Matreiðsla í Öxnadal

Veitingar

Halastjarnan er matreiðsluvin í eyðimörkinni. Undir þekktasta fjallvegi landsins kúrir hún á bænum Hóli í Öxnadal. Ótrúlegur staður fyrir nýklassískt eldhús. Þar eldar Guðveig Eyglóardóttir með kryddi úr hólunum við bæinn. Um daginn fékk ég hráan lax næfurþunnan, risarækjur á saltfiskstöppu, bláskel í súpu, kola með sætukartöflum, tiramisu. Eftir fjögurra tíma akstur úr Reykjavík er Halastjarnan réttur áningarstaður. Enda reyni ég að haga brottferð úr borginni þannig, að ég sé á matmálstíma í Öxnadalsheiði. Annað eins musteri er hvergi utan höfuðborgarinnar.