New York verzlun

Ferðir

Heimsins fínu verzlanir, franskar, ítalskar, brezkar og bandarískar, eru við 5th Avenue og 57th Street í miðbænum. Þar kaupa frúrnar á USD 500 leiðurtösku, sem á stendur risastórum stöfum: Gucci. Það er maðurinn, sem fær USD 50 af hverri tösku og hlær að því að geta selt auglýsingar um nafn sitt. En frúin er sæl að geta sýnt heiminum, að hún hafi efni á að kaupa tösku frá Gucci á USD 500.

Á síðustu árum hafa tízkuverzlanir sprottið upp annars staðar í bænum. Listamannahverfið SoHo er að breytast í tízkuhverfi. Í Upper West Side er Columbus Avenue orðin tízkugata, frá 69th Street til 86th Street. Ræflarokkararnir hafa sínar búðir í svokölluðu NoHoí East Village, það er á sunnanverðum Broadway, frá 10th Street niður á Houston Street, mest við Astor Place. South Street Seaport er orðið öflugt verzlanahverfi fyrir ferðamenn.

Verzlunin hefur einnig færzt út á gangstéttarnar á síðustu árum. Alls staðar eru sölumenn með vörur sínar og gera blómleg viðskipti. Ekki má heldur gleyma hinum hefðbundnu markaðsgötum, Orchard Street í Gyðingahverfinu, Mott Street í Kínahverfinu, Mulberry Street í Ítalahverfinu og svo Houston Street á suðurmörkum Greenwich Village.

Í kaflanum um gönguferðir í borginni verður fjallað um alls konar verzlun eins og hún verður á vegi okkar. Hér er aðeins getið nokkurra heimsfrægra verzlana af bandarískum uppruna.

Macy´s

Stærsta verzlun í heimi er Macy´s suðvestast í miðbænum, meira en 200.000 fermetrar að samanlögðu gólfflatarmáli. Henni hefur ekki hnignað eins og svo mörgum bandarískum kaupgörðum. Þvert á móti blómstrar hún og er sífellt að verða fremri í tízkuvarningi á meðalverði. Á jarðhæðinni og svölunum er fullt af hálfsjálfstæðum smábúðum, svonefndum boutiques. Macy´s er opin alla daga, einnig sunnudaga frá kl.12.

(Macy´s, 34th Street og Broadway, sími 695 4400, D2)

Bloomingdale´s

Fíni kaupgarðurinn á Manhattan er hinn sjö hæða Bloomingdale´s á mörkum miðbæjarins og Upper East Side. Þar hafa leiktjaldahönnuðirnir fengið að fríka út, því að verzlunin er eins konar millistig austurlandabazars og diskóteks. Þúsundir New Yorkara fylgja tízkuboðskap Bloomingdale´s eins og í leiðslu.

Fyrir utan tízkuvarninginn eru á boðstólum hinar undarlegustu vörur frá Kína, Indlandi og öðrum heimshornum. Matar- og víndeildin í kjallaranum er víðfræg. Alltaf er eitthvað að gerast í Bloomingdale´s. Staðurinn er eitt allsherjar uppþot, athyglisverðasta leikhús borgarinnar, nauðsynlegur viðkomustaður ferðamanna. Bloomingdale´s er opinn á sunnudögum frá kl. 12.

(Bloomingdale´s, 1000 3rd Avenue við 59th Street, sími 355 5900, F/G4)

Henri Bendel

Aðaltízkuverzlun Manhattan er hin fjögurra hæða Henri Bendel við verzlanagötuna 57th Street. Hún er byggð upp eins og safn tindrandi smábúða, þar sem hver fatahönnuður hefur sitt rými. Sumir þeirra hafa einmitt öðlast frægð á vegum Henri Bendel, til dæmis Mary McFadden. Geraldine Stutz verzlunarstjóri hefur gert Henri Bendel að framúrstefnubúð í tízkuvarningi. Segja má, að þar byrji tízkan í Bandaríkjunum. Samt líta fötin yfirleitt út eins og hægt sé að nota þau.

(Henri Bendel, 10 West 57th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 247 1100, F3)

Saks

Fjórða tízkuverzlunin og hin íhaldssama í hópi þeirra er Saks við 5th Avenue andspænis Rockefeller Center. Hún er þægilega skipulögð og minnir dálítið á Harrods í London, að öðru leyti en því, að í Saks eru aðeins seld föt og matur. Þótt Saks sé íhaldssöm búð og jafnan í hæfilegri fjarlægð frá nýjustu framúrstefnu, þá er hún aldrei gamaldags. Hún er opin á sunnud. frá kl.12.

