Auktu leti mína

Nýmiðlun
Auktu leti mína

Steve Krug: Don’t Make Me Think. Láttu mig ekki hugsa. Það er fyrsta lögmálið um nothæfni vefjar. Ef eitthvað er erfitt í notkun, nota ég það minna en ella. Alls konar truflanir verða samtals stórar. Þær fá okkur sem notendur til að hugsa að óþörfu.

Sæt og gáfuleg heiti trufla okkur, skilgreiningar úr markaðsfræði einnig, sérheiti innan fyrirtækis, ókunn tækniheiti. Hnappar eiga að vera augljóslega nothæfir. Ég vil ekki eyða broti úr sekúndu í að velta þeim fyrir mér. Rennslið í notkun vefs á að vera hnökralaust.

Af hverju á ég að þurfa að velta fyrir mér, hvernig ég á að leita? Og hvers vegna á ég að þurfa að velta fyrir mér, hvernig leitarvélin vill, að ég orði spurninguna? Tæknin á að lagast að manninum, maðurinn á ekki að lagast að tækninni. Allra síst þinn kúnni.

Allt á að virðast sjálfsagt, svo að notandinn viti strax, hvað það er og hvernig eigi að nota það. Annars fer notandinn annað. Fólk nennir þá ekki að nota síðuna. Töfri hennar verður að koma strax fram. Síðurnar verða að vera augljósar, sjálfskýranlegar.

Fólk notar ekki vefinn eins og við höldum. Það kíkir aðeins á síður, skannar hluta textans, smellir á fyrstu tenginguna, sem því dettur í hug eða minnir smávegis á það, sem það er að leita að. Við kýlum á það. Við lesum ekki síður á vefnum, við skönnum þær.

Við tökum ekki besta val, heldur fyrsta þolanlega val. Það er fyrsta nothæfa valið, sem okkur dettur í hug. Ef það þolir snöggt mat á líkum á neikvæðum hliðum. Okkur liggur á. Ekki liggur refsing við mistökum. Það er líka meira gaman að giska.

Við finnum ekki út, hvernig hlutir virka. Við þvælumst gegnum þá. Fáir lesa leiðbeiningar. Í staðinn böðlumst við áfram. Af því að þetta skiptir okkur ekki máli. Ef eitthvað virkar, höldum við okkur við það. Það virkar, en er óhentug leið, full af villum og göllum.

Hönnun vefs á að vera miðuð við skönnun, ekki lestur.
Fimm mikilvæg atriði:
Skýr virðingarröð á hverri síðu.
Skýr notkun á hefðum.
Skýrt afmarkaðir þættir síðunnar.
Augljóst, hvar megi smella.
Lítið af truflunum.

Hefðir eru vinir. Dagblöð nota þær. Hefðir vefsins eru arfur frá dagblöðum. Þær eru nytsamlegar. Hönnuðir eru stundum hræddir við þær, vilja finna upp hjólið. Hefðir hjálpa notanda þínum að átta sig á síðunni. Þær spara honum að staldra við og hugsa.

Uppsetning á síðu á að sýna, hvert sé samhengi atriðanna og hver sé virðingarröð þeirra. Því merkilegra, þeim mun meira áberandi. Sparar vinnu. Skyldir hlutir eru saman á síðunni. Undirflokkar sýna, hvað sé partur af hverju. Allt þetta gera dagblöð.

Skipting síðunnar á að létta ferð notandans. Tengingar eiga alltaf að líta út fyrir að vera hnappar eða flipar. Ekki láta notandann eyða tíma í að velta fyrir sér, hvað séu krækjur til að smella á. Gerðu ráð fyrir því að óreyndu, að umhugsunarefni feli í sér truflun.

Notendur vilja hugsunarlaust val. Það er ekki fjöldi smella til að finna atriði, sem skiptir máli, heldur samanlagður erfiðleiki smellanna. Hugsunarlaus smellur telst varla með, það er fínt. Þrír hugsunarlausir smellir jafngilda einum smelli, sem þarf hugsun.

