Róm útrásir

Ferðir

Villa Adriana

Um 30 km austan Rómar er sumardvalarbærinn Tivoli, á latínu Tibur, við rætur sabínsku hæðanna. Árin 126-134 lét Hadrianus keisari reisa sér sumarhöll í 5 km löngum garði 5 km austan við bæinn. Hadrianus hannaði sjálfur svæðið og notaði fyrirmyndir, sem hann hafði séð á ferðalögum sínum. Rústir svæðisins hafa verið grafnar upp og eru til sýnis.

Frá innganginum á svæðið göngum við gegnum vegg, sem stendur eftir af eftirlíkingu Aþenuports, sem hét Poikile. Við förum fyrir enda tjarnarinnar og höldum áfram meðfram litlu og stóru baðhúsi að langri tjörn. Við hinn enda hennar er Canopus, stæling á egypzku Serapis-hofi.

Á leiðinni til baka förum við upp í rústirnar hægra megin, fyrst um hermannaskálana, Prætorium og síðan framhjá fiskatjörninni að hinni raunverulegu sumarhöll. Þar er efst ferhyrnt Gulltorg, Piazza d’Oro. Neðan við það eru rústir af vistarverum keisarans, svo sem borðsal og setustofu. Enn neðar eru leifar bókasafna.

Hægra megin við bókasöfnin er súlnarið umhverfis hjóllaga tjörn með eyju í miðjunni. Hér erum við komin aftur að Poikile, þar sem við byrjuðum skoðunarferð okkar.

Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir frá Róm til Tivoli og er þá einnig skoðuð sumarhöllin Villa d’Este með miklum görðum frá miðri 16. öld. Báðir staðirnir eru lokaðir á mánudögum.

Ostia Antica

Hinn gamli hafnarbær Rómar, Ostia Antica, er 25 km suðvestan borgarinnar. Þangað má komast í lest, sem fer frá Porta San Paolo og tengist neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Bærinn hefur verið grafinn upp og er til sýnis. Hann er að mestu leyti frá 2. öld. Árframburður olli því, að hafnarstæðið eyðilagðist og bærinn lagðist niður, grófst í sand og hefur þannig varðveitzt.

Rústirnar eru tæplega 1,5 km að lengd. Frá innganginum er farið eftir aðalgötunni, Decumanus Maximus, framhjá kirkjugarðinum að baðhúsi Neptunusar, þar sem eru fagrar steinfellumyndir. Við hlið þess er nokkuð heillegt leikhús og að baki þess ferhyrnt fyrirtækjatorg, þar sem verzlunar- og siglingafyrirtæki höfðu búðir og skrifstofur í súlnagöngum.

Leiðin liggur svo eftir aðalgötunni beint að höfuðtorginu, Forum, þar sem er aðalhofið, Capitolum, reist á fyrri hluta 2. aldar. Marmarinn er horfinn, en undirstöður hofsins og hluti veggjanna stendur enn.

Í Ostia Antica má víða sjá merki svokallaðra Insulæ sem voru íbúðablokkir þess tíma, reistar umhverfis lokaðan, ferhyrndan húsagarð, stundum 3ja eða 4ra hæða.

Hægt er að verja miklum tíma í að rölta um hliðargötur bæjarins. Að því loknu er farin sama leið til baka eftir Decumanus Maximus.

Svæðið er lokað mánudaga.

Via Appia Antica

Castelli Romani er sameiginlegt nafn nokkurra smábæja í hæðunum 25 km suðaustur af Róm. Boðið er upp á daglegar skoðunarferðir í rútu og er þá oft einnig komið við í katakombunum við Via Appia Antica.

Via Appia Antica var lagður 312 f.Kr. og náði til Capua, Benevento og Brindisi. Snemma var farið að reisa grafhýsi umhverfis hann, því að bannað var að jarða fólk innan borgar. Enn er hægt að aka eftir þessum gamla vegi framhjá helztu katakombum kristinna manna í Róm, grafhýsi Romulusar, veðhlaupabraut Maxentiusar og grafhýsi Ceciliu Metella, svo og ótal smærri bautasteinum og minnisvörðum.

