Texti lagaður

Fjölmiðlun

Grisjaðu textann þinn. Byrjaðu á að hreinsa smáatriði á borð við “upp”, eins og í “lyfta upp”. Það er nefnilega ekki hægt að “lyfta niður”. Einnig “núna”, eins og í “hann er núna þingmaður”. Það er ekki hægt að vera þingmaður án þess að vera það núna. Víða sjáum við bólgnar setningar í fjölmiðlum, yfirleitt eftir þá, sem skólagengnir eru í félagsvísindum: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram þrátt fyrir þá staðreynd, að andstaða í þinginu fer vaxandi.” Styttra og skiljanlegra er þetta: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram, þrátt fyrir vaxandi andstöðu á þinginu.”