Íslandsmet í textreklame

Fjölmiðlun

Eitt mesta útgáfuhneyksli í mínu minni má sjá í Fréttablaðinu í dag. Þar er að verki fylgiritið Föstudagur. Á efnissíðum þess birtist forsíðuauglýsing og opnuauglýsing á húsi, sem yfirmaður á 365 miðlum er með í sölu. Oft hafa tímarit og fylgirit skautað á gráu svelli í textreklame, en ég man ekki svartari útfærslu en þessa. Ritstjóri Föstudags Fréttablaðsins er Marta María Jónasdóttir, húseigandinn og yfirmaðurinn er Freyr Einarsson. Þegar ég skrifa þetta að kvöldi, hafði ekki heyrst minnsta andvarp frá ritstjórum og útgáfustjóra 365 miðla. Textreklame starfsmanna er því stefna 365 miðla.