“Af augljósum ástæðum er ekki venja að birta almenningi slík kort.” Þannig skrifar Andri Karl blaðamaður í Mbl.is í dag. Hann er að tala um kort vegagerðarinnar af svonefndum svörtum blettum. Það eru blettir, þar sem flest slys verða á vegum. Ofvaxið er skilningi mínum, hvernig Andri Karl telur kortin ekki eiga erindi við fólk. Auðvitað á fólk að sjá, hvar mest hætta er á vegum. Einhver embættismaður hefur í djúpri vizku ákveðið, að fólk megi alls ekki vita, hvar slysahættan sé mest. Hann sagði Andra Karli, og blaðamaðurinn trúði. Varla fann hann upp á vitleysunni sjálfur.