Fáokun er fyrr eða síðar óhjákvæmileg, þegar fyrirtæki eru orðin þrjú eða færri í greininni. Ódýrara verður að tala saman en að keppa. Fyrst verður samkeppnin afstæð. Þá berjast fyrirtæki um stöðu verðlags innbyrðis. Bónus er krónu lægri en Krónan. Ef Krónan lækkar verð, þá lækkar Bónus. Ef Krónan hækkar, þá hækkar Bónus. Þessi afstæði slagur um mismun ríður yfir nokkrum sinnum á degi hverjum. Og kemur lítið við algildri samkeppni um kílóverð. Neytendur eru hvorki betur né verr settir. Bónus er ætíð krónu lægri, hvort sem kílóverðið er fimmhundruðkall eða þúsund. Allt er þetta sýndarmennska.