Af öllum hugmyndum miðbæjarvandans er sízt sú hugmynd lögreglustjórans að færa hann til úthverfanna. Vandinn færist bara til, eyðist ekki. Þegar er vandi víða í úthverfum, til dæmis við opnar verzlanir á nóttunni um helgar. Kaffistofur og krár eiga að vera í miðbænum. En eiga ekki að vera opnar fram á morgun, það er afbrigðilegt. Erlendis er slíkum stöðum lokað um miðnætti. Annað er með næturklúbba. Þeir eiga að vera í hljóðheldu húsnæði og án útivistar við dyr. Þeir eiga að vera í iðnaðarhverfum. Órói um nætur á hvergi að vera innan um íbúðir. Hvorki í miðbænum né í úthverfunum.