Fjölþjóðleg skoðanakönnun Pew stofnunarinnar sýnir, að mannkynið er einkum hrætt við tvennt. Það er mengun andrúmsloftsins og stjórn Bandaríkjanna. Raunar fer það saman, því að George W. Bush stendur þvert í vegi aðgerða til varnar andrúmsloftinu. Óvinsældir hans og stefnu Bandaríkjanna magnast með hverju árinu. Hann er þó ekki eini óvinsæli maðurinn í heiminum. Þar eru líka Vladimir Pútín í Rússlandi, Mahmoud Ahmadinejad í Íran og Hugo Chávez í Venezuela. Þeir hafa allir hagað sér mjög undarlega eins og Bush, hver á sinn sérstæða hátt. En enginn þeirra er eins valdamikill og Bush.