Á Miðnesheiði hafa aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum farið bratt í braski með eignir varnarliðsins sáluga. Þar hefur ekki verið fylgt nútímareglum um útboð. Slíkt vekur auðvitað grun um, að ekki sé allt með felldu. Þeir, sem settu upp dæmið, verða að láta opna málið og hreinsa það. Þeim dugir ekki að fullyrða í síbylju um einlægni sína og heiðarleika. Óháður aðili verður að kanna málið fyrir opnum tjöldum og segja okkur, hvernig þarna var staðið að verki. Í samfélaginu hefur ágirnd verið leidd til hásætis. Því þarf að velta strax við steinum, þegar grunur fæðist. Annars lekur traustið niður.