Morgunblaðið er loksins að vakna til vitundar um kreppu blaðsins. Nýir vindar blása með nýjum ritstjóra, Ólafi Stephensen. Alger mannaskipti hafa orðið í fremstu víglínu ritstjórnar. Þessu hefur fylgt fækkun starfsfólks. Hvort tveggja var nauðsynlegt. Mogginn var bæði þreyttur og feitur. Sömu menn höfðu verið of lengi við völd og réðu ekki við aðsteðjandi vanda. Of margir voru á kaupi frá þeim tíma, er blaðið var eins konar seðlaprentvél. Nú hefur blaðið ekki ráð á slíku. Fríblöð hafa tekið við sem blöð fólksins. Seld blöð þurfa að rifa segl og endurfæðast. Mogginn er byrjaður á því.