Hvað þýðir á skrunlistanum:
Espanõl (English, Int’l)
NAV for Windows 95/98
Við stöndum alltaf frammi fyrir vali. Það val á að vera hugsunarlaust. Fólk á ekki að þurfa að velta vöngum yfir, hvað línur á skrunlista tákni.

Forðastu ónauðsynleg orð. W. Strunk: Kraftmikill stíll er þéttur. Málsgrein á ekki að hafa óþörf orð. Málsliður á ekki að hafa óþarfar málsgreinar. Af því að teikning á ekki að hafa óþarfar línur. Og af því að vél á ekki að hafa óþarfa hluti.

Losnaðu við helming orðanna á síðunni og losaðu þig síðan við helminginn af afganginum. Það dregur úr truflun, eykur áherzlu á það, sem máli skiptir. Og það gerir síðurnar styttri. Notendur sjá meira af þeim án þess að þurfa að skruna.

“Bla, bla, bla …” á að hverfa. Við þurfum að þvo burt froðuna. Hún er skrifuð af almannatenglum. Í staðinn á að vera skýrt efnisyfirlit, sem leiðir fólk á rétta staði. Heimsasíður þurfa efnisyfirlit, ekki kjaftavaðal. Skerðu 100 orð niður í 25 orð.

Siglingafræði vefs er grundvallaratriði í hönnun hans: Til dæmis: “Krækjur” eða “Leit” Fólk reynir að finna atriði, annað hvort með því að spyrja eða vafra. Í vafri ferðu um virðingarstiga frá því almenna niður í það sértæka.

Siglingafræði er brýnni á vef en í raunheimi. Þú hefur ekki hugmynd um stærð vefsins, þú veist ekkert um áttir og veist ekki, hvar þú ert staddur. Það hjálpar, ef flipar, sem þú hefur áður notað, skipta um lit. Mundu “Bookmarks”, “Back” og “Home”.

Vefur þinn er fyrst og fremst siglingafræði, alveg eins og verslun er hús, hillur og peningakassar. Siglingafræði færir þér haldreipi. Hún segir þér, hvaða innihald sé þarna, hvernig eigi að nota svæðið, vekur traust á þeim, sem bjuggu til vefsvæðið.

Siglingafræði er oft góð í tveimur eða þremur efstu lögunum, en bilar, þegar neðar dregur. Vefarar nenna ekki að hanna, hafa ekki tíma, skilja ekki mikilvægið, fá ekki sýnishorn. Samt eru notendur mest í neðri lögunum.

Venjur eru mikilvægar í siglingafræði. Sumir þættir hennar sjást á hverri síðu, nema í formum til útfyllingar. Þeir eru eins konar kennitala vefsvæðisins. Hlutar heildarinnar koma fram í flipum, sem eru í láréttri röð efst á síðunum.

Venjan er þessi:
Efst eru notendatæki: Heima, leit, svör. Hvar er ég? Ekki áberandi.
Næst er flipalínan. Áberandi. Allir flipar eru gráir, nema sá, sem er í notkun. Línan undir flipunum er í lit flipans í notkun. Hver flipi hefur sinn lit.

Notaðu ekki fínt orð yfir “leit”. Best er, að ekki þurfi skýringar við leit. Fæstir hafa áhuga á að vita, í hverju er leitað og fæstir vilja fá fyrirmæli um, hvernig eigi að leita. Amazon er til fyrirmyndar. Þar er full textaleit.

Allar síður þurfa heiti. Það á að vera á réttum stað. Nafnið á að vera áberandi. Það verður að vera í samræmi við nafnið á hnappinum, sem þú smelltir á. Einnig þarf að vera áberandi, hvar þú ert staddur á kortinu, til dæmis með öðrum lit og feitu letri.

