Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um Róm á hótelunum.
Rómversk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi, þar á meðal pípulagnir, ef þau eru þriggja eða fleiri stjörnu að opinberu mati, en sum tveggja stjörnu hótel geta líka verið mjög góð, þótt ekki sé sjónvarp í herbergjum. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baðkeri og sturtu.
Í flestum tilvikum setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu með beina línu úr húsi. Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Þá viljum við helzt hafa loftkælingu, en hún er því miður víða ekki í nógu góðu lagi, þar á meðal á fínum hótelum. Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir og svo að stutt sé að fara í síðdegislúrinn að suðrænum hætti.
Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá L. 80.000 fyrir tvo án morgunverðar, upp í L. 590.000 fyrir tvo án morgunverðar. Ef þau uppfylla ekki eitthvert ofangreindra skilyrða, er það sérstaklega tekið fram í textanum um þau.
Við reynum að losna við morgunverð, því að á ítölskum hótelum er hann yfirleitt lítilfjörlegur að frönskum hætti. Miklu bragðbetra og ódýrara er að fá sér sterkt og gott kaffi og nýbakað smjördeigshorn, cornetto, úti á götuhorns-kaffihúsi, eins og heimafólk gerir. Í flestum tilvikum er morgunverður þó innifalinn í verði, af því að þannig er verðið skráð.
Öll hótelin prófuðum við veturinn 1991-1992 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult. Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki.
Við byrjum á þremur draumahótelum og tökum síðan önnur gæðahótel í verðröð, það dýrasta fyrst og það ódýrasta síðast.
Gregoriana
Eitt þriggja uppáhaldshótela okkar í Róm er stílhreint og smekklegt 19 herbergja Gregoriana í gömlu smáklaustri í hliðargötu ofan við Spánartröppur, 200 metrum frá tröppunum. Það er svo vinsælt, að ráð er að panta þar með löngum fyrirvara. Þar búa frægar tízkusýningardömur, þegar sýningar eru í Róm, enda gneistar hótelið af hreinlæti og huggulegheitum. Herbergin eru merkt bókstöfum, en ekki tölustöfum.
Herbergi nr. F er afar heimilislegt, ljóst og bjart, með svölum út að frið- og gróðursælum garði. Allur búnaður er stílhreinn í ljósrauðum lit. Þar eru bambusviðarstólar, skatthol, ruggustóll og þykkt teppi. Herberginu fylgir mjög stórt baðherbergi með mjúku blómaveggfóðri, meira að segja yfir baðkeri. Verðið var L. 220.000 með morgunverði. Plastkort voru ekki tekin.
(Gregoriana, Via Gregoriana 18, sími 67.94.269, fax 67.84.258)
Condotti
Annað uppáhaldshótel okkar í Róm er hið pínulitla, 19 herbergja Condotti í göngugötu í tízkubúðahverfinu neðan við Spánartröppur, 200 metrum frá tröppunum. Það er nýlega uppgert í hólf og gólf og er orðið mun notalegra en það var áður. Starfsfólk var einkar þægilegt og kunni svör við spurningum.
Herbergi nr. 102 er stórt og notalegt, nútímalega innréttað í bláu klæði, bleiku harðplasti og ljósri furu, skipt með skápi í svefnhluta og setukrók með djúpum sófa. Allur búnaður í herbergi og í fullflísuðu baðherbergi er mjög fínn og allt afar hreinlegt. Verðið var L. 204.000 með morgunverði.
(Condotti, Via Mario de’Fiori 37, sími 67.94.661 og 67.90.484, telex 611217, fax 67.90.457)
Carriage
Rétt hjá Condotti er þriðja uppáhaldshótelið, ekki síður vel sett og vel búið, þótt það láti lítið yfir sér að utanverðu. Það er 27 herbergja Carriage á friðsælu horni, aðeins 100 metrum frá Spánartröppum. Þetta er einkar persónulegt hótel með miklu af forngripum úti um allt. Meðal þeirra er hótelbar, sem áður var altari í 17. aldar kirkju. Starfsfólk hótelsins var til fyrirmyndar.
Herbergi nr. 102 er vel búið fornum húsgögnum, þar á meðal sérkennilega þríhyrndum fataskáp, fallegu skattholi og síma í aldamótastíl. Baðherbergi er fullflísað og í góðu lagi. Verðið var L. 210.000 með morgunverði.