Þrjár katakombur eru til sýnis á þessum slóðum, Callisto, lokuð miðvikudaga; Domitilla, lokuð þriðjudaga; og Sebastiano, lokuð fimmtudaga. Þær eru allar opnar mánudaga, þegar flest söfn í Róm eru lokuð.

Katakomba er ekki felustaður kristinna, heldur kristinn neðanjarðar-grafreitur, sem skiptist venjulega í nokkrar hæðir, því alltaf þurfti að grafa dýpra og dýpra, þegar minna varð um rými. Þær voru að mestu grafnar á 3. og 4. öld.

Castelli Romani

Leiðin um Castelli Romani liggur venjulega fyrst til Castel Gandolfo, sem er á brún eldgígsins mikla, sem hefur myndað Lago di Albano. Í þessum bæ er sumarhöll og stjörnuskoðunarstöð páfans. Frá svölum framan við sumarhöllina er gott útsýni yfir vatnið.
Rocca di Papa er bær, sem hangir í hlíðum Monte Cavo, allur í bröttum tröppum og undnum göngusundum, hæsti bær í Castelli Romani.

Grottaferrata býr að baki virkissíkis yfir fallegu klaustri, þar sem kaþólskir munkar hafa frá 1004 notað ortódoksa helgisiði. Þar er kirkja með 12. aldar turni.

Í Frascati er miðstöð vínræktar og þar gnæfir svipmikil Villa Aldobrandini í hlíðinni yfir miðbæjartorginu.

Napoli

Liðin er sú tíð, að Napoli var fallegur bær. Hann er hávaðasamur og illa farinn af óheyrilegri bílaumferð. Auk þess er þar öflugt Camorra-glæpafélag og rán og þjófnaðir eru tíðir. Hins vegar er hann vel í sveit settur fyrir þá Rómarfara, sem vilja skoða draugabæina Herculanum og Pompei, ganga á Vesuvius, aka Amalfí-strönd eða skreppa til Capri. Of langt er að fara frá Róm og til baka á einum degi, því að vegalengdin er 219 km. Hótelin á ströndinni sunnan við konungshöllina í Napoli eru kjörinn áningarstaður.

Castel Nuovo

Hinn voldugi kastali, Castel Nuovo, við höfnina í Napoli var reistur 1282, umkringdur djúpu og breiðu kastalasíki. Borgarmegin við hann er inngangur í líki tveggja hæða sigurboga, reistur 1467.

Konungshöllin, Palazzo Reale, er við hlið kastalans, reist í upphafi 17. aldar og heldur útliti sínu, þótt hún hafi verið endurbyggð nokkrum sinnum. Hún er núna safn.

Á leiðinni milli kastala og hallar er farið framhjá Teatro San Carlo, óperu og leikhúsi frá 1737 og endurbyggðu 1816 í nýgnæfum stíl.

Andspænis leikhúsinu er Galleria Umberto I, krosslaga verzlunarmiðstöð undir feiknarlegu glerhvolfi.

Fyrir framan konungshöllina er hálfhringlaga risatorg, Piazza del Plebiscito.

Frá konungshöllinni eru aðeins 500 metrar að hótelhverfinu við ströndina suður frá miðbænum. Fyrir framan hótelin er Porto Santa Lucia, lystibátahöfn í skjóli við normanna-kastalann Castel d’Ovo, sem fékk núverandi útlit 1274.

Ef farið er lengra eftir ströndinni, er komið í næstu vík fyrir norðan, þar sem eru miklir garðar við ströndina, með útsýni til skagans Posillipo.

Miramare

Skemmtilegasta hótelið í Napoli er úti við ströndina sunnan við miðbæinn, um 500 metrum frá gömlu konungshöllinni. Það er 30 herbergja Miramare í gömlum herragarði og hefur skemmtilegt útsýni yfir flóann beint til eldfjallsins Vesuviusar. Hótelið er afar smekklega innréttað í nútímastíl. Morgunverðarstofa er uppi á efstu hæð, með góðu útsýni.

