Frábær minnisvarði

Veitingar

Múlakaffi er dýr og vinsæl sjálfsafgreiðsla við Lágmúla, súpa og réttur í hádeginu fyrir 1.300 krónur. Frábær minnisvarði um mötuneyti fortíðar. Hér fékk ég góða soðningu, ýsu með hvítum kartöflum, rúgbrauði og hömsum. Ýsan var auðvitað ofelduð, enda kemur allt upp úr hitakössum. Ljúfsætur jólagrautur með kanil og rúsínum hét sunnudagsgrautur. Svo fást fiskibollur og hvítkálsbögglar, kjötbollur og medisterpylsur, hakkabuff og plokkfiskur, saltfiskur og bjúgu. Allt er eins og ég man það úr mötuneyti Sogsvirkjunar fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Þetta er það, sem fólkið vildi. Og vill enn.