Fékk humarsúpuna heimsfrægu á Sægreifanum í gærkvöldi. Kjartan Halldórsson hefur stigið metorðin hratt á 2-3 árum í verbúðinni við Geirsgötu 8. Hann er búinn að færa út kvíarnar yfir í austurhluta hússins og upp á loft. Ferðafræðingar heimspressunnar hafa sett humarsúpu Sægreifans á lista hins ódauðlega. Hér má því búast við biðröðum út í Slipp í sumar. Gleymið því Bláa lóninu og Geysi. Súpan var ágæt, bragðmild, hveitilaus og rjómalítil. Hún var með betri súpum af því tagi. Hún var hæfileg gerð, laus við allar ýkjur, drukkin úr plasti. Aðeins 750 krónur kostaði að meðtaka ambrósíuna.