Brauðmolar (You are here: Home > Arts > Visual > Photography > Nature) eru oft með litlu letri í einfaldri línu efst. Þeir eru nothæfir og taka ekki mikið pláss, en eru ekki fullnægjandi. Hafðu síðasta orðið feitletrað. Láttu þá ekki koma i stað heitis á síðunni.

Flipar eru fínir. Þeir eru snilld. Þeir eru augljósir. Ekki er hægt að missa af þeim. Þeir eru flottir. Þeir gefa veruleika í skyn. Láttu þá ekki líta út fyrir að vera annað en flipar á skjalamöppu. Amazon gerði flipa að hefð á vefnum.

Flipar líta út fyrir að vera flipar. Þeir hafa hver sinn lit, en þeir ónotuðu eru gráir á meðan. Línan undir flipunum fylgir lit þess flipa, sem er lifandi. Þegar þú opnar heimasíðuna, er þegar búið að velja einn flipann, þann sem mest er notaður.

Mundu:
Hvar er ég (kennitala, lógó).
Hvaða síða er þetta (heiti hennar).
Hverjir eru meginkaflar hennar.
Hvaða kosti hef ég (siglingafræði).
Hvar er ég staddur (þú ert hérna).
Hvernig get ég leitað.

Hönnun heimasíðunnar:
Eðli vefsvæðisins og markmið.
Virðingarstigi vefsvæðisins.
Leit. Kynning. Tímabundið efni.
Tilboð. Skammval. Skráning.
Sýnir, að hverju leitað er og að hverju er ekki leitað. Sýnir, hvar á að byrja. Kemur upp trausti.

Allar deildir vilja sem stærstan hluta af heimasíðunni. Þar er lóðarverðið hæst. Kokkar síðunnar eru of margir. Hún þarf að geðjast öllum. Stríðið um torfuna má ekki leiða til, að yfirsýn heimasíðunnar skerðist. Né að útkoman verði kraðak.

Afsakanir fyrir vondum síðum:
Við þurfum ekki yfirsýn.
Meira efni er þreytandi.
Þeir, sem þurfa síðuna, þekkja hana.
Yfirsýn fæst í auglýsingum.
Við bætum við tengingu með “Ertu hér í fyrsta skipti?”

Skilaboðin komast til skila í slagorðinu (tagline). Gott loft á að vera á heimasíðu. Ekki setja markmiðssetningu eða mottó í stað slagorðs. Aðeins frægustu heimasíður (Amazon) geta verið án slagorðs.

Mikilvægt er að notandinn geti með öryggi sagt:
Hér byrja ég, ef ég vil leita.
Hér byrja ég, ef ég vil vafra.
Hér byrja ég, ef ég vil prófa besta stöffið.

Gallinn við felliskrunlista, sem spara rými: Þeir leynast fyrir þér. Erfitt er að skanna, þeir skjálfa. Gallarnir eru meiri en kostirnir.
Afréttir og almenningar eyðast. Hagur allra er að bæta við sínum kindum. Allir komast að sömu niðurstöðu, landið verður ofbeitt.

Það er ekki til neinn dæmigerður notandi. Allir notendur eru einstæðir. Góð hönnun tekur tillit til þessa. Spurðu: Hæfir þessi felliskrunlisti, með þessum orðum, í þessu samhengi, á þessari síðu, flestum þeim, sem kunna að nota svæðið.

Íslenskir vefmiðlar fara eftir flestum reglum, sem hér hefur verið lýst. Leitarbox er auðfundið á heimasíðum. Mbl og Vísir skara fram úr, hafa greinileg siglingamerki með flipum. Á báðum stöðum er auðvelt að fara upp og niður í stiganum.

RÚV er lakari vefur. Siglingafræðin virkar bara niður, en ekki upp aftur. DV-Birtingur er lakasti vefurinn af þessum fjórum, tættur og gloppóttur. Þar er siglingafræðin ekki faglega unnin. Þannig var staðan í ársbyrjun 2008, þegar þetta var skrifað.

Sjá nánar: Steve Krug: Don’t Make Me Think, 2. útgáfa 2006.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé