Enn einn á flótta

Veitingar

Gallerý fiskur í Árbæ reyndist lokaður. Nú er hann sagður aðeins opinn þrjá daga í viku, sem er næsti bær við uppgjöf. Samt er of lítið af fiskistöðum. Og hér var góð matreiðsla, sem of lítið er af. Eldhúsið stýrir ekki gengi veitingahúsa hér á landi, til þess er smekkur fólks of slappur. Margt annað þarf að takast til að matstaðir blómstri. Eitt er staðarvalið, Gallerý fiskur er afskekktur. Svo er innréttingin. Þetta er kaldur og óvistlegur staður norræns mínimalisma. Svipaður fiskistaður, afskekktari en notalegri og heimilislegri er Tilveran í Hafnarfirði, sem enn er við beztu heilsu.