Krítað liðugt til forna

Fjölmiðlun

Júlíus Caesar er stundum kallaður fyrsti ritstjórinn. Sem ræðismaður lét hann kríta daglegt lögbirtinga- og fréttablað á veggi Rómar. Það hét Acta Diurna. Raunar var hann bara fyrsti ritstjóri nafngreinds dagblaðs. Áður, jafnframt og síðar birtust á veggjum Rómar krítaðar fréttir, skoðanir, áróður og auglýsingar. Þaðan kemur málshátturinn “að kríta liðugt”. Þetta tíðkaðist líka áður hjá Aþeningum hinum fornu. Dagblöð eru því mjög gömul í sagnfræðinni, byggðust fyrst á tilvist krítar og útbreiddu læsi borgara. Ætíð hafa kallarar á torgum gegnt svipuðu hlutverki útvarps fyrir ólæsa.