Notaleg eru umferðarmannvirki Hringbrautar frá Tjörninni að Klambratúni. Gatan er sveigð og greið, notaleg í akstri. Fyrir augum blasa rammsveigðar göngubrýr. Þær eru umhverfislistaverk fremur en samgöngutæki. Ég fer um á bíl eins og þjóðin öll. Virði þessar brýr fyrir mér sem meginþátt í dýrð brautarinnar. Hún var áður samgönguteppa eins og horn Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, þar sem vantar brýr. Hún er orðin að ljúfu umferðarfljóti, sem vinnur verk sitt fljótt og vel. Ég hef stundum tíma til aukaferðar fram og til baka um Hringbrautina til að njóta fagurs útsýnis og aksturslags.