Ljósmynd Brynjars Gauta í Mogganum af grátbólgnum minnihluta Sjálfstæðis í borgarstjórn opnaði augu mín: Flokkurinn hafði sett börn í borgarstjórnina. Þau eiga að vera í sandkassa, ekki í pólitík. Þau töldu sig geta haldið fundi út og suður án þáttöku borgarstjórans. Þau töldu sig geta kúgað hann til hlýðni. En þau kunnu ekki að telja. Sex manns töldu sig vera átta. Þau voru svo sannfærð um að geta stjórnað Binga og Framsókn, að þau virtu hann ekki viðlits. Þá fattaði Bingi, að þetta voru börn. Lífsreyndi pólitíkusinn sá, að ekki borgaði sig að vera kominn upp á meirihluta skipaðan börnum.