s.(25) 22 49 00)
Næstbezti veitingasalur borgarinnar er í hótelinu, innréttaður í gömlum stíl. Á sumrin er hægt að snæða úti í garði. Hér fást góðir kastilíuréttir, steiktur grís (cochinillo asado); og villibráð, svo sem akurhæna (perdiz estofada a la toledana); og eftirréttir úr marzipan (mazapanes). (Hostal del Cardenal, Paseo Recaredo 14, sími (25) 22 08 62)
Adolfo
Rétt norðan við dómkirkjuna er veitingastofan Adolfo í gömlum kastilíustíl, ein af mörgum á þeim slóðum, en sú bezta í bænum. Þar eldar Adolfo Munoz sjávarréttasalat (caprichos de la huerta con delicias de mar); saffrankryddaðan freyðivínslax (delicias de salmón al cava con esencia de azafrán); dádýr í villisveppasósu (lomo de ciervo en salsa de setas); og marzípantertu (delicias de mazapán). Þríréttað fyrir tvo kostaði 9.200 pts. (Adolfo, La Granada 6 / Hombre de Palo 7, sími (25) 22 73 21, lokað sunnudagskvöld)
Chirón
Við borgarhliðið Puerta del Camrón er útsýnis-veitingastaðurinn Chirón, vinsæll ferðamannastaður með nokkuð góðan mat á sómasamlegu verði. Eldamennskan er í hefðbundnum kastilíustíl. Þar er meðal annars á boðstólum eggjakaka (tortilla a la magra); akurhæna (perdiz a la toledana); steikt lambakjöt (cordero asado); og mjólkurbúðingur (leche frita). Þríréttað fyrir tvo kostaði 6.400 pts. (Chirón, Paseo Recaredo 1, sími (25) 22 01 50)
Alcázar
Allur gamli bærinn í Toledo er skemmtilegt göngusvæði, allt frá borgarkastalanum Alcázar í austurendanum til klaustursins San Juan de los Reyes í vesturendanum.
Alcázar stendur þar, sem borgarstæðið er hæst, og gnæfir yfir önnur hús í bænum. Í núverandi útliti er kastalinn að mestu frá 16. öld, en hefur síðan brunnið þrisvar og var nær eyðilagður í borgarastyrjöldinni 1936, en hefur xverið endurnýjaður í hinni gömlu mynd. Hann er opinn 9:30-19, -18 á veturna.
Catedral gótica
Frá kastalanum förum við til dómkirkjunnar, upprunalega í gotneskum stíl franskættuðum frá 13. öld, en dálítið færð til byggingarstíla tveggja næstu alda. Vesturverkið og turninn eru í hreinum stíl gotneskum. Í turninum hangir 17 tonna klukka frá miðri 18. öld. Kirkjan er einkum þekkt fyrir höggmyndir og málverk, sem í henni eru. Einnig fyrir kórbekkina, sem eru vandlega útskornir. Rodrigo Alemán skar neðri hluta þeirra í lok 15. aldar. Ennfremur er dómkirkjan þekkt fyrir Transparente eða Gegnsæja altarið, það er skærlita altaristöflu útskorna, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Taflan er í kúrríkskum skreytistíl. Gluggum var komið fyrir ofan við töfluna til að ljós og skuggar gætu leikið við útskurðinn. Dómkirkjan er opin mánudaga-laugardaga 10:30-13 og 15:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10:30-13:30 og 16-19, -18 á veturna.
Norðan við dómkirkjuna er mikill fjöldi góðra matstaða, m.a. Adolfo.
Ángel Santo Tomé
Áfram höldum við til vesturs, eftir götunni Ángel Santo Tomé til klaustursins San Juan de los Reyes. Á leiðinni er kirkjan Santo Tomé. Við hana er márískur turn frá 14. öld. Inni í kirkjunni er frægt málverk eftir El Greco. Hann hét réttu nafni Domenico Teotocopulos, fæddur á Krít, en bjó lengst af í Toledo, í lok 16. aldar og upphafi hinnar 17.. Klaustrið er opið 10-13:45 og 15:30-19, -18 á veturna.
Rétt aftan við kirkjuna er hús og safn Grecos, Casa y Museo del Greco. Verk hans eru víðar í bænum, til dæmis í safninu Santa Cruz, sem er rétt norðan við Alcázar. Safnið er opið þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 15:30-19, -18 á veturna, sunnudaga 10-14.
Rétt hjá safninu er önnur af tveimur sínagógum borgarinnar, Sinagoga Del Tránsito, frá 14. öld. Að utan er hún ekki merkileg að sjá, en að innan eru márískar skreytingar. Hún er opin þriðjudaga-laugardaga 10-14 og 16-19, sunnudaga 10-14. Hin sínagógan, Santa María la Blanca, er á svipuðum slóðum, opin 10-14 og 15:30-19, -18 á veturna.
San Juan de los Reyes
Næstum vestur við Cambrón-hlið er klaustrið San Juan de los Reyes. Það var reist í lok 15. aldar á vegum Ferdinands og Ísabellu í gotneskum stíl. Klaustrið er glæsilegt að utanverðu og skrautlegt að innanverðu. Klaustrið er opið 10-13:45 og 15:30-19, -18 á veturna.
Hér við Cambrón-hliðið er veitingahúsið Chirón.
Margt fleira er merkilegt að skoða í Toledo. Þar á meðal er aðaltorg borgarinnar, Plaza del Zocodover, norðan við Alcázar og rétt hjá Santa Cruz-safninu, þar sem meðal annars eru málverk eftir El Greco. Það er að minnsta kosti dagsverk að rölta um borgina fram og aftur til að kynnast henni.
1991
© Jónas Kristjánsson