Þótt fjárglæframenn bankanna séu ekki til mikils nýtir, hafa þeir þó verið gagnlegir gæðastöðum í matreiðslu. Þeir hafa komið þangað í hópum og átt heiminn. Þeir hafa pantað dýrustu réttina og keypt rauðvínsflöskur á 50.000 krónur stykkið. Þetta hefur haldið uppi góðum matsöluhúsum í nýklassískum stíl frönskum. Maður hefur getað farið út að borða og ímyndað sér, að maður sé á stjörnustöðum Michelin. En nú eru bisniss-lönsar horfnir og risnuát að mestu úr sögunni. Staðirnir verða að lifa á okkur hinum, sem borgum með trega úr eigin vasa. Erfiðir tímar eru hafnir í rekstri gæðamatstaða.