Herbergi nr. 107 er stórt, innréttað í ljósbláum tónum, með stóru skrifborði, buxnapressu og kaffivél, svo og risastórum spegli yfir höfðagafli rúms. Frá stórum glugga og svölum er útsýni til Vesuviusar. Baðherbergi er bæði stórt og glæsilega innréttað í marmara, með góðu nuddbaðkeri, en undarlegum frágangi við sturtu, sem tryggði vatnsflóð út á gólf. Verðið var L. 240.000 með morgunverði.

(Miramare, Via Nazario Sauro 24, sími (081) 42.73.88, fax 41.67.75)

Royal

Handan við hornið á strandgötunni, yfir siglingabátahöfninni Santa Lucia, er röð þekktustu hótela borgarinnar. Á sjálfu horninu er Excelcior, bezta hótelið. Síðan koma Santa Lucia, Vesuvio, Continental og Royal, sem hefur 273 herbergi.

Herbergi nr. 810 á Royal er stórt og gott í nútímalegum viðskiptastíl, með góðu útsýni yfir höfnina Santa Lucia og kastalann Castel d’Ovo. Það er með risaspegli, parketti og svölum og vel búið að öllu leyti, með stóru og fullflísuðu baðherbergi. Verðið var L. 240.000 með morgunverði.

(Royal, Via Partenope 38, sími (081) 76.44.800, telex 710167, fax 76.45.707)

Ciro a Santa Brigida

Hefðbundinn og fremur ódýr hádegisverðarstaður kaupsýslumanna og hefðarkvenna í verzlunarerindum er Ciro a Santa Brigida við verzlunarmiðstöðina Galleria Umberto I, gengið inn frá götunni, en ekki verzlunarmiðstöðinni. Þetta er stór og annasamur, en líka snyrtilegur og notalegur staður með góðri þjónustu í nokkrum sölum á tveimur hæðum.

Við prófuðum penne mozzarella e melanzane, pastarör með osti og eggaldini; pizza marinara, skeldýraböku; magro di vitello ai ferri, pönnusteikta kálfasneið með eggi; fritto calamari e gamberi, djúpsteiktan smokkfisk og rækjur; zuppa inglese, svampbotnstertu með þeyttum rjóma; og cannoli, smjördeigshorn fyllt með sykruðum ricotta-osti, sykruðum berki og kakói.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Ciro a Santa Brigida, Via Santa Brigida 71-73, sími (081) 55.24.072, lokað sunnudaga)

Rosolino

Rosolino er sérkennilegur að því leyti, að þar er leikið og sungið fyrir dansi, en samt er þar góður matur. Veitingahúsið er á hótelströndinni, sem liggur frá konungshöllinni til Santa Lucia-hafnar. Gegnlýstar afstæðismyndir á glerveggjum einkenna staðinn.

Við prófuðum risotto della pescatora, hrísgrjón með sjávarfangi; insalata di mare, kalt sjávarréttasalat; tournedos rossini, grillaða nautahryggsteik; zabaglione, þeyttar eggjarauður með sykri og rauðvíni; og monte bianco, kastaníuhnetumauk með þeyttum rjóma.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 140.000. (Rosolino, Via Nazario Sauro 5-7, sími (081) 41.58.73, lokað sunnudaga)

La Cantinella

Bezta veitingahús í Napoli er La Cantinella á hótelströndinni, sem liggur frá konungshöllinni, við hlið hótelsins Miramare. Aðalsalurinn einkennis af voldugum, ljósum burðarsúlum, en við götuna er langur og mjór salur í bláum stíl, með flauelsveggjum og flauelslofti.

Við prófuðum linguine alla cantine, pastaþræði með rækjum og spínati; insalata di mare, kalt sjávarréttasalat; filetto di manzo, nautahryggsteik; og medaglioni di manzo, einnig nautahryggsteik; mozzarella-ost; og macedonia di frutta, blandaða ávexti í legi.
Tveggja manna máltíð kostaði L. 100.000. (La Cantinella, Via Cuma 42, sími (081) 40.48.84 og (081) 40.53.75, lokað sunnudaga)

Sbrescia Ciro

Skemmtilegur útsýnisstaður og ekki dýr er í Positano, ríkmannlegu íbúðahverfi á skaga norðan við miðbæinn í Napoli. Það er Sbrescia Ciro í brattri götu, sem vindur sig niður fjallið. Stórir gluggar veita gott útsýni yfir úthverfið Mergellina og Uvo-kastala til Vesuviusar.

