Öldum saman voru lull og valhopp helztu gangtegundir íslenzka hestsins. Þær gerðu bændahöfðingjum í Gullhreppum kleift að ríða einhesta í einni bunu á fund í Reykjavík og heim aftur. Gerðu þingmönnum af Austurlandi kleift að ríða til alþingis á Þingvöllum. Nú þykja þær ekki fínar lengur, enda kann íslenzki hesturinn illa við sig utan hringvallar. Það gerir lítið til á íþróttamótum og gæðingamótum, þar sem hlunkar eru seldir fíflum. Lakara er þetta á ræktunarmótum. Þar á hiklaust að bæta þessum tveimur gangtegundum við þær fjórar, sem þegar eru dæmdar. Sex gíra hestur er eðalhestur.