(Saks, 5th Avenue við 49th Street, sími 753 4000, E3)

Bergdorf-Goodman

Mesta lúxusverzlun tízkuheimsins á Manhattan er Bergdorf-Goodman á aðalhorninu, þar sem 5th Avenue og 57th Street mætast. Hún er innréttuð eins og höll og tekið er á móti viðskiptavinum eins og aðalsfólki. Hún er líka dýr eftir því. Bergdorf-Goodman á heiðurinn af að hafa kynnt ítalska tízkuhönnuði á Bandaríkjamarkaði.

(Bergdorf-Goodman, 754 5th Avenue við 57th Street, sími 753 7300, F3)

Tiffany

Bandarískasta búð í heimi er Tiffany, af því að hún gæti hvergi annars staðar verið til. Þar eru seldir skartgripir og allt til heimilisins, bæði smekklegt og smekklaust. Tiffany hefur sinn sérstaka stíl, sem fylgir ekki öðrum straumum. Hér kaupir fólk brúðkaupsgjafir og boðskort með áletruðu búðarmerkinu T, svo að öllum sé ljóst, hversu fín varan er. Barnahringlur úr silfri eru vinsælar fæðingargjafir, pakkaðar inn í hina frægu, bláu Tiffany-kassa. Sumar vörur eru ekki tiltakanlega dýrar, en eru samt afhentar í bláa kassanum. Tiffany er á aðalhorni verzlanahverfisins, þar sem 5th Avenue og 57th Street mætast.

(Tiffany, 727 5th Avenue við 57th Street, sími 765 8000, F3)

Brooks Brothers

Flestir bankastjórar í Bandaríkjunum ganga í fötum frá Brooks Brothers, sem hefur aðsetur í nágrenni Grand Central Station. Verzlunin er frá 1818 og hefur forustu í klæðaburði íhaldsmanna. Einnig fást þar föt á íhaldskonur og íhaldsbörn. Ekkert mark er tekið á tízkustraumum, því að það, sem var gott árið 1818, er gott enn þann dag í dag. Á tímum afkáralegra axlapúða er gott að vita af verzlun, þar sem axlapúðar hafa verið, eru og verða alltaf bannorð. Einnig er gott að vita, að frakkinn, sem keyptur var árið 1960, er enn í fullu gildi aldarfjórðungi síðar. Og verðið er lægra en ætla mætti.

(Brooks Brothers, 346 Madison Avenue við 44th Street, sími 682 8800, E3)

Hammacher & Schlemmer

Himnaríki hinna tæknisjúku er Hammacher & Schlemmer við 57th Street. Sú verzlun kynnti strokjárn, rafmagnsrakvélar og þrýstisuðupotta fyrir heiminum. Þar má sjá ótal furðuhluti af hugmyndaríkasta tagi, svo sem sjálfvirka pottasleif, spádómstölvu, fjarvirkan bílræsi og golf-flatir. Sagt er, að Hammacher & Schlemmer hafi einmitt nákvæmlega þá sérvizkulegu vöru, sem þig vantar, og að hún sé vönduð og fáist aðeins þar. Að sjálfsögðu blómstrar verzlunin á tölvuöld nútímans.

(Hammacher & Schlemmer, 145 East 57th Street milli Lexington og 3rd Avenues, sími 421 9000, F4)

Balducci´s

Matgæðingaverzlun Manhattan er Balducci´s í Greenwich Village. Þar er ferskasta grænmetið og ferskasti fiskurinn, þroskaðasti osturinn — af 550 tegundum — og bezti baksturinn. Hillurnar svigna undir alls konar krukkum með sérvizkulegri fæðu frá öllum heimshornum, mest frá Frakklandi og Ítalíu.

(Balducci´s, 424 6th Avenue við 9th Street, sími 673 2600, B1)

Casswell Massey

Elzta lyfjabúð borgarinnar er Casswell Massey á Intercontinental hótelinu. Hún er frá 1725 og minnir á gamla Lundúnabúð úr St James-hverfi. Þar er enn hægt að fá ilmvatn, sem var sérstaklega blandað handa konu Washingtons forseta, og næturkrem, sem var sérstaklega blandað handa Söru Bernhardt. Þarna er líka mesta sápuúrval í heiminum. Og svo er auðvitað gaman að virða fyrir sér átjándu aldar apótekarakrukkur.

(Casswell Massey, 518 Lexington Avenue við 48th Street, s. 755 2254, E4)

1988

© Jónas Kristjánsson