(Carriage, Via delle Carrozze 36, sími 67.94.106 og 67.93.152, telex 626246, fax 67.88.279)
Hassler
Eitt fínasta hótel heims er Hassler Villa Medici, sem er beint ofan við Spánartröppur, við hlið kirkjunnar Trinità de’Monti. Það er fremur lítið hótel af slíkum að vera, aðeins 100 herbergja. Það er afar smekklega innréttað, nánast eins og sveitasetur, enda er andrúmsloftið afslappað, þótt þetta sé í miðri stórborg. Rólegheitin voru einum of mikil, því að það tók óratíma að fá farangurinn upp á herbergi. Morgunverður er borinn fram í veitingasal á efstu hæð, þaðan sem er frægt útsýni yfir gamla miðbæinn í átt til Péturskirkju.
Herbergi nr. 523 er fínasta hótelherbergi, sem við höfum gist. Það er nánast íbúð, með anddyri, setukrók, risabaðherbergi og stórum svefnsal. Allt er í ljósum, björtum litum. Gamli tíminn kemur fram í loftbitum og veggsúlum yfir rúmi, svo og veggmálverkum yfir rúmi og baðkari. Miklir speglar eru á veggjum og hnausþykk teppi á gólfi. Næturgrindur glugganna eru vélknúnar. Þykk handklæði og sloppar eru í baðherbergi. Verðið var L. 590.000 án morgunverðar.
(Hassler, Piazza Trinità de’Monti 6, sími 67.82.651, telex 610208, fax 67.89.991)
Raphaël
Raphaël er mjög fínt, 85 herbergja þingmannahótel að baki norðurenda Piazza Navona, undir öryggiseftirliti nótt sem nýtan dag. Þar býr meðal annarra Bettino Craxi, formaður ítalska sósíalistaflokksins, þegar þingið starfar. Friðsælt hótelið er vafið klifurvið og lítur út eins og vin við lítið torg með nokkrum trjám. Það er mikið stemmningshótel, fullt af fornminjum og nýtízkulegum listaverkum um alla sali og ganga. Hótelinu fylgir þakgarður með góðu útsýni. Starfsfólk var sérstaklega liðlegt.
Herbergi nr. 104 er afar vel búið, með parkettgólfi, afstæðis-málverkum, risavaxinni kommóðu og stórum gluggum út að torginu. Baðherbergi er mjög vandað, meðal annars búið baðsloppum. Verðið var L. 360.000 með morgunverði.
(Raphaël, Largo Febo 2, sími 65.08.81, telex 622396, fax 68.78.993)
Inghilterra
Rétt neðan við Spánartröppur í miðju höfuðhverfi tízkuverzlana er Inghilterra, hið hefðbundna hótel rithöfunda og menningarvita í Róm allar götur frá 1850. Í þessari 105 herbergja höll við lítið torg á göngugötusvæði bjuggu H. C. Andersen, Anatole France, Ernest Hemingway, Henry James og Alec Guinness. Hótelið hefur verið vandlega gert upp, en fornir munir og búnaður hafa haldið sér.
Herbergi nr. 138 er fremur lítið, vel búið, með mjúku veggfóðri, ósamstæðum húsgögnum í gömlum og notalegum stíl. Baðherbergið er marmaraklætt og einkar vel búið, þar á meðal sloppi. Verðið var L. 302.000 án morgunverðar.
(D’Inghilterra, Via Bocca di Leone 14, sími 67.21.61, telex 614552, fax 68.40.828)
Forum
Forum er virðulegt, 81 herbergis hótel beint yfir Fori Imperiali, með góðu útsýni yfir lýðveldistorgið Forum Romanum að keisarahæðinni Palatinum. Þetta er höll frá endurreisnartíma, byggð úr grjóti frá Forum Romanum. Niðri eru fallegir salir með brezkum innréttingum í Játvarðsstíl. Á efstu hæð er morgunverðarsalur með góðu útsýni. Góð þjónusta var veitt í anddyri.
Herbergi nr. 205 er stórt og gott, með alvöruskrifborði, hægindastól, parkettgólfi, fínum smáteppum og ljósum veggjum með gömlum málverkum. Baðherbergið er mjög vel búið. Verðið var L. 300.000 með morgunverði.
(Forum, Via Tor de’Conti 25, sími 67.92.446, telex 622549, fax 67.86.479)
Cardinal
Cardinal er við hina þekktu göngugötu, Via Giulia, í gamla miðbænum, rétt við Tiburfljót, vel búið forngripum. Þetta 73 herbergja hótel er gamall herragarður frá því um 1400 og var einu sinni borgardómþing. Salirnir niðri eru glannalega klæddir dulúðugu og kardínálsrauðu veggfóðri, en víða er látið sjást í beran múr eða steina frá Forum Romanum, svo sem bak við sérstæðan hótelbarinn. Hótelið er byggt utan um ferhyrndan garð.