Við prófuðum linguine casa nostra, pastaþræði hússins; vermicelli alle vongole, spaghetti með smáskeljum; scaloppa alla Sbrescia, kálfakjötsneið; spigola, grillaðan hafurriða; uva, vínber; og gelato, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Sbrescia Ciro, Rampe San Antonio a Posillipo 110, sími (081) 66.91.40, lokað mánudaga)

Herculanum

Frá Napoli eru 10 km til Herculanum, 5000 manna fiskimannaþorps, sem drukknaði í leðju, þegar Vesuvius gaus árið 79. Þorpið er mun minna og fátæklegra en Pompei, en hefur það fram yfir, að timbur hefur sums staðar varðveitzt með því að steingervast í 12 metra djúpri leðju. Heilu húsin hafa raunar varðveitzt með timbri, eldunaráhöldum og húsgögnum.

Uppgröfturinn er um 150×250 metrar að flatarmáli. Þrjár aðalbrautir liggja samsíða um bæinn og tvær aðalbrautir þvert á þær. Bezt er að fara fyrst í Casa dell’Albergo, sem er rétt við tröppurnar niður í rústirnar, fara síðan þaðan yfir í götuna Cardo IV upp að aðaltorginu Forum, og loks til baka aftur eftir götunni Cardo V. Skynsamlegt er að fá leiðsögumann og segja honum, hve mikinn tíma þú hefur.

Þarna má meðal annars sjá steinfellumyndir í gólfum, baðhús bæjarins með aðskildum svæðum fyrir kynin, verzlanir með afgreiðsluborði við götu, höggmynd af hjartardýrum og hálfbrunnin húsgögn.

Pompei

Frá Herculanum eru 15 km til Pompei og á leiðinni er gott útsýni til Vesuviusar.

Þetta var 25.000 manna kaupsýslubær, sem grófst á 2 dögum í 6-7 metra þykku öskulagi, þegar eldfjallið gaus árið 79.
Eftir uppgröft á svæði, sem er 2 km langt og 1 km, þar sem það er breiðast, er hægt að sjá í hnotskurn, hvernig lífið hefur verið í slíkum bæ fyrir rúmlega nítján öldum. Enn sjást kosningaslagorð á vegg og klámmyndir í hóruhúsi. Svæðið er stórt, svo að bezt er að fá sér leiðsögumann til að nýta sem bezt þann tíma, sem er til umráða.

Aðaltorg er í bænum, umlukt hofum Jupiters, Apollos og Vespanianusar, svo og 67 m langri verzlunar- og dómstólabyrðu. Leikhúsin eru tvö, annað fyrir 5000 manns og hitt fyrir 800. Vel hönnuð og vönduð baðhúsin eru einnig tvö, þar á meðal Terme Stabiane, þar sem sjá má steingerða líkami fórnarlamba gossins. Hringleikahúsið er það elzta, sem fundizt hefur, frá 80 f.Kr. Margir eru barirnir við aðalgötuna. Þarna má líka sjá hvert Insula á fætur öðru, nokkurra hæða íbúðablokkir með innigarði.

Bezt varðveitta húsið er þrautskreytt íbúð Vetti bræðra, ríkra kaupmanna, Casa dei Vettii. Þar eru vel varðveittar freskur á veggjum og garður með styttum og brunnum.

Ef tími er nægur, borgar sig að taka krókinn til Villa dei Misteri, þar sem eru stórar og glæsilegar freskur, sem sýna launhelganir Dionysiosar.

Amalfi-strönd

Eftir skoðun Pompei er rétt að drífa sig til Sant’Agata sui due Golfi, sem er nálægt Sorrento, um 40 km frá Pompei og 60 km frá Napoli, til að finna sér gistingu, til dæmis í Hermitage, sími 87.80.062, eða Jaccarino, sími 87.80.026. Bæði þessi hótel hafa útsýni til Napoli og Vesuviusar. Síðan þarf að búa sig undir kvöldverð í bezta veitingahúsi Suður-Ítalíu, Don Alfonso.

Don Alfonso

Bezta veitingahús Suður-Ítalíu og bezta veitingahús þessarar bókar er Don Alfonso rétt sunnan við Sorrento, í fjallaþorpi, sem hefur í senn útsýni til Amalfi- og Napoli-flóa. Matstaðurinn er við aðalgötu þorpsins, skammt frá aðaltorginu. Í björtum og fallegum veitingasal, sem skipt er með múrsteinabogum í tvo hluta, ráða ríkjum hjónin Alfonso og Livia Jaccarino. Hjá þeim fengum við hjartanlegar móttökur og beztu máltíð okkar á Ítalíu.

Við prófuðum smakkseðil hússins: Involtino di pesce con rughetta e semi di finocchio selvatico, kryddleginn gullinhöfða með grænmeti og eggjasósu; treccine di pesce azzurro agli ortaggi, hornfisk með gulrótum, lauk og selju; i piaceri della pasta, pastaræmur með skeljum og graskeri; filetti di boccadoro ai cetrioli e rosmarino, soðin og sædaggarkrydduð smáfiskaflök með kartöflumauki í tómati og osti; infuso alle erbe, sítrónukrap; braciole di annecchia con pinoli e uvetta, nautakjöt vafið utan um rúsínur og hnetur; scelta di formaggi, þrenns konar osta, gorgonzola, provolone og caciocavallo; og dolce e piccola pasticceria, grænt pistasíu-marsípan með mangó-sósu og fyllt með ostablöndu.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 180.000. Vínlisti er einn hinna beztu í landinu. (Don Alfonso, Corso Santa Agata 11, Sant’Agata sui due Golfi, sími (081) 87.80.026, lokað sunnudagskvöld og mánudaga)

Positano

Um sæbratta Amalfi-ströndina liggur krókóttur vegur frá Sant’Agata sui due Golfi til Salerno, um 80 km leið. Þetta er talin ein fegursta strandlengja Ítalíu. Niðri í djúpum giljum liggja fámenn fiskiþorp með litla víkurrennu til sjávar. Utan í sjávarhömrum hanga sumarhús auðmanna.

Fyrsta þorpið á leiðinni er hótelbærinn Positano, gamalt fiskimannaþorp, sem orðið er að ferðamannabæ. Þorpið stendur í brattri hlíð, þar sem sums staðar eru hamrar milli húsa. Hvítkölkuð húsin minna á gríska eða spánska eyju.

Vallone di Furore er hrikalegasti hluti leiðarinnar. Þar kúrir lítið fiskiþorp undir klettum og bröttum hlíðum.

Ferðamannabærinn Amalfi hefur gefið leiðinni nafn sitt. Þar eru húsin hvít eins og í Positano, en ströndin ekki eins hrikaleg, svo að þar er pláss fyrir pínulítinn miðbæ með kirkju í austrænum stíl.

Frá Salerno eru um 60 km til baka til Napoli.

Capri

Capri
Utan við Sorrento-skaga er Capri, sæbrött klettaeyja, 6×3 km, með mildri veðráttu og ríkulegum gróðri, eftirsóttur dvalarstaður allt frá tíma rómversku keisaranna.

Aðalþorpið á eynni heitir líka Capri og er uppi á hrygg milli fjalla, með hafnir á báða vegu, Marina Piccola í suðri og Marina Grande í norðri, þar sem ferðamenn koma til hafnar. Austar á eynni og enn hærra er annað þorp, Anacapri, tengt aðalbænum með vegi, sem liggur um bratta kletta.

Engir einkabílar eru á Capri, aðeins litlir strætisvagnar, leigubílar og rafhjól, sem flytja vörur og farangur. Flestar götur í þorpinu eru göngugötur, sumar hverjar með engum húsum í sömu hæð, en bröttum tröppum upp í hús fyrir ofan og niður í hús fyrir neðan. Frá aðaltorginu, Piazza Umberto I eru stuttar gönguleiðir til útsýnisstaða á borð við Cannone Belvedere, Tragara Belvedere og Giardini Augusto, svo og löng og brött gönguleið upp til rústanna af höll Tiberiusar keisara, sem húkir efst uppi á kletti.

