Heimþrá Sinuhe

Fjölmiðlun

Elzta sjálfsævisaga heimsins er Sinuhe, skrifuð í Egyptalandi fyrir 4000 árum. Þar segir hermaðurinn Sinuhe frá, að hann hafi geðtruflast í herför í Líbíu. Andlát Sehetepebre faraó hafði þau áhrif, að Sinuhe vafraði út í eyðimörkina og lenti í botnalöndum Miðjarðarhafsins. Þar vegnaði honum vel, varð tengdasonur smákonungs og vann ýmsa sigra í styrjöldum slíkra. Hann þjáðist af heimþrá og hafði bréfaviðskipti við Keperkere faraó um það mál. Leiddi til þess, að hann fékk að koma heim og var gerður að embættismanni við hirðina. Hann dó í friði og tók sjálfsævisöguna með sér í grafhýsið.