Herbergi nr. 216 var orðið fremur þreytulegt, með slitnu og flögnuðu veggfóðri. En það er stórt, búið gömlum og virðulegum húsgögnum og hefur sérstaka skrifstofu framan við svefnstofu. Verðið var L. 238.000 með morgunverði.
(Cardinal, Via Giulia 62, sími 65.42.710 og 65.42.787, telex 612373)
Scalinata di Spagna
Eitt minnsta og skemmtilegasta hótel, sem við þekkjum í Róm, er 14 herbergja Scalinata di Spagna, beint fyrir ofan Spánartröppur, andspænis Hassler hóteli. Það er fallega búið fornum munum og heimilislegum, lítur raunar út eins og gömul sveitakrá.
Herbergi nr. 3 er lítið og skemmtilega hornskakkt, búið gömlum og notalegum munum, þar á meðal skattholi og peningahólfi. Loftið er gamalt smáreitaloft með máluðum blómum í reitunum eins og í gamalli, íslenzkri kirkju. Berar vatnsleiðslur eru utan á veggjum og gömul ljósakróna í lofti. Baðherbergi er lítið, en þó með sturtuklefa. Verðið var L. 214.000 með morgunverði.
(Scalinata di Spagna, Piazza Trinità de’Monti 17, sími 67.93.006 og 68.40.896, fax 68.40.598)
Columbus
115 herbergja Columbus er afar vel í sveit sett fyrir þá, sem mestan áhuga hafa á Péturskirkju og Vatíkansöfnunum. Það er við aðalgötuna upp að Péturstorgi, 150 metrum frá torginu, í rúmlega fimm alda gamalli kardínálahöll, Palazzo dei Penitenzieri, sem um tíma var klaustur, kuldalega strangt að ytra útliti. Höllin var byggð á 15. öld fyrir Domenico della Rovere kardínála, sem síðar varð Julius II páfi, og hefur mikið af upprunalegum búnaði og veggmálverkum í setustofum inn af anddyri. Morgunverður var aldraður og þjónninn fúll eftir því. Starfsfólk í anddyri var hins vegar mjög liðlegt.
Herbergi nr. 446 er mjög stórt og mjög vandað að öllum búnaði í gömlum stíl, með steindum gluggum, fínu teppi og mjúku veggfóðri. Baðherbergið er fullflísað, með gamaldags útbúnaði í góðu lagi. Verðið var L. 210.000 með morgunverði.
(Columbus, Via della Concialiazione 33, sími 68.65.435, telex 620096, fax 68 64 874)
Duca d’Alba
Duca d’Alba er lítið og notalegt, nýtízkulega innréttað, 25 herbergja hótel í gömlu húsi við lítið torg í Suburra, hinu fornfræga skuggahverfi upp af Fori Imperiali, 500 metrum frá hinum fornu rústum höfuðtorga heimsveldistíma borgarinnar. Þetta svæði er eins og sveitaþorp í borgarmiðju.
Herbergi nr. 201 er afar fallega innréttað í grænum litbrigðum, með vönduðum húsgögnum og mjúku veggfóðri, allt sem nýtt sé. Loftræsting er óvenju góð og baðherbergi mjög gott. Verðið var L. 190.000 með fremur góðum morgunverði.
(Duca d‘Alba, Via Leonina 14, sími 48.44.71 og 48.47.12, telex 620401, fax 46.48.40)
Fontana
Fontana er 28 herbergja hótel í 13. aldar miðaldaklaustri beint á móti fossaföllum Trevi brunns. Það er afar lítið áberandi að utanverðu, aðeins einar dyr, merktar HF. Mörg herbergi hafa skemmtilegt útsýni að brunninum og iðandi ferðamannlífinu í kringum hann, en eru full hávaðasöm til langdvalar. Hótelinu fylgir þakgarður. Góð þjónusta var veitt í anddyri.
Herbergi nr. 207 er mjög lítið, en snyrtilegt, með blágrænu blómaveggfóðri og stálhúsgögnum, litlu og vel búnu baðherbergi. Útsýni úr glugganum að brunninum er frábært, en fossaniðurinn bergmálaði í loftinu, þegar glugginn var opinn. Ekki er bein símalína úr herberginu. Verðið er L. 181.000 án morgunverðar.
(Fontana, Piazza di Trevi 96, sími 67.86.113 og 67.91.056)
Colosseum
200 metrum frá Santa Maria Maggiore og stutt frá aðaljárnbrautarstöðinni og Colosseum er samnefnt, 49 herbergja hótel í fremur nýlegu húsi með góðu útsýni frá efri hæðum, meðal annars til Colosseum. Það býr yfir virðulegri setustofu til hliðar við anddyri.
Herbergi nr. 74 er sjálft mjög lítið, en með breiðum svölum, þar sem eru sólstólar og borð og útsýni gott. Það er búið afar vönduðum húsgögnum í gömlum stíl, þar á meðal skattholi. Sjónvarp er þar ekki. Baðherbergi er fullflísað og í góðu lagi. Verðið var L 159.000 með morgunverði.
(Colosseum, via Sforza 10, sími 48.27.228 og 48.27.312, telex 611151, fax 48.27.285)
Campo de’Fiori
Lítið og notalegt hótel er í gamla bænum við þrönga götu, sem liggur út frá markaðstorginu Campo de’Fiori, og heitir eftir torginu, enda bara 10 metrum frá því. Það hefur aðeins 27 herbergi, enga lyftu, en skemmtilegan þakgarð með útsýni til allra átta. Morgunverður er snæddur í speglasal í kjallara, sem er rómantísk stæling á fornu musteri.
Herbergi nr. 106 er nokkuð stórt, háreist og hreinlegt, sérkennilega rómantískt innréttað með múrhleðslu í veggjum og þaksteinum yfir baðherbergi og gangi, svo og hlöðnu steinariði yfir rúmi. Hvorki er þar sjónvarp né bein símalína út. Baðherbergið er lítið, en fallega flísað og vel búið, með sturtuklefa. Verðið var L. 140.000 með morgunverði. Plastkort voru ekki tekin.
(Campo de’Fiori, Via del Biscione 6, sími 68.74.886 og 65.40.865)
Cesàri
Cesàri er sögufrægt, 50 herbergja hótel rétt við þinghúsið og Piazza Colonna í gamla bænum, 10 metrum frá Corso. Það státar af samfelldum hótelrekstri í nærri þrjár aldir og sérstöku leyfisbréfi páfa frá 1787. Þar gistu meðal annars sjálfstæðishetjurnar Garibaldi og Mazzini og margir þekktir rithöfundar. Þá þótti það með fínni hótelum borgarinnar, en nú er það í hópi hinna ódýrari, það þriðja ódýrasta í þessari bók. Niðri er notalegur bar, sem margir þekkja.
Herbergi nr. 20 er einfalt í sniðum, með gólfdúki og gömlum húsgögnum, dálítið skældum. En allt er hreinlegt og í góðu lagi, nema loftkælingin er þreytuleg og rúmið með gömlu gormasniði. Þröngt baðherbergi er sómasamlegt. Verðið var L. 134.000 með morgunverði.
(Cesàri, Via di Pietra 89a)
Portoghesi
Portoghesi er þekkt smáhótel með 27 herbergjum í þeim hluta gamla bæjarins, þar sem göturnar eru þrengstar og undnastar, 200 metrum frá Piazza Navona, við hlið kirkjunnar Sant’Antonio. Á þessum slóðum er endurreisnartíminn einna nálægastur í Róm nútímans, enda er andspænis hótelinu einn gömlu aðalsmannaturnanna, Torre dei Frangipane. Til þess að komast í morgunverðarstofu, sem er uppi á þaki, þarf að fara úr lyftunni upp stuttan stiga, sem er utan á húsinu.
Herbergi nr. 83 er lítið, en vel búið nokkuð slitnum húsgögnum, blómaveggfóðri og teppi á gólfi. Verðið var L. 120.000 með morgunverði, hið næstlægsta í þessari bók.
(Portoghesi, Via dei Portoghesi 1, sími 68.64.231, fax 68.76.976)
Piccolo
Piccolo er skemmtilegt hótel í gamla bænum, mitt á milli Campo dei Fiori og Largo di Argentina. Það er pínulítið, telur aðeins 15 herbergi, sum ekki með baði. Það hefur ekki lyftu og býður ekki morgunverð, svo að gestir fara út á næsta horn til að fá sér nýtt cornetto eða skinkubrauð og gott kaffi í morgunverð fyrir lítinn pening. Þetta er ódýrasta hótel, sem ég þekki frambærilegt í Róm.
Herbergi nr. 8 er stórt, með aukarúmi og skrifborði, flísagólfi og rósaflúri í ábreiðum, hvorki sjónvarpi né beinni símalínu út.
Baðherbergið er fullflísað og vel búið. Verðið var L. 80.000 án morgunverðar.
(Piccolo, Via dei Chiavari 32, sími 65.42.560)
1991
© Jónas Kristjánsson