Grotta Azzurra

Frægasta náttúruundur eyjarinnar er Blái hellirinn, þar sem heiðblá birta endurvarpast gegnum vatnið. Skipulagðar ferðir eru í hellinn, sumpart tengdar hringsiglingu um eyna. Þá má líka sjá Græna hellinn, sem endurspeglar grænni birtu, hvíta hellinn, sem hægt er að ganga upp í; og Faraglioni-kletta, sem siglt er gegnum.

Anacapri

Anacapri er ekki eins ferðamannalegur staður og Capri. Þaðan er farið landleiðina niður að Bláa hellinum. Og þaðan er farið í stólalyftu upp á hæsta fjall eyjarinnar, Monte Solaro, þaðan sem er ógleymanlegt útsýni í góðu veðri um alla eyna, Napoliflóa og Appeniafjöll.

Pineta

Eitt af beztu hótelum á Capri er Palma. Það er við göngugötuna Via Vittorio Emanuele, sem liggur frá aðaltorginu Piazza Umberto I, um 100 metrum frá torginu. Verðið var L. 300.000 með morgunverði. (Palma, Via Vittorio Emanuele 39, sími (081) 83.70.133, telex 722015, fax 83.76.966)

Um 100 metrum neðar við götuna, á horni hennar og Via Camerelle, er fínasta hótel á Capri, Quisisana. Verðið var L. 400.000 með morgunverði. (Quisisana, Via Camerelle 2, sími (081) 83.70.788, telex 710520, fax 83.76.080)

Skemmtilegt hótel er Pineta, um 10 mínútna göngu frá aðaltorginu. Gengið er framhjá ofannefndum hótelum og beygt til vinstri inn Via Camerelle. Þegar sú gata endar, er farið upp stutta brekku til Via Tragara, þar sem hótelið er á hægri hönd.

Herbergi nr. 41 er mjög stórt með miklum svölum með sólstólum og afar stóru baðherbergi, þar sem allt var í fínu lagi. Það er búið snyrtilegum og vönduðum nútíma húsgögnum og skemmtilegu málverki af fiskum. Það býr yfir fínu útsýni til sjávar. Verðið var L. 120.000 með morgunverði.

(Pineta, Via Tragara 6, sími (081) 83.70.644, telex 710011, fax 83.76.445)

Moscardino

Moscardino er gott og einfalt fiskréttahús, vel í sveit sett í súlnagöngunum milli Piazza Umberto I og endastöðvar bílaumferðar á Via Roma. Þar er veggklæðning úr kvistafuru, sem er þakin tilviljanakenndum ljósmyndum. Þetta er eini staður bókarinnar, þar sem eru pappírsdúkar og pappírsþurrkur.

Við prófuðum insalata di mare, rækjur, krækling, tvær tegundir skelja, kolkrabba og smokkfisk; riso alla pescatora, hrísgrjónarétt með svipuðum tegundum sjávarfangs; zuppa di pesce, kræklingasúpu; scaloppina ai funghi, kálfasneið með sveppum; uva, vínber; og gelato, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 70.000. (Moscardino, Piazza Umberto I)

La Tavernetta

Bezta veitingahús eyjarinnar er La Tavernetta, í mjóu göngugötunni, sem liggur næst norðan við aðalgötuna Via Roma, nálægt þeim enda, sem fjær er torginu Piazza Umberto I. Bogar skipta salnum í nokkra hluta. Opið er inn í eldhús.

Við prófuðum ravioli alla caprese, mærukryddað pasta með tómatsósu og Capri-osti; risotto al gamberi, hrísgrjónarétt með stórum rækjum; filetto di manzo alla griglia, nautahryggsteik; og capriccio-parfait, ís.

Tveggja manna máltíð kostaði L. 120.000. (La Tavernetta, Via Lo Palazzo 23a, sími (081) 83.76.864, lokað mánudaga)

1991

© Jónas Kristjánsson