Alltaf er verið að ljúga að okkur. Forráðamenn fótboltafélaga nota orðin kaffi og kökur yfir áfengi, sem þeir veita á leikjum. Og Landsvirkjun hefur aldrei sagt satt um vinnuhraða í Kárahnjúkum. Smám saman hefur verið að koma í ljós, að stofnunin hefur þagað yfir seinkunum. Fyrst átti rafmagn að koma í apríl síðastliðnum. Síðan var játað, að rafmagn kæmi ekki fyrr en í júlí. Nú síðast er að koma í ljós, að rafmagn kemur ekki frá Kárahnjúkum fyrr en í október. Þetta hafa ráðamenn og spunakarlar Landsvirkjunar vitað allan tímann. En þeir hafa óviðráðanlega þörf fyrir að ljúga að almenningi.